Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 700/2006

Nr. 700/2006 28. júlí 2006
LÖGREGLUSAMÞYKKT
fyrir Seyðisfjarðarkaupstað.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir fyrir lögsagnarumdæmi Seyðisfjarðarkaupstaðar.

II. KAFLI

Um reglu, velsæmi og almennt öryggi á almannafæri.

2. gr.

Með almannafæri er í samþykktinni átt við götur og svæði ætluð til almenningsnota. Ákvæðin um almannafæri gilda einnig eftir því sem við á um aðra staði, sem opnir eru almenningi, s.s. verslanir, veitingastaði, leiktækjastaði, kvikmyndahús, samkomuhús, biðskýli og söfn.

Með leiktækjastað er átt við stað þar sem aðgangur er veittur að leiktækjum, spilakössum, knattborðum, tölvum o.þ.h., gegn borgun.

3. gr.

Uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, má ekki eiga sér stað á almannafæri, og ekki mega menn þyrpast þar saman, ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum.

Enginn má sýna öðrum áreitni á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi.

4. gr.

Bannað er að hafast nokkuð að, sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri, ef ástæða er til að ætla að hún valdi ónæði eða truflun.

5. gr.

Þegar fjölmenni safnast saman á almannafæri við miðasölur, veitingastaði, verslanir og aðra afgreiðslustaði, skal fólk að jafnaði raða sér þannig að þeir, sem fyrstir koma, fái fyrstir afgreiðslu.

6. gr.

Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri, sem vegna ölvunar eða annarrar háttsemi sinnar valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði eða hættu.

7. gr.

Meðferð vatns við hvers konar þrif utandyra er óheimil nema í frostlausu veðri, ef það veldur rennsli á gangstétt, gangstíg eða götu, þannig að hætta eða óþægindi stafi af.

Í holræsi má ekki veita mengandi efnum svo sem spilliefnum eða efnum sem valdið geta mengun eða skemmdum í holræsakerfinu.

Eiganda eða umráðamanni húss er skylt að fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti, sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur.

8. gr.

Öllum ber að gæta þess að ganga vel um á almannafæri, valda þar ekki óþrifum og skemma þar ekki hluti, sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði. Þetta á einnig við þá hluta húsa og annarra mannvirkja, sem liggja að almannafæri.

Enginn má fleygja rusli á almannafæri nema í þar til gerð ílát.

Á mannvirki og hluti má ekki mála, teikna eða festa auglýsingar, nema með leyfi eiganda eða umráðamanns. Þá er óheimilt að koma fyrir auglýsingaskilti á almannafæri nema með leyfi bæjaryfirvalda. Uppfestar auglýsingar skulu hlutaðeigendur taka niður, þegar þær hafa fullnægt tilgangi sínum, og hreinsa vel staðinn, þar sem þær voru hafðar. Löglega uppfestar auglýsingar má enginn rífa niður, skemma eða gera ólæsilegar á annan hátt.

Hvorki má troða niður né valda með öðrum hætti skemmdum á ræktuðum blettum, grasreitum, blómabeðum og limgerðum á almannafæri.

9. gr.

Bannað er að tjalda í landi Seyðisfjarðarkaupstaðar nema á þar til merktum svæðum. Bannað er að leggja húsbílum í landi Seyðisfjarðarkaupstaðar nema á þar til merktum svæðum.

10. gr.

Ekki má á almannafæri ganga með logandi blys, kveikja í bálköstum né halda flugeldasýningar nema með leyfi lögreglustjóra.

Óheimilt er að nota skotvopn í þéttbýli nema með leyfi lögreglustjóra.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði sem varða öryggi og góða reglu.

11. gr.

Enginn má án leyfis húsráðanda láta fyrirberast á lóðum eða í húsi hans. Ekki má fara í híbýli manna í söluerindum, ef húsráðandi leggur við því bann.

Lögreglan getur bannað mönnum að hafast við á þessum stöðum, ef lögregla telur það geta valdið óþægindum eða hættu.

12. gr.

Enginn má fleygja rusli eða öðru þess háttar á lóð annars manns. Hver, sem það gerir, skal flytja óhreinindin tafarlaust burt á sinn kostnað.

13. gr.

