Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 18/2013

Nr. 18/2013 6. mars 2013
LÖG
um rannsókn samgönguslysa.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.
    Markmið laga þessara er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir.
    Rannsókn samkvæmt lögum þessum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa.
    Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við samgönguslys fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála og er slík rannsókn óháð rannsóknum rannsóknarnefndar samgönguslysa samkvæmt lögum þessum.
    Þegar við á skulu rannsóknir samkvæmt lögum þessum einnig ná til fyrirkomulags tilkynninga um slys, til leitar, björgunaraðgerða og annarra tengdra aðgerða sem ætlað er að draga úr afleiðingum slysa.

2. gr.
Gildissvið.
    Lög þessi gilda um rannsókn samgönguslysa og samgönguatvika er heyra undir rannsóknarnefnd samgönguslysa.

3. gr.
Orðskýringar.
    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    1.    Alvarlegt flugatvik: Flugatvik sem verður við aðstæður sem benda til þess að legið hafi við slysi.
    2.    Alvarlegt umferðaratvik: Atvik eða kringumstæður í tengslum við umferð ökutækja sem ekki er umferðarslys en getur leitt til alvarlegs slyss á vegfarendum eða tjóni á ökutækjum, umferðarmannvirkjum og umhverfi sé því ekki afstýrt.
    3.    Banaslys: Samgönguslys þegar einstaklingur lætur lífið innan 30 daga frá þeim degi er slysið varð, enda verði banamein hans að nokkru eða öllu leyti rakið til slyssins.
    4.    Flugslys: Atburður sem verður í tengslum við starfrækslu loftfars frá því að maður fer um borð í loftfarið í þeim tilgangi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði þar sem: 
           a.    maður lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl vegna þess að:
                –     hann var um borð í loftfarinu, eða
                –     hann var í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar á meðal hluta sem hafa losnað frá loftfarinu, eða
                –     hann varð fyrir útblæstri þotuhreyfils,
                nema þegar meiðslin eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum mannsins sjálfs eða annarra eða þegar meiðsl verða á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að; eða
           b.    loftfar verður fyrir skemmdum eða bilun eða brestur verður í burðarvirki þess sem:
                –     hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afkastagetu eða flugeiginleika og
                –     mundi að öllu jöfnu krefjast mikillar viðgerðar eða þess að skipt væri um viðkomandi íhlut,
                nema um sé að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfil, hlífar hans eða fylgibúnað eða um er að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smádældir eða göt á ytra byrði loftfarsins; eða
           c.    loftfars er saknað, þ.e. þegar opinberri leit hefur verið hætt og flak hefur ekki fundist, eða engin leið er að komast að því.
    5.    Flugumferðaratvik: Flugatvik sem aðallega tengist reglum er varða flugumferðarþjónustu og þar sem loftför fara hvort fram hjá öðru í slíkri nánd að hættuástand verður eða þar sem aðrir erfiðleikar, sem orsakast af ófullnægjandi starfsaðferðum eða af því að ekki var farið eftir viðurkenndum starfsaðferðum eða af göllum í tækjabúnaði á jörðu, valda því að hættuástand verður.
    6.    Orsakir: Aðgerðir, aðgerðaleysi, atvik eða aðstæður, eða sambland af þessu, sem leiddi til slyss eða atviks.
    7.    Rannsókn: Ferli athugana sem gerðar eru í því skyni að koma í veg fyrir endurtekningu sambærilegs samgönguslyss eða samgönguatviks og felast í því að safna upplýsingum og greina þær, draga af þeim ályktanir, þar á meðal að greina orsakir, og setja fram tillögur um úrbætur í öryggismálum þegar það á við.
    8.    Rannsóknarnefnd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa sem kveðið er á um í lögum þessum.
    9.    Rannsóknarstjóri: Sá sem hefur yfirumsjón með tilteknum flokki slysarannsókna. 
  10.    Samgönguslys: Flugslys, sjóslys og umferðarslys í samræmi við orðskýringar í lögum þessum. 
  11.    Samgönguatvik: Alvarlegt flugatvik, alvarlegt umferðaratvik og sjóatvik í samræmi við orðskýringar í lögum þessum. 
  12.    Sjóatvik: Sá atburður, eða röð atburða, annar en sjóslys, sem gerst hefur í beinum tengslum við útgerð skips, sem stofnar í hættu öryggi skipsins, þeirra sem um borð eru eða annarra eða umhverfisins sé atburðinum ekki afstýrt. Undir sjóatvik falla ekki athafnir sem með beinum ásetningi eða athafnaleysi er ætlað að skaða öryggi skips, einstaklinga eða umhverfið. 
  13.    Sjóslys: Sá atburður eða röð atburða sem í tengslum við útgerð skips leiðir til einhvers af eftirfarandi: 
           a.    dauðsfalls eða alvarlegra meiðsla á manni; 
           b.    maður fellur fyrir borð; 
           c.    skip ferst, ætla má að skip hafi farist eða verið yfirgefið; 
           d.    skemmdir verða á skipi; 
           e.    skip strandar eða verður ófært til siglinga eða skip lendir í árekstri; 
           f.     skemmdir verða í tengslum við útgerð skips á utanáliggjandi búnaði/virki skips sem gæti sett öryggi skipsins í hættu eða annað skip eða einstakling; 
           g.    mikil umhverfisspjöll verða eða mögulega alvarleg umhverfisspjöll sem gætu hlotist af tjóni skips eða skipa.
        Undir sjóslys falla ekki athafnir sem með beinum ásetningi eða athafnaleysi er ætlað að skaða öryggi skips, einstaklinga eða umhverfið.
  14.    Stjórnandi rannsóknar: Sá sem ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og stjórn einstakrar rannsóknar auk þess að taka þátt í rannsókninni. 
  15.    Tillögur um úrbætur: Tillögur í öryggisátt frá rannsóknarnefnd samgönguslysa, byggðar á upplýsingum úr tiltekinni rannsókn og settar fram í því skyni að koma í veg fyrir samgönguslys og samgönguatvik. 
  16.    Trúnaðarfulltrúi: Maður sem á grundvelli menntunar og hæfis er tilnefndur af ríki til að taka þátt í rannsókn sem framkvæmd er af öðru ríki. 
  17.    Umferðarslys: Þar sem a.m.k. eitt ökutæki á hreyfingu á aðild að slysi á opinberum vegi, einkavegi eða svæði sem opið er almennri umferð.

