Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 814/2010

Nr. 814/2010 12. október 2010
REGLUGERÐ
um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um búnað, hreinlæti og þrif á sund- og baðstöðum og í nánasta umhverfi þeirra, hreinsun og sótthreinsun baðvatns, aðbúnað gesta, öryggi og meng­unarvarnir.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um alla sund- og baðstaði sem almenningur hefur aðgang að. Reglugerðin gildir einnig um baðstofur og setlaugar sem reknar eru í tengslum við annan atvinnurekstur sem er eftirlitsskyldur samkvæmt lögum um holl­ustuhætti og mengunarvarnir.

Undanskilin ákvæðum reglugerðarinnar eru sundlaugar og setlaugar við eða í heima­húsum og frístundahúsum, sem eingöngu eru ætlaðar til einkanota. Reglugerðin gildir ekki um sjóböð og náttúrulaugar.

2. gr.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér greinir:

  1. Álagsþol: Afkastageta mannvirkis.
  2. Baðstofa: Klefi eða aflokað rými sem hitað er upp með vatnsgufu, svokallað eimbað, eða sánabað sem oftast er hitað upp með rafmagni.
  3. Baðvatn: Vatn sem notað er í laugar.
  4. Bakskolun: Ferli við hreinsun sandsíu.
  5. Bundinn klór: Klór sem bundist hefur lífrænum efnum og hefur því takmarkaða virkni til sótthreinsunar.
  6. Endurnýjunarhraði: Hraði endurnýjunar á fersku vatni.
  7. Frír klór: Klór sem er virkur og nýtist til sótthreinsunar.
  8. Hleypiefni: Efni sem binda óhreinindi við hreinsun laugavatns.
  9. Hringrásartími: Sá tími sem það tekur allt laugarvatnið að fara í gegnum hreinsi­tækin.
  10. Iðulaug: Laug þar sem lofti er dælt í laugarvatnið.
  11. Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstraraðila með starfseminni framkvæmt af honum sjálfum, starfsmönnum hans eða þjónustuaðila í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.
  12. Laug: Ker eða þró með volgu vatni, samheiti yfir hvers konar laugar stórar sem smáar.
  13. Laugargæsla: Stöðug öryggisgæsla laugarvarðar með gestum í laug.
  14. Náttúrulaug: Laug gerð af náttúrunnar hendi eða úr einföldu mannvirki, þar sem böð eru stunduð og vatn ekki meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt.
  15. Neyðaráætlun: Verklagsreglur starfsfólks um viðbrögð við slysum.
  16. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi rekstri.
  17. Setlaug: Laug eða ker þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 34°C - 44°C.
  18. Síunarhraði: Hraði vatnsins yfir flatarmál síu.
  19. Sund- og baðstaður: Hvers konar sundlaugar úti sem inni, setlaugar, iðulaugar, kennslulaugar, varmalaugar, endurhæfingarlaugar, barnalaugar, busllaugar, laugar á hótelum og sumardvalarstöðum og baðstofur.
  20. Sundlaug: Laug, notuð til sundiðkunar, þar sem hitastig vatnsins er 27°C - 29°C.
  21. Starfsleyfi: Ákvörðun heilbrigðisnefndar í formi skriflegs leyfis sem heimilar tilteknum rekstraraðila að starfrækja sund- eða baðstað.
  22. Sýrustig: pH-gildi.
  23. Varmalaug: Laug þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 30°C - 34°C, svo sem í barnalaugum og endurhæfingarlaugum.
  24. Viðbragðsáætlun: Verklagsreglur starfsmanna um viðbrögð og aðgerðir ef eldsvoða, náttúruvá, alvarleg slys eða aðra almannahættu ber að.
  25. Viðurkenndur klórgjafi: Klórgjafi sem Umhverfisstofnun viðurkennir.
  26. Öryggisreglur: Reglur sem rekstraraðili setur sér til að stuðla að öryggi gesta.
  27. Öryggiskerfi: Rafrænn búnaður, t.d. myndavélar, bjöllur, rofar eða hljóðmerki sem notað er til þess að tryggja öryggi.

