Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 305/2007

Nr. 305/2007 4. apríl 2007
LÖGREGLUSAMÞYKKT
fyrir Stykkishólmsbæ.

I. KAFLI

Um reglu, hreinlæti og góða umgengnishætti á almannafæri.

1. gr.

Skilgreiningar.

Með almannafæri er í samþykkt þessari átt við götur, vegi og svæði, ætluð til almenn­ingsnota, og eftir því sem við á aðra staði, sem opnir eru almenningi, íþróttamannvirki, versl­anir, veitingastaði, bifreiðastöðvar, biðskýli, söfn o.fl.

Með þéttbýli er í samþykkt þessari átt við þyrpingu húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 m.

2. gr.

Um reglu og næði.

Bannað er að valda ónæði sem raskar næturró manna. Enginn má sýna öðrum áreitni á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi.

Uppþot, áflog eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, má ekki eiga sér stað á almannafæri og ekki mega menn þyrpast þar saman eða viðhafa háttsemi sem truflar umferð eða veldur öðrum vegfarendum óþægindum.

Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar, á eða við almannafæri, ef ástæða er til að ætla að slík tæki geti valdið ónæði eða truflun.

3. gr.

Hlýðniskylda almennings við lögreglu.

Hver sá, sem staddur er á almannafæri, er skyldur til að segja til nafns síns og heimilis þegar lögreglan krefst þess. Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur.

4. gr.

Um biðraðir.

Þegar fjölmenni safnast saman á almannafæri og bíður þar eftir afgreiðslu eða aðgangi svo sem við miðasölur, skemmtistaði, verslanir og aðra afgreiðslustaði, skal fólk raða sér þannig að þeir, sem fyrstir koma, fái fyrst afgreiðslu.

5. gr.

Góðir umgengnishættir og hreinlæti á almannafæri.

Öllum ber að gæta þess að ganga vel um og gæta fyllsta hreinlætis á almannafæri. Enginn má þar skemma né færa úr stað hluti, sem ætlaðir eru til almenningsnota eða prýði. Þetta á einnig við þann hluta af húsum og öðrum mannvirkjum, sem liggja að almannafæri.

Þess skal gætt að troða ekki ræktaða bletti, grasreiti, blómabeð og limgerði á almannafæri og bannað er að slíta þar upp gróður.

Bannað er að fleygja rusli nema í þar til gerð ílát.

6. gr.

Um auglýsingar og skilti.

Á hús og önnur mannvirki sem liggja að almannafæri sem og hluti á almannafæri má ekki mála eða teikna og ekki festa auglýsingar, nema með leyfi eiganda eða umráðamanns.

Auglýsingar á fjölfölduðum veggspjöldum má einungis festa á skiltastanda eða þar til gerða auglýsingafleti sem leyfi er fyrir. Slíkar auglýsingar skal fjarlægja þegar þær hafa þjónað tilgangi sínum og er þeim sem setti þær upp skylt að bæta úr spjöllum sem uppsetning eða brottnám auglýsinga kann að hafa valdið.

Í samræmi við ákvæði 72. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, getur skipulags- og byggingarnefnd veitt tímabundið leyfi til að setja upp skilti.Staðsetning og útlit skilta má ekki fara í bága við umferðaröryggi og fullt tillit skal tekið til nábýlis- eða grenndarréttar.

7. gr.

Friðhelgi heimila og annarra híbýla.

Enginn má án leyfis húsráðanda láta fyrir berast á eða í húsi hans, á lóðum, í eða á girð­ingum, sama á við um þessa staði og aðra sambærilega ef lögregla bannar það, enda verði það talið geta valdið óþægindum eða hættu.

Ekki má fara í híbýli manna í söluerindum, ef húsráðandi leggur við því bann.

8. gr.

Um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti með síðari breytingum, sbr. 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, er bannað að skilja eftir, flytja eða geyma muni eða úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti svo sem gáma, kerrur, bíla, bílhluta, báta, skips­skrokka o.fl.

