Með vísan til 1. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, með síðari breytingum og með hliðsjón af tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þar að lútandi, dags. 4. febrúar 2010, sem og atvikum öllum, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákveðið að svipta bæjarstjórn Sveitarfélagsins Álftaness fjárforráðum og skipa fjárhaldsstjórn fyrir sveitarfélagið. Fjárhaldsstjórn tekur, samkvæmt ákvörðun þessari, við stjórn fjármála Sveitarfélagsins Álftaness og má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Ályktanir bæjarstjórnar og ákvarðanir lægra settra stjórnvalda hennar, sem hafa útgjöld í för með sér, eru ógildar nema til komi samþykki fjárhaldsstjórnar. Að öðru leyti fer bæjarstjórnin áfram með málefni sveitarfélagsins. Um hlutverk fjárhaldsstjórnar er nánar fjallað í 78. gr. sveitarstjórnarlaga. Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness er skipuð eftirfarandi aðilum: Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, formaður. Elín Guðjónsdóttir viðskiptafræðingur. Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur.
Þóknun til fjárhaldsmanna er ákveðin af ráðherra og greiðist úr ríkissjóði. Fjárhaldsstjórn tekur nú þegar til starfa og er skipunartími hennar til 1. ágúst 2010. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 8. febrúar 2010. Kristján L. Möller. Ragnhildur Hjaltadóttir. |