1. gr. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra skulu nema 0,95% af útsvarsstofni, auk sérstakra framlaga á fjárlögum. Skulu tekjurnar renna í sérstaka deild innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Við skil á staðgreiðslu útsvars samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, skal jafnframt gera Jöfnunarsjóði skil á hlutdeild sjóðsins í staðgreiðslu. Fjársýsla ríkisins skal sjá um útreikning á tekjum þessum og skiptir innheimtri staðgreiðslu hvers mánaðar milli ríkis, sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Tekjur sjóðsins skulu reiknaðar af þeim stofni sem staðgreiðsla hvers mánaðar er greidd af. Tekjur Jöfnunarsjóðs af útsvarsstofni vegna yfirfærslunnar á árinu 2011 munu taka mið af staðgreiðsluskilum vegna mánaðanna janúar til nóvember og berast sjóðnum á tímabilinu febrúar til desember. 2. gr. Áætlun framlaga 2011. Við áætlun framlaga til sveitarfélaga sem mynda þjónustusvæði, sbr. lög um málefni fatlaðra, eða einstakra sveitarfélaga skal áætla útsvarsstofn næstliðins árs fyrir hvert sveitarfélag. Á grundvelli þess skal áætla útsvarstekjur sem renna til einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Útgjaldaþörf þjónustusvæða og einstakra sveitarfélaga tekur mið af framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010 sbr. 3. gr. Mismunur heildarútgjaldaþarfar hvers þjónustusvæðis eða sveitarfélags og áætlaðra útsvarstekna er grunnur að framlagi ársins 2011. Heimilt er að endurskoða matið innan ársins ef ástæða er til að ætla að forsendur þess hafi breyst. 3. gr. Greining á skiptingu framlaga 2010. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga vinnur greiningu á skiptingu framlaga ríkisins vegna þjónustu við fatlað fólk árið 2010. Við greininguna skal tekið tillit til þeirra viðbóta og tilfærslna milli fjárlagaliða sem fram koma í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga 2011, sem og sérstakra framlaga á fjárlögum ársins 2011. Við greininguna skal ganga út frá því hvernig framlög skiptust milli ábyrgðaraðila þjónustunnar árið 2010. Sérstök framlög sem ekki tilheyra tilteknum svæðum skulu við greininguna falla undir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Framlög vegna fasteigna á fjárlagalið Framkvæmdasjóðs fatlaðra falla undir Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem fjallað er um í sérstakri reglugerð. 4. gr. Greining á skiptingu framlaga 2010 milli sveitarfélaga á Reykjanesi. Framlögum sem skv. 3. gr. koma í hlut sveitarfélaga á Reykjanesi skal skipt milli þeirra í sama hlutfalli og kostnaður á árinu 2010 samkvæmt sérstakri kostnaðargreiningu. Kostnaður skal að öllu jöfnu greindur á grundvelli rekstraráætlunar Svæðisskrifstofu Reykjaness fyrir árið 2010. Þó skal í þeim tilfellum þar sem gerðar voru verulegar breytingar á fyrirkomulagi rekstrar og þjónustu innan ársins 2010 byggja á áætluðum rekstrarkostnaði ársins 2011. Nota skal nýjustu skrár yfir þjónustuþega við skiptingu milli sveitarfélaga. Kostnaði sérhverrar rekstrareiningar eða viðfangsefnis rekstraráætlunar skal skipta milli sveitarfélaga með eftirfarandi hætti: - Kostnaður vegna sambýla, áfangastaða, þjónustu- og íbúðakjarna skal teljast til þess sveitarfélags þar sem viðkomandi heimili er staðsett.
- Kostnaði vegna frekari liðveislu skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga þjónustuþega í hlutfalli við fjölda þjónustutíma. Hafi þjónustu þegar verið skipt milli sveitarfélaga skal notast við þá skiptingu.
- Kostnaður vegna samninga um sértæka þjónustu við tiltekna einstaklinga skal falla undir lögheimilissveitarfélag viðkomandi einstaklinga.
- Kostnaði við dagþjónustu, hæfingu og verndaða vinnu skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga þjónustuþega í hlutfalli við fjölda þjónustutíma.
- Kostnaði vegna atvinnu með stuðningi skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga þjónustuþega í hlutfalli við fjölda þjónustuþega.
- Kostnaði vegna heimila fyrir börn skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga í hlutfalli við fjölda barna.
- Kostnaði vegna stuðningsfjölskyldna skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga þjónustuþega í samræmi við raungreiðslur.
- Kostnaði vegna skammtímavistana skal skipt milli lögheimilissveitarfélaga þjónustuþega í hlutfalli við fjölda þjónustusólarhringa.
- Kostnaði vegna styrkja skv. 27. gr. laga um málefni fatlaðra skal skipt milli sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda.
