1. gr. Gildissvið. Reglugerð þessi tekur til auglýsinga utan þéttbýlis. Reglugerðin tekur ekki til umferðarmerkja eða spjalda með leiðbeiningum um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði og náttúruverndarsvæði. 2. gr. Skilgreiningar. Í reglugerð þessari merkir: - Auglýsing: Hvers konar texti, myndir, merki eða myndverk, hreyfanlegt eða fast, sem komið er fyrir til lengri eða skemmri tíma meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis, hvort sem er á spjöldum, borðum eða máluð á húsveggi eða með öðrum sambærilegum hætti og ætlað er að vekja athygli almennings á vöru, þjónustu eða starfsemi.
- Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Þéttbýli getur þó verið afmarkað með öðrum hætti í aðalskipulagi sveitarfélags.
3. gr. Heimildir til að setja upp auglýsingar utan þéttbýlis. Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt, að uppfylltum ákvæðum annarra laga, þ. á m. skipulagslaga, laga um mannvirki og vegalaga, að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á þeim stað þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram. Skal þar miðað við umráðasvæði viðkomandi rekstraraðila. Með látlausum auglýsingum er átt við auglýsingar sem eru hóflegar að stærð og umfangi að teknu tilliti til þess sem auglýst er, eru lítt áberandi og hafa aðallega að geyma upplýsingar um umræddan rekstur, þjónustu eða vörur. Við hönnun slíkra auglýsinga skal þess gætt að þær falli sem best að svipmóti lands, sbr. lög nr. 44/1999 um náttúruvernd. Ráðherra úrskurðar um vafaatriði samkvæmt grein þessari. 4. gr. Eftirlit og þvingunarúrræði. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með ákvæðum reglugerðar þessarar. Telji stofnunin að um brot sé að ræða á 3. gr. skal hún óska eftir upplýsingum um málið hjá viðkomandi aðila og öðrum stjórnvöldum eftir því sem við á, þ. á m. byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Sé það niðurstaða Umhverfisstofnunar að um sé að ræða ólögmæta auglýsingu samkvæmt reglugerð þessari skal stofnunin, eftir atvikum að höfðu samráði við byggingarfulltrúa, skora á viðkomandi aðila að fjarlægja auglýsinguna innan nánar tilgreinds frests og er stofnuninni heimilt að beita dagsektum í þessu skyni. Hámark dagsekta er 100.000 kr. á dag. 5. gr. Refsiábyrgð. Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð. 6. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd og tekur þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi ákvæði 15. til 18. gr. reglugerðar nr. 205/1973 um náttúruvernd. Umhverfisráðuneytinu, 28. september 2011. Svandís Svavarsdóttir. Magnús Jóhannesson. |