Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1204/2011

Nr. 1204/2011 13. desember 2011
SAMÞYKKT
um hundahald í Hörgársveit.

1. gr.

Hundahald í Hörgársveit er bundið þeim skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í samþykkt þessari og ber eigendum og umráðamönnum hunda að fara að fyrirmælum sam­þykktar­innar í einu og öllu.

2. gr.

Lögráða eiganda eða umráðamanni er skylt að skrá hunda sem eru eldri en 4ra mánaða á skrifstofu sveitarfélagsins. Þar skal skrá nafn og lögheimili eiganda eða umráðamanns og heiti hunda, aldur, kyn, litarhátt og eftir atvikum önnur einkenni.

3. gr.

Við skráningu hunds skal framvísa vottorði um ábyrgðartryggingu viðurkennds trygg­inga­félags og skal tryggingin ná til þess tjóns sem hundurinn kann að valda.

Um hundahald í fjöleignahúsi fer samkvæmt 10. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Þegar fyrirhugað er að halda hund í fjöleignarhúsi er skylt að leggja fram skriflegt samþykki ⅔ hluta íbúa og/eða eigenda, sem hafa sameiginlegan inngang, stiga­gang eða annað sameiginlegt húsrými.

Hundurinn skal vera tryggilega merktur s.s. með hálsól eða örmerki. Á merkinu skal vera skráningarnúmer hundsins.

Við skráningu skal eiganda afhent eintak af samþykkt þessari.

4. gr.

Sé um að ræða hund í þéttbýli, og skilyrðum er fullnægt, er viðkomandi eiganda eða umráðamanni veitt skriflegt leyfi fyrir að halda þann hund sem skráður er. Í þéttbýli er ekki veitt leyfi fyrir fleiri en tveimur hundum, eldri en 4ra mánaða, á sama heimili.

5. gr.

Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd manns sem hefur fullt vald yfir honum. Eigandi eða umráðamaður skulu gæta þess vel að hundurinn valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Eigandi er ábyrgur fyrir því tjóni sem hundur hans sannanlega veldur. Ef hundur veldur nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni, þá er skylt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Þeim, sem hefur hund í för með sér, er skylt að fjarlægja saur, sem hundurinn lætur eftir sig á almannafæri.

6. gr.

Óheimilt er að hleypa hundum inn á þá staði sem um ræðir í fylgiskjali 3 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sem eru m.a.:

  1. Almenningsfarartæki.
  2. Leikvellir.
  3. Gistihús, matsölur og aðra veitingastaði.
  4. Skóla, leikskóla, skólalóðir.
  5. Íþróttastöðvar, baðstöðvar.
  6. Samkomuhús, kirkjur, kirkjugarðar.

7. gr.

Ef hundur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna hundinn. Eftirlitsmaður með hundahaldi skal handsama hund, sem er óleyfilegur eða gengur laus á almannafæri og auglýsa að hann hafi verið tekinn í vörslu. Hafi hundsins ekki verið vitjað innan 7 daga frá birtingu auglýsingar skal ráðstafa honum til nýs ábyrgs eiganda eða hann aflífaður. Kostnaður vegna handsömunar og vörslu á hundi skal greiddur af eiganda eða forráðamanni. Heimilt er að lóga hættulegum hundum, þ.e. hundum sem ráðast á eða bíta menn og dýr, þegar í stað sbr. þó 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004.

8. gr.

Hundar skulu færðir árlega til hreinsunar, fyrst þegar þeir hafa náð 4ra mánaða aldri sbr. ákvæði 57. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Fyrir lok febrúar ár hvert skal hundaeigandi framvísa á skrifstofu sveitarfélagsins vottorði um ormahreinsun og stað­festingu á endurnýjun ábyrgðartryggingar. Ef það bregst getur sveitarstjórn látið hreinsa hundinn á kostnað eiganda. Þá skal eigandi eða umráðamaður hunds fara að ákvæðum reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnu­skyni. Hvatt er til reglulegra bólusetninga hunda gegn helstu smitsjúkdómum þeirra.

9. gr.

Sveitarfélaginu er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar sem hlýst af samþykkt þessari. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem sveitarstjórn setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, skv. ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unarvarnir. Gjöld mega ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits. Gjaldið skal innheimt í eitt skipti, við skráningu hunds. Í gjaldskrá skal einnig ákveðið handsömunar- og geymslugjald, sbr. 7. gr. Sveitar­stjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

10. gr.

Hundar í dreifbýli mega ganga lausir á landareignum eigenda/umráðamanna sinna, svo og í afréttum og afréttarheimalöndum, þegar fjallskil standa yfir.

11. gr.

Eigendur og forráðamenn hunda skulu sæta skriflegri áminningu fyrir brot á samþykkt þessari. Sveitarstjórn er heimilt að banna eða takmarka rétt viðkomandi til hundahalds ef fyrir liggja kvartanir um ónæði eða hættu sem dýrin eru sannanlega völd að.

12. gr.

Eftirlitsmaður með hundahaldi í Hörgársveit annast framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í umboði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra og getur hann leitað aðstoðar lögreglu­yfirvalda þegar þörf krefur. Sveitarstjórn getur sett nánari reglur um framkvæmd sam­þykktar þessarar, svo sem um eftirlit, hreinsun o.fl. Um brot gegn samþykkt þessari fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

13. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast gildi við birtingu. Jafnhliða fellur úr gildi samþykkt nr. 762/2005 um hundahald í Hörgárbyggð og samþykkt nr. 485/2007 um hundahald í Arnarneshreppi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Leyfi sem gefin hafa verið út samkvæmt samþykkt nr. 762/2005 um hundahald í Hörgárbyggð og samþykkt nr. 485/2007 um hundahald í Arnarneshreppi halda gildi sínu við gildistöku þessarar samþykktar. Þeir sem þá halda halda hund sem ekki er skráður skulu skrá hann í síðasta lagi 31. janúar 2012.

Umhverfisráðuneytinu, 13. desember 2011.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Íris Bjargmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 27. desember 2011