Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 683/2010

Nr. 683/2010 18. ágúst 2010
SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Álftaness nr. 507/2004 með síðari breytingum.

1. gr.

12. gr. samþykktarinnar, sem ber fyrirsögnina „Fundartími bæjarstjórnar“ verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn heldur reglulega fundi einu sinni í mánuði, að jafnaði fjórða fimmtudag hvers mánaðar.

Bæjarstjórnarfundir skulu að jafnaði hefjast kl. 16.30, nema bæjarstjórn ákveði annað. Bæjarstjórn er heimilt að fella niður fundi í bæjarstjórn í allt að tvo mánuði að sumarlagi, að jafnaði í júlí og ágúst.

Aukafundi skal halda í bæjarstjórn eftir því sem þörf krefur að mati bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar og skylt er að halda aukafund í bæjarstjórn ef a.m.k. þriðjungur bæjarfulltrúa krefst þess, enda geri þeir grein fyrir ástæðum og fundarefni.

2. gr.

28. gr. samþykktarinnar, sem ber fyrirsögnina „Takmarkanir á ræðutíma“ verður svohljóðandi:

Bæjarfulltrúi má tala tvisvar við hverja umræðu máls í allt að 5 mínútur í fyrra skiptið og allt að 3 mínútur í seinna skiptið. Óski bæjarfulltrúi eftir lengri umræðu vegna einstaks máls sem er til umfjöllunar á fundinum, skal hlutaðeigandi beina beiðni þess efnis til forseta og skal ræðutími í fyrri umræðu þá lengdur í 15 mínútur og í 5 mínútur við seinni umræðu. Heimilt er þó bæjarfulltrúa að tala í þriðja sinn til að bera af sér ámæli eða til að gera stutta athugasemd sem getur þá einnig tekið til fundarstjórnar forseta. Má þá þessi liður umræðunnar ekki taka lengri tíma en tvær mínútur. Flutningsmaður tillögu eða framsögumaður (talsmaður flutningsmanna) mega tala þrisvar við hverja umræðu máls með sömu tímatakmörkunum og að ofan greinir og í allt að 5 mínútur í þriðja skiptið.

Forseti getur leyft bæjarfulltrúum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara því á tveimur mínútum. Heimilt er forseta að stytta ræðutíma hvers ræðumanns í þessum umræðum. Orðaskipti í andsvörum mega ekki standa lengur en fimmtán mínútur í einu.

Umræður um fjárhagsáætlun og ársreikninga bæjarsjóðs og stofnana hans eru ekki háðar ákvæðum greinar þessarar um tímatakmörk ræðutíma.

Forseta er þó heimilt að rýmka ræðutíma sé mál það umfangsmikið eða mikilvægt að ekki sé hægt að ræða það á fullnægjandi hátt innan þeirra reglna sem kveðið er á um í 1. mgr. Sömuleiðis er forseta heimilt að rýmka ræðutíma ef sérstaklega stendur á og nauðsyn krefur. Ákvörðun forseta skv. þessari málsgrein skal liggja fyrir áður en umræða hefst.

3. gr.

48. gr. samþykktarinnar, sem ber fyrirsögnina „Kosning í bæjarráð“ verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn skal á fyrsta fundi að afloknum bæjarstjórnarkosningum kjósa þrjá bæjarfulltrúa í bæjarráð til eins árs og jafnmarga til vara. Aðalfulltrúar í bæjarstjórn eru einir kjörgengir sem aðalmenn í bæjarráð og aðal- og varafulltrúar í bæjarstjórn eru kjörgengir sem varamenn í bæjarráð, sbr. 61. gr. samþykktar þessarar.

Bæjarstjóri situr fundi bæjarráðs með málfrelsi og tillögurétt, en atkvæðisrétt hefur hann aðeins ef hann er bæjarfulltrúi og kjörinn í bæjarráð.

Bæjarstjórn getur ákveðið að heimila framboðslista sem fulltrúa á í bæjarstjórn en eigi nær kjöri í bæjarráð að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi bæjarráðs með málfrelsi og tillögurétt.

4. gr.