Kappkosta skal að geyma muni og húsdýraáburð á snyrtilegan hátt og á afmörkuðum svæðum þannig að hverskyns mengun verði sem minnst.

Heimilt er starfsmönnum Stykkishólmsbæjar að fjarlægja framangreinda hluti, þ.m.t. númers­lausar bifreiðar og bílflök að undangenginni aðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum þar sem tiltekinn er ákveðinn frestur eiganda til úrbóta. Frestur þessi skal að jafnaði vera 7 dagar en þó skemmri ef hætta eða mengun stafar af. Bílflökum og öðrum verð­lausum hlutum er heimilt að farga strax að fresti loknum. Númerslausar bifreiðar sem þannig eru teknar, skulu vera í vörslu Stykkishólmsbæjar í 45 daga að fresti loknum, en þeim síðan fargað hafi eigandi ekki fyrir þann tíma leyst þær út gegn áföllnum kostnaði, þ.m.t. dráttar- og geymslugjaldi. Liggi fyrir skrásetningarnúmer bifreiðar, vélarnúmer eða annað sambærilegt, þannig að kunnugt sé um eiganda hennar skal honum tilkynnt um förgunina með tryggilegum hætti með 15 daga fyrirvara. Þá skal viðkomandi sýslumanni, eftir atvikum bifreiðaskrá, og veðhöfum, sé um þá kunnugt, gert viðvart um förgunina með 15 daga fyrirvara.

Áfallinn kostnað vegna töku og geymslu númerslausra bifreiða er heimilt að innheimta hjá eigendum bifreiðanna. Þá skal og heimilt að selja nýtilega hluti úr bifreiðum, sem fara skal með samkvæmt framansögðu, til þess að mæta kostnaði vegna töku og geymslu þeirra.

Óheimilt er að dreifa húsdýraáburði á yfirborð jarðvegs innan bæjarmarka Stykkishólms á tímabilinu 1. júní til og með 31. ágúst. Heimilt er þó að dreifa húsdýraáburði á áðurnefndu tímabili sé hann plægður niður í svörðinn.

Óheimilt er að brenna sinu nema á jörðum, sem eru í ábúð eða nýttar af ábúendum lög­býla, og þá einungis samkvæmt leyfi sýslumanns.

9. gr.

Umgengnisreglur.

Bæjarstjórn getur sett umgengnisreglur um skemmtigarða, kirkjugarða, leikvelli, lysti­garða og önnur opinber svæði, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað.

10. gr.

Dýravernd og veiðar.

Óheimilt er að áreita dýr eða raska friði þeirra, svo hættu eða ónæði geti valdið.  Ákvæði þetta á ekki við um meindýr, varg o.fl. er sérákvæði gilda um.

Skotveiðimenn skulu í hvívetna gæta fyllstu varúðar við veiðarnar. Óheimilt er að stunda skotveiðar í eða við þéttbýli.

Að öðru leyti vísast til ákvæða laga um dýravernd, nú lög nr. 15/1994 og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nú lög nr. 64/1994.

11. gr.

Um búfjárhald og lausagöngu búfjár fer eftir gildandi samþykktum bæjarfélagsins um það efni og um búfjárhald í þéttbýli fer eftir gildandi ákvæðum laga nr. 103/2002 um búfjár­hald o.fl.

Hundahald er bannað í Stykkishólmsbæ, nema með leyfi bæjarstjórnar, sbr. samþykkt um hundahald í Stykkishólmsbæ nr. 430 frá 25. ágúst 1987.

Kattahald er bannað í Stykkishólmsbæ, nema með leyfi bæjarstjórnar, sbr. samþykkt um kattahald í Stykkishólmsbæ nr. 1063 frá 15. desember 2004.

II. KAFLI

Almennar reglur um öryggi á almannafæri, skyldur húsráðenda o.fl.

12. gr.

Skyldur húsráðenda.

Meðferð vatns, s.s. við þrif og gluggaþvott, er óheimil nema í frostlausu veðri, ef þrifin valda rennsli á gangstétt eða götu eða geta valdið truflun á umferð á annan hátt. Haga skal þrifunum þannig að sem minnst ónæði stafi af þeim fyrir vegfarendur.