II. KAFLI
Um rannsóknarnefnd samgönguslysa.
4. gr.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
    Rannsóknir samgönguslysa og samgönguatvika skulu vera í höndum rannsóknarnefndar samgönguslysa sem annast rannsókn á einstökum slysa- og atvikaflokkum eftir því sem nánar greinir í lögum þessum.
    Rannsóknarnefndin skal ákveða sjálf hvenær efni eru til rannsóknar samgönguslysa og samgönguatvika samkvæmt lögum þessum.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal við rannsóknir sínar starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa heyrir undir ráðherra.
    Skýrslum rannsóknarnefndar um rannsókn einstakra slysa og atvika skal ekki beitt sem sönnunargögnum í dómsmálum og skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.
    Þegar slys sem rannsóknarnefnd rannsakar verður tilefni rannsóknar að hætti laga um meðferð sakamála er rannsóknarnefnd heimilt að veita lögreglu almennar upplýsingar um rannsókn vettvangs ef við á, að undanskildum þeim sem kveðið er á um í 27. gr. Rannsóknarnefndinni er einnig heimilt að veita lögreglu aðstoð við úrlausn tæknilegra álitaefna.

5. gr.
Nefndarmenn.
    Ráðherra skipar sjö menn í rannsóknarnefnd samgönguslysa til fimm ára í senn auk sex varamanna. Ráðherra skipar einn nefndarmanna formann nefndarinnar og annan staðgengil hans.
    Að minnsta kosti þrír nefndarmenn skulu taka þátt í meðferð hvers máls sem til rannsóknar er.
    Nefndarmenn rannsóknarnefndar skulu hafa menntun eða starfsreynslu á sviði sem nýtist við rannsóknir samgönguslysa.

6. gr.
Stjórnandi rannsóknar og rannsóknarstjórar.
    Stjórnandi rannsóknar stýrir rannsóknum einstakra slysa og atvika í umboði og á ábyrgð rannsóknarnefndar samgönguslysa. Stjórnandi rannsóknar tekur þátt í rannsókn einstakra slysa og skal hafa sérmenntun og starfsreynslu sem nýtist við rannsóknir á sviði samgönguslysa.
    Ráðherra skipar þrjá rannsóknarstjóra fyrir nefndina sem hver um sig hefur yfirumsjón með tilteknum flokki slysarannsókna. Ráðherra velur einn þeirra til að gegna starfi rekstrarstjóra nefndarinnar og ber viðkomandi ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar, þ.m.t. fjárreiðum hennar, og gætir þess að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Rekstrarstjóri ræður annað starfsfólk til nefndarinnar. Rannsóknarstjóri skal hafa sérmenntun og starfsreynslu sem nýtist við rannsóknir á sviði samgönguslysa.

7. gr.
Um hæfi.
    Formaður rannsóknarnefndar samgönguslysa, rannsóknarstjórar og stjórnendur rannsókna mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga er starfa í samgöngurekstri á hlutaðeigandi sviðum eða vera í slíkum hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.
    Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

8. gr.
Kostnaður.
    Kostnaður við starfsemi rannsóknarnefndar samgönguslysa greiðist úr ríkissjóði.

9. gr.
Þagnarskylda, nafnleynd.
    Formaður og nefndarmenn rannsóknarnefndar samgönguslysa sem og starfsmenn nefndarinnar, auk annarra sem starfa í hennar þágu, skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa sinna. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og/eða almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Við meðferð mála hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa skal gæta nafnleyndar þeirra sem tengjast slysi, þ.m.t. í lokaskýrslum.

10. gr.
Framsal rannsóknar.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að fela öðru ríki að annast rannsókn samgönguslyss og samgönguatviks að hluta til eða öllu leyti.

III. KAFLI
Rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika.
11. gr.
Lögsaga við rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika.
    Lögsaga rannsóknarnefndar samgönguslysa við rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika tekur til íslensks yfirráðasvæðis og þess svæðis sem Íslandi hefur verið falið að veita þjónustu á að því er varðar flugslys, alvarleg flugatvik og flugumferðaratvik í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar.
    Nefndin skal m.a. rannsaka:
    a.    flugslys þar sem borgaralega skráð loftfar á hlut að máli og sem verður á eða yfir íslensku yfirráðasvæði;
    b.    flugslys þar sem loftfar skráð á Íslandi á hlut að máli og verður utan yfirráðasvæðis annarra ríkja eða á svæði þar sem viðkomandi ríki hefur ekki skuldbundið sig til að framkvæma rannsóknina;
    c.    flugslys þar sem loftfar skráð á Íslandi á hlut að máli og verður utan íslensks yfirráðasvæðis, svo sem þegar ekki er vitað um staðsetningu flugslyss eða til að veita viðeigandi aðstoð við rannsókn annars ríkis; haft skal samráð við erlend ríki þegar það á við;
    d.    flugumferðaratvik sem verða á eða yfir því svæði sem Íslandi eða veitanda flugleiðsöguþjónustu hefur verið falið að veita flugleiðsöguþjónustu á, utan íslensks yfirráðasvæðis, og skráningarríki loftfars hlutast ekki til um rannsókn.

