Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1131/2013

Nr. 1131/2013 4. desember 2013
REGLUR
um AVS - rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs.

1. gr.

Markmið.

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi (kt. 440304-3460) hefur það markmið að veita styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem stuðla að auknu verðmæti íslensks sjávarfangs og efla samkeppnishæfni sjávarútvegs og fiskeldis hér á landi. Styrkir eru veittir til verkefna sem varða alla þætti sjávarútvegs og fiskeldis og einnig annarra verkefna sem tengjast sjávarútvegi, s.s. á sviði líftækni, markaðsmála, vinnslu sjávarfangs, fræðslu, menntunar, upplýsingamiðlunar, vegna meðferðar hráefnis, bættrar tækni við fiskvinnslu o.fl.

2. gr.

Umsýsla.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn sjóðsins. Ráðherra skipar sjóðnum þriggja manna úthlutunarnefnd til fjögurra ára í senn. Í úthlutunarnefnd sjóðsins skulu eiga sæti fulltrúar atvinnulífsins og stjórnvalda sem hafa þekkingu á hagsmunum sjávarútvegsins. Þá skulu skipaðir jafnmargir varamenn í nefndina. Ráðherra úthlutar úr sjóðnum eftir forgangsröðuðum tillögum frá úthlutunarnefnd. Byggðastofnun fer með umsýslu sjóðsins samkvæmt sérstökum samningi við sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra.

3. gr.

Fagráð.

Fagráð skulu skipuð af Byggðastofnun eftir tillögum úthlutunarnefndar, til tveggja ára í senn fyrir tiltekin fagsvið og vera ráðgefandi fyrir úthlutunarnefnd m.a. um þau verkefni sem sótt er um styrk fyrir á sérsviði viðkomandi fagráðs.

4. gr.

Umsóknir.

Auglýsa skal að minnsta kosti árlega eftir umsóknum um úthlutun styrkja með áberandi hætti. Í auglýsingum skulu koma fram upplýsingar um áherslur sjóðsins á hverjum tíma. Tilgreina skal umsóknarfrest og hvaða gögn skuli leggja fram með umsóknum hverju sinni. Í umsóknum skulu umsækjendur greina frá öðrum styrkjum sem þeir þiggja eða hafa þegið frá öðrum aðilum vegna viðkomandi verkefnis og hvort þau verkefni sem sótt er um styrki til séu unnin í samstarfi við aðra aðila. Staðfesting frá samstarfsaðilum þarf ávallt að fylgja umsókn. Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnanir eða aðrir lögaðilar.

5. gr.

Framkvæmd úthlutunar.

Ákvarðanir um styrkveitingar skulu byggðar á niðurstöðu faglegs mats á umsóknum, með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett hafa verið sjóðnum, sbr. 1. gr., gæðum rannsóknaverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknir og aðstöðu þeirra til að sinna verkefnunum.

Styrkirnir skulu greiddir út eftir framvindu verkefna á grundvelli verkáætlunar og áfanga­skýrslna. Lokagreiðslur skulu háðar skilum á lokaskýrslum. Byggðastofnun skal krefjast endurgreiðslu útgreiddra styrkja eða styrkhluta, verði verulegur, óútskýrður dráttur á framvindu- eða lokaskýrslum verkefna.

Óheimilt er að framselja styrki sem veittir eru af AVS rannsóknasjóði samkvæmt þessum reglum.

6. gr.

Fjármögnun og tekjur.

Tekjur AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi skulu vera fjárveitingar á fjárlögum ár hvert og önnur framlög sem sjóðnum kunna að berast.

7. gr.

Ýmis atriði.

Um aðgang aðila að gögnum sjóðsins sem varða mál þeirra gilda eftir því sem við á ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012, með síðari breytingum. Um aðgang að upplýsingum um styrki og önnur gögn úr sjóðnum fer að öðru leyti eftir upplýsingalögum nr. 140/2012, með síðari breytingum.

Við skipan í úthlutunarnefnd og fagráð skal gæta að ákvæðum 2. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Um framkvæmd úthlutunar styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og aðrar reglur stjórnsýsluréttarins.

8. gr.

Starfsreglur.

Úthlutunarnefnd skal setja sér starfsreglur varðandi framkvæmd við úthlutun styrkja.

9. gr.

Önnur atriði.

Byggðastofnun skal skila ársskýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um starf­semi sjóðsins eigi síðar en 1. júní ár hvert, fyrir næsta almanaksár á undan. Reikn­ings­ár AVS rannsóknasjóðs um aukið virði sjávarfangs er almanaksárið. Reikningar sjóðs­ins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

10. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka gildi 1. janúar 2014. Frá sama tíma falla úr gildi reglur sjóðsins frá 20. desember 2010.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. desember 2013.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.

B deild - Útgáfud.: 18. desember 2013