Í götubrunna og göturæsi má ekki hella mengandi efnum s.s. olíum, spilliefnum o.s.frv. Húseigandi eða umráðamaður skal halda gangstígum, stéttum og tröppum á lóð sinni hreinum af snjó og klaka svo sem kostur er, svo og fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti, sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur.

Húseigendum er skylt að hlíta fyrirmælum bæjarstjórnar um frágang girðinga o.þ.h. sem liggja að almannafæri. Einnig skal húsráðendum skylt að snyrta allan gróður, þ.m.t. trjá­gróður, sem liggur að almannafæri og hamlar umferð vegfarenda eða tálmar útsýni við gatna­mót sbr. ákvæði 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum. Gróður, s.s. tré, runnar o.s.frv., skulu ekki skaga út í eða út yfir gangstéttar, gangstíga eða götur, þó er heimilt að þau skagi út yfir, ef hæð þeirra er a.m.k. 2,6 m yfir gangstétt eða gangstíg, en 4,2 m yfir götu. Nánari reglur um skerðingu gróðurs skulu settar af skipulags- og byggingarnefnd Stykkishólmsbæjar og kynntar með tryggilegum hætti. Hlíti húseigandi eða lóðarhafi ekki fyrirmælum bæjarstjórnar um frágang samkvæmt þessari grein er heimilt að láta vinna verkið á hans kostnað enda sé honum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

Húseiganda eða umráðamanni húseignar er skylt að sjá til þess að hreinsa upp allt rusl sem frá þeim berst og annað er veldur óþrifnaði og óprýði við hús þeirra, lóðir, aðliggjandi götur eða torg.

13. gr.

Um umferð út í skip, sem liggja í höfninni.

Lögreglustjóra er heimilt að banna öllum óviðkomandi, sem ekki eiga brýnt erindi, um­ferð út í skip, sem liggja í höfninni. Einnig er slökkviliðsstjóra heimilt að takmarka samgang við skip sem flytja eldfim efni, svo sem olíuskip.

14. gr.

Um atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum.

Atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum er óheimil. Bæjarstjórn getur þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum. Slíkt leyfi skal ekki veitt til lengri tíma í senn en fjögurra ára og er bundið við nafn leyfishafa. Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum þessarar greinar eða reksturinn þykir ekki fara vel úr hendi getur bæjarstjórn afturkallað leyfið með þriggja mánaða fyrirvara. Atvinnurekstri í húsnæði, sem liggur að íbúðarbyggð, skal jafnan haga þannig, að ekki hljótist af ónæði eða truflun fyrir þá sem næstir búa. Gildir þetta jafnt um starfsemina sjálfa, sem og umferð sem af henni hlýst. Bæjarstjórn getur sett sérstakar reglur um atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum.

15. gr.

Um skipulagðar hópgöngur og útifundi.

Tilkynna skal lögreglustjóra um skipulagðar hópgöngur og útifundi. Þátttakendur skulu hlýða fyrirmælum lögreglu svo gæta megi góðrar reglu og umferðaröryggis.

16. gr.

Um meðferð elds og skotvopna.

Á almannafæri má ekki ganga með logandi blys, kveikja í bálköstum, kveikja í eldfimum efnum eða sprengiefnum, nema með leyfi lögreglustjóra.

Vopnaburður á almannafæri er bannaður.

17. gr.

Um umgengni við ísilögð vötn.

Ef ís á vötnum eða tjörnum er ótryggur, getur lögreglustjóri bannað að farið sé út á ísinn.

18. gr.

Um jarðrask og aðrar framkvæmdir.