12. gr.
Tilkynningarskylda vegna flugslysa og alvarlegra flugatvika.
    Verði flugslys eða alvarlegt flugatvik samkvæmt lögum þessum ber sérhverjum sem um það veit að tilkynna það rannsóknarnefnd samgönguslysa án ástæðulauss dráttar eða ganga úr skugga um að nefndin hafi fengið vitneskju um slysið.
    Sérstaka skyldu í þessu tilliti hafa:
    a.    stjórnendur og eigendur eða umráðamenn loftfara;
    b.    Flugmálastjórn Íslands, flugrekendur, lögregla, rekstraraðilar flugvalla og veitendur flugleiðsöguþjónustu;
    c.    opinberar stofnanir á sviði eftirlits með flugsamgöngum, Sjúkratryggingastofnun og tryggingafélög með starfsstöðvar hér á landi, auk annarra sem hafa fengið vitneskju um flugslys eða alvarlegt flugatvik.
    Sama gildir um hvern þann sem finnur loftfar eða aðra hluti við aðstæður er benda til þess að flugslys eða alvarlegt flugatvik hafi orðið.

13. gr.
Tilkynningar til erlendra ríkja og aðila.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal tilkynna eins fljótt og verða má um flugslys eða alvarlegt flugatvik sem henni hefur orðið kunnugt um í samræmi við alþjóðaskuldbindingar.
    Þegar tekið er til rannsóknar flugslys eða alvarlegt flugatvik sem varðar loftfar skráð hér á landi skal nefndin tilkynna slíkt í samræmi við alþjóðaskuldbindingar.
    Berist rannsóknarnefnd tilkynning erlends ríkis um flugslys eða alvarlegt flugatvik skal hún þegar í stað hlutast til um að viðeigandi upplýsingar er varða loftfar skráð hér á landi berist til þess ríkis þar sem slysið eða atvikið átti sér stað. Tilkynna þarf erlendu ríki sem annast rannsókn á slysi er varðar loftfar skráð á Íslandi hvort rannsóknarnefndin muni skipa fulltrúa og ráðgjafa við rannsóknina.

14. gr.
Þátttaka erlendra ríkja í rannsókn máls.
    Heimilt er rannsóknarnefnd samgönguslysa að veita yfirvöldum í ríki þar sem:
    a.    loftfar er skráð;
    b.    flugrekstrarleyfi viðkomandi flugrekanda er útgefið;
    c.    loftfar er hannað;
    d.    loftfar er framleitt;
rétt til að tilnefna trúnaðarfulltrúa, einn eða fleiri, til þátttöku í rannsókn máls. Skal slíkum fulltrúa heimill aðgangur að rannsókn, vettvangi, rannsóknargögnum og upplýsingum og gefinn kostur á að koma á framfæri tillögum í þágu rannsóknar. Jafnframt skal veita rétt til að kalla til ráðgjafa, einn eða fleiri, til aðstoðar trúnaðarfulltrúanum.
    Ákveði skráningarríki eða ríki sem gefur út flugrekstrarleyfi flugrekanda að tilnefna ekki fulltrúa er rannsóknarnefndinni heimilt að bjóða viðkomandi flugrekanda að taka þátt í rannsókninni.
    Ákveði ríki þess sem hannar loftfarið og ríki framleiðanda að taka ekki þátt í rannsókninni er rannsóknarnefndinni heimilt að bjóða viðkomandi aðila sem annaðist tegundarvottun, hönnun loftfarsins og/eða framleiðslu þess að taka þátt í rannsókninni.
    Telji rannsóknarnefnd það vera rannsókn til framdráttar skal henni heimilt að bjóða einnig hönnuðum eða framleiðendum íhlutar þátttöku í rannsókn máls.
    Öðrum ríkjum sem samkvæmt beiðni rannsóknarnefndar veita upplýsingar, aðstöðu eða sérfræðiþekkingu í þágu rannsóknar máls skal heimilt að tilnefna þar til bæran fulltrúa til þátttöku í rannsókn máls. Rannsóknarnefndinni skal heimilt að takmarka upplýsingagjöf og þátttöku við þau málefni sem aðstoð lýtur að.
    Fulltrúar erlendra ríkja skulu bundnir þagnarskyldu um framgang og niðurstöður rannsóknar nema rannsóknarnefnd leysi þá undan slíkri þagnarskyldu sérstaklega.
    Erlendum ríkjum sem hafa sérstakan áhuga á rannsókn máls þar sem ríkisborgarar þess hafa látist eða slasast alvarlega í slysi er rannsókn lýtur að skal heimilt að tilnefna þar til bæran fulltrúa til að heimsækja vettvang, fá aðgang að grunnupplýsingum, taka þátt í að bera kennsl á þá látnu, taka skýrslur af ríkisborgurum sínum sem eftir lifa og fá eintak af lokaskýrslu nefndarinnar. Sé stór hluti farþega sem slasast alvarlega eða lætur lífið erlendir ríkisborgarar skal rannsóknarnefnd heimilt að bjóða því ríki eða ríkjum þátttöku í rannsókn máls.

