Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 815/2010

Nr. 815/2010 25. október 2010
REGLUR
um ráðstöfun 1.000 milljóna króna aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2010.

1. gr.

Gildissvið.

Markmið þessara reglna er að úthluta sérstöku aukaframlagi til sveitarfélaga sem eru í þörf fyrir slíkt framlag vegna erfiðrar rekstrar- og fjárhagsstöðu þeirra á árinu 2010. Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2010 er fullnýtt af sveitarstjórn. Við útreikning og úthlutun framlagsins er miðað við skipan sveitarfélaga eins og hún var í árslok 2009.

Framlagi samkvæmt þessum reglum er ætlað að bæta rekstrar- og fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélaga. Sveitarfélög sem fá úthlutað framlagi skulu eigi síðar en 1. febrúar 2011 skila samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu greinargerð um ráðstöfun þess.

2. gr.

Framlag vegna íbúaþróunar og heildartekna.

Varið skal 600 m.kr. til sveitarfélaga vegna þróunar íbúafjölda og heildartekna.

a) Íbúaþróun.

Varið skal 400 m.kr. til sveitarfélaga sem ekki hafa fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað varðar íbúafjölda árin 2005-2009.

Við útreikning framlags skal byggt á upplýsingum úr Þjóðskrá um endanlegan íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2004 og um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2009.

Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag hver fjölgun íbúa hefði þurft að vera á umræddu tímabili til að sama hlutfallslega vexti og í Reykjavíkurborg væri náð. Reikna skal út hlutfallslegt vægi þeirrar niðurstöðu af samtölu fyrir þau sveitarfélög sem um ræðir. Framlag til sveitarfélags er sú hlutfallstala margfölduð með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. a) liðar.

b) Þróun heildartekna.

Varið skal 200 m.kr. til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun heildartekna milli áranna 2005 og 2010 er lægri en meðaltal heildartekna allra sveitarfélaga á landsvísu fyrir sama tímabil. Einungis kemur til úthlutunar framlags hafi sveitarfélag ekki fylgt íbúaþróun Reykjavíkurborgar á sama tímabili.

Við útreikning framlags skal byggt á upplýsingum um heildartekjur árin 2005-2010, upplýsingum úr Þjóðskrá um endanlegan íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2004 og um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2009.

Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag mismun á hlutfallslegri hækkun heildartekna sveitarfélaga á landsvísu og hlutfallslegri hækkun heildartekna hvers sveitarfélags. Margfalda skal þann mismun með íbúafjölda viðkomandi sveitarfélags 1. desember 2009. Reikna skal út hlutfallslegt vægi þeirrar niðurstöðu með hliðsjón af samtölu mismunar fyrir þau sveitarfélög sem um ræðir. Framlag til sveitarfélags er sú hlutfallstala margfölduð með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. b) liðar.

Skerðing vegna peningalegrar stöðu.

Skerða skal framlag til einstakra sveitarfélaga skv. þessari grein með hliðsjón af jákvæðri peningalegri stöðu þeirra samkvæmt ársreikningi 2009. Skerðing fer þannig fram að 5% af jákvæðri peningalegri stöðu koma til lækkunar á útreiknuðu framlagi.

3. gr.

Framlag vegna lágra meðaltekna.

Varið skal 200 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúaþróun hefur verið meiri en hjá Reykjavíkurborg árin 2005-2009. Reikna skal út áætlaðar meðaltekjur ársins 2010 á íbúa í öllum þeim sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði samkvæmt þessari grein. Eingöngu er veitt framlag til sveitarfélaga sem hafa lægri meðaltekjur á íbúa en reiknaðar meðaltekjur, sbr. fyrri málslið.

Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag sem fellur undir skilyrði 1. mgr. hversu háa fjárhæð vanti til að ná meðaltekjum á íbúa, sbr. 2. málsl. 1. mgr. Reikna skal út hlutfallslegt vægi þeirrar niðurstöðu með hliðsjón af samtölu þeirrar fjárhæðar sem á vantar hjá þeim sveitarfélögum sem um ræðir til að meðaltekjum verði náð. Framlag til sveitarfélags er sú hlutfallstala margfölduð með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr. þessarar gr.

Skerða skal framlag til einstakra sveitarfélaga skv. þessari grein með hliðsjón af jákvæðri peningalegri stöðu þeirra samkvæmt ársreikningi 2009. Skerðing fer þannig fram að 5% af jákvæðri peningalegri stöðu koma til lækkunar á útreiknuðu framlagi.

4. gr.

Framlag vegna íþyngjandi skulda.

Varið skal 150 m.kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað viðmið heildarskulda og skuldbindinga er hærra en sem nemur 100% af heildartekjum að frádregnum óreglulegum tekjum og rekstrarniðurstaða er neikvæð.

Við útreikning framlagsins skal byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2009, annars vegar um heildartekjur og hins vegar um heildarskuldir og skuldbindingar að frádregnum veltufjármunum án krafna á eigin fyrirtæki, og að frádregnum skuldabréfum meðal langtímakrafna.

Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag, sem fellur undir skilyrði 1. mgr., fjárhæð útreiknaðs viðmiðs heildarskulda og skuldbindinga samkvæmt 2. mgr. umfram 100% skuldahlutfall. Hlutfallslegt vægi þeirrar fjárhæðar af útreiknuðu viðmiði heildarskulda og skuldbindinga þeirra sveitarfélaga er falla undir þessa grein er margfaldað með fjármagni til ráðstöfunar.

5. gr.

Framlag til fjölkjarna sveitarfélaga.

Varið skal 50 m.kr. til sveitarfélaga, annarra en Reykjavíkurborgar, þar sem tekið er tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. og c-lið 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003. Forsenda fyrir úthlutun framlags samkvæmt þessari grein, eins og á grundvelli annarra greina reglnanna, er að heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2010 sé fullnýtt af sveitarstjórn.

6. gr.

Skilgreiningar.

Með peningalegri stöðu er átt við veltufjármuni og langtímakröfur sveitarfélags í efnahagsreikningi að frádregnum skammtíma- og langtímaskuldum þess.

Heildartekjur hvers árs eru hámarks útsvarstekjur miðað við álagningu á tekjur ársins á undan og hámarks fasteignaskattstekjur miðað við álagningu, auk eftirfarandi framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sama árs: Framlag til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts, tekjujöfnunarframlag, útgjaldajöfnunarframlag og almennt jöfnunar­framlag til reksturs grunnskóla.

Með áætluðum meðaltekjum á íbúa árið 2010 er átt við heildartekjur þess árs, sbr. 2. mgr., deilt með íbúafjölda 1. desember 2009.

7. gr.

Greiðsla.

Aukaframlagið skal greitt til sveitarfélaga í tvennu lagi. Greiða skal 750 m.kr. í október 2010 á grundvelli áætlaðra heildartekna 2010, sbr. 2. mgr. 5. gr. Eftirstöðvar framlagsins koma til greiðslu í desember 2010 þegar heildartekjur ársins liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram. Verði um að ræða verulegar breytingar á peningalegri stöðu einstakra sveitarfélaga á árinu 2010 áskilur ráðuneytið sér einnig rétt til að endurskoða framlagið til viðkomandi sveitarfélaga með tilliti til þess.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og fjárlaga ársins 2010, liðar 10-801, viðfangsefnis 1.11 og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 25. október 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 27. október 2010