Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 6/2014

Nr. 6/2014 22. janúar 2014
LÖG
um breytingu á lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár (aðgangsheimildir).

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Ákvarðanir landlæknis um leiðréttingu eða eyðingu sjúkraskrárupplýsinga eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:

  1. 3. mgr. orðast svo:
    Sé talið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að veita honum aðgang að sjúkraskrá í heild eða að hluta eða afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit af henni skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a.
  2. 5. mgr. fellur brott.

3. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a.

4. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Réttur til að bera synjun um aðgang að sjúkraskrá undir embætti landlæknis.

    Heimilt er að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis. Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.

5. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangur að sjúkraskrárkerfum til að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi.

    Umsjónaraðila sjúkraskráa er heimilt að veita starfsmönnum sem vinna að þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi nauðsynlegan aðgang að sjúkraskrárkerfi í þeim tilgangi að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi kerfisins. Að því marki sem unnt er skal notast við prufugögn í stað raungagna við veitingu slíkrar þjónustu. Starfsmennirnir skulu undirgangast sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Reykjavík, 22. janúar 2014.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Markús Sigurbjörnsson.

(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.

A deild - Útgáfud.: 27. janúar 2014