1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. Fyrsta mgr. breytist og verður svohljóðandi: Almenn próf eru haldin 10. til 21. desember og á tímabilinu 29. apríl til 15. maí eftir nánari ákvörðunum deilda í samráði við prófstjóra. Sjúkra- og upptökupróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí í fimm daga á tímabilinu 15. til 25. janúar og 10. til 20. júní, skv. nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt að höfðu samráði við prófstjóra að nýta tímabilið í júní fyrir upptöku- og sjúkrapróf beggja kennslumissera. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri. Önnur mgr. fellur brott, 3. mgr. verður 2. mgr. og 4. mgr. verður 3. mgr. Fimmti málsliður 2. mgr. (áður 3. mgr.) verður svohljóðandi: Próftöflu fyrir sjúkra- og upptökupróf í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí skal birta eins fljótt og kostur er. Í stað „framkvæmdastjóra kennslusviðs“ í 3. mgr. (áður 4. mgr.) kemur: prófstjóra. 2. gr. Eftirfarandi breyting verður á 57. gr. Þriðji málsliður 1. mgr. breytist og verður svohljóðandi: Úrsögn úr prófi skal vera skrifleg og hafa borist nemendaskrá háskólans eigi síðar en 19. nóvember vegna prófa á haustmisseri, 10. apríl vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en þremur dögum eftir birtingu próftöflu sjúkra- og upptökuprófa í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí. 3. gr. Eftirfarandi breyting verður á 92. gr. Annar og 3. málsliður 4. mgr. breytast og verða svohljóðandi: Sjúkra- og upptökupróf í inngangi að lögfræði og almennri lögfræði skulu eingöngu haldin á vorpróftímabili. Um önnur sjúkra- og upptökupróf fer eftir ákvæðum 56. gr. þessara reglna. 4. gr. Eftirfarandi breyting verður á 100. gr. Þriðji málsliður 2. mgr. breytist og verður svohljóðandi: Endurtekningarpróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí. 5. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr.: Heiti 63. gr. verður Viðurkenning prófa frá öðrum háskólum í stað „Viðurkenning erlendra prófa“. Í stað orðsins „erlendis“ í 1. mgr. komi orðin: við aðra háskóla. Tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr. bætast við svohljóðandi: Að loknu námi sem skipulagt er sameiginlega af deild Háskóla Íslands og öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, fá nemendur tvö sambærileg prófskírteini, eitt frá hvorum háskóla. Sama gildir ef fleiri háskólar en tveir eru aðilar að slíkum samningi. Á prófskírteini hvers háskóla um sig kemur fram að um sé að ræða prófgráðu sem háskólarnir veita sameiginlega á grundvelli samnings. Í viðauka með prófskírteini skal gera skýra grein fyrir námsleiðinni, þátttöku hvers háskóla fyrir sig og eðli samstarfsins. Brautskráning fyrir þessa nemendur er samkvæmt nánara samkomulagi háskólanna hverju sinni. Deildum Háskóla Íslands er einnig heimilt að gefa út eitt sameiginlegt prófskírteini með auðkenni beggja (eða allra) háskólanna sem í hlut eiga. Einn háskólinn annast þá brautskráninguna. Á prófskírteini kemur fram að um sé að ræða prófgráðu sem háskólarnir veita sameiginlega á grundvelli samnings og að gefið sé út eitt sameiginlegt prófskírteini. 6. gr. Eftirfarandi breyting verður á 54. gr. Ný málsgrein, 6. mgr., bætist við svohljóðandi: Sérstakar reglur gilda um útgáfu prófskírteina, þegar sameiginlegar prófgráður eiga í hlut, sbr. 3. og 4. mgr. 63. gr. þessara reglna. 7. gr. Ákvæði lokamálsliðar 6. mgr. 93. gr. orðast svo: Lagadeild getur ennfremur heimilað að námsvist hjá fyrirtæki eða stofnun, sem hlotið hefur viðurkenningu lagadeildar samkvæmt reglum sem deildin setur, verði metin sem hluti af framhaldsnámi, þó að hámarki 6 ECTS einingar alls. Þátttaka í alþjóðlegri eða norrænni málflutningskeppni getur komið að hluta eða í heild í stað námsvistar. 8. gr. Eftirfarandi breyting verður á 101. gr.: Á eftir orðinu „norska“ og undan orðinu „rússneska“ í 2. mgr. komi orðið: ritlist. 9. gr. Þriðja mgr. 127. gr. breytist og verður svohljóðandi: Réttur stúdenta til áframhaldandi náms er miðaður við árangur prófa í lok fyrsta misseris fyrsta námsárs, samkvæmt nánari reglum sem deildin setur og birtar skulu í kennsluskrá. Deildin gerir, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í hjúkrunarfræði í samæmi við fjölda klínískra námsplássa á heilbrigðisstofnunum. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs sem hún tekur til. 10. gr. Gildistaka og lagastoð. Ákvæði 1.-4. gr. reglna þessara, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, öðlast gildi 1. júlí 2008. Ákvæði 5.-9. gr. öðlast þegar gildi. Háskóla Íslands, 6. mars 2008. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |