Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 404/2007

Nr. 404/2007 8. maí 2007
REGLUGERÐ
um greiningardeild ríkislögreglustjóra.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Ríkislögreglustjóri annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu lögregluliða á landsvísu. Ríkislögreglustjóri starf­rækir lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Heiti deildarinnar er greiningardeild ríkislögreglustjóra og á enskri tungu National Security Unit.

Starfssvæði greiningardeildar ríkislögreglustjóra nær til alls landsins.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í störfum ríkislögreglustjóra samkvæmt reglugerð þessari, og annarra aðila þegar það á við, skal stuðst við eftirfarandi skilgreiningar:

  1. Hættumat (hazard assessment) felst í að gera kerfisbundið grein fyrir þeirri vá sem fyrir hendi er. Tilgangurinn er að meta stærð og líkindi mögulegra atburða og hættu á að ákveðin svæði eða staðir verði fyrir tiltekinni vá.
  2. Áhættugreining (risk assessment) felst í að skilgreina hversu mikil áhættan er fyrir líf og limi fólks og að meta áhrif vár á eignir og á atvinnulíf og aðra þætti mannlífs.
  3. Ógnarmat (threat assessment) felst í að meta áhættustig varðandi ógn af mannavöldum vegna einstakra verkefna, svo sem vegna opinberra heimsókna, sendiráða og stjórnarstofnana. Á sviði flugverndar er framkvæmt hættumat vegna ógnar gagnvart flugvöllum, flugvélum og flugrekstri almennt. Á sviði siglinga­verndar er framkvæmt áhættumat vegna ógnar gagnvart hafnaraðstöðu, skipum og siglingum.
  4. Vástig (threat level) segir fyrir um umfang viðbúnaðar lögreglu miðað við ógnarmat og er grundvallað á því áhættumati sem er fyrirliggjandi vegna þess að talin er aukin áhætta af vá af mannavöldum.
  5. Stefnumiðuð greining (strategic analysis) varðar ógn af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi til lengri tíma og gerð áhættumats á víðtækum grunni sem tekur mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segir til um líklega fram­tíðar­þróun.
  6. Aðgerðamiðuð greining (operational analysis) varðar rannsóknar- og greiningar­vinnu vegna lögregluaðgerða.

3. gr.

Skipulag.

Ríkislögreglustjóri fer með stjórn og samræmir störf lögreglu á sviði öryggismála, með það að markmiði að fyrirbyggja háttsemi sem kann að varða við ákvæði X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrirbyggja hryðjuverk og skipulagða glæpa­starfsemi.

Ríkislögreglustjóri getur falið lögreglustjórum ákveðna verkþætti og að leggja til mann­skap til stuðnings við aðgerðir greiningardeildar. Lögreglustjóri höfuðborgar­svæðisins leggur til mannskap til stuðnings við aðgerðir undir stjórn greiningar­deildar, s.s. vegna skygginga, hlerunaraðgerða o.fl. Embætti lögreglustjórans á Suður­nesjum annast greiningu fólksumferðar til og frá landinu.

Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur um útfærslu einstakra verkþátta hjá lögreglu­stjórum.

4. gr.

Hlutverk og verkefni.

Hlutverk greiningardeildar ríkislögreglustjóra er að annast verkefni á sviði öryggismála, sem m.a. felast í rannsóknum mála, aðgerðarmiðuðu greiningar- og áhættumati og stefnu­­miðuðum greiningum.

Sérstök verkefni greiningardeildar ríkislögreglustjóra eru eftirfarandi:

  1. Safna upplýsingum, úrvinnsla, greining og skipti á upplýsingum í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á afbrotum.
  2. Meta hættu og áhættu vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka og eftir atvikum annarra brota er falla undir X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
  3. Gefa reglulega út ógnarmat vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka.
  4. Annast áhættugreiningu vegna einstaklinga og afla upplýsinga vegna verndar og öryggisgæslu fyrir æðstu stjórn ríkisins.
  5. Veita ráðgjöf um viðbúnað sem hefur þýðingu fyrir hagsmuni ríkisins og þjóðhags­lega mikilvæga starfsemi.
  6. Taka þátt í undirbúningi aðgerða til stuðnings lögreglunni í landinu og afla upp­lýsinga í málum er tengjast öryggi ríkisins.
  7. Veita lögregluliðum aðstoð vegna landamæravörslu.
  8. Annast öryggisúttekt á einstaklingum og útgáfu vottorða um öryggisgráður vegna starfsemi lögreglu og vegna þátttöku í alþjóðlegu samstarfi af hálfu stjórnvalda.
  9. Hafa eftirlit með því að reglum sé fylgt um meðhöndlun gagna sem eru öryggis­gráðuð.
  10. Taka þátt í neyðaráætlanagerð almannavarna.
  11. Taka þátt í aðgerðarstjórn ríkislögreglustjóra vegna sérstakra verkefna.
  12. Ríkislögreglustjóri mælir fyrir um almennt vástig og sérstakt vástig vegna flug­verndar og siglingaverndar í samræmi við alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að.

5. gr.

Upplýsinga- og greiningarmiðstöð á landsvísu.

Til þess að tryggja boðskipti og upplýsingamiðlun milli öryggisstofnana ríkisins skal greiningardeild ríkislögreglustjóra leggja til aðstöðu fyrir fasta tengiliði frá Landhelgis­gæslu Íslands og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem skulu hver um sig hafa fastan starfsmann við störf hjá greiningardeild sem tengiliðir sinna stofnana við deildina. Þá getur ríkislögreglustjóri óskað eftir aðkomu fleiri stofnana með sama hætti svo sem tollstjóra eða Útlendingastofnunar.

Við störf sín hjá greiningardeild lúta tengiliðir boðvaldi yfirmanna greiningardeildar og reglum ríkislögreglustjóra um meðferð trúnaðarupplýsinga.

Sérstakt dulkóðað öryggissamband skal vera milli starfsstöðvar greiningardeildar ríkis­lögreglustjóra, lögreglustjórans á Suðurnesjum og Landhelgisgæslunnar með tengingar við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

6. gr.

Alþjóðlegt samstarf.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra fer með alþjóðlegt samstarf við öryggisstofnanir annarra landa. Upplýsingum sem eru veittar af erlendum öryggisstofnunum skal ekki miðla til annarra nema með leyfi viðkomandi öryggisstofnunar.

7. gr.

Verklagsreglur.

Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur um starfsemi greiningardeildar og meðferð upp­lýsinga. Í verklagsreglum skal meðal annars mæla fyrir um samvinnu við Landhelgis­gæsluna, lögreglustjórana, tollstjóra og Útlendingastofnun.

Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur um miðlægan gagnagrunn samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 5. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, sbr. ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr. sömu laga, eins og því var breytt með 1. gr. laga nr. 46 13. júní 2006, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 8. maí 2007.

Björn Bjarnason.

Þorsteinn Geirsson.

B deild - Útgáfud.: 9. maí 2007