Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 763/2013

Nr. 763/2013 16. júlí 2013
REGLUGERÐ
um störf rannsóknarnefndar samgönguslysa.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að auknu öryggi í samgöngum með því að kveða nánar á um hvernig rannsóknum samgönguslysa og samgönguatvika skuli háttað.

Rannsókn samkvæmt reglugerð þessari skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa.

Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við samgönguslys eða samgöngu­atvik fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála og er óháð rannsókn samkvæmt reglu­gerð þessari.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi rannsóknarnefndar samgönguslysa.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

  1. Alvarleg meiðsl: Meiðsl sem einstaklingur hefur hlotið í samgönguslysi og:
    1. leiða til sjúkrahúsvistar sem varir lengur en í 6 klukkustundir og hefst innan sjö daga frá því að einstaklingurinn slasast, eða
    2. valda beinbroti (fyrir utan minni háttar brot á fingrum, tám eða nefi), eða
    3. valda skurðsárum sem af leiðir alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum, eða
    4. innri líffæri skaddast, eða
    5. valda annars eða þriðja stigs bruna eða brunasárum sem þekja meira en 5% af yfirborði líkamans, eða
    6. hafa sannanlega valdið því, að einstaklingur hefur komist í snertingu við smitandi efni, hættuleg efni eða skaðlega geislun,
    nema þegar meiðslin eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum einstaklingsins sjálfs eða annars, eða þegar meiðsl verða á laumufarþega sem leynist utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að.
  2. Alvarlegt flugatvik: Flugatvik sem verður við aðstæður sem benda til þess að legið hafi við slysi. Skrá yfir dæmigerð alvarleg flugatvik sem ber að rannsaka er að finna í viðauka með reglugerð þessari.
  3. Alvarlegt umferðaratvik: Atvik eða aðstæður í tengslum við umferð ökutækja sem ekki er umferðarslys en getur leitt til alvarlegs slyss á vegfarendum eða tjóni á ökutækjum, umferðarmannvirkjum og umhverfi sé því ekki afstýrt.
  4. Banaslys: Samgönguslys þegar einstaklingur lætur lífið innan 30 daga frá þeim degi er slysið varð, enda verði banamein hans að nokkru eða öllu leyti rakið til slyssins.
  5. Flugslys: Atburður sem verður í tengslum við starfrækslu loftfars frá því að ein­staklingur fer um borð í loftfarið í þeim tilgangi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði þar sem:
    1. maður lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl vegna þess að:

      hann var um borð í loftfarinu, eða

      hann var í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar á meðal hluta sem hafa losnað frá loftfarinu, eða

      hann varð fyrir útblæstri þotuhreyfils,

      nema þegar meiðslin eða andlátið eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum einstaklingsins sjálfs eða annars eða þegar meiðslin eða andlátið verða á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að; eða
    2. loftfar verður fyrir skemmdum eða bilun eða brestur verður í burðarvirki þess sem:

      hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afkastagetu eða flugeiginleika og

      myndi að öllu jöfnu krefjast mikillar viðgerðar eða þess að skipt væri um viðkomandi hlut,

