Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 396/2010

Nr. 396/2010 23. apríl 2010
SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Fljótsdalshéraðs og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1062/2004.

1. gr.

Í stað orðanna „11 bæjarstjórnarmönnum“ í 1. mgr. 1. gr. samþykktarinnar kemur: níu bæjarstjórnarmönnum.

2. gr.

Í stað orðanna „30 dögum“ í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar kemur: 15 dögum.

3. gr.

6. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Meðal verkefna bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs er:

  1. Að kjósa forseta og varaforseta bæjarstjórnar, bæjarráð og aðrar nefndir, ráð og stjórnir skv. V. kafla samþykktar þessarar, kjósa skoðunarmenn til að yfirfara ársreikninga sveitarfélagsins og ráða löggilta endurskoðendur eða endur­skoðunarfyrirtæki sem vinna skal að endurskoðun hjá sveitarfélaginu, stofnunum þess og fyrirtækjum.
  2. Að ákveða stjórnskipan sveitarfélagsins og ráða bæjarstjóra sbr. 61. gr.
  3. Að móta stefnu fyrir starfsemi bæjarstjórnar, deilda og stofnana, setja starfsemi sveitarfélagsins reglur, m.a. um ábyrgðarmörk nefnda, kjörinna fulltrúa og embættismanna, gjaldskrár o.þ.h. eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur.
  4. Að gera fjárhagsáætlanir og starfsáætlanir sem eru stefnumótandi fyrir deildir og stofnanir.
  5. Að bera ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja skv. VI. kafla sveitarstjórnarlaga og VI. kafla samþykktar þessarar. Bæjarstjórn tekur ákvarðanir um verulegar skuldbindingar sveitarfélagsins til lengri tíma.

4. gr.

10. gr. samþykktarinnar verður svohjóðandi:

Bæjarstjóri semur dagskrá bæjarstjórnarfundar í samráði við forseta bæjarstjórnar og skal dagskráin fylgja fundarboði.

Á dagskrá bæjarstjórnarfundar skal taka:

  1. Lögákveðnar kosningar, svo sem kosningu forseta bæjarstjórnar og varaforseta bæjarstjórnar, kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, svo og ráðningar bæjarstjóra og annarra starfsmanna í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu.
  2. Fundargerðir bæjarráðs, ráða, nefnda og stjórna á vegum sveitarfélagsins, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga.
  3. Skýrslu formanna fastanefnda að hausti, þar sem gerð er grein fyrir helstu áherslum í starfs- og fjárhagsáætlun næsta árs. Einnig skýrslu formanna fasta­nefnda að vori, þar sem gerð er grein fyrir stöðu mála og verkefna hjá ein­stökum nefndum.
  4. Önnur mál sem falla undir verksvið bæjarstjórnar og bæjarstjóri og/eða forseti bæjarstjórnar ákveður að taka á dagskrá eða einhver bæjarfulltrúi óskar að tekin verði á dagskrá. Bæjarfulltrúi sem óskar að fá mál tekið á dagskrá bæjar­stjórnarfundar skal tilkynna bæjarstjóra það skriflega, með tillögu eða fyrirspurn, fyrir kl. 12.00 fimmtudaginn fyrir bæjarstjórnarfund.

Dagskrá bæjarstjórnarfundar skulu fylgja afrit fundargerða, tillagna og annarra gagna sem bæjarstjóri telur nauðsynleg til að bæjarfulltrúar geti undirbúið sig fyrir fundinn.

Dagskrá skal jafnframt fylgja afrit fundargerðar síðasta bæjarstjórnarfundar hafi hún ekki verið send út áður.

5. gr.

Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytisins“ í 5. mgr. 14. gr. samþykktarinnar kemur: samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

6. gr.

1. mgr. 24. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarfulltrúi skal beina máli sínu til forseta bæjarstjórnar og/eða fundarins.

7. gr.

6. mgr. 31. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Umræður á bæjarstjórnarfundum skulu sendar út í rauntíma, með rafrænum hætti, þannig að sem flestir íbúar sveitarfélagsins geti fylgst með þeim, nema sbr. 3. mgr. 16. gr., auk þess sem þær skulu varðveittar í ákveðinn tíma. Bæjarstjórn skal setja um það nánari reglur.

8. gr.

42. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn skal á fyrsta fundi að afloknum bæjarstjórnarkosningum kjósa þrjá bæjarfulltrúa í bæjarráð til eins árs og jafnmarga til vara. Aðalmenn í bæjarstjórn eru einir kjörgengir sem aðalmenn og varamenn í bæjarráð.