Ekki má gera jarðrask, s.s. skurði í gangstéttir, götur eða torg bæjarfélagsins né raska þeim á annan hátt, nema með leyfi bæjaryfirvalda. Að verki loknu skal færa það í samt lag, sem raskað var. Þegar gerður er skurður í gangstétt, skal sá, sem verkið vinnur, sjá um að tryggja öryggi gangandi vegfarenda og annarra, s.s. með því að sjá fyrir göngubrautum og tryggja að vegfarendur séu aðvaraðir um farartálmann, s.s. með ljósum, glitmerkjum o.þ.h., þegar dimmt er. Slík verk skulu unnin þannig, að sem minnstur farartálmi verði.

Að öðru leyti geta bæjarstjórn og lögreglustjóri gert þær ráðstafanir er þykja þurfa til að afstýra hættu fyrir vegfarendur. Lögreglustjóri getur bannað umferð um götur að nokkru eða öllu leyti, meðan á verki stendur, eða skipað fyrir um, hvernig umferðinni skuli hagað. Einnig getur hann ákveðið að skurðir í götum séu byrgðir og uppgröftur fjarlægður, þannig að umferð sé óhindruð um göturnar á þeim tíma, sem ekki er unnið, svo sem að næturlagi og um helgar. Þá geta bæjarstjórn og lögreglustjóri, ef þau telja framkvæmdir dragast um of, látið setja í samt lag það, sem raskað var, á kostnað þess, sem verkið átti að vinna sinni hann ekki fyrir­mælum byggingaryfirvalda um að láta setja í samt lag það sem raskað var.

19. gr.

Um töku jarðefna.

Hvers kyns taka jarðefna og tilfærsla jarðefna eða annað jarðrask er almennt óheimil innan bæjarfélagsins þ.m.t. í fjörum, nema með samþykki bæjarstjórnar.

20. gr.

Um losun úrgangs.

Losun hvers kyns úrgangs, sorps og annars af því tagi er bönnuð innan bæjarfélagsins nema á stöðum sem ætlaðir eru til þess og bæjarstjórn vísar á til þeirra nota.

Losun jarðefna í þéttbýli er bönnuð, nema á stöðum sem ætlaðir eru til þess og bæjar­stjórn ákveður.

21. gr.

Um byggingarframkvæmdir og niðurrif mannvirkja.

Þegar hús eða annað mannvirki er byggt, rifið, endurbyggt eða flutt, er eiganda eða verk­taka skylt að leita eftir fyrirmælum lögreglustjóra, til að forðast farartálma, hættu eða óþæg­indi fyrir vegfarendur.

Girðingar, sem hafa verið reistar vegna mannvirkjagerðar, skal fjarlægja, þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Þegar hús eða annað mannvirki brennur, það er fjarlægt eða rifið burt, án þess að annað sé byggt í staðinn, er eiganda skylt að ganga svo frá hússtæðinu, að ekki stafi af því hætta, óþrifnaður eða óprýði.

22. gr.

Um leyfisskyldu fyrir byggingarframkvæmdum.

Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús eða breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki, sem áhrif hafa á útlit umhverfis, nýt­ingu lóða, grundvöll gjaldtöku og skatta o.s.frv., nema að fengnu leyfi skipulags- og bygg­ingarnefndar, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Framangreint bann tekur til hvers konar mannvirkja og hluta sem nýttir eru sem mann­virki eða hús. Bann þetta tekur því til lausra húsa, skúra, gáma o.s.frv., þegar notkun þeirra er augsýnilega ekki í samræmi við eðlilega notkun og tilgang þeirra eða þeirra svæða, þar sem þeim hefur verið komið fyrir.

Heimilt er að láta farga slíkum hlutum eða fjarlægja þá, á kostnað eigenda og/eða lóðar­hafa, ef hann sinnir ekki fyrirmælum byggingayfirvalda um að fjarlægja þau mannvirki eða hluti, sem um ræðir í þessari grein.

III. KAFLI

Um ökutæki, umferð o.fl.

23. gr.

Almennar reglur varðandi umferð á almannafæri.

Ökuhraða skal ávallt stilla svo, að eigi valdi hættu eða óþægindum fyrir aðra umferð.

Hámarkshraði vélknúinna ökutækja í þéttbýli ákvarðast af almennum ákvæðum umferð­arlaga og gildandi auglýsingu um umferð í Stykkishólmsbæ á hverjum tíma.

