1. gr. Gildissvið og markmið. Reglugerð þessi gildir um ráðstöfun á árlegu framlagi úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og um úthlutanir framlaga sjóðsins til sveitarfélaga vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, sbr. samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda. Framlagi ríkisins er ætlað að gera nemendum kleift að stunda tónlistarnám óháð búsetu og efnahag með því að standa straum af kennslukostnaði í tónlistarskólum vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi ásamt tengdum kostnaði, þ.e. hlutdeild í stjórnunarkostnaði og hljóðfæragjaldi. Skilyrði er að um sé að ræða tónlistarnám í viðurkenndum tónlistarskóla, þ.e. skóla sem kennir samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla og nýtur viðurkenningar mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Eftir því sem fjárveitingar leyfa er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að auki heimilt að veita sveitarfélögum framlög vegna kennslukostnaðar nemenda á grunnstigi í söng og á grunn- eða miðstigi í hljóðfæragreinum, sem þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan síns sveitarfélags, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari, sbr. 7. gr. Tónlistarskólum er óheimilt að krefja nemendur sem reglur þessar ná til um hlutdeild í kennslukostnaði. 2. gr. Framlag úr ríkissjóði. Á grundvelli samkomulagsins frá 13. maí 2011 eru til ráðstöfunar á ársgrundvelli 480 m. kr. að viðbættu framlagi að fjárhæð 40 m. kr. vegna endurmats á fjárþörf eða samtals 520 m. kr. Framlagið greiðist til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina september – ágúst. 3. gr. Umsóknir sveitarfélaga. Að loknu innritunartímabili að vori og eigi síðar en 15. maí skulu tónlistarskólar senda því sveitarfélagi, þar sem skóli starfar, skrá um alla nemendur sem innritaðir eru í tónlistarnám sem fellur undir reglur þessar, til að sveitarfélagið geti sótt um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna þeirra nemenda sem þar munu stunda tónlistarnám. Falli tónlistarnám nemenda undir 7. gr. reglna þessara ber tónlistarskóla að senda lögheimilissveitarfélagi skrá um þá nemendur, sbr. ákvæði í 3. mgr. 7. gr. Sveitarfélögum ber að skila umsóknum um framlög vegna næsta skólaárs fyrir nemendur skv. 2. mgr. 1. gr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir 1. júní ár hvert á sérstökum eyðublöðum sem nálgast má á vefsíðu sjóðsins. Umsóknir um framlög samkvæmt 3. mgr. 1. gr., sbr. 7. gr., skulu berast Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá lögheimilissveitarfélagi nemanda eigi síðar en 1. júní ár hvert vegna næsta skólaárs. Eigi síðar en 30. september ár hvert skulu tónlistarskólar senda viðkomandi sveitarfélagi endanlega nemenda- og kennsluskrá. Skulu þær upplýsingar berast Jöfnunarsjóði eigi síðar en 10. október ár hvert. 4. gr. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þegar upplýsingar liggja fyrir úr umsóknum sveitarfélaga um áætlaða kennslu innritaðra tónlistarnemenda á næsta skólaári, sbr. 3. gr., birtir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga áætlanir um úthlutanir framlaga sem hér segir:
| a. | | Áætlun um úthlutun framlaga vegna þeirra nemenda er falla undir 2. mgr. 1. gr. að teknu tilliti til kennslumagns eftir tegund tónlistarnáms og námsstigi. Við útreikning á kennslumagni tónlistarskóla eru raunverulegar kennslumínútur (stundir) umreiknaðar yfir í einingar út frá stuðlum í kjarasamningi tónlistarkennara. Ráðherra setur vinnureglur um úthlutun framlaga, skv. tillögu ráðgjafarnefndar sjóðsins og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vinnureglurnar verða birtar á vefsíðu Jöfnunarsjóðs: jofnunarsjodur.is | | b. | | Áætlun um úthlutun framlaga vegna þeirra nemenda sem falla undir 3. mgr. 1. gr., sbr. 7. gr., á grundvelli ákveðinna viðmiðunarfjárhæða sem nema að hámarki 50% af vegnu meðaltali framlags á nemanda sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. |