Bæjarstjóri situr fundi bæjarráðs með málfrelsi og tillögurétt, en atkvæðisrétt hefur hann því aðeins að hann sé bæjarfulltrúi og kjörinn í bæjarráð.

Framboðslisti sem fulltrúa á í bæjarstjórn en ekki í bæjarráði má tilnefna bæjarfulltrúa til setu í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétt. Áheyrnarfulltrúi má tilnefna varamann í forföllum sínum. Ákvæði um launakjör, sbr. 39. gr., eiga einnig við áheyrnarfulltrúa.

Forfallist aðal- og varamenn eða áheyrnarfulltrúi í bæjarráði er heimilt að kalla inn varamenn af sama framboðslista í þeirri röð sem þeir skipuðu framboðslistann.

9. gr.

43. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarráð skal að jafnaði halda tvo til fjóra fundi í mánuði. Bæjarráð skal ákveða og aug­lýsa fastan fundartíma í upphafi hvers kjörtímabils bæjarstjórnar.

Aukafundi skal halda ef bæjarstjóri, formaður bæjarráðs eða a.m.k. tveir bæjar­ráðs­menn óska þess.

10. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. samþykktarinnar:

a)

Við 1. mgr. bætist:

Þá fer bæjarráð með yfirumsjón kjaramála starfsmanna þegar það á við.

b)

Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. svohljóðandi:

Bæjarráð úrskurðar um heimild til endurupptöku mála skv. 56. gr.

11. gr.

53. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur bæjarstjórn falið ráði/nefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála eða málaflokka, nema slíkt vald sé að lögum sérstaklega falið bæjarstjórn til ákvörðunar. Slík afgreiðsla skal fara fram á grundvelli samþykktar fyrir viðkomandi nefnd og ef:

  1. lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því,
  2. hún varðar ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun, og
  3. hún víkur ekki frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum málum.

12. gr.

54. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn er heimilt að fela deildastjórum fullnaðarafgreiðslu mála á sama hátt og með sömu skilyrðum og nefnd eru í 53. gr. Bæjarstjórn skal setja skýrar reglur um fullnaðarafgreiðslu deildarstjóra en viðkomandi nefndir hafa eftirlit með þeim og kalla reglulega eftir skýringum og upplýsingum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra.

Deildarstjóra er alltaf heimilt að vísa ákvörðun skv. 1. mgr. til viðkomandi nefndar til fullnaðarafgreiðslu, sérstaklega ef ætla má að aðili muni ekki vilja sæta niðurstöðu hans.

Deildarstjóri er hér skilgreindur sem stjórnandi sem heyrir beint undir bæjarstjóra í skipuriti og er starfsmaður fastanefndar.

13. gr.

Á eftir 54. gr. samþykktarinnar bætast tvær nýjar greinar og breytist röð annarra greina til samræmis við breytinguna:

a. (55. gr.)

Mál sem deildarstjóra er heimilt að afgreiða eða sem hefur fengið afgreiðslu í nefnd getur komið til ákvörðunar bæjarstjórnar með tvennum hætti:

  1. Nefnd er skylt að vísa afgreiðslu máls til bæjarstjórnar ef a.m.k. þriðjungur atkvæðisbærra fundarmanna óskar eftir því með bókun á nefndarfundi.
  2. Bæjarfulltrúi getur með formlegri og rökstuddri tillögu óskað þess að ákvörðun nefndar eða deildarstjóra, sbr. 53. og 54. gr., verði tekin á dagskrá bæjarstjórnar. Þetta gildir þó ekki ef ákvörðun hefur verið tilkynnt málsaðila og hagsmunir hans mæla gegn því að mál verði tekið upp að nýju.

b. (56. gr.)

Aðili máls á rétt á að mál hans sé tekið til meðferðar á ný eftir fullnaðarafgreiðslu þess hjá bæjarstjórn, nefnd eða deildarstjóra ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Hafi ákvörðun verið tilkynnt málsaðila og hagsmunir hans mæla gegn því að mál verði tekið upp að nýju skal það ekki gert nema ríkar ástæður mæli með því.

Beiðni um endurupptöku máls skal beina til bæjarráðs og verður að jafnaði að koma fram áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að málsaðila er tilkynnt um afgreiðslu.

Ef endurupptökuskilyrði eru fyrir hendi tekur bæjarráð ákvörðun um málsmeðferð.

14. gr.