Enga atvinnu sem tálmar umferð má reka á almannafæri.

Á almannafæri má ekki leggja eða setja neitt það sem hindrar almenna umferð eða veldur hættu. Á götum bæjarfélagsins má ekki hindra umferð með skemmtunum eða leikjum.

Vörubifreiðum, sem eru meira en 5,5 tonn að leyfðri heildarþyngd og hópbifreiðum sem eru meira en 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, má ekki leggja á götum, einkalóðum í íbúðar­húsahverfum eða almennum bifreiðastæðum í þéttbýlum, nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar, án tillits til þunga þeirra. Bæjar­stjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði, sem undanþágan nær til. Undanþágan getur auk staðsetningar tekið til ákveðinna tíma­bila.

Lögreglustjóri getur bannað stöður hjólhýsa, húsbíla, báta, flutningavagna og þess háttar tækja á götum og almenningsbifreiðastæðum, ef þau þykja valda íbúum ónæði.

Óheimilt er að gista í húsbílum, hjólhýsum og öðrum gistifarartækjum utan sérmerktra svæða að einkalóðum undanskildum.

24. gr.

Takmörkun á umferð stórvirkra vinnuvéla.

Lögreglustjóri eða bæjarstjórn getur takmarkað eða bannað umferð stórvirkra vinnuvéla, vörubifreiða eða annarra bifreiða á einstökum götum, ef slík umferð er álitin hættuleg eða til sérstakra óþæginda fyrir aðra umferð.

25. gr.

Bann við umferð tiltekinna farartækja.

Allur akstur torfærutækja s.s. torfæruhjóla, fjórhjóla og vélsleða er bannaður innan marka bæjarfélagsins.Einungis er heimilt að aka torfærutækjum á svæðum sem samþykkt hafa verið fyrir akstursíþróttir samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni, nr. 257/2000.

26. gr.

Takmörkun á gangi bifvéla.

Aflvélar kyrrstæðra bifreiða og vinnuvéla sem ekki eru í annars konar notkun, er óheimilt að hafa í gangi eða skilja eftir í gangi lengur en tvær mínútur, svo komast megi hjá loft­mengun og hávaða á almannafæri og annars staðar þar sem ætla má að slíkt valdi óþægindum.

27. gr.

Skyldur farmflytjenda.

Þeir, sem flytja hvers konar farm um götur og þjóðvegi bæjarfélagsins, skulu gæta þess vandlega að ganga þannig frá honum, að ekki valdi óþrifnaði eða hættu. Ef eitthvað slæðist eða hrynur niður á almannafæri við flutninginn, fermingu eða losun, er stjórnanda flutnings­tækisins skylt að hreinsa það upp þegar í stað.

28. gr.

Afgreiðsla þjónustubifreiða o.fl.

Afgreiðslu fyrir þjónustubifreiðar eða bifreiðasölur má einungis hafa í því húsnæði eða á þeim stað, sem skipulags- og byggingarnefnd hefur samþykkt til slíkra afnota. Nefndin getur takmarkað leyfið við tiltekinn tíma og tiltekinn fjölda bifreiða og sett önnur þau skilyrði, sem þurfa þykir.

29. gr.

Um börn í umferðinni.

Á götum, vegum eða svæðum má ekki gera rennibrautir, renna sér á skíðum, hjóla­brettum, skautum, sleðum eða iðka leiki, skemmtanir eða íþróttir þannig að hætta eða umferð­artruflun geti hlotist af. Einnig er bannað að hanga í bifreiðum, vögnum eða öðrum farar­tækjum sem eru á ferð eða festa við þau sleða, reiðhjól eða annað sem óþægindum eða hættu geta valdið.

Börn yngri en fimmtán ára sem fara um á reiðhjólum, hjólabrettum, hjólaskautum, renna sér á skíðum, sleðum, skíðabrettum o.þ.h. skulu nota hlífðarhjálma og viðeigandi hlífðar­búnað.