II. KAFLI

Flokkun lauga.

3. gr.

Laugum er skipt í þrjár aðalgerðir, sundlaugar, varmalaugar og setlaugar, með tilliti til mismunandi ákvæða um hitastig.

Eftir gerð hreinsibúnaðar og miðlun á klór eru sundlaugar, varmalaugar og setlaugar flokkaðar í eftirtalda flokka:

A flokkur: Laugar með opið eða lokað hringrásarkerfi, fullkominn hreinsibúnað, sjálfvirka stjórnun og gát á notkun hleypiefna, klórskömmtun og sýrustigi, svo og síritun upplýsinga um klór og sýrustig. Endurnýjun vatns er fyrirfram ákvörðuð og ræðst af rúmmáli, hitastigi og gerð laugar. Laugarvatn er forhitað í laugum með lokuðu hringrásarkerfi áður en því er hleypt út í laugina. Yfirfleytirennur/-ristar skulu vera á a.m.k. tveimur þriðja hluta af ummáli nýrra og endurbyggðra lauga óháð lögun laugar.

B flokkur: Laugar með opið hringrásarkerfi þar sem vatni er dælt í gegnum hreinsibúnað en hitastigi vatnsins er haldið við með því að bæta stöðugt við heitu vatni beint frá veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C. Umframvatni sem við það skapast er hleypt beint í útrennsli. Stjórnun klórmagns og sýrustigs er ónákvæm og síritun upplýsinga um klór og sýrustig er ekki til staðar.

C flokkur: Laugar án hreinsibúnaðar. Vatn er tekið beint úr veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C og leitt í laug og þaðan í útrennsli. Stýring á klórmagni og sýrustigi er jafnan ekki með sjálfvirkum hætti.

4. gr.

Nýjar laugar og endurbyggðar skulu uppfylla ákvæði um laugar í A flokki.

Laugar sem falla í B flokk skulu hafa uppfyllt ákvæði um sjálfvirkni, sbr. ákvæði um A flokk lauga, fyrir 1. janúar 2013. Heilbrigðisnefnd getur veitt laugum minni en 3 m³ sem ekki eru reknar í tengslum við sund- og baðstaði undanþágu frá ákvæðum um sjálfvirka klór- og sýrustigsstjórnun.

Fyrir laugar sem falla í C flokk er hægt að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar um að nota ekki sótthreinsiefni. Leyfi má veita að undangenginni rannsókn á örveruinnihaldi baðvatnsins sbr. I. viðauka. Þegar ekki er notaður klór skal vakin sérstök athygli á því í merkingum laugar.

Sé náttúrulegt sýrustig baðvatns að jafnaði á bilinu 7–8 getur heilbrigðisnefnd heimilað að vikið sé frá ákvæðum um stjórnun sýrustigs. Heimild til undanþágu á einnig við um setlaugar með takmarkaða notkun.

III. KAFLI

Starfsleyfi og eftirlit.

5. gr.

Sund- og baðstaðir skulu hafa starfsleyfi viðkomandi heilbrigðisnefndar. Sækja skal um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Rekstraraðili eða eftir atvikum eigandi skal með hæfilegum fyrirvara tilkynna heilbrigðisnefnd um fyrirhugaðar breytingar á starfseminni sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, svo sem við eigandaskipti og ef umtalsverðar breytingar verða á búnaði, húsnæði eða rekstri.

Í skilyrðum fyrir starfsleyfi sund- og baðstaðar skal tryggt að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar og gæða- og umhverfismarkmið fyrir hámarksmengun vegna frárennslis, sbr. fylgiskjal 1 í reglugerð um fráveitur og skólp, sbr. einnig ákvæði 18. gr. þessarar reglugerðar.

Um útgáfu starfsleyfis og eftirlit fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti. Um aðgengi dýra fer samkvæmt ákvæðum sömu reglugerðar.

6. gr.

Heilbrigðisnefnd á hverjum stað undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar hefur eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.

7. gr.

Í starfsleyfi skal gera kröfu um innra eftirlit.

Í innra eftirliti skal skrá, eftir því sem við á, frían og bundinn klór, sýrustig, niðurstöður örveru- og efnamælinga, hitastig vatns í laugum, bakskolun, tæmingu og hreinsun lauga. Einnig skal skrá efnanotkun, endurstillingar á mælitækjum og aðrar viðhaldsaðgerðir. Búnaður og tæki til vatnshreinsunar skal yfirfarinn að minnsta kosti árlega eða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Á sund- og baðstöðum skulu vera skriflegar verkáætlanir sem segja til um framkvæmd og tíðni þrifa. Allar skráningar og upplýsingar skulu vera aðgengilegar eftirlitsaðila. Gestafjölda skal skrá daglega.

Í þeim laugum þar sem sjálfvirk miðlun, gát og skráning er á klór og sýrustigi skal samanburðarmæling gerð á fríum og bundnum klór ásamt sýrustigi a.m.k. daglega. Skal sú mæling skráð sérstaklega. Þar sem slík sjálfvirkni er ekki til staðar skal mæling og skráning fara fram a.m.k. fjórum sinnum á dag þegar aðsókn er mikil og a.m.k. tvisvar á dag þegar aðsókn er lítil. Í þeim tilvikum þar sem heilbrigðisnefnd hefur heimilað að vikið sé frá stjórnun sýrustigs, sbr. 2. mgr. 4. gr. skal það mælt reglulega, samkvæmt ákvæðum starfsleyfis.

Heilbrigðisnefnd getur gert kröfu um að rekstraraðili sund- eða baðstaðar láti taka ný sýni til örverumælinga ef örveruástand laugar er í ólagi og rekja má það m.a. til þess að innra eftirliti er ekki sinnt sem skyldi.

Rekstraraðili lætur framkvæma rannsóknir á örverufræðilegu innihaldi baðvatns sem gerð er krafa um samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar og I. viðauka.

Þær rannsóknarstofur sem annast örverurannsóknir á vatni samkvæmt reglugerð þessari skulu standast almennar kröfur um starfsemi prófunarstofa og hafa fengið faggildingu, sbr. lög um faggildingu o.fl.

IV. KAFLI

Húsakynni og aðbúnaður.

8. gr.

Við hönnun sund- og baðstaða skal ákvarða gestafjölda sem mannvirkinu er ætlað að anna á hverri klukkustund. Skrá skal leyfilegan hámarksfjölda gesta í starfsleyfi. Heilbrigðisnefnd skal meta leyfilegan hámarksfjölda gesta á eldri sund- og baðstöðum og skrá hann í starfsleyfi. Við ákvörðun á leyfilegum gestafjölda skal hafa til viðmiðunar stærð fataskiptarýmis, sturtufjölda, fjölda salerna, afkastagetu hreinsibúnaðar og aðra þá þætti sem takmarkað geta gestafjölda, sbr. ákvæði um álagsþol í II. viðauka. Á sund- og baðstöðum skal sjá til þess að aðgengi fatlaðra sé samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

Mannvirki og búnaður á sund- og baðstöðum skal þannig gerður og viðhaldið að fyllsta öryggis og þrifnaði verði komið við. Húsakynni skulu vera rúmgóð, björt, hæfilega hituð og loftræst á fullnægjandi hátt. Í laugarsal innilauga skal vera fullnægjandi loftræsting. Við hönnun nýrra sundlauga og við endurgerð eldri lauga, þegar laugum í B flokki er breytt í A flokk, skal gera ráð fyrir nauðsynlegri lýsingu og öryggiskerfi svo sem myndavélum eða öðrum viðurkenndum búnaði sem tryggir öryggi undir vatnsyfirborði. Stærð á og lögun niðurfallsrista og rista yfir útsogsopum skal vera þannig að ekki sé hætta á að fólk geti sogast fast við þær. Gólfefni skal uppfylla viðeigandi staðla um hálkuviðnám. Umhverfis laug skal vera a.m.k 1,5 m breitt steypt eða hellulagt svæði eða annað sambærilegt yfirborðsefni sem auðvelt er að ræsta og sótthreinsa. Gönguleiðum við útilaugar skal halda frostfríum og lýsing við laugar skal vera góð. Þannig skal gengið frá setlaugum að ekki sé hætta á að börn geti dottið í þær. Mannheld girðing skal vera umhverfis laugarsvæði.