57. gr. (er verður 59. gr.) samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, stjórnir og embætti:

A. Til eins árs á fundi í júní ár hvert:

  1. Forseti bæjarstjórnar og 1. og 2. varaforseti, skv. 14. gr.
  2. Skrifarar. Tveir aðalmenn og tveir til vara, skv. 15. gr.
  3. Bæjarráð. Þrír aðalfulltrúar í bæjarstjórn sem aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 38. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

B. Fastanefndir á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum bæjarstjórnar­kosningum:

  1. Umhverfis- og héraðsnefnd. Fimm fulltrúar og jafn margir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með umhverfis- og náttúruverndarmál og málefni dreifbýlis og hálendis samkvæmt samþykktum um umhverfis- og héraðsnefnd. Nefndin fer með málefni vinnuskóla.
  2. Skipulags- og mannvirkjanefnd. Fimm fulltrúar og jafnmargir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með skipulags og byggingamál, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Nefndin fjallar einnig um fasteignir sveitarfélagsins og fer með starfsemi þjónustumiðstöðvar.
  3. Fræðslunefnd. Fimm fulltrúar og jafn margir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með fræðslumál samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Nefndin fer einnig með málefni leikskóla og tónlistarskóla í samræmi við samþykkt um fræðslunefnd. Um málefni grunnskóla, leikskóladeildar og tónlistarskóladeildar á Hallormsstað fer sérstök skólanefnd sbr. 4. tölul. í B-hluta 59. gr. þessarar samþykktar.
  4. Skólanefnd Hallormsstaðarskóla. Tveir fulltrúar og tveir til vara og þar af skal formaður fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs vera formaður nefndarinnar. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps kýs tvo fulltrúa í nefndina og tvo til vara. Nefndin fer með stjórn grunnskóla, leikskóladeildar og tónlistarskóladeildar á Hallormsstað samkvæmt lögum og reglugerðum og í samræmi við samþykkt um nefndina.
  5. Menningar- og íþróttanefnd. Fimm fulltrúar og jafnmargir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með menningar-, íþrótta- og frístundamál samkvæmt samþykkt um menningar- og íþróttanefnd. Nefndin annast þau störf er stjórn almenningsbókasafna eru falin samkvæmt lögum nr. 36/1997 um almenningsbókasöfn.
  6. Félagsmálanefnd. Þrír fulltrúar og jafnmargir til vara. Þeir eru fulltrúar í fimm manna nefnd sem er sameiginleg nefnd Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Vopnafjarðar­hrepps. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs skipar formann en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Fer með málefni félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, barnavernd skv. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, málefni aldraðra skv. 5. gr. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989. Nefndin fer jafnframt með húsnæðismál skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998.
  7. Jafnréttisnefnd. Þrír aðalmenn og jafn margir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með jafnréttismál samkvæmt samþykkt um jafnréttisnefnd og skv. lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  8. Atvinnumálanefnd. Fimm fulltrúar og jafn margir til vara. Þar af skal a.m.k. einn aðalmaður vera kjörinn bæjarstjórnarfulltrúi. Fer með atvinnu-, markaðs- og kynningarmál samkvæmt samþykkt um atvinnumálanefnd. Nefndin fer jafnframt með stjórn Atvinnumálasjóðs.
  9. Ungmennaráð. Ellefu fulltrúar og ellefu til vara skipaðir af grunn- og fram­halds­skólum innan sveitarfélagsins ásamt fulltrúum frá félagasamtökum. Gerir tillögur til bæjarstjórnar um málefni ungmenna. Er skipað til eins árs í senn samkvæmt samþykktum um ungmennaráð.
  10. Kjörstjórnir til sveitarstjórnar- og alþingiskosninga. Bæjarstjórn kýs þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í kjörstjórn til sveitarstjórnarkosninga og alþingiskosninga. Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar er kjörstjórn kosin og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Kjörstjórn fer með þau verkefni sem henni eru falin samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórnar nr. 5/1998 og laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Sveitarstjórn hefur heimild til að skipa undirkjörstjórnir síðar, jafn margar og kjördeildir eru.
  11. Skoðunarmenn. Tveir aðalmenn og tveir til vara skv. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 (á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar).