Um jafnar mánaðarlegar greiðslur verður að ræða yfir skólaárið, þ.e. á tímabilinu september til júlí. Við greiðslu framlaga í ágúst fer fram uppgjör vegna næstliðins skólaárs, sbr. 3. mgr. 5. gr. Greiðsla skal berast til sveitarfélaga eigi síðar en síðasta dag hvers mánaðar. Upplýsingar um áætluð framlög fyrir komandi skólaár skulu liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða. Þegar upplýsingar hafa borist til Jöfnunarsjóðs um endanlega nemenda- og kennsluskrá, sbr. 4. mgr. 3. gr., skal sjóðurinn yfirfara forsendur útreiknings framlaga til einstakra sveitarfélaga. Ef um breytingar er að ræða á úthlutun framlaga skulu þær tilkynntar sveitarfélögum fyrir 31. október ár hvert og leiðrétting fyrir september fara fram við greiðslu framlaga fyrir október. 5. gr. Skilyrði fyrir úthlutun framlaga og greiðslu. Tónlistarskólar skulu senda skilagrein til viðkomandi sveitarfélags um skólaárið sem er að líða fyrir 1. júní ár hvert á eyðublaði sem nálgast má á vefsíðu Jöfnunarsjóðs. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um fjölda nemenda á hverju námsstigi eftir tegund náms og upplýsingar um fjölda þeirra nemenda sem þreyttu áfangapróf. Sveitarfélag ber ábyrgð á að skilagreinar frá tónlistarskólum sem þar starfa berist til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eigi síðar en 15. júní ár hvert. Komi í ljós við yfirferð skilagreina frá sveitarfélögum, sbr. 1. mgr., að um ofgreiðslu eða vangreiðslu framlags hafi verið að ræða til sveitarfélags á liðnu skólaári skal gerð leiðrétting áður en kemur til lokagreiðslu framlags fyrir viðkomandi skólaár í ágúst, eða, ef því verður ekki viðkomið, við úthlutun framlags fyrir næsta skólaár. Skilyrði þess að framlag verði greitt á grundvelli þessara reglna er að skilagrein um ráðstöfun framlags síðasta skólaárs hafi borist Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, á formi sem sjóðurinn lætur sveitarfélögum í té, ásamt upplýsingum um innritun nemenda innan þess frests sem fram kemur í þessum reglum. Ef dráttur verður á því að upplýsingar um endanlega nemendaskrá berist frá sveitarfélagi er Jöfnunarsjóði heimilt að fresta greiðslu þar til úr hefur verið bætt. 6. gr. Langtímaforföll. Sveitarfélagi er heimilt að sækja sérstaklega um aukaframlag vegna langtímaforfalla kennara á miðstigi í söng og á framhaldsstigi í söng og hljóðfæragreinum, sem standa lengur en einn mánuð enda liggi fyrir læknisvottorð. Heildarframlag verður þó aldrei hærra en sem nemur raunverulegum launakostnaði skólans vegna forfalla á því tímabili sem um ræðir. Umsókn frá sveitarfélagi um framlag samkvæmt þessari grein skal berast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir 15. júní ár hvert. 7. gr. Framlög vegna nemenda á grunnstigi og nemenda á miðstigi í hljóðfæragreinum. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að veita sveitarfélögum framlög vegna nemenda sem þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan síns sveitarfélags. Skilyrði er að fyrir liggi staðfesting um að námið verði metið til eininga í framhaldsskóla. Úthlutun framlaga samkvæmt þessari grein takmarkast af því hve mikið fjármagn Jöfnunarsjóður hefur til ráðstöfunar að teknu tilliti til framlaga skv. 4. og 6. gr. Við ákvörðun framlaga skal umsóknum forgangsraðað í eftirfarandi röð:
| 1. | | Nemendur á miðstigi í hljóðfæragreinum. | | 2. | | Nemendur á grunnstigi í söng eða hljóðfæragreinum, þ.e. nemendur sem hafa verið í tónlistarnámi á grunnstigi í eitt skólaár eða lengur | | 3. | | Nemendur sem eru að hefja nám á grunnstigi í söng. |
Úthlutuð framlög vegna samþykktra umsókna samkvæmt þessari grein skulu að hámarki nema 50% af vegnu meðaltali framlags á nemanda, sbr. 2. mgr. 1. gr. Framlögin geta lækkað ef eftirspurn er umfram það fjármagn sem er til ráðstöfunar skv. 2. mgr. Sveitarfélag sem sækir um framlag greiðir þann hluta kennslukostnaðar sem út af stendur. Tónlistarskólar skulu gæta þess að samþykki lögheimilissveitarfélags liggi fyrir vegna nemenda sem uppfylla skilyrði skv. 1. og 2. mgr., áður en þeir eru innritaðir í tónlistarnám. Um umsóknir, greiðslu framlaga og leiðréttingu áætlaðra framlaga fer skv. 3.-5. gr. eftir því sem við á, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða. Jöfnunarsjóður skal senda lögheimilissveitarfélögum tilkynningu um áætluð framlög samkvæmt þessari grein fyrir 1. júlí ár hvert. 8. gr. Gildistími. Reglugerð þessi er sett á grundvelli samkomulags ríkisins og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda og laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985. Reglugerðin öðlast þegar gildi og gildir um úthlutun framlaga frá og með skólaárinu 2012 – 2013, þ.e. frá 1. september 2012. Ákvæði til bráðabirgða. Þrátt fyrir ákvæði í 4. mgr. 4. gr. skal endurskoðuð áætlun um úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir skólaárið 2012 – 2013 liggja fyrir eigi síðar en 31. janúar 2013. Skal áætlunin byggjast á upplýsingum frá tónlistarskólum um endanlega nemenda- og kennsluskrá, sbr. 4. mgr. 3. gr. Ef áætlunin leiðir til breytinga á áður úthlutuðum framlögum, skal það leiðrétt við greiðslu framlaga til sveitarfélaga fyrir janúar 2013. Innanríkisráðuneytinu, 15. janúar 2013. Ögmundur Jónasson. Ragnhildur Hjaltadóttir. |