Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 817/2010

Nr. 817/2010 25. október 2010
REGLUGERÐ
um lögskráningu sjómanna.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi sem gerð eru út í atvinnuskyni að undanskildum þeim sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS).

2. gr.

Lögskráningarskylda.

Skylt er að lögskrá alla skipverja, sem eru ráðnir til starfa um borð í skipi skráðu hér á landi. Skipstjóra er skylt að sjá um að skipverjar séu lögskráðir í skiprúm og úr skiprúmi. Óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm. Þetta gildir þó ekki í neyðartilvikum. Þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé lögskráður úr skiprúmi.

Heimilt er að lögskrá aðra en skipverja þann tíma sem viðkomandi dvelja um borð í skipi sem er í förum enda leggi þeir fram yfirlýsingu tryggingafélags um líf- og slysa­tryggingar.

3. gr.

Framkvæmd lögskráningar.

Siglingastofnun Íslands úthlutar skráningaraðgangi að lögskráningarkerfi sjómanna á grundvelli rafrænna skilríkja/auðkenna til þeirra útgerða og skipstjóra sem þess óska og vilja lögskrá á sín skip sjálf.

Skipstjóri ber ábyrgð á því að lögskráning fari fram í gegnum lögskráningarkerfið með rafrænum hætti. Skipstjóra er heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráninguna. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að senda öll áskilin gögn og upplýsingar til skráningar hjá Siglingastofnun Íslands.

Einungis er heimilt að lögskrá í skiprúm ef eftirtalin gögn eða upplýsingar liggja fyrir:

  1. Skírteini skipverja eða undanþágur, þ.m.t. skipstjóra.
  2. Mælibréf skips og haffærisskírteini.
  3. Staðfesting á að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt.
  4. Yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skal Siglingastofnun ganga úr skugga um að tryggingarnar séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Nú vanrækir útgerðarmaður að hafa líf- og slysatryggingu í gildi og er hann þá ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Reynist útgerðarmaður eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.

4. gr.

Undanþágur frá lögskráningarskyldu.

Siglingastofnun Íslands getur veitt frístundafiskiskipum og björgunarskipum undanþágu frá lögskráningarskyldu.

Skilyrði fyrir undanþágu frá lögskráningarskyldu eru að útgerðarmaður eða skipstjóri leggi fram:

  1. yfirlýsingu um að hann muni manna skipið í samræmi við lög og reglur, þar með talið að einungis lögmætir handhafar tilskilinna skírteina verði í áhöfn og að skipið verði mannað í samræmi við tilskilinn lágmarksfjölda;
  2. yfirlýsingu frá tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja og skal Siglingastofnun ganga úr skugga um að þær tryggingar séu í samræmi við gildandi lög.

5. gr.

Öryggisfræðslunámskeið.

Óheimilt er að ráða mann til starfa á íslenskt skip eða lögskrá nema hann hafi hlotið öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Við lögskráningu skipverja skal Siglingastofnun krefjast yfirlýsingar um að skipverji hafi gengist undir slíkt námskeið. Vanti slíka yfirlýsingu skal ekki lögskráð fyrr en úr því hefur verið bætt.

Skylda til skráningar á öryggisfræðslunámskeið, hjá öðrum en skipverjum á farþega- og flutningaskipum, kemur þó ekki til fyrr en skipverji hefur verið lögskráður í 180 daga.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita skipverja tímabundinn frest í eitt sinn til að gangast undir öryggisfræðslunámskeið til þess tíma sem hann er skráður á öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum aðila.

6. gr.

Endurmenntun öryggisfræðslu.

Öryggisfræðslu skipverja skal endurnýja eigi sjaldnar en á fimm ára fresti með námskeiði við Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Óheimilt er að ráða mann til starfa á íslenskt skip nema hann hafi endurnýjaða öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. Við lögskráningu skal Siglingastofnun krefjast yfirlýsingar um að skipverji hafi gengist undir öryggisfræðslunámskeið á síðastliðnum fimm árum. Ef slíka yfirlýsingu vantar skal ekki lögskráð fyrr en úr því hefur verið bætt.

Skylda til skráningar á endurmenntunarnámskeið, hjá öðrum en skipverjum á farþega- og flutningaskipum, kemur þó ekki til fyrr en skipverji hefur verið lögskráður í 180 daga.

Skipverjar sem gengust undir námskeið í öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila á árinu 2005 eða fyrr hafa frest til að gangast undir slíkt námskeið fyrir 15. febrúar 2011.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita skipverja tímabundinn frest í eitt sinn til endurnýjunar öryggisfræðslu til þess tíma sem hann er skráður á öryggis­fræðslu­námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum aðila.

7. gr.

Eftirlit.

Siglingastofnun skal fylgjast með að lögskráð sé á skip sem eru lögskráningarskyld.

Starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að fara um borð í íslensk skip, á hafi sem í höfn, og kanna lögmæti lögskráningar og skilríki um réttindi yfirmanna. Sé þessu ábótavant ber að kæra það. Við ítrekað brot sama skipstjóra má færa skip til hafnar. Bera má þá ákvörðun undir dómstóla eftir sömu reglum og gilda um heimild til að bera rannsóknaraðgerðir í sakamáli undir dóm.

Veita skal þó skipstjóra stuttan tíma til leiðréttingar á röngum færslum eða skráningu í lögskráningarkerfið áður en kæra verður gefin út.

8. gr.

Brot.

Um brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæði 9. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 7. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010, staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. nóvember 2010 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 880/2001 með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 25. október 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 28. október 2010