Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 340/2007

Nr. 340/2007 26. mars 2007
REGLUR
um meistaranám í lyfjavísindum við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

1. gr.

Gildissvið.

Í reglum þessum er fjallað um meistaranám í lyfjavísindum við lyfjafræðideild Háskóla Íslands skv. 68. gr. reglna um Háskóla Íslands.

2. gr.

Markmið.

Markmið meistaranáms í lyfjavísindum er að veita nemandanum þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum að loknu grunnnámi. Meistaranámið skal auka faglega þekkingu og veita þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir í lyfjavísindum.

3. gr.

Meistaranámsnefnd.

Meistaranámsnefnd lyfjafræðideildar fer með málefni meistaranámsins í umboði deildar­ráðs. Hlutverk hennar er m.a. að fjalla um umsóknir, samþykkja breytingar á náms­áætlun, sbr. 8. gr., skipa menn í meistaraprófsnefndir, tilnefna prófdómara fyrir meistara­próf, sbr. 14. gr., og sjá um meistarapróf.

4. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur er til 15. mars fyrir innritun á haustmisseri en til 15. september fyrir innritun á vormisseri. Deildarráð lyfjafræðideildar getur vikið frá þessum tímasetningum.

5. gr.

Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til skrifstofu lyfjafræðideildar. Meistaranámsnefnd afgreiðir umsóknir og tilkynnir deildarráði um niðurstöðurnar. Afgreiðslu umsókna skal að jafnaði vera lokið og þeim svarað innan 4 vikna frá móttöku. Umsókn skal skilað á sérstöku eyðublaði og skal fylgja námsáætlun þ. á m. listi yfir fyrirhuguð námskeið, lýsing rannsóknarverkefnis og rannsóknaráætlun. Sé rannsóknarverkefnið unnið utan lyfja­fræði­deildar, skal fylgja með yfirlýsing fyrirtækis eða stofnunar sem verkefnið er unnið hjá. Þessi yfirlýsing skal staðfesta þátttöku fyrirtækisins eða stofnunarinnar í verk­efninu. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki meistaranámsnefndar.

Ferli umsókna er sem hér segir:

  1. Nemandi finnur sér leiðbeinanda og umsjónarkennara.
  2. Nemandi sækir um inngöngu í meistaranám í lyfjavísindum á sérstöku eyðublaði sem fæst á vefsvæði lyfjafræðideildar. Útfylltu eyðublaðinu skal skilað á skrifstofu lyfjafræðideildar.
  3. Lyfjafræðideild samþykkir umsóknina, eða synjar nemanda ef umsókn uppfyllir ekki gæðakröfur og tilkynnir niðurstöðu bréflega sbr. afgreiðslufrest umsókna í 5. gr. Synjun umsóknar skal vera rökstudd.
  4. Afgreiðsla lyfjafræðideildar er tilkynnt til nemendaskrár um leið og hún liggur fyrir.
  5. Nemandi sem meistaranámsnefnd hefur samþykkt í meistaranám í lyfjavísindum skal snúa sér til nemendaskrár og ganga frá skráningu sinni í námið.

6. gr.

Inntökuskilyrði.

Til að innritast í meistaranám í lyfjavísindum þarf nemandi að hafa lokið grunnnámi, B.S.-prófi frá Háskóla Íslands í lyfjafræði eða skyldum greinum, eða öðru samsvarandi prófi frá innlendum eða erlendum háskóla. Miðað er við að nemandi, sem hefur lokið prófi frá Háskóla Íslands, hafi að lágmarki 6,0 í aðaleinkunn á B.S.- prófi eða samsvarandi námi. Meistaranámsnefnd metur próf frá öðrum skólum en Háskóla Íslands.

7. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám í lyfjavísindum er 60 einingar. Miðað er við að í eðlilegri námsframvindu sé lengd meistaranáms tvö ár og námið taki ekki lengri tíma en þrjú ár. Við brautskráningu skal sýnt að nemandi hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann.

8. gr.

Samsetning náms.