      nema um sé að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfil, hlífar hans eða fylgibúnað eða um er að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smádældir eða göt á ytra byrði loftfarsins; eða
    3. loftfars er saknað, þ.e. þegar opinberri leit hefur verið hætt og flak hefur ekki fundist, eða engin leið er að komast að því.
  6. Flugumferðaratvik: Flugatvik sem aðallega tengist reglum er varða flug­umferðar­þjónustu og þar sem loftför fara hvort fram hjá öðru í slíkri nánd að hættu­ástand verður eða þar sem aðrir erfiðleikar, sem orsakast af ófullnægjandi starfs­aðferðum eða af því að ekki var farið eftir viðurkenndum starfsaðferðum eða af göllum í tækjabúnaði á jörðu, valda því að hættuástand skapast.
  7. Samgönguslys: Flugslys, sjóslys eða umferðarslys í samræmi við orðskýringar í reglugerð þessari.
  8. Samgönguatvik: Alvarlegt flugatvik, þar með talið flugumferðaratvik, alvarlegt umferðaratvik og sjóatvik í samræmi við orðskýringar í reglugerð þessari.
  9. Sjóatvik: Sá atburður, eða röð atburða, annar en sjóslys, sem gerst hefur í beinum tengslum við útgerð skips, sem stofnar öryggi skipsins í hættu, þeirra sem um borð eru eða annarra eða umhverfisins sé atburðinum ekki afstýrt. Undir sjóatvik falla ekki athafnir sem með beinum ásetningi eða athafnaleysi er ætlað að skaða öryggi skips, einstaklinga eða umverfið.
  10. Sjóslys: Sá atburður, eða röð atburða, sem í tengslum við útgerð skips leiðir til einhvers af eftirfarandi:
    1. dauðsfalls eða alvarlegra meiðsla á einstaklingi;
    2. einstaklingur fellur fyrir borð;
    3. skip ferst, ætla má að skip hafi farist eða verið yfirgefið;
    4. skemmdir verða á skipi;
    5. skip strandar eða verður ófært til siglinga eða skip lendir í árekstri;
    6. skemmdir verða í tengslum við útgerð skips á utanáliggjandi búnaði/virki skips sem gæti sett öryggi skipsins í hættu eða annað skip eða einstakling;
    7. mikil umhverfisspjöll verða eða mögulega alvarleg umhverfisspjöll sem gætu hlotist af tjóni skips eða skipa.
    Undir sjóslys falla ekki athafnir sem með beinum ásetningi, annaðhvort með athöfn eða athafnaleysi, er ætlað að skaða öryggi skips, einstaklinga eða um­hverf­ið.
  11. Umferðarslys: Þar sem a.m.k. eitt ökutæki á hreyfingu á aðild að slysi á opin­berum vegi, einkavegi eða svæði sem opið er almennri umferð.

      4. gr.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

      Rannsókn samgönguslysa og samgönguatvika, eins og þau eru skilgreind í lögum um rannsókn samgönguslysa og reglugerð þessari, er í höndum rannsóknar­nefndar samgönguslysa.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar samgönguslysa og samgönguatvika, samkvæmt lögum um rann­sókn samgönguslysa og reglugerð þessari.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að taka til rannsóknar önnur slys og atvik ef hún telur að það hafi þýðingu almennt fyrir samgönguöryggi.

      5. gr.

      Nefndarfundir o.fl.

      Formaður rannsóknarnefndar samgönguslysa eða staðgengill hans boðar fundi og stjórnar þeim. Þeim er heimilt að fela rannsóknarstjóra í einstaka slysa- og atvikaflokki að annast fundarboðun.

      Nefndin setur sér nánari starfsreglur um fyrirkomulag funda. Ákvarðanir nefndar­innar skulu teknar á fundum.

      Fundur nefndarinnar er lögmætur ef þrír nefndarmenn sitja fund enda hafi þeir menntun eða starfsreynslu á því sviði sem tekið er fyrir. Nefndin heldur fundi eftir þörfum og heldur fundargerðabók. Ef nefndarmaður forfallast um stundarsakir tekur varamaður hans sæti í nefndinni.

      Nefndinni er heimilt að kalla til starfa varamenn nefndarinnar og/eða sérfræðinga á tilteknum sviðum í því skyni að upplýsa mál.

      6. gr.

      Hæfi.

      Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar fer eftir ákvæðum laga um rannsókn samgönguslysa og stjórnsýslulaga.

      7. gr.

      Nánar um framkvæmd rannsókna.

      Rannsókn samgönguslyss eða samgönguatviks skal hafin eins fljótt og unnt er eftir að slys eða atvik á sér stað.

