1. gr. Stofnfundur veiðifélags. Einn eða fleiri veiðiréttarhafar geta átt frumkvæði að stofnun veiðifélags, en Landbúnaðarstofnun að þeim frátöldum. Á stofnfundi skal setja veiðifélagi samþykktir. 2. gr. Boðun stofnfundar. Til stofnfundar veiðifélags skal boða alla þekkta veiðiréttarhafa á fyrirhuguðu félagssvæði, sbr. 12. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Stofnfund skal boða skriflega með ábyrgðarbréfi eigi síðar en 14 dögum fyrir fundardag. Á stofnfundi skal liggja fyrir ákvörðun Landbúnaðarstofnunar um umdæmi veiðifélags. Fundur er lögmætur, ef hann er löglega boðaður. 3. gr. Dagskrá stofnfundar. Dagskrá stofnfundar skal vera sem hér segir: Stofnun félags. Samþykkt félags. Kosning stjórnar og skoðunarmanna. Önnur mál.
4. gr. Stjórn veiðifélags. Stjórn félagsins og deilda ef þær eru starfandi skipa þrír, fimm eða sjö menn, formaður og meðstjórnendur. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Kjörgengir í stjórn eru allir sem aðild eiga að veiðifélagi. Einnig má kjósa fulltrúa í stjórn, sem ekki er félagsmaður og starfar hann þá í stjórninni og á fundum veiðifélagsins samkvæmt sérstöku skriflegu umboði félagsmanns. Stjórnarmenn ganga úr stjórninni á víxl þannig; Formaður gengur út eftir eitt ár. Séu stjórnarmenn þrír gengur einn meðstjórnandi út eftir tvö ár, en hinn eftir þrjú ár. Séu stjórnarmenn fimm, ganga tveir meðstjórnendur út eftir tvö ár, en tveir eftir þrjú ár. Séu stjórnarmenn sjö ganga þrír meðstjórnendur út eftir tvö ár, en þrír eftir þrjú ár og helst svo sama röð áfram. Stjórnin skiptir með sér verkum. Enginn atkvæðisbær félagsmaður getur skorast undan kosningu, nema sérstök forföll hamli, eða ef hann hafur verið í stjórn í þrjú ár. Kjósa skal þrjá varamenn til eins árs í senn. Kjósa skal tvo skoðunarmenn og einn til vara ár hvert. Heimilt er að setja í samþykktir veiðifélags að kjósa megi formann beinni kosningu og stjórn félagsins og skoðunarmenn í einu lagi til þriggja ára í senn. 5. gr. Verksvið stjórnar. Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins milli aðalfunda. Aðalfundur ákveður þóknun fyrir störf stjórnar. Stjórnin fær menn sér til aðstoðar við þau störf í þágu félagsins, sem vinna þarf á hverjum tíma, og semur við þá um þóknun fyrir. Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur yfirumsjón með öllum störfum félagsins og fjárreiðum. 6. gr. Málsmeðferðarreglur og hæfi. Stjórnarmenn skulu víkja sæti við meðferð þeirra mála félagsins sem snerta hagsmuni þeirra eða venslamanna sérstaklega umfram aðra félagsmenn. Stjórn veiðifélags skal sjá til þess að mál sem tekin eru til meðferðar séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í þeim. Stjórn veiðifélags skal haga störfum sínum þannig að jafnræðis sé gætt meðal félagsmanna. Áður en stjórn veiðifélags tekur ákvörðun á stjórnarfundi í máli sem snertir hagsmuni tiltekins félagsmanns umfram aðra, skal þess gætt að hann eigi þess kost að tjá sig um efni máls, enda liggi afstaða hans til málsins ekki fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft. Félagsmenn eiga rétt á aðgangi að þeim gögnum sem félagstjórn hefur undir höndum. Stjórn veiðifélags er þó heimilt í undantekningartilvikum að undanskilja tiltekin gögn aðgangi félagsmanna, ef þau eiga ekki erindi til einstakra félagsmanna sökum eðlis síns, eða rétt þykir vegna viðskiptalegra sjónarmiða að um þau gildi trúnaður í tiltekinn tíma. Aflétta skal trúnaði af gögnum um leið og skilyrði til þess eru fyrir hendi. Rísi ágreiningur um lögmæti ákvörðunar félagsstjórnar eða fundar í félaginu getur félagsmaður kært ákvörðunina til Landbúnaðarstofnunar innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun var tekin. 