Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 128/2009

Nr. 128/2009 23. desember 2009
LÖG
um tekjuöflun ríkisins.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.
    Á eftir orðunum „Seðlabanka Íslands“ í 2. málsl. 8. tölul. 3. gr. laganna kemur: í eigin nafni.

2. gr.
    4. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Gengishagnað af hvers konar innlánsreikningum í erlendri mynt á því ári sem gengisbreyting á sér stað skal færa til tekna og miðast við kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris í árslok eða á úttektardegi. Heimilt er að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan ársins.

3. gr.
    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hjá þeim skattaðilum sem skylt er að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. skal telja til tekna sem laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. 50% af heimilum úthlutuðum arði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, að því marki sem heimil arðsúthlutun félagsins er samtals umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs.

4. gr.
    Orðin „og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

5. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
    a.    2. málsl. 1. mgr. 5. tölul. orðast svo: Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni fara fram úr 12% af iðgjaldsstofni auk 2.000.000 kr. á ári.
    b.    2.–3. mgr. 5. tölul. falla brott.

6. gr.
    4. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

7. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
    a.    Á eftir orðunum „Evrópska efnahagssvæðinu“ í 2. málsl. 9. tölul. og 2. málsl. 1. mgr. 9. tölul. a kemur: aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    b.    Við 9. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið eru þau að móttakandi arðs eigi í lok þess árs sem arður er greiddur vegna a.m.k. 10% í þeim lögaðila sem greiðir arðinn. Frádráttur samkvæmt þessum tölulið er því aðeins heimill að yfirfæranlegt rekstrartap hafi verið jafnað, þ.m.t. tap sem myndast hefur á tekjuárinu.
    c.    Orðin „og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamarkaði, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 9. tölul. a falla brott.
    d.    Við 3. mgr. 9. tölul. a bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt er það skilyrði fyrir frádrætti samkvæmt þessum tölulið að seljandi hlutabréfanna hafi átt a.m.k. 10% hlut í viðkomandi lögaðila á söludegi.

8. gr.
    1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo: Sé hlutafélagi skipt þannig að öllum eignum og skuldum sé skipt á milli hins skipta félags og/eða þeirra félaga sem urðu til við skiptin, og hluthafar í félaginu sem skipt var fái eingöngu hlutabréf í þeim félögum sem eignir og skuldir deildust á við skiptin, skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi.

9. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. a laganna:
    a.    Á eftir orðinu „tvísköttun“ í 1. tölul. 4. mgr. kemur: eða annan alþjóðasamning.
    b.    Á eftir orðinu „EES-ríki“ í 2. tölul. 4. mgr. kemur: aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

10. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna:
    a.    Í stað 3. og 4. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ríkisskattstjóri setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald og birtir þær að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skal höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf að viðbættum hvers konar hlunnindum og skiptir ekki máli hvernig þau eru greidd eða í hvaða formi þau eru. Ákvörðun reiknaðs endurgjalds samkvæmt þessari málsgrein er óháð ákvörðun launa skv. 11. gr.
    b.    Í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
    c.    Í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: þessar.

11. gr.
    60. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisskattstjóri getur heimilað þeim sem hafa mjög breytilegar tekjur milli ára af framleiðslu og sölu eigin verka, svo sem listaverka, að telja þær tekjur til skattskyldra tekna á fleiri en einu ári, þó að hámarki fjórum árum. Einnig er ríkisskattstjóra heimilt að leyfa sams konar dreifingu á skattlagningu björgunarlauna sem áhafnir skipa, annarra en björgunarskipa, hljóta.

12. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
    a.    1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ríkisskattstjóri skal taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér greinir.
    b.    2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
    c.    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Berist umsókn eftir að kærufresti skv. 99. gr. lýkur er ríkisskattstjóra heimilt að taka hana til afgreiðslu enda séu skilyrði 2. mgr. 101. gr. uppfyllt.

13. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
    a.    Í stað 1. tölul. 1. mgr. koma fimm nýir töluliðir, svohljóðandi: 
              1.    Af tekjuskattsstofni að 2.400.000 kr. reiknast 24,1% tekjuskattur. 
              2.    Af næstu 5.400.000 kr. reiknast 27% tekjuskattur. 
              3.    Af því sem umfram er 7.800.000 kr. reiknast 33% tekjuskattur. 
              4.    Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 7.800.000 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 27% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 7.800.000 kr., þó reiknast 27% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 2.700.000 kr. við þessar aðstæður. 
              5.    Fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skv. 1.–4. tölul. skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils. Breytingarnar á framangreindum viðmiðunarmörkum skal birta með auglýsingu fjármálaráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs í fyrsta sinn í árslok 2010.
    b.    Í stað „10%“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 18%.
    c.    3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 100.000 kr. á ári hjá manni og 30% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis.

14. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
    a.    Í stað „385.800 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. A-liðar kemur: 530.466 kr.
    b.    2. málsl. 1. mgr. A-liðar fellur brott.
    c.    Í stað „10/36“ í 4. málsl. 2. mgr. A-liðar kemur: 18/37.

15. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
    a.    Á eftir 5. málsl. 1. mgr. A-liðar koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.
    b.    Orðin „þó ekki tekjur skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr.“ í 4. málsl. 4. mgr. A-liðar falla brott.
    c.    Á eftir 5. málsl. 4. mgr. B-liðar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um fólk sem sannanlega er í sambúð og heldur heimili saman þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt.

16. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
    a.    1. mgr. 2. tölul. orðast svo: Tekjuskattur manns sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. skal nema 15% af tekjuskattsstofni hans.
    b.    1. málsl. 3. mgr. 2. tölul. orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar skv. A-lið 67. gr.
    c.    3. tölul. orðast svo: Tekjuskatt aðila sem fá greiðslur fyrir þjónustu eða starfsemi sem innt er af hendi hér á landi, sbr. 3. tölul. 3. gr., skal reikna sem hér segir: 
        a.    15% af greiðslunni ef um menn er að ræða. Þessi hundraðshluti reiknast m.a. af launum eða þóknunum til listamanna og annarra sem fram koma í atvinnuskyni til skemmtunar eða í hvers konar keppni, en með launum og þóknunum teljast hvers konar hlunnindi, þ.m.t. flutningur að og frá landinu hafi móttakandi ekki greitt hann sjálfur. Eigi skiptir máli hvort maður kemur fram á eigin vegum eða í nafni annars aðila eða hvort greiðsla er frá innlendum eða erlendum aðila.
        b.    18% af greiðslunni ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða.
        c.    32,7% af greiðslunni ef um aðra lögaðila er að ræða.
    d.    4. tölul. orðast svo: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 4. tölul. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
        a.    af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. án persónuafsláttar skv. A-lið 67. gr. ef um mann er að ræða,
        b.    18% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða,
        c.    32,7% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um aðra lögaðila er að ræða.
        Tekjuskattsstofn erlendra vátryggingafélaga, sem starfa hér á landi, telst sá hluti heildarágóðans sem svarar til hlutfallsins milli iðgjaldatekna hér á landi og iðgjaldatekna af allri starfsemi þeirra.
    e.    Við bætist nýr töluliður, 5. tölul., svohljóðandi: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 5. tölul. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
        a.    18% af tekjum ef um menn er að ræða. Þó skal ekki leggja tekjuskatt á 30% af leigutekjum manns af íbúðarhúsnæði,
        b.    18% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila er að ræða.
    f.    Við bætist nýr töluliður, 6. tölul., svohljóðandi: Tekjuskattur aðila sem um ræðir í 6. tölul. 3. gr. skal vera 18% af tekjum.
    g.    Við bætist nýr töluliður, 7. tölul., svohljóðandi: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 7. tölul. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
        a.    18% af tekjum ef um mann er að ræða,
        b.    15% af tekjum ef um lögaðila er að ræða.
    h.    Við bætist nýr töluliður, 8. tölul., svohljóðandi: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 8. tölul. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
        a.    18% af tekjum ef um mann er að ræða. Þó skal ekki reikna tekjuskatt af vaxtatekjum að 100.000 kr. á ári.
        b.    15% af tekjum lögaðila.
    i.    Við bætist nýr töluliður, 9. tölul., svohljóðandi: Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 9. tölul. 3. gr. skal reikna á sama hátt og greinir í 4.–8. tölul. þessarar greinar.

17. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
    a.    Í stað „15%“ í 1. mgr. kemur: 18%.
    b.    Í stað „23,5%“ í 2. mgr. kemur: 32,7%.
    c.    Í stað „10%“ í 3. mgr. kemur: 18%.
    d.    Í stað „10%“ í 2., 4. og 5. málsl. 4. mgr. kemur: 18%.

18. gr.
    3. málsl. 1. mgr. 90. gr. laganna orðast svo: Ríkisskattstjóri getur gert lögaðilum og einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að skila skýrslu í tölvutæku formi.

19. gr.
    Í stað orðsins „nafnskírteini sitt“ í 5. mgr. 92. gr. laganna kemur: persónuskilríki.

20. gr.
    Á eftir 1. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Beiðni skal byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum sem ekki var unnt að koma að innan tímamarka 99. gr. Þá skulu skilyrði 96. gr. uppfyllt ef um hækkun er að ræða. Víkja má frá þessum tímamörkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Heimilt er skattaðila að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

21. gr.
    118. gr. laganna orðast svo:
    Í upphafi hvers árs skal ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.

22. gr.
    4. mgr. 119. gr. laganna fellur brott.

23. gr.
    2. og 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða XXII falla brott.

24. gr.
    Við lögin bætast fjögur ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    a.    (XXX.) 
              Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. skal fjárhæð sjómannaafsláttar á hvern dag vera með eftirfarandi hætti:
        a.    740 kr. við álagningu 2012 vegna tekjuársins 2011.
        b.    493 kr. við álagningu 2013 vegna tekjuársins 2012.
        c.    246 kr. við álagningu 2014 vegna tekjuársins 2013.
        Ákvæði B-liðar 67. gr. fellur brott frá og með 1. janúar 2014.
    b.    (XXXI.) 
              Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr., sbr. reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, verður barnabótum ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga á árinu 2010.
    c.    (XXXII.) 
              Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. B-liðar 68. gr. skal viðmiðunarhlutfall hámarksvaxtagjalda af skuldum, sem þar er tilgreint, vera 7% við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2010 vegna tekna, eigna og skulda á árinu 2009.
              Þrátt fyrir ákvæði 10. og 12. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna skulu viðmiðunarfjárhæðir sem þar eru tilgreindar vera 246.944 kr., 317.589 kr., 408.374 kr. og 900 kr. við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2010 vegna tekna, eigna og skulda á árinu 2009.
    d.    (XXXIII.) 
              Á framtalsskyldar eignir skv. 72. gr. í lok áranna 2009, 2010 og 2011 skal við álagningu 2010, 2011, 2012 og 2013 leggja auðlegðarskatt sem hér segir á menn sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og 4.–9. tölul. 3. gr.:
        a.    Frá eignum, sbr. 73. gr., skal draga skuldir skattaðila. Með skuldum í þessu sambandi teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól þeirra sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs. Skuldir í erlendum verðmæli skal telja á sölugengi í árslok. Til skulda teljast öll opinber gjöld er varða viðkomandi reikningsár, þó ekki þau gjöld sem lögð eru á tekjur eða hreina eign á næsta ári eftir lok reikningsárs. Frá eignum aðila sem um ræðir í 4. tölul. 3. gr. má einungis draga skuldir sem beint eru tengdar starfsemi þeirra hér á landi. Frá eignum aðila sem um ræðir í 5.–9. tölul. 3. gr. má einungis draga skuldir sem á eignum þessum hvíla.
        b.    Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 73. gr. skulu lögaðilar telja fram hlutdeild sína í öðrum félögum á markaðsverði ef um er að ræða félög sem skráð eru í kauphöll eða á skipulögðum tilboðsmarkaði en annars hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags í stað nafnverðs. Þá skulu lögaðilar telja fram eignarhlutdeild sína í félögum skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. á sama hátt.
                  Við ákvörðun auðlegðarskattsstofns skal telja hlutabréf í félögum sem skráð eru í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok. Sá sem á hlut í félagi sem ekki er skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skal telja fram til auðlegðarskattsstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það er talið fram í skattframtali félagsins skv. 1. mgr. þessa stafliðar. Þann hluta virðis eignarhluta í félagi sem reiknað er á framangreindan hátt sem umfram er nafnverð eða stofnverð skal telja fram í skattframtali 2011, 2012 og 2013.