      Að minnsta kosti þrír nefndarmenn skulu taka þátt í meðferð hvers máls sem til rannsóknar er og skulu þeir hafa menntun eða starfsreynslu á því sviði. Ef mál sem er til rannsóknar er umfangsmikið eða varðar hagsmuni sem eru mjög mikilvægir frá almennu sjónarmiði getur formaður ákveðið að fimm nefndarmenn skuli taka þátt í meðferð máls. Formaður nefndarinnar tekur ákvörðun í ljósi atvika um hvenær nefndin skal vera fullskipuð.

      Rekstrarstjóri skal, að fenginni tillögu rannsóknarstjóra hvers slysa- og atvika­flokks, setja verklagsreglur um framkvæmd rannsókna flugslysa, alvarlegra flug­atvika, sjóslysa, sjóatvika, umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika, svo sem um miðlun upplýsinga vegna tilkynntra slysa og atvika. Skal í því efni höfð hlið­sjón af alþjóðlegum stöðlum og viðmiðunum á viðkomandi rannsóknarsviði.

      Rannsóknir nefndarinnar skulu vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði samgöngumála.

      Við rannsókn erlends ríkis á flugslysi íslenskra flugvéla eða sjóslysi íslenskra skipa skal rannsóknarstjóri viðkomandi slysa- og atvikaflokks tilnefna trúnaðarfulltrúa við rannsóknina og skipa honum ráðgjafa.

      Stjórnandi rannsóknar ákvarðar umfang rannsóknar einstakra slysa og atvika. Ef um er að ræða meiriháttar eða óvenjulegar ráðstafanir skal hann hafa samráð við rekstrarstjóra nefndarinnar.

      Ef vafi er um hvort rannsóknarnefnd samgönguslysa skuli rannsaka slys eða atvik eða önnur rannsóknarnefnd innan Evrópska efnahagssvæðisins skal nefndin vinna eins hratt og unnt er að samkomulagi um hvaða nefnd hafi forræði á rannsókn máls. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er heimilt að fela rannsóknarnefnd annars ríkis að sjá um rannsókn tiltekins máls eða að sjá um tiltekinn hluta rannsóknar.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa setur sér nánari starfsreglur um framkvæmd rannsókna.

      8. gr.

      Útbúnaður, tæki og þjálfun.

      Rekstrarstjóri rannsóknarnefndar samgönguslysa leitast við að afla þess búnaðar, tækja og þjálfunar sem nauðsynleg er rannsakendum, nefndarmönnum og öðru starfs- og aðstoðarliði nefndarinnar til að sinna lögboðnu hlutverki sínu. Skal í því efni höfð hliðsjón af alþjóðlegum kröfum á sviði slysarannsókna.

      9. gr.

      Persónuskilríki.

      Ráðherra lætur nefndarmönnum í té persónuskilríki til sönnunar um réttarstöðu þeirra og heimildir í störfum.

      Rekstrarstjóri getur látið öðrum starfsmönnum og aðstoðarliði nefndarinnar og sérfræðingum á hennar vegum í té sérstök skilríki til staðfestingar á heimildum þeirra vegna starfa fyrir nefndina, eftir því sem þörf krefur.

      10. gr.

      Skýrslur nefndarinnar.

      Stjórnandi rannsóknar skal gera áfangaskýrslur eftir því sem við á og drög að lokaskýrslu til rannsóknarnefndar samgönguslysa. Ef stjórnandi rannsóknar er annar en rannsóknarstjóri skal hann hafa samráð við rannsóknarstjóra við­komandi slysa- og atvikaflokks.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa getur gefið þeim aðilum sem að mati nefndar­innar hafa ríkra hagsmuna að gæta kost á að tjá sig um drög að loka­skýrslu innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal tilkynna nánustu kunnu aðstandendum þeirra sem láta lífið í samgönguslysum þegar fyrirhugað er að birta skýrslu um rann­sókn einstaks máls.

      Ársskýrslur rannsóknarnefndar samgönguslysa og skýrslur nefndarinnar um rann­sóknir einstakra mála skulu teljast réttilega birtar um leið og þær eru gerðar aðgengi­legar almenningi á heimasíðu nefndarinnar og á skrifstofu hennar.