IV. KAFLI

Um götuspjöld, húsnúmer og önnur opinber skilti.

30. gr.

Um nöfn á götum.

Bæjarstjórn ákveður nöfn á götum og lætur festa upp skilti með þeim, þar sem þurfa þykir, s.s. við gatnamót og á fasteignir. Húseigendur skulu merkja hús sín með húsnúmeri og eftir atvikum bókstöfum, á götuhlið eða öðrum áberandi stað, vegfarendum og þjónustuaðilum til glöggvunar. Húseigandi skal sjá um allt venjulegt viðhald á merkingum á húsi sínu. Hús­eigendur í dreifbýli skulu merkja heimreiðar með nafni jarða og/eða íbúðarhúsa.

31. gr.

Um meðferð opinberra skilta.

Óheimilt er að skemma, fjarlægja eða á annan hátt eiga við opinber skilti eða aðrar opin­berar merkingar sem komið hefur verið fyrir innan stjórnsýsluumdæmis Stykkishólmsbæjar, að viðlögðum sektum og fangelsi, allt að sex mánuðum, sbr. 1. mgr. 113. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940.

Óheimilt er að skemma, fjarlægja eða á annan hátt eiga við opinberar auglýsingar sem settar hafa verið upp af hálfu bæjarfélagsins, að viðlögðum sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum, sbr. 2. mgr. 113. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V. KAFLI

Um verslun, veitingahús, skemmtanahald og knattborðs- og leiktækjastofur.

32. gr.

Um sölu varnings.

Utan sölubúða er sala á hvers kyns varningi bönnuð með þeim undanþágum sem hér greinir: Blöð, bæklinga, aðgöngumiða, happdrættismiða, merki og annað þessu skylt má selja á almannafæri. Bæjarstjórn getur veitt leyfi til vörusölu/farandsölu á torgum og öðrum stöð­um. Skal leyfi bæjarstjórnar bundið við ákveðnar vörutegundir og er heimilt að setja leyfinu þau skilyrði, sem talin eru nauðsynleg. Bæjarstjórn er heimilt að ákveða leyfisgjald, sem rennur í bæjarsjóð, með sérstakri gjaldskrá.

33. gr.

Um slit á skemmtunum.

Allir almennir veitinga- og samkomustaðir skulu vera lokaðir frá kl. 01.00 til 06.00 að morgni; þó er heimilt að hafa opið til kl. 03.00, aðfaranótt laugardags, sunnudags eða almenns frídags. Bæjarstjórn getur heimilað að skemmtanir standi lengur en framan greinir, ef sérstak­lega stendur á. Sama gildir um einkasamkvæmi á umræddum stöðum. Allir gestir skulu hafa farið út eigi síðar er 1/2 stundu eftir að lokað er, nema gestir á hótelum og öðrum gististöðum, sem hafa þar náttstað eftir lokunartíma. Heimilt er að selja ferðamönnum þjónustu á hvaða tíma sem er.

Bæjarstjórn er heimilt, að fenginni umsögn lögreglustjóra, að veita undanþágu til heim­sendingar veitinga, utan framangreinds tíma, enda raski það ekki allsherjarreglu.

34. gr.

Um skyldur þeirra sem standa fyrir skemmtunum.

Hver sá sem rekur veitinga- eða gististað, leikhús eða annað samkomuhús, eða heldur almenna skemmtun eða sýningu, skal sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði. Hvers konar sýningar á nektardansi eru óheimilar.

35. gr.

Um opnunartíma sölubúða.

Opnunartími verslana og annarra þjónustufyrirtækja er frjáls að því marki er heimilt er að lögum sem gilda á hverjum tíma eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim.

Bæjarstjórn getur takmarkað opnunar- eða þjónustutíma hjá einstökum aðilum, sbr. 31. grein laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu.

36. gr.

Reglur um útivistartíma og skyld atriði.