52. gr. samþykktarinnar, sem ber fyrirsögnina „Fjármálastjórn og fullnaðarafgreiðsla mála“ verður svohljóðandi:

Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn bæjarfélagsins og fjármála­stjórn að því leyti sem slík stjórn er ekki falin öðrum. Bæjarráð hefur umsjón með stjórnsýslu bæjarfélagsins, undirbúningi árlegrar fjárhagsáætlunar, semur drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og fyrirtækja hans að fengnum tillögum hlutaðeigandi stjórna og leggur þau fyrir bæjarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þá sér bæjarráð um að ársreikningar bæjarsjóðs séu samdir og þeir, ásamt ársreikningum stofnana og fyrirtækja bæjarfélagsins, séu lagðir fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu, svo sem sveitarstjórnarlög mæla fyrir um.

Bæjarráð gerir tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála, sem það fær til meðferðar. Bæjarráði er þó heimil fullnaðarafgreiðsla mála sem ekki varða verulega fjárhag bæjarfélagsins eða stofnana þess, enda sé ekki ágreiningur milli bæjarráðs­fulltrúa eða við bæjarstjóra um slíka afgreiðslu. Bæjarráð ákveður skiptingu og ráðstöfun fjár sem ætlað er til einstakra málaflokka samkvæmt fjárhagsáætlun, svo sem til gatna­gerðar, nýbygginga og óvissra útgjalda.

Þá getur bæjarstjórn falið bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg.

Ef mál sem bæjarráð hefur heimild til að afgreiða eru samhljóða samþykkt í bæjarráði hefur bæjarstjóri heimild til að láta framkvæma þau. Ef mótatkvæði kemur fram í bæjarráði við afgreiðslu máls, bíður frekari vinnsla þess afgreiðslu bæjarstjórnar.

5. gr.

61. gr. samþykktarinnar, sem ber fyrirsögnina „Nefndir, ráð, stjórnir, tilnefningar og kosningar“ verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, ráð og stjórnir:

A. Fulltrúar kosnir á fundi í júní hvert ár:

  1. Bæjarráð. Bæjarstjórn kýs að afloknum bæjarstjórnarkosningum þrjá aðalfulltrúa úr bæjarstjórn í bæjarráð til eins árs og þrjá aðal- eða varafulltrúa úr bæjarstjórn til vara skv. 38. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Eingöngu bæjarfulltrúar eru kjörgengir sem aðalmenn í bæjarráð. Bæjarráð er kosið árlega. Kjósa skal í bæjarráð á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og síðan árlega í júnímánuði sbr. 48. gr. samþykktarinnar. Auk verkefna bæjarráðs, skv. 52. gr. samþykktar­innar, fer ráðið með verkefni kjara-, ferða- og atvinnumála.

B. Nefndir: Hér er um að ræða fagnefndir sem sinna faglegu starfi þeirra málaflokka sem þeim hafa verið falin af bæjarstjórn með erindisbréfum.

  1. Félagsmálanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í félags­málanefnd, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, og barna­verndar­lög nr. 80/2002. Félagsmálanefnd er kosin á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Félagsmálanefnd fer með verkefni jafnréttisnefndar, húsnæðisnefndar, öldrunar­nefndar og barnaverndarnefndar, hefur umsjón með daggæslu í heima­húsum, hefur umsjón með framkvæmd barnaverndarlaga, laga um málefni fatlaðra og málefni aldraðra. Auk verkefna sem félagsmálanefnd hefur með höndum samkvæmt lögum getur bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi. Nefndin tilnefnir fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra í bæjarfélaginu.
  2. Íþrótta-, tómstunda og menningarmálanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í íþrótta-, tómstunda- og menningarmálanefnd samkvæmt heimild í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 og lögum um æskulýðsmál nr. 70/2007. Íþrótta-, tómstunda- og menningarmálanefnd er kosin á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Auk verkefna sem íþrótta-, tómstunda- og menningarmálanefnd hefur með höndum samkvæmt lögum getur bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi.
  3. Kjörstjórnir til sveitarstjórnar- og alþingiskosninga. Bæjarstjórn kýs þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í yfirkjörstjórn til sveitarstjórnarkosninga og alþingis­kosninga. Á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar er kjörstjórn kosin og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Yfirkjörstjórn fer með þau verkefni sem henni eru falin samkvæmt ákvæðum laga um kosningar til sveitar­stjórna nr. 5/1998 og laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Bæjarstjórn kýs einnig þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í tvær undirkjörstjórnir og skal kosið á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar.
  4. Umhverfis- og skipulagsnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í umhverfis- og skipulagsnefnd, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, auk þess sinnir nefndin lögbundnum verkefnum gróðurverndarnefndar og náttúru­verndarnefndar. Nefndin er kosin á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Auk verkefna sem umhverfis- og skipulagsnefnd hefur með höndum samkvæmt lögum er nefndin bæjarstjórn til ráðuneytis í umferðarmálum og skal gera tillögur um bættar samgöngur innan bæjarins og aukið öryggi fyrir vegfarendur. Nefndin annast ferlimál fatlaðra, en einnig getur bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindis­bréfi.
  5. Fræðslunefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í fræðslunefnd. Fræðslunefnd er kosin á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Fræðslunefnd fer með málefni grunnskóla samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla, málefni tónlistarskóla sam­kvæmt lögum nr. 75/1985 um tónlistarskóla, málefni bókasafna samkvæmt lögum nr. 36/1997 um skóla- og almenningsbókasöfn og málefni leikskóla sam­kvæmt lögum nr. 90/2008 um leikskóla. Auk verkefna sem fræðslunefnd hefur með höndum samkvæmt lögum getur bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi.