IV. KAFLI
Rannsókn sjóslysa og sjóatvika.
15. gr.
Lögsaga við rannsókn sjóslysa og sjóatvika.
    Lögsaga rannsóknarnefndar við rannsókn sjóslysa og sjóatvika tekur til allra íslenskra skipa, svo og allra erlendra skipa í siglingum að og frá Íslandi þegar sjóslys eða sjóatvik varðar íslenska hagsmuni. Nefndinni er heimilt að rannsaka önnur slys eða atvik sem verða á erlendum skipum er koma til landsins eða í íslenska efnahagslögsögu ef nefndin telur ástæðu til þess eða þess er óskað af skrásetningarríki.
    Nefndin skal m.a. rannsaka:
    a.    sjóslys þar sem skráð skip á hlut að máli og sem verða á íslensku yfirráðasvæði;
    b.    sjóslys þar sem skip skráð á Íslandi á hlut að máli, hvar sem það er statt í heiminum;
    c.    slys og önnur atvik til sjós og á vötnum sem verða á óskráðum skipum, þ.m.t. skipum undir 6 metrum að lengd;
    d.    slys við köfun í atvinnuskyni við strendur Íslands.

16. gr.
Tilkynningarskylda vegna sjóslysa og sjóatvika.
    Verði sjóslys eða sjóatvik samkvæmt lögum þessum ber sérhverjum sem um það veit að tilkynna það rannsóknarnefnd samgönguslysa án ástæðulauss dráttar eða ganga úr skugga um að nefndin hafi fengið vitneskju um slysið.
    Sérstaka skyldu í þessu tilliti hafa:
    a.    stjórnendur og eigendur eða útgerðarmenn skipa;
    b.    Landhelgisgæsla Íslands, lögregla, rekstraraðilar hafna, tollstjóri og Vaktstöð siglinga;
    c.    opinberar stofnanir á sviði eftirlits með skipasamgöngum, Sjúkratryggingastofnun og tryggingafélög með starfsstöðvar hér á landi, auk annarra sem hafa fengið vitneskju um slys eða atvik.
    Sama gildir um hvern þann sem finnur skip eða aðra hluti við aðstæður er benda til þess að sjóslys eða sjóatvik hafi orðið.

17. gr.
Tilkynningar til erlendra ríkja og aðila.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal tilkynna eins fljótt og verða má um sjóslys eða sjóatvik sem verður innan íslenskrar landhelgi og/eða innan efnahagslögsögu Íslands til hlutaðeigandi ríkis þar sem skip er skráð og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
    Berist rannsóknarnefnd tilkynning erlends ríkis um sjóslys eða sjóatvik skal hún þegar í stað hlutast til um að viðeigandi upplýsingar er varða skip skráð hér á landi berist til þess ríkis þar sem slysið eða atvikið átti sér stað.

18. gr.
Þátttaka erlendra ríkja í rannsókn máls.
    Heimilt er rannsóknarnefnd samgönguslysa að veita yfirvöldum í ríki þar sem skip er skráð rétt til að tilnefna trúnaðarfulltrúa, einn eða fleiri, til þátttöku í rannsókn máls. Skal slíkum fulltrúa heimill aðgangur að rannsókn, vettvangi, rannsóknargögnum og upplýsingum og gefinn kostur á að koma á framfæri tillögum í þágu rannsóknar. Jafnframt skal veita rétt til að kalla til ráðgjafa, einn eða fleiri, til aðstoðar trúnaðarfulltrúanum.
    Fulltrúar erlendra ríkja skulu bundnir þagnarskyldu um framgang og niðurstöður rannsóknar nema rannsóknarnefnd leysi þá undan slíkri þagnarskyldu sérstaklega.
    Erlendum ríkjum sem hafa sérstakan áhuga á rannsókn máls þar sem ríkisborgarar þess hafa látist eða slasast alvarlega í slysi er rannsókn lýtur að skal heimilt að tilnefna þar til bæran fulltrúa til að heimsækja vettvang, fá aðgang að grunnupplýsingum, taka þátt í að bera kennsl á þá látnu, taka skýrslur af ríkisborgurum sínum sem eftir lifa og fá eintak af lokaskýrslu nefndarinnar. Sé stór hluti farþega sem slasast alvarlega eða lætur lífið erlendir ríkisborgarar skal rannsóknarnefnd heimilt að bjóða því ríki eða ríkjum þátttöku í rannsókn máls.

V. KAFLI
Rannsókn umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika.
19. gr.
Lögsaga við rannsókn umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika.
    Lögsaga við rannsókn umferðarslysa tekur til rannsóknar umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika á Íslandi.

20. gr.
Tilkynningarskylda vegna umferðarslysa.
    Verði umferðarslys samkvæmt lögum þessum skal vaktstöð samræmdrar neyðarsímsvörunar eða lögreglan svo fljótt sem verða má koma boðum um umferðarslysið til rannsóknarnefndar samgönguslysa. Stjórnandi rannsóknar skal tilkynna vaktstöð eða lögreglu svo fljótt sem kostur er hvort hann hyggist koma á vettvang slyssins.