      Stjórnandi rannsóknar skal rita undir lokaskýrslu nefndarinnar fyrir hennar hönd.

      Rekstrarstjóri er ritstjóri ársskýrslu nefndarinnar.

      Skýrslur nefndarinnar og yfirlýsingar um stöðu rannsóknar skal senda ráðherra, Samgöngustofu og/eða Vegagerðinni, eftir því sem við á.

      11. gr.

      Persónuupplýsingar.

      Öll meðferð og vinnsla rannsóknarnefndar samgönguslysa skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

      12. gr.

      Sérstakar skyldur rekstrarstjóra.

      Rekstrarstjóri ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar, þ.m.t. fjárreiðum og bókhaldi hennar sem og að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við fjárhagsáætlun og það sem fjárveitingar til nefndarinnar leyfa. Skal hann gera fjárhagsáætlun fyrir starfsemi nefndarinnar hvert ár í samráði við formann nefnd­ar­innar. Fjárhagsáætlun skal kynnt nefndinni áður en hún er send ráðu­neyt­inu. Rekstrarstjóri ber einnig ábyrgð á gerð ársreiknings nefndarinnar. Þá skal hann gæta þess að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við gildandi lög og reglur.

      13. gr.

      Tilkynningar.

      Tilkynningar um samgönguslys og samgönguatvik skulu sendar rannsóknarnefnd samgönguslysa án undandráttar og án ástæðulausrar tafar, sbr. 12., 16. og 20. gr. laga um rannsókn samgönguslysa. Þau ber að tilkynna símleiðis, svo fljótt sem kostur er. Einnig má tilkynna um samgönguslys og samgönguatvik á eyðublaði, sem nefndinni er heimilt að gefa út.

      14. gr.

      Varðveisla rannsóknargagna.

      Varðveita skal örugglega þau gögn sem tekin eru í vörslu nefndarinnar og skal í þeim efnum tryggja:

      1. vistun upplýsinga úr kortum, dagbókum, rafrænum upptökum og raf­segulbands­upptökum ásamt myndböndum eftir því sem við á, þ.m.t. upp­lýs­ingar úr flugritum, sjóritum og ökuritum og öðrum rafeindabúnaði sem varða tímabilið áður en slys átti sér stað, þegar það átti sér stað og eftir að það átti sér stað,
      2. að komið sé í veg fyrir að skrifað sé yfir slíkar upplýsingar eða þeim breytt á annan hátt,
      3. að komið sé í veg fyrir að truflun verði á hvers konar öðrum búnaði sem telja má að geti skipt máli fyrir rannsókn á slysi eða atviki.

      Rannsóknarnefndin skal varðveita gögn sem tekin eru í vörslu hennar í öruggum geymslum.

      Rannsóknarnefndinni er heimilt að setja sér nánari starfsreglur um vörslu rann­sóknar­gagna.

      15. gr.

      Viðvörun.

      Sé það mat rannsóknarnefndar samgönguslysa að knýjandi þörf sé á aðgerðum innan Evrópska efnahagssvæðisins til að fyrirbyggja áhættuna á því að ný slys eigi sér stað skal nefndin, án ástæðulausrar tafar, upplýsa ráðherra og Eftirlits­stofnun EFTA um nauðsyn þess að gefa út viðvörun.

      16. gr.

      Skráning samgönguslysa og samgönguatvika.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa annast skráningu allra samgönguslysa og sam­göngu­atvika. Nefndinni er heimilt að undanskilja skráningu tiltekins slysa- eða atvikaflokks að því leyti sem slík skráning er í höndum annarra stofnana.

      Nefndinni er heimilt að leita samráðs og samvinnu við Slysaskrá Íslands um skrán­ingu samgönguslysa og samgönguatvika. Skráning samgönguslysa og sam­göngu­atvika skal fara fram í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónu­upplýsinga.

      Upplýsingar vegna rannsókna samgönguslysa og samgönguatvika skulu skráðar í gagnagrunna sem settir hafa verið upp á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Tilkynningar í gagna­grunn vegna sjóslysa og sjóatvika skulu vera í samræmi við snið það sem finna má í viðauka II við reglugerð þessa.