C. Tilnefningar í félög og stjórnir:

  1. Landbótasjóður Norður-Héraðs. Þrír fulltrúar og þrír til vara samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir sjóðinn. Tveir af þremur stjórnar- og varastjórnarmönnum skulu vera búsettir eða vera eigendur lands á vatnasvæði Jökulsár á Dal. Bæjarstjórn skipar formann sjóðstjórnar. Nefndin fer með málefni land­bóta­sjóðsins samkvæmt skipulagsskránni.
  2. Brunavarnir á Héraði. Tveir fulltrúar og tveir til vara. Fulltrúar í þriggja manna stjórn brunavarna, sem er sameiginlegur rekstur sveitarfélaga á Fljótsdalshéraði. Stjórnin skiptir með sér verkum.
  3. Brunavarnir á Austurlandi. Einn aðalmaður og einn til vara.
  4. Hitaveita Egilsstaða og Fella. Fimm fulltrúar, þar af skulu a.m.k. tveir vera aðalmenn í bæjarstjórn, einn úr meirihluta og einn úr minnihluta, og fimm til vara. Fer með málefni Hitaveitu Egilsstaða og Fella samkvæmt samþykktum þar um.
  5. Almannavarnanefnd. Einn aðalmaður og einn til vara. Skipuð í samráði við aðrar sveitarstjórnir.
  6. Fulltrúar á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sbr. lög Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  7. Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands. Einn aðalmaður og annar til vara skv. 9. gr. laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994.
  8. Heilbrigðisnefnd Austurlands. Sveitarstjórnir á Austurlandi kjósa sameiginlega fimm aðalmenn og jafnmarga til vara í nefndina skv. 11. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og stofnsamning um byggðasamlag um rekstur heilbrigðiseftirlits.
  9. Fulltrúaráð Héraðsskjalasafns Austurlands til fjögurra ára. Einn aðalmaður og einn til vara skipaðir af menningarnefnd.
  10. Minjasafn Austurlands. Þrír aðalfulltrúar og þrír til vara skipaðir af menningar­nefnd.
  11. Ráðgjafanefnd um uppgræðslustarf. Fljótsdalshérað skipar einn fulltrúa í þriggja manna ráðgjafanefnd um uppgræðslustarf í samræmi við 10. gr. skipulagsskrár Landbótasjóðs Norður-Héraðs og 3. gr. samkomulags milli Landsvirkjunar og virkjunarnefndar Norður-Héraðs um ýmis mál sem tengjast Kárahnjúkavirkjun, frá 10. september 2002 og viðauka með því. Aðrir fulltrúar í nefndina eru skipaðir af Landsvirkjun og Landgræðslunni.
  12. Fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Samkvæmt samþykktum um SSA.
  13. Fulltrúaráð Skólaskrifstofu Austurlands, skv. samþykktum þar að lútandi.
  14. Vísindagarðurinn ehf. Einn aðalmaður og einn til vara.
  15. Sláturhúsið – menningarsetur. Fimm aðalmenn og fimm til vara.
  16. Reiðhöllin Iðavöllum. Tveir aðalmenn og tveir til vara.
  17. Dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum. Einn aðalmaður og einn til vara.
  18. Búfjáreftirlitsnefnd Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Einn aðalmaður og einn til vara.
  19. Svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs, austursvæði. Tveir aðalmenn og tveir til vara.
  20. Fagráð Upplýsingamiðstöðvar Austurlands. Einn aðalmaður.

Bæjarstjórn getur skipað í aðrar nefndir og stjórnir sem stofnaðar verða.

15. gr.

61. gr. samþykktarinnar (er verður 63. gr.) verður svohljóðandi:

Bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar, ræður þá deildarstjóra sem heyra beint undir hann í skipuriti og veitir þeim lausn frá störfum í samráði við viðkomandi nefndir.

Jafnframt ræður bæjarstjóri yfirmenn stofnana sveitarfélagsins í samráði við viðkomandi nefndir. Deildastjórar og forstöðumenn ráða aðra starfsmenn.

16. gr.

1. mgr. 62. gr. samþykktarinnar (er verður 64. gr.) verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn ákveður með sérstökum samþykktum hvaða störf skulu talin föst störf hjá sveitarfélaginu og stofnunum þess, auk þeirra starfa sem samkvæmt lögum og reglugerðum eru talin föst störf.

17. gr.

Í stað orðanna „yfirstandandi ár“ í 1. mgr. 63. gr. samþykktarinnar (er verður 65. gr.) kemur: næstkomandi ár.

18. gr.

Í stað tilvísunarinnar „63. gr.“ í 64. gr. samþykktarinnar (er verður 66. gr.) kemur: 65. gr.

19. gr.

67. gr. samþykktarinnar (er verður 69. gr.) verður svohljóðandi:

Strax að lokinni afgreiðslu bæjarstjórnarinnar skal senda samgöngu- og sveitar­stjórnarráðuneytinu fjárhagsáætlun skv. 65. gr. og þriggja ára áætlun skv. 68. gr. Sama á við um endurskoðaða áætlun eða breytta skv. 68. gr.

20. gr.

Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytisins“ í 4. mgr. 68. gr. samþykktarinnar (er verður 70. gr.) kemur: samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur sett skv. ákvæðum 10. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 23. apríl 2010.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Hjördís Stefánsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 7. maí 2010