VI. KAFLI
Almenn ákvæði um málsmeðferð o.fl.
21. gr.
Vettvangur slyss.
    Á vettvangi samgönguslyss má hvorki hreyfa eða flytja á brott loftfar, skip eða ökutæki, hluta þess eða innihald né hrófla við ummerkjum slyssins uns vettvangsrannsókn er lokið nema með heimild stjórnanda rannsóknar. Án slíkrar heimildar má þó hreyfa eða flytja á brott loftfar, skip eða ökutæki, hluta þess eða innihald, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt reynist til að bjarga mönnum og verðmætum og til að afstýra spjöllum af eldi eða öðrum orsökum eða koma í veg fyrir að loftfar, skip og ökutæki, hluti þess eða innihald valdi háska.
    Verði sjóslys á hafi úti eða þar sem eigi verður komist hjá því að breyta vettvangi áður en vettvangsrannsókn fer fram er skipstjóra, öðrum skipstjórnarmönnum eða þeim sem fara með stjórn á vettvangi skylt að gera ítarlega skýrslu um vettvang, tildrög slyss og hverjir voru á vettvangi við störf eða annað. Skipstjórnarmönnum eða öðrum sem fara með stjórn á vettvangi er skylt að taka til varðveislu hvers konar hluti sem bila.
    Í þeim tilvikum þegar viðgerð á tæki úti á sjó er óumflýjanleg er skipstjóra eða öðrum skipstjórnarmönnum skylt að sjá um að ítarleg skýrsla sé gerð um bilunina og viðgerðina og að allir hlutir sem taka þarf burt og setja nýja í staðinn séu varðveittir. Slíkar skýrslur, svo og allir hlutir sem skylt er að taka til varðveislu um borð í skipi í sambandi við slys, skulu afhentar rannsóknarnefnd við komu til hafnar.

22. gr.
Vettvangsrannsókn.
    Við vettvangsrannsókn á vegum rannsóknarnefndar samgönguslysa skal yfirstjórn hennar vera í höndum stjórnanda rannsóknar, í samráði við rannsóknarnefnd eins og unnt er.
    Stjórnandi rannsóknar, rannsóknarnefndin og aðrir starfsmenn nefndarinnar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi slyss, eins þótt um staði í einkaeign sé að ræða.
    Stjórnandi rannsóknar skal hafa rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu og aðra opinbera aðila, svo og björgunar- og hjálparlið.
    Stjórnandi rannsóknar skal hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi. Réttur stjórnanda rannsóknar til skýrslutöku nær einnig til þeirra sem fluttir hafa verið af vettvangi eða farið þaðan sjálfir.
    Þegar slys eða atvik verður tilefni rannsóknar að hætti laga um meðferð sakamála skal rannsóknarnefndin veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna. Um afhendingu gagna skal fara skv. 27. gr., sbr. þó 28. gr.

23. gr.
Vörslutaka muna.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að taka til vörslu eða halda loftfari, skipi eða ökutæki eða hluta þeirra, búnaði og öðru sem ætla má að geti haft þýðingu við rannsókn.
    Rannsóknarnefnd skal svo fljótt sem verða má og að teknu tilliti til rannsóknarhagsmuna sinna láta af hendi það sem tekið hefur verið til vörslu eða haldið skv. 1. mgr.
    Hafi lögregla tekið muni til vörslu eða lagt hald á þá samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sem þýðingu geta haft við rannsókn rannsóknarnefndar, er heimilt að krefjast þess að þeir verði ekki afhentir eiganda eða öðrum lögmætum rétthafa nema að höfðu samráði við stjórnanda rannsóknar.

24. gr.
Varðveisla rannsóknargagna.
    Vernda skal sönnunargögn á vettvangi eins og mögulegt er með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Ljósmynda skal eða varðveita með öðrum hætti þau sönnunargögn sem kunna að vera hverful, verða fjarlægð, týnast eða eyðileggjast.
    Varðveita skal tryggilega þau gögn sem tekin eru í vörslu nefndarinnar svo að þau spillist ekki eða skemmist og hindra óviðkomandi aðgang að þeim sem og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir þjófnað.

25. gr.
Skýrslutökur, gagnaöflun.
    Aðila máls, fyrirsvarsmanni hans og öðrum þeim sem rannsóknarnefnd samgönguslysa telur nauðsynlegt að gefi skýrslu til að upplýsa mál sem er til meðferðar er skylt að koma fyrir nefndina til að svara spurningum sem til þeirra er beint, í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að taka skýrslur, og hljóð- og myndrita þær, af eiganda, notanda eða umráðanda loftfars, skips eða ökutækis, stjórnanda þess, áhöfn og farþegum, flugrekendum og starfsmönnum flugleiðsöguþjónustu, flugvalla, hafna og umferðarmannvirkja og eftirlitsyfirvalda, svo og hverjum öðrum sem ætla má að búi yfir vitneskju er stuðlað geti að því að leiða í ljós orsök slyss og önnur þau atriði sem nefndin telur nauðsynlegt að varpa ljósi á.
    Rannsóknarnefnd getur leitað aðstoðar rannsóknarstofnana, innlendra eða erlendra, ásamt því að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún tilefni til.

