Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 570/2006

Nr. 570/2006 23. júní 2006
REGLUR
um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar kveða á um aðgang útvarpsstöðva, efnisveitenda og notenda að skilyrtum aðgangskerfum í fjarskiptanetum sem dreift geta stafrænni hljóð- eða sjónvarpsþjónustu og um tæknilega eiginleika aðgangskerfa og samsvarandi notendabúnaðar.

2. gr.

Orðskýringar.

Aðgangskassi: Tæki, sem tekur á móti og vinnur úr öllum þáttum stafrænna útsendinga og sendir til sjónvarpstækja.

Efnisveitandi: Aðili sem býður fram útvarpsefni án þess að um heildstæða dagskrá sé að ræða eða upplýsingar í gagnvirkri þjónustu.

ETSI: Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu.

Forritatengsl (API): Hugbúnaðartengsl milli forrita, sem eru gerð aðgengileg af útvarps­stöðvum eða þjónustuveitendum, og úrræða í þróuðum stafrænum sjónvarps­búnaði fyrir stafræna sjón- og hljóðvarpsþjónustu.

Gagnvirkni: Stýring á þjónustu af hálfu notenda með samfelldum tvíátta samskiptum milli notanda og útvarpsstöðvar eða efnisveitanda.

Rafrænn dagskrárvísir (EPG): Framsetning upplýsinga á skjá um rásir og dagskrár, sem veitir notendum yfirsýn yfir þjónustu sem kostur er á í stafrænu sjónvarpi.

Skilyrt aðgangskerfi: Sérhver tæknileg ráðstöfun eða fyrirkomulag sem veitir aðgang að lokaðri hljóð- eða sjónvarpsþjónustu.

Útvarpsstöð: Aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem leyfi hefur til útvarps (hljóðvarp og/eða sjónvarp), annast og ber ábyrgð á samsetningu útvarpsdagskrár, sendir hana út eða lætur annan aðila annast útsendingu hennar.

Þróaður stafrænn sjónvarpsbúnaður: Aðgangskassi sem tengist sjónvarpstæki eða stafrænt sjónvarpstæki sem getur tekið á móti stafrænni gagnvirkri sjónvarpsþjónustu.

3. gr.

Opinn aðgangur.

Aðilar sem starfrækja skilyrt aðgangskerfi fyrir stafræna hljóð- eða sjónvarpsþjónustu, sem útvarpsstöðvar og/eða efnisveitendur þurfa á að halda til þess að ná til einhvers hóps notenda, skulu veita öllum útvarpsstöðvum og efnisveitendum, sem óska eftir að nota aðgangsstýringu, án mismununar og á sanngjörnum og réttmætum kjörum, tækni­lega þjónustu sem gerir notendum kleift að taka á móti stafrænni þjónustu í gegnum aðgangskassa sem stýrt er af rekstraraðila aðgangskerfisins.

Útvarpsstöð sem dreifir ólæstri dagskrá á rétt á því að dagskráin og tengdir gagna­straumar fari óhindruð um aðgangskassa án endurgjalds.

Rekstraraðilar skilyrtra aðgangskerfa skulu ekki útiloka notkun annarra aðgangskassa en þeirra eigin, að því tilskyldu að kassarnir uppfylli tæknilegar kröfur sem þarf til að tengjast kerfinu. Í þeim tilgangi að gera notkun annarra aðgangskassa mögulega skulu rekstaraðilar skilyrtra aðgangskerfa birta upplýsingar um tæknilega eiginleika aðgangskerfisins.

Aðgangskort verða að vera nýtanleg á öllum aðgangskössum innan sama aðgangs­kerfis.

Tryggt skal vera að viðskiptamannaskrár og aðrar viðkvæmar upplýsingar berist ekki til keppinauta.

Skyldur um opinn aðgang að skilyrtum aðgangskerfum samkvæmt þessari grein gilda fyrir allar tegundir stafrænna dreifikerfa hljóð- og sjónvarps.

4. gr.

Bókhaldslegur aðskilnaður.

Rekstraraðili skilyrts aðgangskerfis skal í bókhaldi sínu halda rekstri aðgangskerfisins aðskildum frá öðrum rekstri.

5. gr.

Forritatengsl.

Rekstraraðila skilyrts aðgangskerfis er skylt að veita aðgang að forritatengslum með skilmálum sem eru réttmætir, sanngjarnir og án mismununar.

6. gr.

Rafrænir dagskrárvísar.

Rekstraraðila skilyrts aðgangskerfis er skylt að veita útvarpsstöðvum og efnisveitendum aðgang að rafrænum dagskrárvísum með skilmálum sem eru réttmætir, sanngjarnir og án mismununar.

7. gr.

Umtalsverður markaðsstyrkur.

Þegar rekstraraðili skilyrts aðgangskerfis er útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk samkvæmt ákvæðum V. kafla laga um fjarskipti nr. 81/2003, er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að leggja á hann kvaðir um gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðar­bókhald eins og með þarf í þeim tilgangi að efla virka samkeppni.

Í kjölfar markaðsgreiningar má aflétta eða breyta kvöðum samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og 4.-6. gr., gagnvart þeim fyrirtækjum sem ekki hafa umtalsverða markaðshlutdeild, að því marki sem slíkar ákvarðanir hafa ekki neikvæð áhrif á möguleika notenda til þess að taka á móti dagskrám sem skylt er að flytja samkvæmt 55. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, eða á samkeppnishorfur á smásölumörkuðum fyrir útvarpsþjónustu eða á mörkuðum fyrir skilyrt aðgangskerfi og tengda þjónustu.

