Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 935/2008

Nr. 935/2008 7. október 2008
AUGLÝSING
um bann eða takmörkun á innflutningi og varúðarráðstafanir vegna matvæla sem innihalda mjólk eða mjólkurafurðir sem upprunnar eru í Kína eða sem fluttar eru frá Kína.

1. gr.

Auglýsing þessi gildir um innflutning á matvælum sem innhalda mjólk eða mjólkurafurðir sem upprunnar eru í Kína eða sem fluttar eru frá Kína.

2. gr.

Óheimilt er að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli sem innihalda mjólk og mjólkurafurðir sem sérstaklega eru ætluð fyrir ungbörn og smábörn, eins og þau eru skilgreind í reglugerð nr. 757/2002 um sérfæði, reglugerð nr. 140/2003 um barnamat fyrir ungbörn og smábörn og reglugerð nr. 925/2008 um markaðssetningu ungbarna­blandna úr tilteknum mysupróteinum.

3. gr.

Matvælastofnun skal hafa sérstakt eftirlit með öllum samsettum matvælum frá Kína sem innihalda mjólkurafurðir í meira mæli en 15%, sem og öllum matvælum þar sem innihald mjólkurafurða er óljóst.

Eftirlitið skal framkvæmt með skoðun á matvælum, skjölum og sýnatöku. Óheimilt er að dreifa matvælum nema niðurstöður úr sýnatökum leiði í ljós að magn melamíns í vörunni sé innan við 2,5 mg/kg.

Öllum matvælum þar sem magn melamíns í vörunni fer yfir 2,5 mg/kg skal fargað.

Ef matvæli sem tilgreind eru í 2. gr. eru á markaði hérlendis við gildistöku auglýsing­ar­innar skal þeim fargað án tafar. Önnur matvæli, en þau sem um getur í 2. gr., sem innihalda mjólkurafurðir skv. 1. mgr. 3. gr. skulu rannsökuð og þeim fargað ef magn melamíns í vörunni fer yfir 2,5 mg/kg.

4. gr.

Allur kostnaður við eftirlit, rannsóknir og förgun samkvæmt auglýsingu þessari skal greiddur af dreifingaraðilum.

5. gr.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar, sbr. 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995, hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar auglýs­ingar sé framfylgt.

6. gr.

Um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um matvæli nr. 93/1995, með síðari breytingum.

7. gr.

Auglýsing þessi er sett með stoð í 27., 28. og 29. gr., sbr. 18. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum og með hliðsjón af ákvörðun nr. 2008/575/EB.

Auglýsingin öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 7. október 2008.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

B deild - Útgáfud.: 8. október 2008