26. gr.
Upplýsingaöflun.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa getur krafist framlagningar gagna og upplýsinga, þ.m.t. frá stofnunum sem hafa eftirlit með samgöngum, lögreglu, tryggingafélögum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki, svo og þeim sem starfrækja flugleiðsöguþjónustu, flugvelli, hafnir og samgöngumannvirki, flugrekendum eða öðrum, eftir því sem nauðsyn þykir við rannsókn einstakra mála. Er nefndinni m.a. heimilt að krefjast þess að fá í sína vörslu upptökur, þ.m.t. upptökur fjarskipta, skráningar, bækur og önnur gögn er varða loftför, skip og ökutæki, stjórnendur og áhafnir þeirra og umferð loftfara, skipa og ökutækja. Er framangreindum aðilum skylt að láta nefndinni slíkar upplýsingar í té.
    Rannsóknarnefndinni er heimilt að taka án tafar í sína vörslu flugrita loftfars, siglingarita skips og ökurita ökutækis og annast aflestur gagna og upplýsinga úr þeim.
    Við aflestur og afritun samskipta sem fram koma á upptökum og við gerð skýrslna, sbr. 1. og 2. mgr., skal rannsóknarnefnd gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja fyllsta trúnað vegna upplýsinga sem þar koma fram. Afritun skal bundin við atriði sem nefndin telur hafa þýðingu við rannsókn máls en að öðrum kosti skulu aðalatriði úr skýrslum skráð.
    Heimild 1. og 2. mgr. nær til persónugreinanlegra upplýsinga, þ.m.t. viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við sjúkra- og krufningarskýrslur, auk annarra upplýsinga sem nefndin telur nauðsynlegar í þágu rannsóknar máls.
    Stjórnanda rannsóknar skal ávallt gert kleift að rannsaka gögn og upplýsingar um slys eða atvik án ástæðulausrar tafar.

27. gr.
Takmarkanir á aðgengi að upplýsingum.
    Óheimilt er rannsóknarnefnd samgönguslysa að veita aðgang að eftirfarandi gögnum sem nefndin aflar við rannsókn samgönguslyss og samgönguatviks eða upplýsingar um þau, sbr. þó 2.–4. mgr.:
    a.    upptökum eða endurriti af framburði þeirra sem nefndin yfirheyrir við rannsókn máls;
    b.    hvers konar skráðum fjarskiptum eða upptökum af fjarskiptum milli þeirra sem tengst hafa samgönguslysi eða samgönguatviki;
    c.    læknisfræðilegum gögnum og öðrum persónulegum gögnum sem varða þá sem tengst hafa samgönguslysi eða samgönguatviki;
    d.    upptökum af samskiptum eða skráðum samskiptum sem átt hafa sér stað í stjórnklefa loftfars eða milli flugverja innbyrðis;
    e.    upptökum af samskiptum og fjarskiptum á vinnustað flugumferðarstjóra eða endurriti af slíkum samskiptum;
    f.     upptökum af samskiptum á stjórnpalli skipa eða milli skipverja innbyrðis;
    g.    upptökum af samskiptum stjórnstöðvar/Vaktstöðvar siglinga og fjarskiptum við skip;
    h.    upptökum af samskiptum vaktstöðvar samræmdrar neyðarsímsvörunar eða lögreglu við fórnarlömb eða tilkynnendur umferðarslysa eða alvarlegra umferðaratvika;
    i.     hvers konar álitsgerðum sem aflað hefur verið í tengslum við mat á fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. á flugritum loftfara og siglingaritum skipa og ökuritum ökutækja.
    Eingöngu skal veita umsagnaraðilum skv. 1. mgr. 33. gr. aðgang að gögnum skv. 1. mgr. að því marki sem rannsóknarnefnd telur nauðsynlegt til að þeir geti veitt umsögn og skal virða nafnleynd þeirra sem tengjast samgönguslysi eða samgönguatviki. Ef veittur er aðgangur að gögnum skv. a-lið og d–h-lið 1. mgr. skal aðgangur eingöngu ná til endurrits af afritun upptaka, sbr. 3. mgr. 26. gr.
    Umsagnaraðilar og þeir sem starfa í þeirra þágu skulu virða þagnarskyldu um hvaðeina sem þeim verður kunnugt um vegna aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæði þessu. Er umsagnaraðilum óheimilt að veita öðrum en þeim sem starfa í þeirra þágu við að veita umsögn upplýsingar um eða aðgang að slíkum gögnum.
    Rannsóknarnefndin skal fella út úr lokaskýrslu beina tilvísun til gagna skv. 1. mgr. nema að því leyti sem nauðsynlegt er talið vegna greiningar á orsökum samgönguslyss og samgönguatviks.
    Takmarkanir á aðgangi að upplýsingum og gögnum samkvæmt ákvæði þessu eiga einnig við upplýsingar og gögn sem rannsóknarnefndin fær afhent frá yfirvöldum annarra ríkja sem annast rannsókn samgönguslysa og samgönguatvika. Rannsóknarnefndinni er heimilt að veita rannsóknaryfirvöldum annarra ríkja aðgang að gögnum og upplýsingum samkvæmt ákvæði þessu enda sé það liður í rannsókn viðkomandi yfirvalds.

28. gr.
Dómsúrskurður.
    Þrátt fyrir ákvæði 27. gr. er heimilt með dómsúrskurði að mæla fyrir um skyldu rannsóknarnefndar samgönguslysa til að veita aðgang að gögnum skv. b–i-lið 1. mgr. 27. gr. eða upplýsingar um þau ef þeirra verður ekki aflað með öðrum hætti og talið verður að aðgangur að þeim vegi þyngra á metunum en þau neikvæðu áhrif sem slíkur aðgangur gæti haft. Aðgangur að gögnum skv. d–h-lið 1. mgr. 27. gr. skal þó takmarkaður við endurrit af afritum upptaka, sbr. 3. mgr. 26. gr. Ekki skal afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr.