8. gr.

Samningar um aðgang.

Rekstraraðilar skilyrtra aðgangskerfa skulu semja við útvarpsstöðvar og efnisveitendur, sem dreifa dagskrám eða efni um stafræn dreifikerfi, um skilmála og gjöld fyrir aðgang að skilyrtum aðgangskerfunum. Takist ekki samkomulag eða verði ágreiningur á síðari stigum getur aðili beint málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar. Um meðferð málsins fer samkvæmt 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003.

9. gr.

Samhæfni notendabúnaðar.

Notendabúnaður, sem er til sölu eða leigu eða fenginn í hendur notenda með öðrum hætti, sem ætlaður er fyrir móttöku á stafrænum sjónvarpsmerkjum og er fær um að afbrengla stafræn sjónvarpsmerki skal hafa möguleika á því að afbrengla slík merki í samræmi við sameiginlegt evrópskt brenglunaralgrími (CSA) sem er í umsjá viður­kenndra staðlasamtaka, nú ETSI. Notendabúnaðurinn skal einnig geta birt dagskrá sem er óbrengluð en ef notendabúnaður er leigður notendum þá að því tilskyldu að leigutaki virði viðkomandi leigusamning.

Hliðræn sjónvarpstæki sem eru sett á markað og hafa innbyggðan skjá þar sem sýnileg skálína horna á milli er meira en 42 cm að lengd, skulu vera útbúin a.m.k. einu tengi fyrir opin skil í samræmi við staðal gefinn út af viðurkenndum evrópskum staðlasamtökum, t.d. staðalinn CENELEC EN 50 049-1:1997. Með tenginu skal vera einfalt að tengja við tækið jaðarbúnað, einkum viðbótarafbrenglara og stafræn viðtæki.

Stafræn sjónvarpstæki sem eru sett á markað og hafa innbyggðan skjá þar sem sýnileg skálína horna á milli er meira en 30 cm að lengd skulu vera útbúin a.m.k. einu tengi fyrir opin skil, í samræmi við staðal sem samþykktur hefur verið af evrópskum staðla­samtökum eða í samræmi við tæknilega forskrift framleiðenda, svo sem DVB tengið fyrir sameiginleg skil, sem gerir mögulega einfalda tengingu jaðarbúnaðar og hleypir í gegn öllum þáttum stafrænna sjónvarpsmerkja þ.m.t. upplýsingum um gagn­virka þjónustu eða þjónustu tengda skilyrtum aðgangi.

10. gr.

Samhæfni gagnvirkrar stafrænnar þjónustu.

Fyrirtæki sem starfrækja stafræna gagnvirka sjónvarpsþjónustu fyrir almenning eða selja þróaðan stafrænan sjónvarpsbúnað skulu nota opinn staðal fyrir forritatengsl, óháð tegund dreifikerfis.

Aðgangskassar sem tengja má við sjónvarpstæki og sjónvarpstæki með innbyggðum aðgangsmöguleika sem ætluð eru fyrir móttöku á gagnvirkri stafrænni sjónvarpsþjónustu skulu vera í samræmi við opna staðla fyrir forritatengsl.

Eigendur forritatengsla skulu afhenda með réttmætum og sanngjörnum skilmálum án mismununar og gegn hæfilegu endurgjaldi allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þjónustuaðilar á sviði gagnvirkrar stafrænnar þjónustu geti veitt á fullkomlega hagnýtan hátt alla þjónustu sem forritatengslin gefa kost á.

11. gr.

Aðgangsstýring yfir dreifinet.

Skilyrt aðgangskerfi skulu hafa tæknilega möguleika til að vera stjórnað á hagkvæman hátt yfir dreifinet fyrir stafrænt sjónvarp, svo að rekstraraðilar dreifineta geti haft fulla stjórn á þjónustu, sem notar slíkt skilyrt aðgangskerfi.

12. gr.

Framleiðsluheimildir.

Handhafar hugverkaréttar að búnaði og kerfum á sviði skilyrtra aðgangskerfa sem veita framleiðendum notendabúnaðar leyfi skulu tryggja að um þau gildi réttmætir og sanngjarnir skilmálar án mismununar. Með hliðsjón af tæknilegum og viðskiptalegum þáttum skulu handhafar hugverkaréttar ekki gera veitingu leyfa háða skilyrðum sem banna, koma í veg fyrir eða letja þess að eitt og sama tækið innihaldi:

- sameiginleg skil sem gera mögulega tengingu við ýmis önnur aðgangskerfi, eða
- möguleika sem eru einkennandi fyrir annað aðgangskerfi, að því tilskyldu að leyfishafi fari eftir viðeigandi og sanngjörnum skilyrðum sem tryggja eiga, að því er hann varðar, viðskiptaleynd þeirra sem reka skilyrta aðgangskerfið.

13. gr.

Heimild og gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í 56. og 61. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, öðlast þegar gildi.

Póst- og fjarskiptastofnun, 23. júní 2006.

Hrafnkell V. Gíslason.

Sigurjón Ingvason.

B deild - Útgáfud.: 7. júlí 2006