Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 928/2013

Nr. 928/2013 7. október 2013
REGLUR
um inntöku nýnema og inntökupróf í lagadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

Ákvörðun um fjöldatakmörkun.

Félagsvísindasvið, fyrir hönd lagadeildar, leggur árlega fyrir háskólaráð rökstudda tillögu um fjölda stúdenta sem hefja nám við lagadeild á komandi skólaári. Skal erindi frá félagsvísindasviði þess efnis sent háskólaráði fyrir lok nóvember. Háskólaráð afgreiðir tillögur sviðsins eigi síðar en í janúar.

2. gr.

Inntökupróf og próftökugjald.

Inntökupróf til að hefja grunnnám í lagadeild er haldið í júní ár hvert fyrir nám sem hefst á næsta haustmisseri. Prófið er haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði á hans vegum.

Lagadeild auglýsir inntökuprófið og birtir sérstaka lýsingu á því og framkvæmd þess ásamt upplýsingum um innbyrðis vægi inntökuprófs og stúdentsprófs við ákvörðun um inntöku nýnema á heimasíðu deildarinnar í síðasta lagi átta vikum fyrir áætlaðan prófdag.

Í samræmi við 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla er heimilt að innheimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Ef ákveðið er að innheimta próftökugjald fer um fjárhæð þess og innheimtu samkvæmt sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands.

3. gr.

Markmið og innihald inntökuprófs.

Inntökuprófið er Aðgangspróf fyrir háskólastig (APH). Kennslusvið Háskóla Íslands í samráði við lagadeild annast undirbúning þess og framkvæmd.

Markmið prófsins er að kanna hæfni stúdents til að hagnýta þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér í samræmi við markmið aðalnámskrár framhalds­skól­anna.

Prófað er í eftirtöldum fimm þáttum: upplýsinganotkun, málfærni, lesskilningi á íslensku, lesskilningi á ensku og stærðum og reiknanleika.

4. gr.

Skráning til náms í lagadeild Háskóla Íslands.

Þeir nemendur sem hyggjast hefja nám í lagadeild skulu skrá sig fyrir 5. júní ár hvert og verða þá sjálfkrafa skráðir í inntökupróf enda uppfylli þeir þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Háskóla Íslands og ákvæði 6. gr. reglna nr. 319/2009 um inntöku­skilyrði í grunnnám.

5. gr.

Ákvörðun um inntöku.

Innan marka 1. gr. er ákvörðun um inntöku nýnema í lagadeild byggð á frammistöðu á inntökuprófinu og meðaleinkunn á stúdentsprófi.

Frammistöðu á inntökuprófi og meðaleinkunn á stúdentsprófi skal vega saman í tilteknum hlutföllum í samræmi við ákvörðun lagadeildar sem er birt samkvæmt 2. mgr. 2. gr.

Tiltekinn fjöldi, ákveðinn skv. 1. gr., þeirra nemenda sem bestum árangri ná miðað við frammistöðu, sem tekur mið af inntökuprófinu og meðaleinkunn á stúdentsprófi, fær rétt til náms í lagadeild Háskóla Íslands. Nemandi sem öðlast rétt til náms í lagadeild, að loknu inntökuprófi, skal hefja námið á næsta haustmisseri eftir prófið. Ákveði hann að nýta sér ekki þann rétt, þá öðlast sá nemandi sem næstur var í frammistöðu, sem tekur mið af inntökuprófinu og meðaleinkunn á stúdentsprófi, þann rétt. Séu tveir eða fleiri nemendur jafnir, að teknu tilliti til 4. mgr., öðlast báðir eða allir rétt til náms á næsta haustmisseri eftir að inntökupróf er tekið.

Lagadeild er heimilt að láta þá þætti inntökuprófsins sem varða málfærni og lesskilning á íslensku ráða úrslitum ef tveir eða fleiri nemendur eru með sömu heildarniðurstöðu eftir að frammistaða á inntökuprófi og meðaleinkunn á stúdentsprófi hefur verið vegin saman og ef ekki er mögulegt með öðrum hætti að ákvarða fjölda nemenda innan takmarkana 1. gr.

Ákvörðun um að taka nýnema inn í lagadeild samkvæmt 1. mgr. skal tilkynnt honum sérstaklega þegar niðurstaða liggur fyrir. Hafi nýnemi ekki staðfest innan tveggja vikna að hann muni hefja nám við deildina verður sætinu úthlutað til þess sem næstur er í röðinni.

6. gr.

Nefnd um inntöku nýnema.

Lagadeild skipar þriggja manna nefnd um inntöku nýnema til að hafa eftirlit með fram­kvæmd inntökuprófsins, meta reynsluna af því og aðgangstakmörkunum og gera til­lögur um úrbætur ef með þarf. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.

7. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar um inntöku nýnema og inntökupróf í lagadeild eru settar af háskólaráði með stoð í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. og 13. mgr. 91. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands með síðari breytingum.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglurnar í kafla lagadeildar í kennsluskrá og á heimasíðu lagadeildar.

Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 7. október 2013.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. október 2013