Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 536/2011

Nr. 536/2011 31. maí 2011
REGLUR
um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum.

I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til fyrirtækja, einstaklinga, opinberra aðila og annarra sem selja vöru til neytenda á sölustað eða með húsgöngu- eða fjarsölu, þ.m.t. með rafrænum hætti.

Skylt er þeim sem reglur þessar taka til að verðmerkja og upplýsa neytendur skriflega um söluverð og einingarverð vöru til að tryggja gagnsæi í verðupplýsingum og auðvelda verðsamanburð.

Reglur þessar taka ekki til verðupplýsinga við sölu:

  1. á þjónustu,
  2. á uppboði,
  3. á vörum sem fylgja þjónustu.

Hafi Neytendastofa ekki sett sérreglur um sölu á tiltekinni vöru eiga reglur þessar við. Reglur þessar gilda einnig til fyllingar og túlkunar á sérreglum Neytendastofu sem í gildi eru hverju sinni.

2. gr.

Orðskýringar.

Merking orða í reglum þessum er sem hér segir:

Söluverð: Endanlegt verð í íslenskum krónum fyrir hverja einingu vöru eða tiltekið magn vöru að meðtöldum virðisaukaskatti og öllum öðrum opinberum gjöldum.

Einingarverð: Endanlegt verð í íslenskum krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti og öllum öðrum sköttum eða opinberum gjöldum, fyrir eitt kílógramm, einn lítra, einn metra, einn fermetra eða einn rúmmetra vörunnar eða aðra einstaka einingu sem leyfð er lögum og reglum samkvæmt.

Neytandi: Einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.

Fyrirtæki: Einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem selja vöru til neytenda á fastri starfsstöð eða sölustað, með húsgöngu- eða fjarsölu, eða á annan hátt í atvinnu- eða fjáröflunarskyni þ.m.t. með rafrænum hætti.

Forpakkað: Vara telst forpökkuð þegar hún er sett í hvers konar umbúðir án þess að kaupandinn sé viðstaddur og þegar magn vörunnar sem í umbúðunum er hefur fyrirfram ákvarðað gildi, sem ekki er hægt að breyta án þess að opna umbúðirnar eða breyta þeim svo sjáanlegt sé, í samræmi við gildandi reglur.

Matvæli: Hvers konar matar- og drykkjarvörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið neysluvatn, áfengi og tóbak, þó ekki lyf.

Vörur seldar í lausri vigt: Vörur sem ekki eru forpakkaðar og eru mældar eða vegnar að neytanda viðstöddum.

II. KAFLI

Verðmerkingar og skylda til að veita upplýsingar um sölu- og einingarverð vöru.

3. gr.

Skylda til að upplýsa um sölu- og einingarverð.

Fyrirtæki skal skýrt og greinilega merkja vöru sína með réttu söluverði og einingarverði í íslenskum krónum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er þó heimilt að veita sömu upplýsingar nálægt vöru enda sé augljóst til hvaða vöru verðmerkingin vísar og tryggt sé að neytendur fái án vandkvæða aðgang að upplýsingum um sölu- og einingarverð sem skylt er að veita samkvæmt reglum þessum, sbr. 4. gr.

Skylda til að verðmerkja með sölu- og einingarverði gildir einnig hvar sem vörur eru til sýnis svo sem í búðargluggum, sýningarkössum, á vefsíðum eða annars staðar. Sé söluverðs getið í auglýsingum þarf einnig að tiltaka einingarverð.

Sé varan þess eðlis að ekki er hægt með góðu móti að reikna út söluverðið fyrirfram, ber fyrirtæki að veita upplýsingar um það á hvern hátt verðið er reiknað út. Þá skal, eftir því sem mögulegt er, gefa upp allan viðbótarkostnað, afhendingar- og/eða póstburðargjöld, eða veita upplýsingar um að greiða þurfi slíkan viðbótarkostnað.

Fyrirtæki skal selja vöru á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.

Vörur seldar í lausri vigt er aðeins skylt að merkja með einingarverði.