29. gr.
Tilkynning til yfirvalda.
    Vakni grunur um eða verði leitt í ljós við rannsókn máls að beitt hafi verið ólögmætum aðgerðum gegn flugsamgöngum, siglingum eða umferð skal stjórnandi rannsóknar eins fljótt og verða má upplýsa viðeigandi yfirvöld um rannsókn máls.

30. gr.
Öflun gagna úr flug-, siglinga- og ökuritum til handa erlendum ríkjum.
    Nú verður flugslys eða alvarlegt flugatvik utan lögsögu rannsóknarnefndar samgönguslysa, en loftfar sem um ræðir lendir hér á landi, og skal rannsóknarnefndinni þá heimilt að afla gagna úr flugrita eða taka í sína vörslu flugrita loftfars, að fenginni beiðni þar að lútandi frá því ríki sem fer með rannsókn slyssins eða atviksins.
    Nú verður sjóslys eða sjóatvik utan lögsögu rannsóknarnefndarinnar, en skip sem um ræðir kemur hér að landi, og skal rannsóknarnefndinni þá heimilt að afla gagna úr siglingarita eða taka í sína vörslu siglingarita skips, að fenginni beiðni þar að lútandi frá því ríki sem fer með rannsókn slyssins eða atviksins.
    Nú verður umferðarslys eða alvarlegt umferðaratvik utan lögsögu rannsóknarnefndarinnar, en ökutæki sem um ræðir er flutt hingað til lands, og skal rannsóknarnefndinni þá heimilt að afla gagna úr ökurita eða taka í sína vörslu ökurita ökutækis, að fenginni beiðni þar að lútandi frá því ríki sem fer með rannsókn slyssins eða atviksins.

VII. KAFLI
Skýrslugerð.
31. gr.
Bráðabirgðaskýrsla.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal heimilt að taka saman bráðabirgðaskýrslu um rannsókn samgönguslyss eða samgönguatviks áður en rannsókn máls er lokið til þess að koma upplýsingum á framfæri við yfirvöld og málsaðila.

32. gr.
Lokaskýrsla.
    Þegar rannsókn slyss eða atviks er lokið skal rannsóknarnefnd svo fljótt sem verða má gefa út lokaskýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar. Í lokaskýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyss auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um ráðstafanir til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra.
    Markmiðs slysarannsókna samkvæmt lögum þessum, sbr. 1. gr., skal getið á forsíðu hverrar lokaskýrslu sem rannsóknarnefnd sendir frá sér. Jafnframt skal þess getið að ekki sé með rannsókn leitast við að skipta sök eða ábyrgð, sbr. 5. mgr. 4. gr.
    Rannsóknarnefnd er heimilt að gefa út yfirlýsingu um lok rannsóknar eða ljúka rannsókn máls með bókun í stað þess að gefa út lokaskýrslu.
    Lokaskýrslu um rannsókn slyss skal að jafnaði gefa út innan árs frá því að slys varð. Ljúki rannsókn ekki innan þessara tímamarka skal þá og eftir það árlega gefa út yfirlýsingu um stöðu rannsóknar.
    Birta skal lokaskýrslur á heimasíðu rannsóknarnefndar samgönguslysa.
    Lokaskýrslu má gera á erlendu tungumáli, m.a. ef málsaðili er erlendur.

33. gr.
Umsögn.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa getur gefið þeim aðilum sem að mati nefndarinnar hafa ríkra hagsmuna að gæta kost á að tjá sig um drög að lokaskýrslu innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
    Rannsóknarnefnd getur kveðið á um að umsagnaraðili skuli bundinn trúnaði um það sem fram kemur í drögum að lokaskýrslu.

34. gr.
Mikilvægar ábendingar.
    Rannsóknarnefnd skal á hvaða stigi rannsóknar sem er, ef tilefni er til, vekja athygli viðkomandi aðila á atriðum sem fram hafa komið við rannsókn og mikilvægt er talið að komið sé á framfæri án tafar til að tryggja öryggi.

35. gr.
Tillögur í öryggisátt.
    Rannsóknarnefnd skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum eftir því sem rannsókn slyss gefur tilefni til og beina tilmælum til viðeigandi aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem við á. Tillögurnar skal birta opinberlega.
    Þeir sem tilmælum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra og hrinda í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum eða hvers vegna ekki hafi verið brugðist við þeim.
    Rannsóknarnefnd skal, innan tveggja mánaða frá því að henni var gerð grein fyrir viðbrögðum við tilmælum um úrbætur, tilkynna viðkomandi aðila hvort nefndin telji þau fullnægjandi.

36. gr.
Ársskýrsla.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal gefa út heildarskýrslu um störf sín ár hvert og birta á heimasíðu sinni. Í skýrslunni skal m.a. vera að finna tölfræðilegar samantektir, auk tillagna um öryggisúrbætur.
    Jafnframt skal rannsóknarnefndin semja yfirlit um hvernig tilmælum hennar skv. 35. gr. hefur verið framfylgt og birta á heimasíðu sinni.

VIII. KAFLI
Endurupptaka mála, sérstakar rannsóknir.
37. gr.
Heimild til endurupptöku.
    Rannsóknarnefnd er heimilt að endurupptaka mál þótt rannsókn sé lokið ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati. Ef rannsóknarnefndin hóf ekki rannsóknina skal þó ekki endurupptaka mál fyrr en samþykki þess ríkis sem hóf hana liggur fyrir.
    Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra falið rannsóknarnefndinni að rannsaka nánar tiltekið slys eða atvik eða sérstök atriði sem tengjast slysi eða atviki ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið.
    Um rannsóknir sem hefjast að beiðni ráðherra fer samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.

