Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 804/2007

Nr. 804/2007 7. september 2007
REGLUGERÐ
um rannsókn og saksókn efnahagsbrota.

1. gr.

Ríkislögreglustjóri rannsakar brot sem falla undir skilgreiningu í 2. gr.

Saksóknari sem skipaður er til starfa hjá ríkislögreglustjóranum samkvæmt heimild í lögum um meðferð opinberra mála höfðar og flytur mál í umboði ríkislögreglustjórans, önnur en þau sem ríkissaksóknari höfðar samkvæmt 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Ríkislögreglustjóri getur tekið við málum á sínu sviði frá viðkomandi lögreglustjóra en einnig hafið rannsókn að eigin frumkvæði.

Viðkomandi lögreglustjóri ber ábyrgð á rannsókn og saksókn í málum vegna brota sem falla undir skilgreiningu í 2. gr. og ríkislögreglustjóri rannsakar ekki.

Ríkissaksóknari getur gefið fyrirmæli um meðferð einstakra mála hjá ríkislögreglustjóra, kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd rannsóknar og fylgst með henni, sbr. 5. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

2. gr.

Ríkislögreglustjóra ber að rannsaka alvarleg brot sem falla undir 109. gr., 128. gr. – 129. gr., 179. gr., 247. gr. – 250. gr., 253. gr. – 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a. almennra hegningarlaga eða alvarleg brot á skatta- og tollalögum, lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, og lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum.

Ríkislögreglustjóri annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um hvort hann tekur mál til meðferðar. Við ákvörðun ber sérstaklega að taka tillit til eftirfarandi atriða:

 

a)

Umfangs rannsóknar og hve margslungið mál er.

 

b)

Verðmæta eða fjármuna sem málsrannsókn snýst um.

 

c)

Hvort mál eða viðskipti, sem fjallað er um í rannsókn, tengist öðru landi.

 

d)

Hvort um sé að ræða brotastarfsemi í atvinnurekstri eða aðra skipulagða brotastarfsemi.

 

e)

Hvort mál hafi grundvallarþýðingu með tilliti til almannahagsmuna og um leið fordæmisgildi.

Ríkissaksóknari getur ákveðið að ríkislögreglustjóri annist rannsókn tiltekins máls þótt það falli ekki undir skilgreiningu 1. og 2. mgr.

3. gr.

Viðkomandi lögreglustjóri getur beðið ríkislögreglustjóra um að yfirtaka rannsókn og frekari meðferð máls sem getur fallið undir skilgreiningu í 2. gr.

Lögreglustjóra ber ávallt og þegar á frumstigi að gera ríkislögreglustjóra viðvart um stórfelld og alvarleg fjármunabrot, sem koma til rannsóknar í umdæmi hans.

Ríkislögreglustjóri getur byrjað rannsókn í slíku máli að eigin frumkvæði. Ber honum að gera viðkomandi lögreglustjóra viðvart um rannsóknina áður en hún hefst. Ríkis­lögreglustjóri getur líka óskað þess að fá að taka rannsókn, sem hafin er hjá lögreglu­stjóra, í sínar hendur. Beiðni þess efnis skal beint til ríkissaksóknara.

Vilji lögreglustjóri ekki una ákvörðun ríkislögreglustjóra um hvor annast rannsókn máls getur hann borið álitaefnið undir ríkissaksóknara til ákvörðunar.

4. gr.

Komi fram í máli, sem ríkislögreglustjóri annast rannsókn á, upplýsingar um önnur ætluð brot, sem ekki heyra undir verkefnasvið hans, skal hann annast rannsókn allt að einu enda sé það augljóslega hagkvæmasta leiðin til að ljúka málinu í heild.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, sbr. 3. gr. laga nr. 46 13. júní 2006, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota, nr. 1050 11. desember 2006.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. september 2007.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.

B deild - Útgáfud.: 7. september 2007