9. gr.

Í búningsaðstöðu skal miða við a.m.k. 0,5 m² rými fyrir hvern gest. Gestir skulu þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laugar. Þar sem samtímis geta dvalið allt að 50 gestir skal vera a.m.k. eitt salerni ásamt handlaug fyrir hvort kyn. Fyrir hverja 100 gesti til viðbótar bætist við eitt salerni fyrir hvort kyn. Í búningsaðstöðu karla geta í stað tveggja salerna komið eitt salerni og tvö þvagstæði. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna og þvagstæða. Um salerni gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um hollustuhætti.

Aðgangur skal vera að salerni við sturtur. Við mat á nauðsynlegum fjölda sturta skal miða við það að hver sturta sé notuð af 12 manns á klukkustund. Aldrei skulu þó vera færri en tvær sturtur fyrir hvort kyn og þrjár á þeim stöðum þar sem sundkennsla fer fram. Í baðaðstöðu skulu gestir hafa aðgang að mildri fljótandi húðsápu og aðstaða skal vera til að sinna ungbörnum á öruggan hátt. Þar skulu einnig vera fyrirmæli um að gestir þvoi sér án sundfata áður en gengið er til laugar.

10. gr.

Þess skal gætt að baðstofa sé loftræst á viðeigandi hátt og þannig sé gengið frá hurðum að þær opnist auðveldlega út úr klefanum. Lýsing skal vera í klefanum og neyðar­hnappur. Á klefanum skal vera gagnsætt efni, sjónop eða á annan hátt möguleiki til eftir­lits vegna öryggis gesta sem í klefanum dvelja. Aðgangur skal vera að sturtu í beinum tengslum við baðstofu.

Hitagjafar, ofnar og útstreymisop, skulu varin þannig að ekki sé hætta á að af þeim hljótist slys.

Í eða við baðstofur skulu vera mælar sem sýna raka- og hitastig í klefanum og skulu þeir vera þannig staðsettir að gestir eigi auðvelt með að fylgjast með þeim.

Þar sem jarðgufa er notuð beint til upphitunar skal gæta þess að styrkur hættulegra gastegunda verði ekki of hár. Sýnt skal með mælingum að styrkur brennisteinsvetnis fari ekki yfir 10 ppm. Ef mælingar gefa til kynna að styrkur brennissteinsvetnis sé að jafnaði yfir leyfilegum mörkum skal gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta eða loka jarðgufunni að öðrum kosti.

Baðstofur og setlaugar sem ekki eru reknar í tengslum við sund- og baðstaði skulu fullnægja kröfum 9. gr. um salerni, sturtur og búningsaðstöðu.

V. KAFLI

Öryggi á sund- og baðstöðum.

11. gr.

Á sund- og baðstöðum skal vera til staðar neyðaráætlun, viðbragðsáætlun og öryggis­reglur og skulu allir starfsmenn upplýstir um þær. Öryggisreglur skulu vera sýni­legar gestum. Þar skal jafnframt vera tiltækur viðurkenndur búnaður til skyndi­hjálpar. Skal sá búnaður yfirfarinn reglulega og starfsmenn, sundkennarar og sund­þjálfarar þjálfaðir í notkun hans ásamt viðbrögðum við neyðartilvikum a.m.k. einu sinni á ári.