Námið felur í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum. Stærð rannsóknarverkefnis er ákveðin í námsáætlun og skal vera 15, 30 eða 45 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum í samræmi við samþykkta námsáætlun. Þátttaka í málstofu lyfja­fræðideildar sem nemur þremur einingum, er skylda. Meistaranámsnefnd lyfjafræði­deildar skipuleggur þátttöku meistaranema í lyfjavísindum í málstofum.

9. gr.

Einkunnir.

Til að standast próf í meistaranámi í lyfjavísindum verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í öllum námskeiðum hverri um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar 5. og 6. mgr. 123. gr. í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000.

10. gr.

Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.

Miðað er við að ekki fleiri en 10 einingar komi úr námskeiðum í grunnnámi. Að jafnaði skulu gerðar meiri kröfur til nemanda í meistaranámi sem taka námskeið í grunnámi sem hluta af námi sínu. Miðað er við að lágmarkseinkunn úr námskeiðum í grunnnámi sé 6,0.

11. gr.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Meistaranemi í lyfjavísindum skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi grein við lyfjafræðideild, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarkennari, ásamt nemanda, leggur fram námsáætlun sem meistaranámsnefnd lyfjafræðideildar samþykkir.

Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í rannsóknarverkefni og skal hann hafa lokið doktors­prófi á fræðasviðinu. Umsjónarkennari og leiðbeinandi eru að jafnaði sami maður­inn. Nemanda er heimilt að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í þessum reglum. Séu umsjónarkennari og leiðbeinandi ekki sami maðurinn hefur umsjónarkennari umsjón með náminu en leiðbeinandi sér um að leið­beina nemanda í rannsóknarverkefni.

12. gr.

Meistaraprófsnefndir.

Meistaraprófsnefnd skal skipa þegar rannsóknarverkefnið er stærra en 15 einingar. Nefndin skal skipuð þremur sérfróðum mönnum og er einn þeirra umsjónarkennarinn. Meistaranámsnefnd skipar meistaraprófsnefndina. Hlutverk hennar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og tryggja fagleg gæði rannsókna­vinnunnar í samræmi við reglur deildarinnar.

13. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Nemendur geta tekið hluta meistaranáms við aðra háskóla. Skýrt skal kveðið á um vægi námskeiða og verkefnis við Háskóla Íslands og annarra háskóla í námsáætlun sem lögð er fyrir lyfjafræðideild til samþykktar við innritun.

14. gr.

Prófdómarar.

Meistaranámsnefnd tilnefnir tvo prófdómara sem prófa meistaranema og leggja mat á rannsóknarverkefni hans ásamt meistaraprófsnefnd. Prófdómarar skulu ekki vera tengdir rannsóknarverkefninu.

15. gr.

Námsmat og meistarapróf.

Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaranámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Í meistaraprófi í lyfjavísindum flytur nemandi fyrir­lestur um rannsóknarverkefnið og hafa prófdómarar síðan samtals u.þ.b. klukku­stund til að prófa nemandann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af meistaranámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn.

16. gr.

Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Meistararitgerð skal uppfylla kröfur lyfjafræðideildar Háskóla Íslands um ritgerðir til meistaraprófs. Í henni skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða rannsókna á fræðasviðinu er rakin, aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður, ítarleg umfjöllun og heimildaskrá sem skal vera samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni. Í ritgerð skal getið stofnunar sem rannsóknin var unnin við og einnig skal geta umsjónarkennara og leiðbeinanda. Koma skal skýrt fram að verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verkefnið. Meistara­ritgerð nemenda í rannsóknatengdu meistaranámi skal skilað í fimm eintökum og á rafrænu formi til skrifstofu lyfjafræðideildar eigi síðar en mánuði fyrir áætlaðan próf­dag. Lyfjafræðideild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meistararitgerða.

17. gr.

Lærdómstitlar.

Að loknu meistaranámi í lyfjavísindum hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Pharmaceutical Sciences (M.S. Pharm. Sci.).

18. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af deildarfundi í lyfjafræðideild og hlotið staðfestingu háskólaráðs sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 67. og 68. gr. sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 92/2003, um meistaranám við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 26. mars 2007.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. apríl 2007