      Nefndin skal birta í ársskýrslu sinni upplýsingar um skráningar og greiningu sam­göngu­slysa og samgönguatvika.

      17. gr.

      Samstarf við erlend ríki.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal leggja áherslu á gott samstarf við rann­sóknar­nefndir annarra ríkja í samræmi við markmið reglugerðar þessarar og laga um rannsókn samgönguslysa.

      Samstarf við erlendar nefndir getur m.a. verið á eftirfarandi sviðum:

      1. nýting aðstöðu og búnaðar til tæknilegrar rannsóknar auk annarra hluta er varða rannsókn, þ.m.t. öflun upplýsinga úr flugritum og öðrum raf­einda­tækjum,
      2. tæknisamstarf og miðlun sérfræðiþekkingar,
      3. þjálfun rannsakenda,
      4. gagnkvæm skipti upplýsinga vegna greiningar slysagagna, eða hvers konar upplýsinga sem nýst geta við rannsókn.

      Skipti á upplýsingum við erlendar rannsóknarnefndir skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

      18. gr.

      Tillögur í öryggisátt.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal gera tillögur um úrbætur í öryggismálum, sbr. 35. gr. laga um rannsókn samgönguslysa. Tillögurnar skulu byggðar á upp­lýsingum úr tiltekinni rannsókn og settar fram í því skyni að koma í veg fyrir sam­gönguslys og alvarleg samgönguatvik. Rannsóknarstjórar skulu viðhalda gagna­grunni sem er aðgengilegur á vefsvæði nefndarinnar og upplýsa þar um viðbrögð við tillögunum.

      Rannsóknarnefnd samgönguslysa skal setja sér verklagsreglur um tillögur í öryggis­átt, sbr. 1. mgr. þessarar greinar.

      19. gr.

      Innleiðing.

      Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun I um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

      1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/18/EB frá 23. apríl 2009 um setn­ingu grundvallarreglna við rannsóknir á slysum á sviði sjóflutninga og um breytingu á tilskipun ráðsins 1999/35/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2012 frá 30. mars 2012 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 43, 2. ágúst 2012, bls. 51. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 27. september 2012, bls. 326.
      2. Framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2011 frá 5. júlí 2011 um samþykkt starfsreglna í varanlegu samstarfi sem aðildar­ríkin komu á í samstarfi við framkvæmdastjórnina skv. 10. gr. til­skip­unar ráðsins 2009/18/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 199/2012 frá 26. október 2012 um breytingu á XIII. við­auka við EES-samninginn, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 6, 24. janúar 2013, bls. 17. Fram­kvæmda­reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 54, 27. sept­ember 2012, bls. 232.
      3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1286/2011 frá 9. desember 2011 um samþykkt sameiginlegrar aðferðafræði við rannsókn sjóslysa og atvika á sjó sem þróuð er skv. 4. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/18/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 23/2012 frá 10. febrúar 2012 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambands­ins nr. 34, 21. júní 2012, bls. 33. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9, 7. febrúar 2013, bls. 522.

      20. gr.

      Gildistaka o.fl.

      Reglugerð þessi er sett með heimild í 40. gr., sbr. og a-, b-, c-, d-, f-, g-, h-, j- og k-liðum sömu greinar, laga nr. 18, 6. mars 2013, um rannsókn samgönguslysa, með síðari breytingum.

      Reglugerðin tekur þegar gildi og falla þá úr gildi reglugerð um rannsókn sjóslysa, nr. 133/2001, reglugerð um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 702/2005 og reglu­gerð um rannsókn flugslysa, nr. 80/2006.

      Innanríkisráðuneytinu, 16. júlí 2013.

      Hanna Birna Kristjánsdóttir.

      Ragnhildur Hjaltadóttir.

      VIÐAUKAR
      (sjá PDF-skjal)

        B deild - Útgáfud.: 20. ágúst 2013