38. gr.
Sérstakar rannsóknir.
    Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni ráðherra að rannsaka atriði sem varða almennt öryggi í samgöngum.

39. gr.
Skráning og greining slysa í samgöngum.
    Ráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd samgönguslysa að annast skráningu og greiningu samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika.
    Nú felur ráðherra nefndinni að annast skráningu tiltekins slysaflokks og alvarlegra atvika og skal nefndin þá birta í ársskýrslu sinni upplýsingar um slíka skráningu og greiningu eftir því sem við á.

IX. KAFLI
Reglugerðarheimildir, gildistaka o.fl.
40. gr.
Reglugerðarheimildir.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara þar sem m.a. er kveðið á um:
    a.    nánari skilgreiningu samgönguslysa og samgönguatvika, flugslysa og alvarlegra flugatvika, sjóslysa og sjóatvika, umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika skv. 3. gr.;
    b.    skilyrði, tilkynningu og tilhögun framsals rannsóknar að hluta eða öllu leyti skv. 10. gr.;
    c.    tilkynningu um slys til erlendra aðila skv. 13. og 17. gr. og fyrirkomulag við gerð slíkra tilkynninga, efni þeirra, innihald og móttöku og meðferð samsvarandi tilkynninga frá erlendum aðilum;
    d.    nánari framkvæmd við rannsókn á vettvangi samgönguslyss skv. 21. og 22. gr., þ.m.t. um skyldu aðila sem fara með stjórn vettvangs til að taka til varðveislu hvers konar hluti og annað sem tengist slysi eða alvarlegu atviki, að leggja bann við notkun búnaðar sem tengist slysi eða alvarlegu atviki fyrr en rannsókn á honum hefur farið fram; skyldu aðila til að gera skýrslu um slys eða atvik í þeim tilvikum þar sem viðgerð á hlut er óumflýjanleg áður en rannsókn getur átt sér stað; skyldu til að varðveita alla hluti sem skipta þarf út fyrir nýja og skyldu aðila til að skrá slys eða atvik og afhenda rannsóknarnefnd skýrslu sína;
    e.    nánari tilhögun um aðgengi innlendra og erlendra aðila að rannsóknargögnum, rannsókn máls, þar á meðal um samráð við erlenda rannsóknaraðila við gerð áfangaskýrslu og lokaskýrslu;
    f.     framkvæmd rannsókna og verklag, þar á meðal um meðferð, rannsókn og vörslu málsgagna og gerð verklagsreglna við framkvæmd rannsóknar;
    g.    rekstur rannsóknarnefndar samgönguslysa, samskipti við aðra innlenda rannsóknaraðila, samskipti og samstarf við erlenda rannsóknaraðila og stofnanir sem hafa með samgönguöryggi að gera, persónuskilríki með upplýsingum um réttarstöðu nefndarmanna, rannsóknarstjóra og annarra starfsmanna og heimildir þeirra í störfum;
    h.    nauðsynlegan útbúnað og aðstöðu;
    i.     þjálfunaráætlun nefndarmanna og stjórnendur rannsókna;
    j.    efni og form bráðabirgðaskýrslu og lokaskýrslu rannsóknarnefndarinnar, útgáfu, birtingu og dreifingu bráðabirgðaskýrslu og lokaskýrslu rannsóknarnefndarinnar og tilmæla í öryggisátt;
    k.    skráningu og greiningu samgönguslysa og samgönguatvika;
    l.     gerð áætlunar um aðstoð við þolendur og nána aðstandendur í kjölfar samgönguslysa í samstarfi við viðeigandi opinberar stofnanir og hagsmunaaðila á hverju sviði;
    m.   upplýsingaskyldu þeirra aðila sem sjá um flutning fólks í lofti, á sjó eða landi hvað varðar m.a. farþegalista og hættulegan farm um borð í loftfari, skipi eða ökutæki og meðferð slíkra upplýsinga;
    n.    aðstoð þeirra aðila sem sjá um flutning á fólki í lofti, á sjó eða landi við fórnarlömb samgönguatvika og slysa og aðstandendur þeirra.

41. gr.
Refsiheimild.
    Hver sá sem hindrar starfsmenn eða nefndarmenn rannsóknarnefndar samgönguslysa við rannsóknarstörf sín skal sæta sektum.
    Hver sá sem upplýsir um innihald þeirra gagna sem fjallað er um í 27. gr. skal sæta sektum.
    Brot gegn ákvæðum 12., 16. og 20. gr. varða sektum.

42. gr.
Gildistaka o.fl.
    Lög þessi taka gildi 1. júní 2013. Frá sama tíma falla úr gildi lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, með síðari breytingum, lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, með síðari breytingum, og lög nr. 24/2005, um rannsóknarnefnd umferðarslysa, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Skipunartíma rannsóknarnefndar sjó-, flug- og umferðarslysa, sbr. lög nr. 68/2000, 35/ 2004 og 24/2005, lýkur við gildistöku laga þessara.
    Forstöðumönnum rannsóknarnefndar sjó-, flug- og umferðarslysa skal boðið starf rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa þar til núverandi skipunartíma lýkur. Um störf þeirra og endurskipun fer að öðru leyti í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Öðrum starfsmönnum nefndanna skal boðið starf hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

Gjört í Reykjavík, 6. mars 2013.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Ögmundur Jónasson.

A deild - Útgáfud.: 12. mars 2013