Ef ís á sjó eða vötnum þykir ekki nógu traustur getur lögreglustjóri bannað alla umferð um hann.

14. gr.

Þegar hús er byggt, rifið, endurbyggt eða flutt, er eiganda eða verktaka skylt að forðast að valda farartálma, hættu eða óþægindum fyrir vegfarendur og skal hann setja upp skilti til leiðbeiningar, eftir því sem við á. Ef um farartálma verður að ræða skal bæjarverkstjóra og lögreglustjóra tilkynnt þar um og farið að fyrirmælum þeirra um aðgerðir vegna þess.

Girðingar, sem hafa verið reistar vegna mannvirkjagerðar, skal fjarlægja, þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Þegar hús eða annað mannvirki brennur eða það er tekið burt, án þess að annað sé byggt í staðinn, er eiganda skylt að ganga svo frá hússtæðinu án óþarfa tafar, að ekki stafi af því hætta, óþrifnaður eða óprýði.

IV. KAFLI

Um ökutæki, umferð o.fl.

15. gr.

Á almannafæri má ekki leggja eða setja neitt það sem hindrar umferð.

Ekki má gera skurð í gangstéttir, götur, torg eða önnur svæði, né raska þeim á annan hátt, þannig að truflað geti umferð, nema með leyfi bæjarverkstjóra og tilkynningu til lögreglustjóra. Að verki loknu skal færa það í samt lag sem raskað var með fullnægjandi hætti að mati bæjarverkstjóra.

Skilti til leiðbeiningar fyrir ökumenn vegna framkvæmda sem truflað geta umferð skulu sett upp að höfðu samráði við bæjarverkstjóra.

16. gr.

Vöru- og flutningabifreiðum, sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd og hópbifreiðum sem eru meira en 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, má ekki leggja á götum, einkalóðum í íbúðahúsahverfum eða almennum bifreiðastæðum bæjarfélagsins, nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar og númerslausa bíla án tillits til þunga þeirra. Bæjarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði, sem undanþágan nær til. Undanþágan getur auk staðsetningar tekið til ákveðinna tímabila.

Lögreglustjóri getur bannað stöður hjólhýsa, húsbíla, báta, flutningavagna, hestaflutningsvagna og þess háttar tækja á götum og almenningsbifreiðastæðum, ef þau þykja valda íbúum ónæði.

17. gr.

Lögreglustjóri eða bæjarstjórn getur takmarkað eða bannað umferð stórvirkra vinnuvéla, vörubifreiða eða annarra bifreiða á einstökum götum, ef slík umferð er álitin hættuleg eða til sérstakra óþæginda fyrir aðra umferð.

18. gr.

Óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt er óheimilt að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á. Regla þessi á ekki við um ökutæki lögreglu, slökkviliðs o.þ.h.

19. gr.

Innan þéttbýlis eru almenn ákvæði um hámarkshraða 50 km á klst. Lögreglustjóri getur að fengnum tillögum bæjarstjórnar, ákveðið annan hámarkshraða á einstökum götum eða bæjarhverfum.

Að öðru leyti skal fara eftir ákvæðum umferðarlaga og reglugerðum þeim sem settar verða skv. lögum um notkun bifreiða.

20. gr.

Allur akstur torfærutækja s.s. torfæruhjóla og vélsleða er bannaður innan þéttbýlis. Bæjarráð getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði á afmörkuðum svæðum og skal sú ákvörðun tilkynnt lögreglustjóra.

21. gr.

Þeir, sem flytja farm um götur bæjarins, skulu gæta þess vandlega að ganga þannig frá farminum, að ekki valdi óþrifnaði. Ef eitthvað slæðist eða hrynur niður á almannafæri við flutninginn, fermingu eða affermingu, er stjórnanda flutningstækis skylt að hreinsa það upp þegar í stað.

V. KAFLI

Um veitingastaði, skemmtanahald o.fl.

22. gr.

Veitingastaði er heimilt að hafa opna frá kl. 7 að morgni til kl. 2 eftir miðnætti virka daga vikunnar en til kl. 4 eftir miðnætti aðfaranætur laugardags og sunnudags. Stafi íbúum í nágrenni veitingastaðar ónæði af rekstrinum getur bæjarstjórn þó takmarkað opnunartíma hans.