- Kostnaði við rekstur fasteigna skal skipt milli sveitarfélaga í hlutfalli við fermetrafjölda fasteigna sem kostnaðurinn nær til.
- Kostnaði vegna skrifstofu og ráðgjafar skal skipt þannig að 67% kostnaðar skiptast milli sveitarfélaga í sama hlutfalli og kostnaður samkvæmt liðum a.-j. og 33% skiptast milli sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda.
5. gr. Frekari greining á kostnaðarskiptingu á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að fara fram á kostnaðargreiningu vegna einstaklinga sem sækja þjónustu til annars sveitarfélags en lögheimilissveitarfélags. Skal þá beitt sömu aðferðum og fram koma í 4. gr. eftir því sem við á. 6. gr. Frekari greining á kostnaðarskiptingu innan þjónustusvæða. Þjónustusvæðum og sveitarfélögum er heimilt að fara fram á kostnaðargreiningu og skal þá kostnaði skipt milli sveitarfélaga eða félagsþjónustusvæða með sömu aðferðum og fram koma í 4. gr. Þó skal heimilt að aðlaga kostnaðargreiningu að ákvörðunum þjónustusvæða um skiptingu milli félagsþjónustusvæða. Áætluðum útsvarstekjum einstakra félagsþjónustusvæða umfram kostnað samkvæmt kostnaðargreiningu, skal varið til sameiginlegra verkefna þjónustusvæðisins. 7. gr. Almenn framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Skipta skal áætluðum heildartekjum ársins 2011, sbr. 1. gr., öðrum en sérstökum framlögum á fjárlögum vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og breytingarkostnaðar, milli sveitarfélaga og þjónustusvæða sem og milli sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Fasteignasjóðs. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk eru óháð öðrum framlögum sjóðsins og skerða ekki önnur framlög hans. Senda skal sveitarfélögum upplýsingar um áætluð framlög ársins 2011 og greiðsludreifingu þeirra eftir því sem við verður komið. Framlög skulu greidd mánaðarlega. Heimilt er að endurskoða framlög innan ársins í samræmi við breytingar á áætluðum tekjum sbr. 1. gr. Útreiknuð framlög ársins 2011 skal leiðrétta þegar endanlegur álagningarstofn útsvars ársins 2011 liggur fyrir. Leiðréttingin skal fara fram fyrir 31. desember 2012 og skal leiðrétting framlaga til hvers sveitarfélags eða þjónustusvæðis koma til frádráttar/viðbótar almennum framlögum Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlaða á árinu 2013. Reynist áætlunin lægri en frádráttur er heimilt að taka af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs til að mæta mismuninum 8. gr. Önnur framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Framlögum til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) skal varið í samræmi við áætlun sem unnin er af verkefnisstjórn NPA og samþykkt af samráðsnefnd um málefni fatlaðra. Framlögum vegna breytingarkostnaðar skal varið í samræmi við áætlun sem unnin er af samráðsnefnd um málefni fatlaðra og samþykkt af velferðarráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Framlögum vegna breytingarkostnaðar er meðal annars heimilt að verja til að greiða kostnað vegna: - Starfa samráðsnefndar um málefni fatlaðra s.s. mats á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar og vinnu að bættu eftirliti með þjónustu við fatlað fólk.
- Upplýsingasöfnunar, greiningar og ráðgjafar á vegum samráðsnefndarinnar.
- Samræmds mats á þjónustuþörf á landsvísu.
- Breytingastjórnunar einstakra þjónustusvæða og sveitarfélaga eftir því sem framlög duga til.
- Samhæfingarkostnaðar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
- Útfærslu jöfnunaraðgerða og fasteignamála.
- Færslu gagna milli sérhæfðra upplýsingakerfa vegna þjónustu við fatlað fólk og frágang skjalasafna svæðisskrifstofa.
9. gr. Mat á þjónustuþörf. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur forgöngu um samræmt mat á þjónustuþörf á landsvísu, semur við matsaðila um framkvæmd matsins og ber kostnað af því. Heimilt er að ákveða að greiðsla kostnaðar takmarkist við mat á tilteknum fjölda einstaklinga. Þjónustusvæði og sveitarfélög fela matsaðila, skv. 1. mgr. framkvæmd matsins á grundvelli ákvæða laga um málefni fatlaðra og er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að krefja þjónustusvæði og sveitarfélög um niðurstöður slíks mats. 10. gr. Staðfesting. Tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutanir framlaga á grundvelli þessarar reglugerðar skulu hljóta staðfestingu ráðherra. Við setningu vinnureglna skal hafa samráð við samstarfsnefnd um málefni fatlaðra. 11. gr. Endurskoðun reglugerðar. Endurskoða skal reglugerð þessa eigi síðar en 1. október 2011. 12. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 29. desember 2010. Ögmundur Jónasson. Ragnhildur Hjaltadóttir. |