Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 949/2008

Nr. 949/2008 30. september 2008
REGLUR
um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglur þessar gilda um númera- og þjónustuflutning í talsímanetum, hvort sem er innan kerfis sama fjarskiptafyrirtækis eða milli fjarskiptafyrirtækja, númera- og þjónustu­flutning í farsímanetum og flutning IP fjarskiptaþjónustu, eftir því sem við á.

Markmið þessara reglna er að kveða á um skilvirkan númera- og þjónustuflutning, auka neytendavernd notenda í talsíma-, farsíma- og internetþjónustu, koma í veg fyrir óþarfa tafir og stuðla að góðri samvinnu um flutning þjónustu milli starfandi fjarskiptafyrirtækja á markaði.

Reglur þessar ná til fjarskiptafyrirtækja, með almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu og bjóða almenna talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og IP fjar­skiptaþjónustu.

2. gr.

Skilgreiningar.

Vísað er til skilgreininga í fjarskiptalögum en auk þeirra hafa eftirfarandi orð sérstaka merkingu:

Almennt fjarskiptanet: Fjarskiptanet sem er notað að öllu eða að mestu leyti til að bjóða almenna fjarskiptaþjónustu.

Farsímaþjónusta: Þjónusta opin almenningi sem miðlar innlendum og alþjóðlegum sím­tölum um notendabúnað sem ekki er tengdur föstum nettengipunkti.

Fráfarandi fjarskiptafyrirtæki: Fjarskiptafyrirtæki sem rétthafi númers hefur óskað eftir að númer sitt verði flutt frá.

Innvalsnúmeraröð: Samfelld röð númera sem úthlutað hefur verið áskrifanda til notkunar og gerir mögulegt að beina símtölum til einstakra notenda í einkasímstöð eða einkanet hans í samræmi við síðustu tölustafi númeranna.

IP fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem veitt er yfir almenn IP fjarskiptanet, s.s. tölvupóstþjónusta, vefþjónusta, nafnaþjónusta, skráaflutningur og spjallrásir. Ennfremur rekstrarþættir t.d. vistun léna og skráning IP neta.

Móttakandi fjarskiptafyrirtæki: Fjarskiptafyrirtæki sem rétthafi númers hefur óskað eftir að númer sitt verði flutt til.

Númer: Númer sem notendur fjarskiptaþjónustu fá úthlutað hjá fjarskiptafyrirtæki vegna tengingar við fjarskiptanet þeirra og hægt er að hringja í eða nota til að sækja fjar­skiptaþjónustu frá þjónustuveitendum.

Númeraflutningur: Möguleiki áskrifenda til að flytja með sér númer sín þegar þeir breyta um þjónustuveitanda, heimilisfang eða þjónustu.

Talsímaþjónusta: Þjónusta opin almenningi sem miðlar innlendum og alþjóðlegum sím­tölum um notendabúnað sem tengdur er föstum nettengipunkti.

Þjónustuflutningur: Flutningur á fjarskiptaþjónustu notanda frá einu fjarskiptafyrirtæki (fráfarandi) til annars fjarskiptafyrirtækis (móttakandi).

II. KAFLI

Réttur til númeraflutnings og forsendur höfnunar
á beiðni um númeraflutning.

3. gr.

Skylda til að verða við beiðni um númeraflutning.

Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn tal- og/eða farsímanet, þ.m.t. samnet, og heimilað hefur verið að úthluta notendum sínum númerum skulu gefa þeim kost á númera­flutningi samkvæmt fjarskiptalögum og reglum þessum.

4. gr.

Númeraflutningur í talsímaþjónustu.

Rétthafar númera í talsímaþjónustu sem gera þjónustusamning við annað fjarskipta­fyrirtæki en þeir eru þegar tengdir skulu eiga rétt á að flytja með sér númer sem þeir eru skráðir rétthafar að til móttakandi fjarskiptafyrirtækis.

Rétthafi númera sem flytur sig milli fjarskiptafyrirtækja og vill halda númerum sínum í innvalsröð skal eiga þess kost að flytja samtímis númer sem eru laus í sömu númeraröð í beinu framhaldi af númerum sem hafa verið í notkun. Óski rétthafi, sem þegar hefur flutt sig, eftir að bæta við númerum úr sömu númeraröð skal fráfarandi fjarskiptafyrirtæki verða við slíkri beiðni eftir því sem unnt er, enda hafi númerunum ekki verið úthlutað öðrum notendum.