Sé þyngd forpakkaðrar vöru getið á kassastrimli ber að auðkenna línu vörunnar þannig að ljóst sé að vigtun fór ekki fram á vog við afgreiðslukassa eða að neytandanum viðstöddum. Fyrirtæki er heimilt en ekki skylt að geta þyngdar á kassastrimli við sölu á forpakkaðri vöru.

4. gr.

Nánar um framkvæmd verðmerkinga á vörum, hillumerkingar, verðskanna, o.fl.

Upplýsa má um sölu- og einingarverð á eftirfarandi hátt:

  1. Merkimiða á sérhverri pakkningu eða sölueiningu þ.e. á viðfestan miða eða á umbúðirnar með auðlæsum og aðgengilegum hætti.
  2. Hillumerkingu sem er auðlæs. Merkingin skal vera aðgengileg neytendum og uppfylla skilyrði um skýrleika samkvæmt reglum þessum. Óheimilt er við hillumerkingu á vörum að setja aðra vöru við merki en þá sem verðmerkið vísar til. Hillumerkingar sem uppfylla lágmarksskilyrði staðals ÍST 81:1997 teljast að formi til vera í samræmi við reglur þessar eftir því sem við getur átt.
  3. Skiltum eða verðlistum sem eru auðlæsilegir, aðgengilegir og nálægt vöru sem vísað er til, svo framarlega sem slík merking er skýrari en merking skv. b. lið og verðmerking skv. a. lið felur í sér óhagkvæmni fyrir fyrirtæki. Fyrir vörur sem seldar eru í lausri vigt og vörur sem eru forpakkaðar og merktar skv. d. lið skal tilgreina einingarverð vörunnar á skilti eða verðlista skv. lið þessum. Óheimilt er við verðmerkingu á vörum samkvæmt þessum lið að setja aðra vöru við skilti en þá sem það eða verðlistinn vísar til.
  4. Verðskanna sem er auðlesanlegur, aðgengilegur og staðsettur nálægt vöru. Það á þó eingöngu við um matvæli sem seld eru forpökkuð og eru ekki í staðlaðri þyngd. Séu verðskannar notaðir skal þyngd vöru sem er forpökkuð koma fram á umbúðum hennar og einingarverð merkt í samræmi við c. lið þessarar greinar. Neytendastofa getur að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu metið hvort aðgengi og fjöldi skanna samkvæmt þessari grein fullnægi hverju sinni framangreindum kröfum sem gerðar eru til verðupplýsinga til neytenda. Fjöldi skanna skal meðal annars taka mið af stærð verslunar, fjölda viðskiptavina og fjölda vöruflokka sem verðmerktir eru skv. þessum lið. Um málsmeðferð og réttarúrræði fer skv. ákvæðum III. kafla þessara reglna.

Neytendur eiga ávallt rétt á upplýsingum um söluverð áður en komið er að greiðslu á kassa.

Um verðmerkingar á útsölu eða þegar sérstök tilboð eru í gildi fer það nánar eftir reglum um útsölur og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði.

5. gr.

Einingarverð í kílógrömmum, lítrum, o.fl.

Þegar gefið er upp einingarverð skal nota einhverja eftirtalda einingu:

krónur pr. kílógramm (kr./kg, kr./tonn),
krónur pr. lítra eða kúbikmetra (kr./l, kr./m³),
krónur pr. metra eða kílómetra (kr./m, kr./km),
krónur pr. fermetra (kr./m²),
krónur pr. stykki eða 100 stykki (kr./stk., kr./100 stk.) eða
krónur fyrir ráðlagðan skammt (kr./skammtur, kr./þvott, o.s.frv.)

Í vafatilvikum kveður Neytendastofa á um það hvaða eining skuli vera notuð.

6. gr.

Einingar fyrir ýmsar sérvörur.

