Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 846/2011

Nr. 846/2011 16. september 2011
REGLUGERÐ
um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum.

1. gr.

Reglugerð þessari er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralækna­þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er tak­markaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti.

Til að tryggja framangreint skal dýralæknum sem starfa á slíkum landsvæðum tryggð skv. reglugerð þessari greiðsla vegna starfa þeirra á hlutaðeigandi landsvæðum og til að koma upp starfsaðstöðu.

2. gr.

Þeim landsvæðum sem falla undir reglugerðina er skipt upp eftir þjónustusvæðum og eru:

Þjónustusvæði 1:

Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundafjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.

Þjónustusvæði 2:

Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Bæjarhreppur.

Þjónustusvæði 3:

Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.

Þjónustusvæði 4:

Húnaþing vestra, Blönduósbær, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húna­vatns­hreppur.

Þjónustusvæði 5:

Þingeyjarsveit (nema Fnjóskadalur), Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjör­nes­hreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð (nema Bakkafjörður).

Þjónustusvæði 6:

Bakkafjörður (fyrrum Skeggjastaðahreppur), Vopnafjarðarhreppur, Fljótdals­hérað, Fljótdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Fjarðabyggð (nema Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður).

Þjónustusvæði 7:

Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður.

Þjónustusvæði 8:

Sveitarfélagið Hornafjörður.

Þjónustusvæði 9:

Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur.

3. gr.

Matvælastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi dýralækna um að þeir sinni almennri dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á þjónustu­svæðum, sbr. 2. gr. Í samningum skal kveðið á um réttindi og skyldur dýralækna, s.s. varðandi almenna starfshætti, endurgjald fyrir veitta þjónustu samkvæmt þjón­ustu­samningi, viðveru, starfsaðstöðu, afleysingar og samstarf innan sama þjónustu­svæðis og milli svæða. Þá skal kveðið á um hvernig standa skuli að uppsögn og endur­skoðun samninga.

Þjónustusamningur skv. 1. mgr. skal aðeins gerður að undangenginni opinberri auglýsingu og skal gera ráð fyrir endurgjaldi samkvæmt þjónustusamningi fyrir veitta þjónustu eins dýralæknis á hverju þjónustusvæði. Heimilt er að semja við fleiri en einn dýralækni innan sama þjónustusvæðis og skiptist endurgjaldið þá milli aðila í samræmi við þá þjónustusamninga sem gerðir eru. Endurgjald samkvæmt þjónustusamningi er sama fjárhæð á öllum þjónustusvæðum.

4. gr.

Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skv. 3. gr. skal vera með starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir að dýralæknir geti sinnt þjónustu á fleiri en einu þjónustusvæði. Jafnframt er öðrum dýralæknum, en þeim sem Matvælastofnun hefur gert þjónustusamning við, heimilt að sinna dýralæknaþjónustu á þeim þjónustusvæðum sem tilgreind eru í 2. grein.

5. gr.

Matvælastofnun skal með reglubundnum hætti endurmeta þörf fyrir þjónustu skv. reglugerð þessari á einstökum svæðum og er stofnuninni heimilt að segja upp þjónustusamningi ef stofnunin telur tryggt að fullnægjandi almenn dýralæknaþjónusta og bráðaþjónusta verði til staðar á viðkomandi þjónustusvæði.

Við endurskoðun á því hvort nauðsynleg dýralæknaþjónusta eða bráðaþjónusta sé á tilteknu þjónustusvæði skal hafa hliðsjón af fjölda sjálfstætt starfandi dýralækna á viðkomandi þjónustusvæði og/eða fjölda verkefna fyrir starfandi dýralækna.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. gr. a laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sbr. og bráðabirgðaákvæði sömu laga. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur reglugerð nr. 570/2010 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum úr gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þjónustusamningar skv. reglugerð þessari skulu gilda frá 1. nóvember 2011.

Á þjónustusvæðum þar sem héraðsdýralæknar hafa starfað við opinbert eftirlit og dýralæknaþjónustu, sem starfsmenn Matvælastofnunar, og þessir héraðsdýralæknar þiggja ekki störf hjá stofnuninni frá 1. nóvember 2011, er stofnuninni heimilt að gera þjónustusamning við hlutaðeigandi starfsmenn án undangenginnar auglýsingar.

Reglugerð þessa skal endurskoða innan þriggja ára sérstaklega með tilliti til reynslu af skiptingu þjónustusvæða skv. 2. gr.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 15. september 2011.

Jón Bjarnason.

Sigurgeir Þorgeirsson.

B deild - Útgáfud.: 16. september 2011