Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 550/2010

Nr. 550/2010 15. júní 2010
REGLUR
um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

1. gr.

Almennt.

Alþjóðamálastofnun er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands. Stofnunin heyrir undir félagsvísindasvið og hugvísindasvið, en er vistuð á félagsvísindasviði og er meðal annars vettvangur þverfaglegs samstarfs á sviði alþjóðamála og smáríkjarannsókna. Innan stofnunarinnar starfar Rannsóknasetur um smáríki, sbr. 3. gr.

Utanríkisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Alþýðusamband Íslands taka þátt í stjórn stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samstarfssamningi sem staðfestur er af háskólaráði. Heimilt er að veita öðrum samtökum í atvinnulífi og opinberum aðilum aðild að samstarfssamningnum.

2. gr.

Hlutverk.

Hlutverk Alþjóðamálastofnunar er:

  1. að vinna að rannsóknaverkefnum í samstarfi við innlenda og erlenda aðila,
  2. að auka samstarf milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila á sviði alþjóðamála og vera meðal annars leiðandi í rannsóknum á smáríkjum,
  3. að treysta samvinnu milli samstarfsaðila í þágu þverfaglegra rannsókna og efla skilning á mikilvægi þeirra í almennri þjóðfélagsumræðu,
  4. að gangast fyrir ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og námskeiðum um efni sem varða starfssvið stofnunarinnar,
  5. að vinna að útgáfu rita um alþjóðamál og
  6. að vinna þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf og opinbera aðila.

3. gr.

Skipulag.

Rannsóknasetur um smáríki er faglega sjálfstæð eining sem starfar innan Alþjóðamála­stofnunar.

Stjórn Alþjóðamálastofnunar getur, að fengnu samþykki stjórna félagsvísindasviðs og hugvísindasviðs, ákveðið að setja á fót önnur rannsóknasetur á grundvelli verkefna stofnunarinnar, þar á meðal langtíma þjónustuverkefna, og að forstöðumaður sé ráðinn fyrir hverju setri. Ef forstöðumaður er ráðinn til seturs er hann ábyrgur gagnvart stjórn stofnunarinnar í starfi sínu og annast daglegan rekstur í umboði hennar. Forstöðumaður hefur eftirlit með starfsmönnum setursins og fjármálum auk þess að gera rekstrar­áætlanir og stýra rannsóknarverkefnum. Stjórn Alþjóðamálastofnunar setur rannsókna­setrum starfsreglur.

4. gr.

Aðstaða.

Félagsvísindasvið lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 9. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

5. gr.

Stjórn.

Forseti félagsvísindasviðs, að höfðu samráði við forseta hugvísindasviðs, skipar stofnun­inni sjö manna stjórn til þriggja ára í senn. Stjórn félagsvísindasviðs tilnefnir tvo stjórnar­menn, stjórn hugvísindasviðs tvo, utanríkisráðuneytið einn, Alþýðusamband Íslands einn og Samtök iðnaðarins einn. Forseti félagsvísindasviðs ákveður hver gegnir formannsstörfum. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því skyni skal þess farið á leit við tilnefningaraðila að þeir tilnefni hverju sinni bæði karl og konu til setu í nefndinni.

Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Ef ekki er ráðinn forstöðumaður við stofnunina kemur formaður stjórnar fram fyrir hönd stofnunarinnar, annast daglegan rekstur hennar og framkvæmd á ákvörðunum stjórnar.

6. gr.

Ráðgjafarnefnd.

Félagsvísinda- og hugvísindasvið skipa ellefu manna ráðgjafarnefnd samkvæmt tilnefn­ingu stjórnar Alþjóðamálastofnunar. Ráðgjafarnefndin veitir stjórn ráðgjöf í starfi og stefnumótun stofnunarinnar.

7. gr.

Aðild.

Aðild að stofnuninni geta átt prófessorar, dósentar og lektorar, þ.m.t. erlendir sendi­kennarar, við Háskóla Íslands. Einnig aðrir sem stjórn veitir starfsaðstöðu, svo sem stunda­kennarar, gistikennarar, sérfræðingar, nýdoktorar og framhaldsnemar. Auk þessa geta aðrir fræðimenn, innan eða utan Háskólans, átt aðild að stofnuninni.

Stjórnin veitir aðild að stofnuninni á grundvelli umsóknar eða tillögu.

8. gr.

Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar eða forstöðumaður boða stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með viku fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir for­mannsstörfum.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundar­gerða skulu send samstarfsaðilum sem aðild eiga að stjórn. Ef forstöðumaður er ráðinn til stofnunarinnar situr hann stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðis­réttar.

9. gr.

Verkefni stjórnar.

Stjórn Alþjóðamálastofnunar tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina, setur henni rannsóknastefnu og veitir fé til einstakra rannsóknarverkefna. Þá ber stjórnin ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart forseta félagsvísindasviðs og samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.

Stjórnin getur skipað starfshópa til að vinna að framgangi tiltekinna mála til lengri eða skemmri tíma. Sérstaka áherslu skal leggja á að fá einstaklinga utan stjórnar í starfshópana einkum erlenda fræðimenn og aðra sem aðild eiga að stofnuninni. Stjórnin gerir tillögu að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð staðfestir.

Stjórn efnir til ársfundar. Ársfund skal að jafnaði halda á fyrsta ársfjórðungi, og leggja þar fram ársskýrslu, fjárhagsáætlun ársins og fjárhagsyfirlit síðasta árs. Ársfundur er jafnframt vettvangur umræðu um rekstur og starfsemi stofnunarinnar og um rannsóknastefnu. Ársfundinn sitja auk stjórnar og starfsmanna, þeir sem aðild eiga að stofnuninni sbr. 6. gr. sem og gestir.

10. gr.

Forstöðumaður og starfslið.

Forseti félagsvísindasviðs, að höfðu samráði við forseta hugvísindasviðs, ræður stofn­un­inni forstöðumann að fenginni tillögu stjórnar Alþjóðamálastofnunar.

Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum. Forstöðumaður skal hafa doktorspróf eða meist­arapróf, hið minnsta, á sviðum sem tengjast starfi stofnunarinnar

Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands. Ef um er að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í regl­unum fer stjórn stofnunarinnar eða forstöðumaður í umboði hennar með ráðningar­málið.

11. gr.

Fjármál.

Tekjur Alþjóðamálastofnunar eru eftirfarandi:

  1. Fjárveitingar samkvæmt ákvörðun háskólaráðs,
  2. fjárveitingar samkvæmt ákvörðun félagsvísinda- og hugvísindasviðs,
  3. framlag frá samstarfsaðilum stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samstarfs­samningi,
  4. styrkir til einstakra verkefna,
  5. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
  6. tekjur af útgáfustarfsemi,
  7. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlag úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárhagsáætlun skal lögð fyrir forseta félagsvísindasviðs til samþykktar.

Stjórn stofnunarinnar ákveður stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum stofnunarinnar í samræmi við gildandi reglur háskólans.

Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starf­semi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnis­laga.

12. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett að fenginni tillögu stjórna félagsvísindasviðs og hugvísindasviðs og á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi.

Með gildistöku reglna þessara falla úr gildi reglur nr. 501/2002, um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 15. júní 2010.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 2. júlí 2010