Fyrir eftirtaldar sérvörur skal nota eftirfarandi einingar:

  1. Fyrir vörur sem seldar eru í forpakkningu með fleiri en einni einingu sem notaðar eru í stykkjatali er einingarverðið reiknað út fyrir hverja staka einingu svo sem bleiur, servíettur, plastpoka o.þ.h.
  2. Fyrir vörur sem eru á rúllu, eða því um líku, reiknast einingarverðið pr. metra. Þó er heimilt að gefa upp verð pr. rúllu þegar það á við svo sem þegar um salernispappír, eldhúsrúllu o.þ.h. er að ræða.
  3. Fyrir efni sem þekja á flöt reiknast einingarverðið út frá fermetrum. Fyrir litarefni og málningu skal verðið gefið upp pr. lítra.
  4. Fyrir vörur sem seldar eru með ráðlögðum skammti skal einingarverðið miðað við ráðlagðan skammt.
  5. Fyrir vörur sem á að þynna út með vatni skal einingarverðið reiknað út frá rúmmáli tilbúinnar vöru eða staðlaðri lausn skv. fyrirmælum eða leiðbeiningum framleiðanda.

7. gr.

Undanþágur.

Ákvæði reglna þessara um skyldu til einingarverðs gilda ekki fyrir eftirtalin matvæli:

  1. Vörur sem eru undir 5 g að nettóþyngd eða 5 ml að nettórúmmáli.
  2. Forpakkaðar vörur sem settar eru saman og hafa mismunandi einingarverð.
  3. Tilbúnar máltíðir í mismunandi hlutföllum sem forpakkaðar eru í eina sameiginlega pakkningu. Sama á við um snittur, samlokur, smárétti og sambærilegar vörur.
  4. Egg sem seld eru forpökkuð í ákveðnum stærðarflokkum.
  5. Kryddjurtir, ávextir og grænmeti sem selt er í stykkjatali, í búnti eða pottum.
  6. Brauð, kökur, konfekt, ís og bakarísvörur sem ekki eru seld í forpakkningum.
  7. Matvæli þar sem þarf að blanda saman við aðra vöru, þegar hlutfall vöru sem blanda þarf saman við er verulegt.
  8. Vörur sem setja þarf saman við önnur efni en vatn.

Eftirtaldar vörur sem ekki eru matvæli eru undanþegnar kröfu um einingarverð:

  1. Vörur sem ekki er unnt að hluta sundur eða skipta án þess að breyta eðli þeirra eða eiginleikum.
  2. Vörur sem hafa mismunandi einingarverð en eru seldar í sama pakka.
  3. Vörur sem eru seldar forpakkaðar og hafa nettóþyngd sem er minna en 5 g eða 5 ml.

Neytendastofa getur með opinberri tilkynningu birt lista yfir þær vörur sem falla undir einstaka liði þessarar greinar ef ástæða þykir til.

III. KAFLI

Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka.

8. gr.

Verðmerkingareftirlit Neytendastofu.

Neytendastofa fer með eftirlit með reglum þessum, tekur við ábendingum og skipuleggur skoðanir á vettvangi í því skyni að greina frávik frá reglum þessum og beitir viðurlögum þegar það á við, sbr. 11. gr.

9. gr.

Verðmerkingareftirlit fyrirtækja sem selja vöru.

Fyrirtæki sem selur vöru ber ábyrgð á að verðmerkingar uppfylli ávallt kröfur reglna þessara og að þær séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim.

10. gr.

Málsmeðferð.

Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, eftir því sem við getur átt.

Ákvarðanir Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför.

11. gr.

Viðurlög.

Neytendastofa tekur ákvörðun um beitingu viðurlaga við brotum á reglum þessum í formi stjórnvaldssekta eða dagsekta þegar það á við.

Sektir geta numið allt að 10 milljónum króna, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/2005.

Sektarfjárhæðir skulu að öðru leyti taka mið af alvarleika brotsins svo og hvort seljandi hafi ítrekað brotið gegn reglum þessum, lögum nr. 57/2005 og öðrum reglum settum samkvæmt þeim.

Um viðurlög, ábyrgð á greiðslu sektar o.fl. fer nánar samkvæmt IX. kafla laga nr. 57/2005.

12. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem innleiða tilskipun 98/6/EB, eru settar með heimild í 17. og 18. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Jafnframt eru felldar úr gildi reglur nr. 184/2000 um mælieiningarverð og reglur nr. 725/2008 um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Neytendastofu, 31. maí 2011.

Tryggvi Axelsson.

Þórunn A. Árnadóttir.

B deild - Útgáfud.: 31. maí 2011