Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 550/2006

Nr. 550/2006 27. júní 2006
REGLUGERÐ
um tilkynningarskyldu og könnun á áreiðanleika viðskiptamanns í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um tilkynningarskylda aðila skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

2. gr.

Undanþága frá kröfu um könnun á áreiðanleika.

Í eftirfarandi tilvikum er ekki skylt að kanna áreiðanleika viðskiptamanna:

  1. Þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskiptin verði færð til skuldar á viðskiptareikningi á nafni viðskiptamanns í starfandi fjármálafyrirtæki eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.
  2. Við gerð líftryggingarsamnings hjá fjármálastofnun ef árlegt iðgjald er lægra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, eða ef um er að ræða eingreiðslu iðgjalds sem er lægri en 2.500 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ef árlegt iðgjald er hækkað, þannig að það verði hærra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, skal krefjast framvísunar skilríkja.

3. gr.

Tilkynning til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Þegar athugun í samræmi við 17. gr. laga nr. 64/2006 eða önnur atvik leiða til þess að grunur leikur á að rekja megi viðskipti til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, skal tilkynna efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um viðskiptin.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra veitir leiðbeiningar um form og efnisatriði slíkra tilkynninga, t.d. með útgáfu sérstaks eyðublaðs í þessu skyni.

4. gr.

Upplýsingagjöf.

Sé mál, ætlað peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, skal tilkynningarskyldur aðili láta embættinu í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna rannsóknarinnar. Slíka beiðni skal bera fram skriflega. Ekki er þörf á dómsúrskurði vegna veitingar upplýsinga samkvæmt þessari grein.

5. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir ákvæðum 27. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 28. gr. laga nr. 64, 22. júní 2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglugerðar þessarar falla úr gildi reglugerð um hlutverk fjármálastofnana við aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 272/1994, ásamt síðari breytingum og reglugerð um hlutverk nokkurra starfsstétta og lögaðila við aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 695/1994, ásamt síðari breytingum.

Viðskiptaráðuneytinu, 27. júní 2006.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

B deild - Útgáfud.: 4. júlí 2006