I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.
1. gr.
Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
a. (XVI.)
Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrði er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að vaxtagjöld af þeim séu grundvöllur útreiknings vaxtabóta.
Heimild einstaklings skv. 1. mgr. takmarkast við allt að 4% framlag rétthafa eða 333 þús. kr. og allt að 2% framlag launagreiðanda eða 167 þús. kr. af iðgjaldsstofni eða að hámarki samanlagt 500 þús. kr. á almanaksári. Hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, takmarkast heimildin við allt að 4% framlag rétthafa eða 500 þús. kr. og allt að 2% framlag launagreiðanda eða 250 þús. kr. af iðgjaldsstofni eða að hámarki samanlagt 750 þús. kr. á almanaksári. Greiðsla inn á lán getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda á hverjum tíma. Skilyrði er að iðgjöld séu greidd reglulega og að framlag rétthafa sé aldrei lægra en framlag launagreiðanda skv. 1. málsl.
Umsókn rétthafa um greiðslu inn á lán skv. 1. mgr. skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Umsókn gildir um iðgjöld sem greidd eru eftir að umsókn berst, þó getur umsókn gilt frá 1. júlí 2014 ef hún berst fyrir 1. september sama ár.
Umsækjanda er skylt að upplýsa ríkisskattstjóra rafrænt um breytingar á forsendum umsóknar, svo sem um hjúskaparstöðu, lán og vörsluaðila séreignarsparnaðar.
Vörsluaðilar og lánveitendur, eftir því sem við á, skulu að beiðni ríkisskattstjóra staðfesta hvort þær upplýsingar sem umsækjandi veitir eru réttar.
Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar vegna framkvæmdar ákvæðis þessa. Skráin skal m.a. byggð á eftirfarandi upplýsingum:
Upplýsingum frá umsækjanda sem staðfestar hafa verið af vörsluaðilum séreignarsparnaðar og lánveitendum, eftir því sem við á.
Upplýsingum frá lánveitendum um greiðsluskilmála lána.
Upplýsingum sem ríkisskattstjóri ræður yfir á grundvelli skattframkvæmdar, eftir því sem nauðsynlegt er.
Að fengnum upplýsingum skv. 6. mgr. getur greiðsla farið fram.
Vörsluaðilar skulu eiga aðgang að upplýsingum um sína viðsemjendur úr skrá ríkisskattstjóra skv. 6. mgr. Þá skulu vörsluaðilar ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári, í fyrsta sinn í nóvember 2014 en eftir það eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Vörsluaðilar skulu ráðstafa greiðslum til lánveitenda á þeim tíma þegar greiðslur geta farið inn á höfuðstól valinna lána í skilum skv. 1. málsl. 9. mgr. Upplýsingar um greiðslur skulu sendar rafrænt til ríkisskattstjóra.
Lánveitendur skulu ráðstafa greiðslum frá vörsluaðilum skv. 8. mgr. inn á höfuðstól valinna lána. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Hafi umsækjandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009, skal fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi.
Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar ráðstafi iðgjaldagreiðslum samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferil, greiðslur, eftirlit og kostnað.
b. (XVII.)
Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að taka út viðbótariðgjald sem greitt hefur verið á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 og nýta til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þó eigi síðar en 30. júní 2019. Skilyrði er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt.
Heimild einstaklings skv. 1. mgr. takmarkast við allt að 4% framlag rétthafa eða 333 þús. kr. og allt að 2% framlag launagreiðanda eða 167 þús. kr. af iðgjaldsstofni, eða að hámarki samanlagt 500 þús. kr. á almanaksári og 1,5 millj. kr. samtals. Hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, takmarkast heimildin við allt að 4% framlag rétthafa eða 500 þús. kr. og allt að 2% framlag launagreiðanda eða 250 þús. kr. af iðgjaldsstofni, að hámarki samanlagt 750 þús. kr. á almanaksári og 2.250.000 kr. samtals. Útgreiðsla getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Skilyrði er að iðgjöld séu greidd reglulega og að framlag rétthafa sé aldrei lægra en framlag launagreiðanda skv. 1. málsl.
Umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota skal beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Umsækjandi skal í umsókn framvísa gögnum sem sýna fram á að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt. Þinglýstur kaupsamningur, afsal eða skráning íbúðarhúsnæðis í Þjóðskrá, ásamt staðfestingu frá Þjóðskrá um að rétthafi sé ekki skráður eigandi að öðru íbúðarhúsnæði eru meðal þeirra gagna sem fullnægjandi geta talist skv. 2. málsl.
Ríkisskattstjóri miðlar upplýsingum úr umsókn til viðeigandi vörsluaðila sem staðfestir greiðslusögu iðgjalda og greiðir iðgjöldin út.
Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar ráðstafi séreignarsparnaði samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 2. mgr. 8. gr.
Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum iðgjalda samkvæmt ákvæði þessu.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um umsóknarferil, útborgun, eftirlit og kostnað.
II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
2. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. telst útgreiðsla viðbótariðgjalda af iðgjaldsstofni skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, ekki til tekna hjá mönnum ef öll skilyrði ákvæðis til bráðabirgða XVI í sömu lögum eru uppfyllt.
Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. telst útgreiðsla viðbótariðgjalda af iðgjaldsstofni skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, vegna iðgjalda á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, ekki til tekna enda séu öll skilyrði ákvæðis til bráðabirgða XVII í sömu lögum uppfyllt.
Samanlögð hámarksfjárhæð einstaklings skv. 1. og 2. mgr. er 1,5 millj. kr. og samanlögð hámarksfjárhæð hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, skv. 1. og 2. mgr. er 2.250.000 kr. Ef útgreiðsla séreignarsparnaðar fer fram úr því hámarki sem gildir skv. 1. og 2. mgr. telst það sem er umfram til skattskyldra tekna á greiðsluári.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.
III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.
3. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 23. gr. er heimilt að greiða aukaafborganir eða endurgreiða skuld samkvæmt ÍLS-veðbréfi að fullu eftir því sem nánar er kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, án greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.
IV. KAFLI
Gildistaka.
4. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Gjört á Bessastöðum, 22. maí 2014.
Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)
Bjarni Benediktsson.