5. gr.

Númeraflutningur við aðseturskipti rétthafa númers.

Rétthafar númera í talsímaþjónustu sem flytja milli símstöðvasvæða fjarskiptafyrirtækja hvar sem er á landinu skulu eiga rétt á að halda númerum sínum óbreyttum.

6. gr.

Númeraflutningur í farsímaþjónustu.

Rétthafar númera í farsímaþjónustu sem gera þjónustusamning við annað fjarskipta­fyrirtæki en þeir eru þegar tengdir skulu eiga rétt á að flytja með sér númer sem þeir eru skráðir rétthafar að til móttakandi fjarskiptafyrirtækis.

Þeir sem hafa skráð sig hjá fjarskiptafyrirtæki og nota fyrirframgreidd kort skulu einnig geta flutt númer sín milli fjarskiptafyrirtækja. Ekki er skylt að flytja inneign á korti. Fjarskiptafyrirtæki skulu jafnframt, eftir því sem unnt er, flytja talhólfsnúmer með farsímanúmerum hlutaðeigandi rétthafa.

7. gr.

Númeraflutningur milli mismunandi þjónustu.

Rétthafar númera í tal- og farsímanetum skulu eiga rétt á að flytja númer sín milli mismunandi þjónustu hjá sama fjarskiptafyrirtæki ef forsendur fyrir verðlagningu þjónustu eru í grundvallaratriðum hinar sömu eins og t.d. í talsímaþjónustu og samnets­þjónustu. Annar flutningur númera milli mismunandi þjónustu er óheimill þangað til öðruvísi verður ákveðið. Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að hafna því að flytja einstök númer úr innvalsnúmeraröðum. Ekki er heimilt að flytja númer úr farsímaþjónustu í talsímaþjónustu eða öfugt.

8. gr.

Forsendur höfnunar á beiðni um númera- og/eða þjónustuflutning.

Fjarskiptafyrirtækjum sem veita talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og/eða IP fjarskipta­þjónustu er aðeins heimilt að hafna beiðni rétthafa númers/tengingar um númera- og þjónustuflutning ef rétthafi númers/tengingar hefur bundið sig með samningi, sem uppfyllir skilyrði fjarskiptalaga um hámarksbinditíma, í viðskipti við það fjarskipta­fyrirtæki sem óskað er eftir flutningi frá.

III. KAFLI

Fyrirkomulag númera- og þjónustuflutnings, samþykki rétthafa
og afgreiðslutími flutningsbeiðna.

9. gr.

Val á tæknilegri lausn við flutning.

Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að beita tæknilegum lausnum við númera- og þjónustu­flutning að eigin vali enda séu ákvæði fjarskiptalaga og annarra reglna á grundvelli þeirra uppfyllt.

10. gr.

Þjónustusamningur við rétthafa.

Fjarskiptafyrirtækjum er aðeins heimilt að hefja ferli við númera- og þjónustuflutning þegar skriflegt eða rafrænt samþykki rétthafa númers/tengingar liggur fyrir. Rafrænt samþykki má veita með tölvupósti eða SMS skilaboðum úr símanúmeri rétthafa sem óskar flutnings.

Samþykki móttakandi fjarskiptafyrirtæki að taka réttahafa númers í viðskipti skal það gera við hann þjónustusamning óski hann eftir því. Skal slíkur samningur gerður á skrif­legu eða á rafrænu formi.

11. gr.

Afgreiðslutími flutningsbeiðna.

Við númera- og þjónustuflutning samkvæmt reglum þessum skulu fjarskiptafyrirtækin sem hlut eiga að máli gera allar ráðstafanir til að rétthafi númers/tengingar verði ekki fyrir truflunum í símanotkun/netnotkun sinni og að tenging til hans falli ekki niður lengur en óumflýjanlegt er.

Miða skal við að númeraflutningur í talsímanetum milli fjarskiptafyrirtækja taki að hámarki 5 virka daga frá því skriflegur eða rafrænn þjónustusamningur rétthafa númers við móttakandi fjarskiptafyrirtæki liggur fyrir.

Miða skal við að númeraflutningur í talsímanetum innan kerfis, þegar t.d. er um að ræða aðseturskipti rétthafa númers, taki að hámarki 5 virka daga frá því beiðni um númera­flutning berst hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtæki, enda sé heimtaug til staðar í húsnæði notanda og laus til ráðstöfunar.