Um veitingastaði, þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, gildir að þeim skal lokað þegar heimiluðum veitingatíma áfengis lýkur. Allir gestir skulu hafa yfirgefið veitingastaðinn eigi síðar en einni klukkustund eftir lokun hans.

Lögreglustjóri getur heimilað veitingastað að reka starfsemi sína utandyra á almannafæri með samþykki bæjarstjóra, enda takmarki það ekki umferð um svæðið.

23. gr.

Hver sá, sem rekur veitinga- eða gististað, kvikmyndahús, leikhús eða annað samkomuhús, eða heldur almenna skemmtun eða sýningu, skal sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði.

Slík starfsemi skal háð sérstöku eftirliti lögreglu og er henni heimilt að fara um samkomusali og önnur húsakynni, sem gestir eiga aðgang að.

24. gr.

Nú telur lögregla reglu á skemmtun þannig að eigi sé fært að halda henni áfram og er lögreglu þá heimilt að ákveða að skemmtun skuli slitið. Er gestum þá skylt að yfirgefa staðinn þar sem skemmtunin fer fram.

25. gr.

Enginn má reka leiktækjastað, þar sem börnum er heimilaður aðgangur án fylgdar forráðamanna, nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Áður en lögreglustjóri veitir leyfi aflar hann umsagna byggingarfulltrúa og félagsmálaráðs, sem metur hvort reksturinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til aðbúnaðar barna.

Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma í senn en fjögurra ára. Það skal bundið við nafn leyfishafa og rekstur á tilteknum stað. Lögreglustjóri ákveður gjald fyrir leyfið.

Ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum greinar þessarar eða reksturinn þykir ekki fara vel úr hendi, getur lögreglustjóri svipt hann leyfinu, enda hafi leyfishafi ekki látið segjast við aðvörun.

Börnum yngri en 14 ára er ekki heimill aðgangur að leiktækjastöðum, nema í fylgd með forráðamönnum. Miða skal aldur við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Lögreglustjóri getur sett nánari reglur um eftirlit og umgengni á leiktækjastöðum að fengnum tillögum félagsmálaráðs.

VI. KAFLI

Um verslun á almannafæri.

26. gr.

Opnunartími verslana og annarra þjónustufyrirtækja er frjáls að því marki sem heimilt er að lögum er gilda á hverjum tíma eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Bæjarstjórn getur þó takmarkað opnunar- eða þjónustutíma hjá einstökum aðilum ef starfsemin veldur nágrönnum eða vegfarendum ónæði.

27. gr.

Enga atvinnu, sem tálmar umferð, má reka á almannafæri.

Bæjarstjórn er heimilt að setja samþykktir um farandsölu og sölu á götum og torgum.

VII. KAFLI

Um dýrahald.

28. gr.

Um dýrahald fer eftir sérstökum samþykktum, s.s. samþykkt um hunda- og kattahald í Seyðisfirði.

VIII. KAFLI

Um gildi samþykktarinnar, refsingar, kostnað o.fl.

29. gr.

Ef einhver lætur það ógert, sem honum er skylt að gera samkvæmt samþykktinni eða reglum settum samkvæmt henni, getur lögreglustjóri látið framkvæma það eða gert aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra að vanrækslan valdi tjóni.

Kostnaður við þetta og kostnaður, sem leiðir af þeim ráðstöfunum, er lögreglustjóri gerir til þess að hindra brot á samþykktinni, greiðist af þeim sem ábyrgð ber eða, ef hann er eigi fær um það, úr ríkissjóði.

30. gr.

Brot gegn samþykkt þessari eða reglum sem settar eru samkvæmt henni, varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Refsimál vegna slíkra brota skulu rekin að hætti opinberra mála.

31. gr.

Lögreglusamþykkt þessi, sem bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur samið og samþykkt samkvæmt lögum um lögreglusamþykktir nr. 36/1988, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Jafnframt er numin úr gildi lögreglusamþykkt fyrir Seyðisfjarðarkaupstað nr. 166/1974, með áorðnum breytingum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 28. júlí 2006.

Björn Bjarnason.

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson.

B deild - Útgáfud.: 15. ágúst 2006