Um útivistartíma barna og unglinga, aðgang þeirra að dansleikjum og öðrum skemmt­unum og önnur atriði er lúta að öryggi þessara aldurshópa í bæjarfélaginu gilda reglur XVII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Unglingum yngri en 16 ára er óheimill aðgangur og dvöl á almennum dansleikjum eftir kl. 20.00 öðrum en sérstökum unglingaskemmtunum, sem haldnar eru af skólum, æskulýðs­félögum eða öðrum aðilum, sem hafa til þess leyfi og háðar eru sérstöku eftirliti.

Ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl eftir kl 20.00 á veitingastað, þar sem áfengisveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum/forráðamönnum eða maka.

Forstöðumönnum danshúsa, dansleikja og veitingahúsa er skylt að fylgjast með því, að ákvæði þessi séu haldin að viðlögðum sektum og/eða missi leyfis til veitingahalds eða skemmtanahalds um lengri eða skemmri tíma.

37. gr.

Um takmarkanir á aðgangi að leiktækjum.

Óheimilt er að selja börnum yngri en 14 ára aðgang að leiktækjum í leiktækjasölum. Miðað skal við fæðingarár.

Börnum yngri en 18 ára er óheimill aðgangur að söfnunarkössum.

Starfsmenn leiktækja- og spilastofa skulu ekki vera yngri en 18 ára. Leiktækja, spila- og knattborðsstofur má reka frá kl. 12.00 - 23.30 daglega.

38. gr.

Um takmarkanir á sölu efna sem fallin eru til misnotkunar.

Eigendur bensínstöðva, og aðrir verslunareigendur skulu ekki selja börnum eða ungling­um, kveikjaragas eða önnur þau rokgjörnu efni, sem fallin eru til misnotkunar, ef minnsti vafi leikur á því í hvaða skyni óskað er eftir kaupum á efninu, sbr. reglugerð nr. 196/1987 um tak­mörkun sölu á kveikjaragasi.

VI. KAFLI

Um staðgildi samþykktarinnar, viðurlög við brotum o.s.frv.

39. gr.

Um gildissvið.

Samþykkt þessi gildir fyrir stjórnsýsluumdæmi Stykkishólmsbæjar. Hana ber að túlka með hliðsjón af gildandi lögum og reglum hverju sinni, s.s. almennum hegningarlögum, skipulags- og byggingarlögum, umferðarlögum, vopnalögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir o.s.frv.

40. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum, ef ekki liggur við þyngri hegning að lögum og skulu refsimál rekin að hætti opinberra mála.

Hagnaður sá, sem sakborningur kann að hafa haft af athæfi sínu og enginn einstakur maður eða lögpersóna á löglegt tilkall til, skal gerður upptækur og renna, auk sekta, í ríkis­sjóð.

Ef kenna má yfirsjón barns skorti á hæfilegri umsjá foreldris eða þess, sem gengur barn­inu í foreldris stað, skal refsa þeim fyrir yfirsjónina.

41. gr.

Önnur viðurlagaákvæði.

Ef einhver lætur það ógert sem er skylda hans samkvæmt lögreglusamþykkt þessari eða reglum sem settar eru samkvæmt henni, má lögreglustjóri láta gera það eða gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hindra að vanrækslan valdi tjóni.

Kostnaður við þetta greiðist af þeim sem ábyrgð ber. Sama er um kostnað af ráðstöfun sem lögreglustjóri gerir til þess að hindra fyrirhugaða athöfn eða stöðva athöfn sem ekki er að fullu lokið en bönnuð er með lögreglusamþykkt þessari eða samkvæmt henni. Ef sá sem ábyrgð ber reynist eigi fær um að greiða slíkan kostnað, greiðist hann úr ríkissjóði.

42. gr.

Gildistaka.

Lögreglusamþykkt þessi, sem bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur samið og samþykkt samkvæmt lögum um lögreglusamþykktir nr. 36, frá 18. maí 1988, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Jafnframt er numin úr gildi í bæjarfélaginu lögreglusamþykkt fyrir Stykkishólmsbæ nr. 555/1982 ásamt síðari breytingum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 4. apríl 2007.

Björn Bjarnason.

 

Dís Sigurgeirsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 4. apríl 2007