Miða skal við að þjónustuflutningur í IP fjarskiptaþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja taki að hámarki 5 virka daga frá því skriflegur eða rafrænn þjónustusamningur rétthafa internet­tengingar við móttakandi fjarskiptafyrirtæki liggur fyrir.

Aðeins er heimilt að víkja frá almennum afgreiðslufresti samkvæmt 2.-4. mgr. í þeim undantekningartilvikum þegar um langan veg þarf að fara til að breyta tengingum. Númeraflutningur skal þó aldrei taka lengri tíma en 10 virka daga frá því að beiðni um flutning er lögð fram.

Miða skal við að númeraflutningur í farsímanetum skuli eiga sér stað eins fljótt og auðið er, en eigi síðar en 3 virkum dögum frá því að fráfarandi fjarskiptafyrirtæki hefur borist beiðni um númeraflutning og skriflegur eða rafrænn þjónustusamningur rétthafa númers við móttakandi fjarskiptafyrirtæki liggur fyrir.

12. gr.

Upplýsingaskylda.

Vegna eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar og í þeim tilgangi að mæla gæði fjarskipta­þjónustu, bæta upplýsingagjöf og auka gegnsæi á fjarskiptamarkaði skulu fjarskipta­fyrirtæki veita stofnuninni nauðsynlegar tölfræðiupplýsingar um númera- og þjónustuflutning.

13. gr.

Verkferlar við þjónustuflutning.

Fjarskiptafyrirtæki setja sér verkferla um númera- og þjónustuflutning samkvæmt reglum þessum. Skulu verkferlar þessir m.a. kveða á um form flutningsbeiðna, fyrir­komulag og framkvæmd númera- og þjónustuflutnings og að leiðréttingar á mistökum, sem orðið hafa við númera- og þjónustuflutning, njóti forgangs við afgreiðslu flutningsbeiðna hjá hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtækjum.

Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að fela Hinu íslenska númerafélagi (HÍN) að setja sameiginlega verkferla um númeraflutning í tal- og farsímaþjónustu. Verkferlar HÍN, og allar breytingar á þeim, eru háðir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

IV. KAFLI

Samskipti við rétthafa númers/tengingar og leiðrétting á mistökum.

14. gr.

Samskipti við rétthafa númers/tengingar sem óskar eftir flutningi.

Fjarskiptafyrirtækin sem hlut eiga að máli skulu gera allar ráðstafanir til að númera- og þjónustuflutningur samkvæmt reglum þessum gangi greiðlega fyrir sig og án allra óþarfa tafa. Í því felst m.a. að öll samskipti fráfarandi fjarskiptafyrirtækis við rétthafa númers, sem óskar flutnings til annars fjarskiptafyrirtækis, skulu ekki vera viðhöfð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning.

15. gr.

Leiðrétting á mistökum við flutning.

Ef koma upp mistök við númera- og þjónustuflutning, eða flutningur hefur verið fram­kvæmdur án samþykkis rétthafa númers/tengingar, skulu hlutaðeigandi fjarskipta­fyrirtæki leiðrétta slík mistök án tafar og í samræmi við forgangsafgreiðslu flutnings­beiðna samkvæmt verkferlum sínum og/eða HÍN.

V. KAFLI

Greiðsla númeragjalds, ráðstöfunarréttur yfir númeri,
kostnaður vegna flutnings og leiðarval símtala.

16. gr.

Ábyrgð á greiðslu númeragjalds.

Fjarskiptafyrirtæki sem úthlutað hefur notanda númeri úr númeraröð sem fyrirtækið fékk til ráðstöfunar skal vera ábyrgt fyrir greiðslu númeragjalds til Póst- og fjarskiptastofnunar þrátt fyrir að númerið hafi verið flutt. Fyrirtækinu skal vera heimilt að krefja móttakandi fjarskiptafyrirtæki um greiðslu vegna gjaldsins.

17. gr.

Ráðstöfunarréttur yfir númeri og skil á númerum.

Segi rétthafi, sem hefur flutt með sér númer til annars fjarskiptafyrirtækis, upp þjónustu­samningi sínum og um leið númeri sínu, rennur ráðstöfunarréttur yfir númerinu aftur til þess fjarskiptafyrirtækis sem úthlutaði númerinu upphaflega. Skal það fjarskipta­fyrirtæki sem síðast veitti þjónustu í númerið skila númerinu til þess fjarskiptafyrirtækis sem fékk númerinu upphaflega úthlutað innan 90 daga frá uppsögn þjónustusamnings rétthafa. Skil á númerum samkvæmt þessu ákvæði eru ekki númera­flutningur í skilningi reglna þessara og því undanþegin greiðslu á kostnaði skv. 18. gr.

