Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1118/2011

Nr. 1118/2011 8. desember 2011
REGLUR
um ráðstöfun 800 milljóna króna aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2011.

1. gr.

Gildissvið.

Markmið þessara reglna er að úthluta sérstöku aukaframlagi til að koma til móts við þau sveitarfélög sem eiga í miklum fjárhagserfiðleikum á árinu 2011.

Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitar­félags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2011 er fullnýtt af sveitarstjórn. Við útreikning og úthlutun framlagsins er miðað við skipan sveitarfélaga eins og hún var í árslok 2010.

Framlagi samkvæmt þessum reglum er ætlað að bæta erfiða fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélaga með lækkun fjárhæða skulda. Sveitarfélög sem fá úthlutað framlagi skv. 2., 3. og 4. gr. reglna þessara skulu eigi síðar en 23. desember 2011 skila innanríkis­ráðuneytinu greinargerð um ráðstöfun framlagsins. Greinargerðin er forsenda þess að uppgjör framlagsins fari fram fyrir áramót.

2. gr.

Framlag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika Sveitarfélagsins Álftaness.

Varið skal 200 m.kr. til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum Sveitarfélagsins Álftaness. Framlagið skal veitt sem einn þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu sveitar­félagsins samkvæmt tillögum fjárhaldsstjórnar en með hliðsjón af þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur um ráðstöfun þess.

3. gr.

Framlag vegna íþyngjandi skulda.

Varið skal 400 m.kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað skuldahlutfall er hærra en 150%.

Við útreikning framlagsins skal byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010. Við útreikning framlags kemur til skerðingar vegna skuldahlutfalls á bilinu 150% - 250% og þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er umfram 3%.

Nánar um útreikning framlags:

Skerða skal framlag til einstakra sveitarfélaga með hliðsjón af skuldahlutfalli þeirra. Skerðing framlags miðast við nettóskuldir á bilinu 150% - 250% af heildartekjum sveitarfélags. Skerðing hefst við 150% skuldahlutfall (stuðullinn 0,5) og endar við 250% skuldahlutfall sveitarfélags (stuðullinn 1,0) þannig að:

ef skuldahlutfall sveitarfélags er 250% eða hærra, er ekki um skerðingu á framlagi að ræða;

ef skuldahlutfall sveitarfélags er lægra en 150% er ekki um framlag að ræða;

ef skuldahlutfall sveitarfélags er á bilinu 150% - 250% er framlagið skert með stuðli á bilinu 0,5 - 1,0.

Skerða skal jafnframt framlag til einstakra sveitarfélaga þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er umfram 3% þannig að:

ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er undir 3% reiknast stuðullinn 1,0;

ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er á bilinu 3% - 7,5% reiknast stuðullinn 0,5;

ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er yfir 7,5% reiknast stuðullinn 0 og ekki er um framlag að ræða.

Heildarfjárhæð nettóskulda þeirra sveitarfélaga sem eru með hærra skuldahlutfall en 150% er grunnviðmið útreiknings. Að teknu tilliti til framangreindra skerðinga er hlutfall hvers sveitarfélags af heildarfjárhæð nettóskulda margfaldað með fjármagni til ráð­stöfunar, sbr. 1. mgr.

4. gr.

Framlag vegna íbúafækkunar.

Varið skal 200 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúaþróun hefur verið lakari en hjá Reykjavíkur­borg árin 2006-2010.

Við útreikning framlags skal byggt á upplýsingum úr Þjóðskrá um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2005 og um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2010. Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag hver fjölgun íbúa hefði þurft að vera á umræddu tímabili til að sama hlutfallslega vexti og í Reykjavíkurborg væri náð. Reikna skal út hlutfallslegt vægi þeirrar niðurstöðu af samtölu fyrir þau sveitarfélög sem um ræðir. Framlag til sveitarfélags er sú hlutfallstala margfölduð með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr.

Við útreikning framlagsins skal jafnframt byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitar­félaga fyrir árið 2010, annars vegar um heildartekjur og hins vegar um nettó­skuldir.

Skerða skal hlutfallslega framlag til einstakra sveitarfélaga skv. þessari grein með hlið­sjón af nettóskuldum sveitarfélags. Skerðing framlags er hlutfallsleg miðað við nettó­skuldir á bilinu 50% - 100% af heildartekjum. Skerðing hefst við 50% skuldahlutfall (stuðull­inn 0,0) og endar við 100% skuldahlutfall (stuðullinn 1,0) þannig að:

ef skuldahlutfall sveitarfélags er 100% eða hærra er ekki um skerðingu á framlagi að ræða;

ef skuldahlutfall sveitarfélags er á bilinu 50% - 100% er framlagið skert með stuðli á bilinu 0,0 - 1,0;

ef skuldahlutfall sveitarfélags er lægra en 50% er ekki um framlag að ræða.

Framlögin skal jafnframt skerða hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar meðaltekjur á íbúa á árinu 2011 miðað við sambærileg sveitarfélög, sbr. útreikning meðaltekna á grundvelli ákvæða í 1. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010. Skerðingin hefst þegar áætlaðar meðaltekjur á íbúa miðað við fullnýtingu tekjustofna sveitarfélags, eru 4% yfir meðaltali í hverjum við­mið­unarflokki. Framlög falla niður þegar meðaltekjur á íbúa eru 30% yfir meðaltali. Skerðing innan þessara marka skal vera hlutfallsleg.

5. gr.

Skilgreiningar.

Nettóskuldir eru heildarskuldir og skuldbindingar að frádregnum peningalegum eignum án krafna á eigin fyrirtæki samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.

Skuldahlutfall eru nettóskuldir í hlutfalli af heildartekjum samkvæmt ársreikningum sveitar­félaga fyrir árið 2010.

Veltufé frá rekstri er sjóðstreymisfjárhæð samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.

6. gr.

Greiðsla.

Aukaframlagið skal greitt til sveitarfélaga í tvennu lagi. Greiða skal 600 m.kr. við gildistöku reglnanna á grundvelli áætlaðra meðaltekna 2011, sbr. 5. mgr. 4. gr. Eftirstöðvar framlagsins koma til greiðslu í lok desember 2011 þegar meðaltekjur ársins liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram. Verði um að ræða verulegar breytingar á fjárhagslegri stöðu einstakra sveitarfélaga á árinu 2011 áskilur ráðuneytið sér einnig rétt til að endurskoða framlagið til viðkomandi sveitarfélaga með tilliti til þess.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, fjárlaga ársins 2011, liðar 06-841, viðfangsefnis 1.11 og fjáraukalaga ársins 2011, liðar 06-841, viðfangsefnis 1.11 og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 8. desember 2011.

Ögmundur Jónasson.

Hermann Sæmundsson.

B deild - Útgáfud.: 9. desember 2011