Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1153/2014

Nr. 1153/2014 18. desember 2014
REGLUR
um skipan og störf hæfnisnefndar lögreglunnar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um störf hæfnisnefndar, sem veitir lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjanda við skipun í embætti innan lögreglunnar, sbr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með síðari breytingum.

2. gr.

Markmið.

Tilgangur reglnanna er að stuðla að því að val á lögreglumönnum ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem jafnræði og gagnsæi eru höfð að leiðarljósi. Hæfnisnefnd skal vera sjálfstæð í störfum sínum.

3. gr.

Skipan hæfnisnefndar.

Ríkislögreglustjórinn starfrækir hæfnisnefnd sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Í nefndinni eiga sæti þrír aðalmenn, sem skipaðir eru af ráðherra til fimm ára í senn án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður nefndarinnar. Jafnframt skal skipa þrjá varamenn. Varamaður tekur sæti í nefndinni í forföllum aðalmanns og þegar aðalmaður er vanhæfur til að veita umsögn um umsækjendur.

Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á hlutverki og starfsemi lögreglunnar. Þá skal a.m.k. einn nefndarmanna hafa haldgóða þekkingu á opinberum starfsmannarétti. Jafnframt skal gætt að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla varðandi skipan í nefndina.

4. gr.

Sérstakt hæfi nefndarmanna.

Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 49/2002.

Ef umsækjandi um embætti telur að nefndarmaður sé vanhæfur skal hann svo fljótt sem auðið er gera formanni hæfnisnefndarinnar grein fyrir þeirri afstöðu sinni á rökstuddan hátt. Athugasemdirnar skulu sendar hæfnisnefndinni til úrlausnar lögum samkvæmt.

5. gr.

Nánar um málsmeðferð.

Lögreglustjórar skulu gera hæfnisnefndinni grein fyrir niðurstöðu sinni um fyrirhugaða veitingu embættis í sérstakri matsskýrslu til nefndarinnar, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari, sem send er nefndinni ásamt umsóknargögnum og öðrum upplýsingum sem aflað hefur verið vegna málsins. Í matsskýrslu gerir lögreglustjóri hæfnisnefndinni rökstudda grein fyrir niðurstöðu sinni um fyrirhugaða veitingu embættisins. Telji nefndin þörf á frekari upplýsingum vegna málsins kemur hún beiðni um öflun þeirra á framfæri við viðkomandi lögreglustjóra.

6. gr.

Verkefni hæfnisnefndarinnar.

Hæfnisnefndin yfirfer matsskýrslu lögreglustjóra sem og umsóknargögn og aðrar þær upplýsingar eftir þörfum sem aflað er, til staðfestingar á því að málefnaleg og gild sjónarmið hafi ráðið niðurstöðum lögreglustjórans í matsskýrslu og að ráðningarferlið hafi byggt á lögmætum og réttmætum sjónarmiðum.

Við mat á hæfni umsækjenda skal gætt að almennum og sérstökum hæfisskilyrðum skv. lögum.

7. gr.

Umsögn hæfnisnefndar.

Hæfnisnefnd veitir lögreglustjóra umsögn um fyrirhugaða skipun í embætti yfirlögreglu­þjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna og annarra lögreglumanna innan embættis hans, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. a-lið 2. gr. laga nr. 51/2014. Í umsögn hæfnisnefndarinnar skal tekin rökstudd afstaða til þess hvort málefnaleg og gild sjónar­mið hafi ráðið niðurstöðum lögreglustjórans um mat á umsækjendum. Umsögn nefndar­innar skal liggja fyrir innan tveggja vikna frá því að erindi barst nefndinni.

Þegar umsögn hæfnisnefndarinnar liggur fyrir metur lögreglustjóri hvort ástæða sé til frekari gagna- eða upplýsingaöflunar.

8. gr.

Þagnarskylda.

Nefndarmenn skulu gæta þagmælsku um atriði er varða umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi.

9. gr.

Varðveisla gagna og aðgangur að þeim.

Gögn hæfnisnefndarinnar skulu varðveitt í skjalasafni nefndarinnar, sem varðveitt er í húsa­kynnum ríkislögreglustjóra og síðar í Þjóðskjalasafni.

Formaður nefndarinnar leysir úr beiðnum um aðgang að gögnum hæfnisnefndarinnar á grundvelli stjórnsýslulaga og upplýsingalaga.

10. gr.

Þóknun nefndarmanna og annar kostnaður.

Þóknananefnd ákveður þóknun nefndarmanna.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í f-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. a- lið 2. gr. laga nr. 51/2014 öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1017/2014 um skipan og störf hæfnisnefndar lögreglunnar.

Innanríkisráðuneytinu, 18. desember 2014.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2014