C. Stjórnir og samstarfsráð: Hér er um að ræða stjórnir stofnana með sjálfstæðan fjárhag og tilnefningar í samstarfsráð sem hafa endanlegt ákvörðunarvald í málefnum sínum, þ.e. þurfa ekki staðfestingu bæjarstjórnar til að koma málum í framkvæmd innan ákveðins fjárhagslegs ramma. Kjörtímabil þeirra er samkvæmt samþykktum um stjórn viðkomandi stofnunar.

  1. Almannavarnanefnd. Bæjarstjórn kýs tvo fulltrúa og tvo til vara í sameiginlega almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins samkvæmt lögum um almannavarnir nr. 82/2008. Fulltrúar bæjarfélagsins eru kosnir á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.
  2. Stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í Bláfjallanefnd samkvæmt ákvæðum samstarfssamnings. Fulltrúi bæjar­félagsins er kosinn á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtíma­bil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  3. Fjallskila- og afréttarnefnd. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í sameiginlega fjallskila- og afréttarnefnd Sveitarfélagsins Álftaness, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Fulltrúi bæjarfélagsins er kosinn á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  4. Heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Sveitarfélagsins Álftaness. Bæjarstjórn kýs einn áheyrnarfulltrúa og annan til vara í fimm manna heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðar­kaupstaðar og Sveitarfélagsins Álftaness samkvæmt ákvæðum laga um hollustu­hætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Fulltrúi bæjarfélagsins er kosinn á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  5. Stjórn Strætó bs. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í stjórn Strætó bs. samkvæmt samningum þar um og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  6. Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. samkvæmt samningum þar um og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  7. Stjórn Sorpu bs. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í stjórn Sorpu bs. samkvæmt samningum þar um og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.
  8. Stjórn SSH. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara til setu í stjórn SSH, sbr. samþykktir sem um SSH gilda hverju sinni.
  9. Samvinnunefnd um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórn kýs tvo fulltrúa í samvinnunefnd um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.
  10. Hjúkrunarheimilið Holtsbúð. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og annan til vara í stjórn Holtsbúðar samkvæmt samningum þar um og er kjörtímabil hans hið sama og bæjarstjórnar.

D. Tilnefningar og kosningar: Kosnir fulltrúar á ársþing og ársfundi stofnana sem bæjarfélagið á aðild að. Kosning skal fara fram á fyrsta og öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og síðan í júní ár hvert vegna þeirra tilnefninga sem gilda í eitt ár.

E. Lögbundin kosning embættismanna: Samkvæmt lögum ber bæjarstjórn að kjósa eftirtalda embættismenn:

  1. Skoðunarmenn bæjarsjóðsreikninga. Bæjarstjórn kýs tvo skoðunarmenn og jafnmarga til vara samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Skoðunarmenn bæjarsjóðsreikninga eru kosnir á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar til loka kjörtímabils bæjarstjórnar.

Verkefnabundnar nefndir. Bæjarstjórn getur kosið nefndir (lausanefndir) til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils bæjarstjórnar og fyrr ef verkefni nefndar er lokið. Bæjarstjórn getur þó afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er. Bæjarstjórn útbýr erindisbréf fyrir nefndirnar þar sem hlutverk og staða þeirra eru skilgreind.

Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur sett samkvæmt ákvæðum 10. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, með síðari breytingum, stað­festist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. ágúst 2010.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.

B deild - Útgáfud.: 3. september 2010