18. gr.

Kostnaður af kerfisaðgerðum og umsýslugjald.

Fjarskiptafyrirtæki skulu sjálf bera kostnað af kerfisaðgerðum til þess að gera númera- og þjónustuflutning mögulegan. Heimilt er fjarskiptafyrirtæki að gjaldfæra rétthafa sem vill flytja númer með sér til annars fjarskiptafyrirtækis um eingreiðslu fyrir kostnaði við umskráningu. Ekki má reikna kostnað sem hefði hvort sem er hlotist vegna uppsagnar á númeri. Fyrirtækið sem tekur rétthafa í þjónustu getur þó boðist til að greiða gjaldið og skal þess getið þegar pöntun á númeraflutningi er send fráfarandi fjarskiptafyrirtæki. Ef móttakandi fjarskiptafyrirtækið vill ekki greiða fyrir hann kostnaðinn við umskráningu skal upplýsa rétthafann um það um leið og pöntun hans er staðfest.

Gjald fyrir umskráningu vegna númeraflutnings skal nema þeirri fjárhæð sem það kostar fjarskiptafyrirtæki að flytja númerið en verði ágreiningur um gjaldið skal Póst- og fjarskiptastofnun skera úr ágreiningi.

Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækir almennt tal- og/eða farsímanet þar sem símtal á upphaf sitt eða þjónustuveitandi sem hefur tekið við símtali í forvali eða föstu forvali skal bera umframkostnað í netinu sem númer var tengt fyrir númeraflutning við það að símtal í númerið fer lengri leið í netinu en það hefði gert án flutnings númersins. Póst- og fjarskiptastofnun sker úr ágreiningi um kostnaðinn.

19. gr.

Óheimil mismunun gjalda.

Fjarskiptafyrirtækjum er óheimilt að krefjast mismunandi gjalds fyrir símtöl í ákveðið talsímanet eftir því hvort þeim er beint í númer sem hefur verið flutt eða ekki.

20. gr.

Leiðarval símtals.

Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn tal- og/eða farsímanet þar sem símtal til rétthafa sem hefur flutt númer sitt hefst og fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja net sem símtalið fer um skulu bera ábyrgð á því að valin sé rétt og hagkvæm leið fyrir símtalið. Þegar um er að ræða símtöl frá útlöndum er rétt leiðarval innanlands á ábyrgð þess fjarskiptafyrirtækis sem tekur við símtalinu þegar það kemur inn í landið. Ef rétthafi hefur með forvali eða föstu forvali beint símtali sínu til þjónustuveitanda skal hinn síðarnefndi tryggja rétt og hagkvæmt leiðarval.

Fjarskiptafyrirtæki sem rekur netið þar sem símtal á upphaf sitt eða þjónustuveitandi sem tekið hefur við símtali með forvali eða föstu forvali, sbr. 1. mgr., getur falið öðru fjarskiptafyrirtæki að annast leiðarval fyrir sig.

Form upplýsinga sem sendar eru milli fjarskiptafyrirtækja til þess að beina símtali rétta leið til símanúmers sem hefur verið flutt skal ákvarðast með hliðsjón af tækniskýrslum ETSI, fjarskiptastaðlastofnun Evrópu, um númeraflutning og/eða tilmælum Alþjóðafjar­skipta­sambandsins (ITU).

21. gr.

Kostnaður vegna breytinga á leiðarvali.

Hvert fjarskiptafyrirtæki skal bera kostnað sem hlýst af breytingum á leiðarvali sem gera þarf í neti þess.

VI. KAFLI

Lausn deilumála og lagastoð.

22. gr.

Lausn deilumála.

Póst- og fjarskiptastofnun sker úr ágreiningi um númera- og þjónustuflutning og hvort verkferlar fjarskiptafyrirtækja og HÍN samrýmast reglum þessum.

23. gr.

Lagastoð.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 2. mgr. 37. gr. og 3. mgr. 52. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Við gildistöku reglnanna falla úr gildi reglur um númeraflutning nr. 401/2001.

Póst- og fjarskiptastofnun, 30. september 2008.

Hrafnkell V. Gíslason.

Inga Helga Jónsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 15. október 2008