Sund- og baðstaðir skulu hafa laugargæslu. Á sund- og baðstöðum skal ávallt vera laugargæsla meðan gestir eru í laug. Tryggja skal að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði og hafi eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugar og sinni ekki öðru starfi samhliða. Aðstaða starfsmanns sem sinnir laugargæslu skal tryggð með yfirsýn, öryggiskerfi t.d. myndavélum, speglum eða á annan fullnægjandi hátt. Við almenningslaugar allt að 25 x 12,50 metrar að stærð skal að minnsta kosti vera einn laugarvörður við laugargæslu. Við laugar lengri en 40 m eða flóknari uppbyggingu skal hafa minnst tvo laugarverði við laugargæslu. Yfirmenn sund- og baðstaða skulu sérstaklega taka tillit til þessara þátta á mestu annatímum. Í innra eftirliti sund- og baðstaða skal skilgreina laugargæslu í hverri laug fyrir sig.

Í laugum með sjálfvirkri skömmtun á klór skal laugarvörður hafa stöðuga yfirsýn yfir klór, hita- og sýrustig. Þar sem ekki er hægt að fylgjast með sjálfvirkri skömmtun klórs á skjá, skal laugarvörður fylgjast með skömmtuninni reglulega.

12. gr.

Merkja skal greinilega hitastig í setlaugum og aðra þætti varðandi öryggi og slysahættu, svo sem þegar dýpi lauga er minna en 1,2 m eða yfir 3,0 m, hættu við dýfingar, hálku á laugarbökkum og annað það sem nauðsynlegt þykir vegna öryggis sundgesta. Staðsetning skilta skal vera þannig að laugargestir komist ekki hjá því að sjá skiltin. Upplýsingar á skiltum skulu vera skýrar og læsilegar. Leturstærð skal taka mið af lestrarfjarlægð.

Í starfsleyfi skulu vera sérstök ákvæði um fyrirkomulag merkinga, stærð og gerð skilta, staðsetningu o.þ.h. með hliðsjón af aðstæðum á viðkomandi stað.

Vatnshiti í sturtum og handlaugum skal ekki vera hærri en 43°C og skal það tryggt með sjálfvirkum hitastýrðum blöndunartækjum og segulloka eða öðrum sambærilegum búnaði.

Innstreymi í laugar skal ekki vera heitara en 55°C og skal það tryggt með sjálfvirkum hitastýrðum blöndunartækjum og segulloka eða öðrum sambærilegum búnaði. Hitastig vatns skal ekki fara yfir 44°C. Búnaður með yfirhitavara fyrir of heitt vatn skal vera til staðar.

13. gr.

Á sund- og baðstöðum skulu vera til láns eða leigu armkútar eða sundjakkar sem hæfa notendum og sundhettur, armbönd eða sambærileg auðkenni fyrir börn. Armkútar og annar búnaður sem látinn er gestum í té skal uppfylla ákvæði reglugerðar um persónuhlífar til einkanota og vera CE merktur. Yfirfara skal búnaðinn reglulega.

14. gr.

Börnum yngri en 10 ára er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Ekki skal leyfa viðkomandi að hafa fleiri en tvö börn með sér, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna. Um sundkennslu fer samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Dýpi þess svæðis laugar sem notað er við sundkennslu yngri barna en 8 ára og ósyndra skal vera á bilinu 0,70-1,05 m.

Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers leiðbeinanda, sem er ábyrgur fyrir hópnum, og gæslumanna lauga. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Forráðamenn hópa kynni sér reglur sund- og baðstaða og aðstoði starfsfólk við gæslu.

Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sund­kennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nem­endur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðar­atriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara og þjálfara varðandi nemendur og iðkendur.

Laugar í einkaeigu með takmarkaðan aðgang, svo sem laugar í eigu félagasamtaka sem aðeins félagsmenn hafa aðgang að, eru undanþegnar ákvæði um stöðuga laugargæslu sbr. 1. mgr. 11. gr. Eiganda eða eftir atvikum rekstraraðila slíkra lauga ber að setja skýrar reglur um notkun laugar þegar laugargæsla er ekki til staðar. Ekki skulu færri en tveir syndir einstaklingar fara saman í laugina. Ekki má veita börnum og ósyndum einstaklingum aðgang að laug án fylgdar ábyrgðarmanns. Við þessar aðstæður skal vera til staðar búnaður til skyndihjálpar, sími eða neyðarrofi tengdur lögreglu eða annarri neyðarþjónustu ef óhapp eða slys verður.

Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sund- og baðstöðum.

15. gr.

Eiganda sund- og baðstaðar er skylt að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfs­þjálfun eigi sjaldnar en árlega, þar með talin þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp sem sérstak­lega er ætluð sund- og baðstöðum og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Þeir starfs­menn sem vinna við meðferð tækja, þar með talin mælitæki, búnaðar og efna vegna hreinsunar vatnsins skulu árlega fá viðeigandi þjálfun í meðferð þeirra.

Starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar og sundþjálfarar skulu hafa náð 18 ára aldri og árlega standast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka. Prófskírteini skulu vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengileg.

Haldin skal skrá yfir slys sem verða í eða við laugar og skal hún vera heilbrigðiseftirliti aðgengileg.

VI. KAFLI

Heilnæmi vatnsins.

16. gr.

Vatn sem notað er í laugar skal uppfylla örverufræðilegar kröfur sem gerðar eru til neysluvatns. Vatnið skal vera tært og án sýnilegra óhreininda svo sem froðu eða agna. Örveruinnihald baðvatns skal standast ákvæði IV. viðauka.

17. gr.

Vatn í laugum skal hreinsa og sótthreinsa. Til sótthreinsunar baðvatns skal nota natríumhýpóklórít eða aðra viðurkennda klórgjafa. Magn klórs ákvarðast af gerð laugar, sbr. flokkun lauga sem fram kemur í 3. gr. Heilbrigðisnefnd getur veitt leyfi til að nota aðrar aðferðir eða önnur efni en klór til sótthreinsunar á baðvatni. Heilbrigðisnefnd ber að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt. Með umsókn um slík leyfi skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um virkni þeirrar aðferðar eða samsetningu og virkni þess efnis sem sótt er um leyfi fyrir ásamt öðrum eiginleikum þess.

Styrkur klórs, sýrustig, endurnýjunarhraði og síunarhraði vatns í laugum skal vera í samræmi við kröfur í II. viðauka, sbr. þó ákvæði 4. gr. Við handvirka mælingu á klórmagni í laugum skal nota ljósgleypnimæli eða tæki með sambærilegri nákvæmni og sýrustigsmæli með nákvæmni að lágmarki pH 0,1.

18. gr.

Um meðferð og geymslu á klór á og við sund- og baðstaði skal fara eftir leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins.

Við losun og hreinsun lauga skal gera ráðstafanir sem tryggja að umhverfi og lífríki mengist ekki. Þetta á sérstaklega við þar sem þannig háttar til að frárennsli frá laug er ekki tengt fullkomnu fráveitukerfi.

Ekki er heimilt að hleypa klórmenguðu vatni út í ár og vötn eða svæði þar sem það getur spillt drykkjarvatni eða lífríki.

VII. KAFLI

Viðurlög, málsmeðferð og gildistaka.

19. gr.

Eigandi sund- og baðstaðar ber ábyrgð á því að farið sé eftir ákvæðum þessarar reglugerðar. Sé rekstraraðili annar en eigandi skulu aðilar gera með sér samning um hlutverk rekstraraðila við framfylgd ákvæða reglugerðar þessarar og skal þess þá gætt að skýrt sé hver sé ábyrgð aðila.

20. gr.

Um valdsvið, þvingunarúrræði og úrskurði fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Um viðurlög fer samkvæmt VIII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unarvarnir.

21. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin er einnig sett að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið hvað varðar öryggisráðstafanir á sund- og baðstöðum, sbr. ákvæði 14. gr. íþróttalaga nr. 64/1998.

Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2011. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 457/1998 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Umhverfisráðuneytinu, 12. október 2010.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 27. október 2010