7. gr. Arðskrá. Veiðifélagi er skylt að láta gera skrá, er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði, sem koma á í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt á í vatni á félagssvæði. Arðskrá skal leggja fram til samþykktar eða synjunar félagsmanna á löglega boðuðum félagsfundi. Um arðskrá skal greiða atkvæði, og þarf atkvæði 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna til samþykktar hennar. Sé fundarsókn ekki næg, skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þá afl atkvæða. Ef arðskrá er ekki samþykkt, ber stjórn veiðifélags að óska eftir mati samkvæmt VII. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði um þau atriði, sem greinir í 1. mgr. Einnig er sérhverjum félagsmanni, rétt að krefjast mats með framangreindum hætti, enda komi sú krafa fram innan tveggja mánaða frá fundi, þar sem arðskrá hefur verið samþykkt. Veiðifélag skal senda Landbúnaðarstofnun arðskrá skv. 1.–3. mgr. til staðfestingar og birtingar í B-deild Stjórnartíðinda eftir að frestur til að krefjast mats, skv. 3. mgr. er liðinn. Arðskrá tekur gildi tveimur mánuðum eftir slíka birtingu. Komi fram krafa um mat gildir eldri arðskrá, ef henni er til að dreifa, þar til matsgerð skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði liggur fyrir og arðskrá á grundvelli hans hefur verið staðfest og birt. Rétt er veiðifélagi samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða stjórnar, svo og einstökum félagsmönnum, að krefjast endurskoðunar á arðskrá átta árum eftir gildistöku hennar. 8. gr. Aðalfundir. Aðalfund veiðifélags skal halda árlega fyrir 1. júní ár hvert. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: Skýrsla stjórnar. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram. Umræður um skýrslu og reikninga. Fjárhagsáætlun næsta árs. Kosning stjórnar og skoðunarmanna, sbr. 4. gr. Önnur mál.
Á fundum, hvort sem er aðalfundum eða aukafundum, skal liggja frammi skrá um atkvæðisbæra félagsmenn. Framlögð umboð á fundi skal færa í fundargerðabók. 9. gr. Aukafundir. Aukafundi skal halda ef félagsstjórn telur ástæður til eða ¼ félagsmanna æskir þess og tilgreinir fundarefni. Nú lætur félagsstjórn undir höfuð leggjast að boða aukafund í tvo mánuði, og er þeim er fund vilja halda þá rétt að boða hann. 10. gr. Boðun funda. Stjórn veiðifélags skal boða skriflega til aðalfundar til allra veiðiréttarhafa með dagskrá með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Aukafundi, skal boða skriflega með dagskrá, til allra veiðiréttarhafa, eigi síður en 10 dögum fyrir fundardag. Heimilt er þó að mæla fyrir um annað fyrirkomulag, um boðun aukafunda, í samþykktum veiðifélags. Skylt er að boða fundi í veiðifélagi með ábyrgðarbréfi, með minnst 10 daga fyrirvara, ef breyta skal samþykktum félagsins eða ráðstafa veiði á félagsfundi. 11. gr. Atkvæðagreiðslur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Þó verður breyting á samþykkt eða arðskrá að hljóta samþykki 2/3 atkvæðisbærra félagsmanna. Nú verður breyting á samþykkt eða arðskrá ekki afgreidd vegna ófullnægjandi fundarsóknar, og má þá boða til annars fundar. Á þeim fundi ræður afl atkvæða. Nú er ráðgert að breyta samþykkt, arðskrá eða ráðstafa veiði og skal þess getið í fundarboði. Nú fer atkvæðagreiðsla fram á fundi skv. fyrirmælum 7. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og gildir þá ein eining í arðskrá, sem eitt atkvæði hjá félagsmanni sem hefur atkvæðisrétt, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Greiða má atkvæði skriflega, enda sé þess getið í fundarbók. 12. gr. Refsiheimild. Um brot gegn reglugerð þessari og viðurlög fer eftir VIII. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. 13. gr. Fyrirmynd að samþykktum. Í samræmi við ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fylgir reglugerð þessari fyrirmynd að samþykktum veiðifélags. 14. gr. Lagastoð og gildistaka. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. mgr. 37. gr., 2. mgr. 39. gr., 3. mgr. 39. gr., og 4. mgr. 42. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og öðlast þegar gildi. Landbúnaðarráðuneytinu, 5. desember 2006. Guðni Ágústsson. Atli Már Ingólfsson. Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal) |