        c.    Auðlegðarskattsstofn er þær eignir sem eftir verða þegar frá verðmæti eigna skv. 73. gr., sbr. a- og b-lið, hafa verið dregnar fjárhæðir skulda svo sem þær hafa verið ákvarðaðar í samræmi við fyrrnefnt ákvæði a-liðar. Auðlegðarskattsstofn skal ákvarða í heilum tugum króna og sleppa því sem umfram er.
        d.    Auðlegðarskatt skal miða við auðlegðarskattsstofn skattaðila í árslok.
        e.    Hjón sem samvistum eru, sbr. 5. gr., skulu telja saman allar eignir sínar og skuldir og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni. Auðlegðarskattsstofni skal skipta að jöfnu milli þeirra og reikna auðlegðarskatt af hvorum helmingi fyrir sig skv. h-lið. Sama gildir um sambúðaraðila, sbr. 3. mgr. 62. gr. Auðlegðarskattsálagningu eftirlifandi maka eða sambúðaraðila, sbr. 3. mgr. 62. gr., sem situr í óskiptu búi skal hagað á sama hátt og um hjón væri að ræða í mest fimm ár frá andlátsári hins látna, þó ekki fram yfir gildistíma þessa ákvæðis, enda hafi viðkomandi ekki hafið sambúð að nýju.
        f.    Heimilt er ríkisskattstjóra að taka til greina umsókn manns um lækkun auðlegðarskattsstofns hans þegar svo stendur á sem í 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. greinir, enda hafi gjaldþol mannsins skerst verulega af þeim ástæðum.
        g.    Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr. Gilda ákvæði 78. gr. einnig um þar greindar eignir barns. Ríkisskattstjóri má taka til greina umsókn framfæranda barns um að eignir barns, sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði og hefur ekki verið ættleitt, skuli skattlagðar hjá barninu sjálfu í samræmi við ákvæði h-liðar.
        h.    Auðlegðarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 90.000.000 kr. af auðlegðarskattsstofni einstaklings og fyrstu 120.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðist enginn skattur. Af auðlegðarskattsstofni yfir þeim mörkum greiðast 1,25%. Auðlegðarskattsstofn vegna áranna 2009, 2010 og 2011 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2011, 2012 og 2013 með tilliti til viðbótareignar skv. b-lið. Sá mismunur sem myndast við þann endurreikning og er umfram viðmiðunarmörk 1. málsl. skal skattlagður við álagningu opinberra gjalda 2011, 2012 og 2013.
        i.    Allir þeir sem hafa auðlegðarskattsstofn sem er umfram þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í h-lið skulu gera grein fyrir honum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

25. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    a.    Á eftir orðunum „1. gr. og 1.“ í 1. málsl. A-liðar kemur: og 2.
    b.    2. málsl. A-liðar orðast svo: Enn fremur til tekjuskatts manna og annarra aðila sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr. greindra laga af þar tilgreindum skattskyldum tekjum hér á landi án nokkurs frádráttar, sbr. skatthlutföll í 3., 6., 7. og 8. tölul. 70. gr. þeirra laga.

26. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
    a.    1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu hjá þeim launamönnum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og 1. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt skal vera með eftirfarandi hætti:
        a.    á tekjur á bilinu 0–200.000 kr. á mánuði 24,1% að viðbættu útsvari,
        b.    á tekjur á bilinu 200.001–650.000 kr. á mánuði 27% að viðbættu útsvari,
        c.    á tekjur yfir 650.000 kr. á mánuði 33% að viðbættu útsvari.
    b.    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Útsvar í staðgreiðslu skal vera hið sama á öllu landinu og ákveðið í samræmi við ákvarðanir sveitarstjórna skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
    c.    4. mgr. orðast svo: 
              Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu hjá þeim launamönnum sem skattskyldir eru skv. 2. og 3. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt skal vera tekjuskattshlutfall eins og það er ákvarðað í 70. gr. þeirra laga að viðbættu útsvari, sbr. 1. mgr. Innheimtuhlutfall í staðgreiðslu hjá þeim launamönnum sem skattskyldir eru skv. 6., 7. og 8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt skal vera tekjuskattshlutfall eins og það er ákvarðað í 70. gr. þeirra laga og skal réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla tekjuskatts þeirra aðila vera fullnaðargreiðsla án þess að fram þurfi að fara frekari ákvörðun eða álagning nema um sé að ræða aðila sem jafnframt er skattskyldur skv. 4. tölul. 3. gr.

27. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
    a.    Á eftir orðinu „launamanns“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sbr. 9. gr.
    b.    Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Launamanni sem starfar hjá fleiri en einum launagreiðanda á sama launatímabili ber að upplýsa launagreiðendur um rétt innheimtuhlutfall í staðgreiðslu, sbr. 9. gr., þannig að afdráttur verði með sem réttustum hætti.

28. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
    a.    Í stað orðsins „starfsbreyting“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: starfs- eða launabreyting.
    b.    Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Það sama á við þegar sýnt þykir að heildarárstekjur samskattaðs aðila muni nema lægri fjárhæð en 7.800.000 kr. Þá skal heimilt að taka tillit til ákvæða 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og endurreikna þá staðgreiðslu sem innt hefur verið af hendi. Þó skal slík endurgreiðsla aldrei nema lægri fjárhæð en 50.000 kr. eða hærri fjárhæð en 100.000 kr.

29. gr.
    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Launamaður sem starfar hjá fleiri en einum launagreiðanda ber ábyrgð á að rétt innheimtuhlutfall verði ákvarðað við afdrátt staðgreiðslu.

30. gr.
    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 38. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um launamenn sem starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda og hafa ekki sætt réttum afdrætti staðgreiðslu af launum skv. 9. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

31. gr.
    Í stað „10%“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: 18%.

32. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    a.    Í stað orðanna „skv. 2., 3., 5., 6. og 7. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: skv. 1., 2., 4., 5. og 7. tölul.
    b.    Í stað „10%“ í 3. og 4. málsl. 2. mgr. kemur: 18%.

33. gr.
    2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Sama gildir um aðila skv. 1. og 2. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

34. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    a.    Við 1. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Til vaxta telst enn fremur innleystur gengishagnaður á staðgreiðsluári og áfallinn í árslok af reikningum í innlánsstofnunum. Sama á við um gengishagnað sem fellur til frá einu greiðslutímabili til annars innan staðgreiðsluársins.
    b.    1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ekki skal telja gengishagnað til stofns til staðgreiðslu, sbr. þó 3. og 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr.

35. gr.
    Við 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna bætist: óháð undirliggjandi verðmætum.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum,
með síðari breytingum.

36. gr.
    Í stað „50.000 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 75.000 kr.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar,
með síðari breytingum.

37. gr.
    Í stað „15%“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: 18%.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
38. gr.
    Í stað „2,21%“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 3,81%.

39. gr.
    Í stað hlutfallstölunnar „0,25%“ í 18. gr. laganna kemur: 0,325%.

40. gr.
    Við 22. gr. laganna bætist: og meðferð framlagsins í uppgjöri sjóðanna.

VII. KAFLI
Gildistaka.
41. gr.
    1. gr., a-liður 7. gr., 8.–9. gr., 18.–20. gr., 24. gr. og a-liður 32. gr. öðlast þegar gildi.
    2.–6. gr., 2. efnismálsl. b-liðar og c-liður 7. gr., 10.–12. gr., 1.–4. tölul. a-liðar og b- og c-liður 13. gr., 14.–17. gr., 21.–23. gr., 25.–31. gr., b-liður 32. gr. og 33.–40. gr. öðlast gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmda við álagningu 2011 og á staðgreiðsluárinu 2010 eftir því sem við á.
    1. efnismálsl. b-liðar og d-liður 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011 og koma til framkvæmda við álagningu 2012.
    5. tölul. a-liðar 13. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda á staðgreiðsluárinu 2011 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012.

Gjört á Bessastöðum, 23. desember 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2009