Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 773/2010

Nr. 773/2010 24. september 2010
REGLUGERÐ
um flugkort.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að auknu öryggi í flugi með framleiðslu og notkun flugkorta.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til hönnunar, framleiðslu og útgáfu flugkorta, sem ná til lofthelgi Íslands og þess svæðis sem Íslandi hefur verið falið að sinna samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar. Framleiðsla og útgáfa flugkorta telst vera hluti af upplýsingaþjónustu flugmála sbr. reglugerð um upplýsingaþjónustu flugmála.

3. gr.

Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi hugtök eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Aðkomuflughæð (Terminal arrival altitude (TAA)): Lægsta flughæð sem veitir að lágmarki 1.000 feta (300 m) aðskilnað frá öllum hlutum staðsettum innan boga hrings sem skilgreindur er með 25 NM (46 km) radíus frá frumaðflugsmiði (IAF), eða þar sem ekki er frumaðflugsmið, milliaðflugsmiði, afmarkað með beinum línum sem tengir útlínur bogans við milliaðflugsmiðið. Sameinaðar aðkomuflughæðir sem tengjast verklagi um aðflug skulu ná yfir allan hringinn (360°) í kringum milliaðflugsmiðið.

Akbraut (Taxiway): Tiltekin braut á flugvelli, gerð fyrir akstur loftfara og ætluð til tengingar milli mismunandi hluta flugvallar, þ.m.t.:

a) Akbraut loftfarastæðis (Aircraft stand taxilane): Hluti hlaðs, merktur sem akbraut og eingöngu ætlaður til að komast að loftfarastæðum.
b) Akbraut á hlaði (Apron taxiway): Hluti akreinakerfis á hlöðum ætlað til aksturs yfir hlöðin.
c) Hraðakstursbraut (Rapid exit taxiway): Akbraut tengd flugbraut með hvössu horni og hönnuð til aksturs af flugbraut eftir lendingu með meiri hraða en kleift er á öðrum akbrautum út af flugbraut svo að dvöl á flugbraut verði sem styst.

Akstur loftfara (Taxiing): Hreyfingar loftfara um flugvöll fyrir eigin afli, að undanskildu flugtaki og lendingu, en að meðtöldum loftakstri þyrlna.

Alþjóðaflugvöllur (International airport): Flugvöllur, tilgreindur af því aðildarríki sem flugvöllurinn tilheyrir sem komu- og brottfararflugvöllur í millilandaflugi, þar sem tilfallandi formsatriði er snúa að tollafgreiðslu, innflutningi fólks, lýðheilsu, sóttkví dýra og jurta og þess háttar verkferlum eru afgreidd.

Athafnasvæði (Movement area): Sá hluti flugvallar, sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, þ.e. umferðarsvæði og hlöð.

Áskráningarfang (Logon address): Sérhæfður kóði notaður til innskráningar gagnasambands (gagnagrein) við flugstjórnardeild.

Bakfærsluverklag (Reversal procedure): Verklag sem hannað er til að gera loftförum kleift að snúa við í frumaðflugshluta blindaðflugsverklags. Verklagið getur falið í sér krókbeygjur (procedure turns) eða fleygbeygjur (base turns).

Bannsvæði (Prohibited area): Tiltekið loftrými innan lofthelgi ríkis þar sem flug loftfara er bannað.

Biðflug (Holding procedure): Flug með fyrirfram ákveðnum flugbrögðum sem halda loftfari innan ákveðins loftrýmis meðan beðið er frekari flugheimildar.

Birting (Portrayal): Framsetning upplýsinga fyrir fólk (ISO 19117).

Blindaðflug (Instrument approach procedure): Fyrirfram ákveðin flugbrögð loftfars, gerð með aðstoð flugmælitækja, með tilgreindu bili frá hindrunum frá upphafsstað aðflugs eða, þar sem við á, frá byrjun skilgreindrar komuleiðar að stað þar sem hægt er að ljúka lendingu, nema ef lendingu verður ekki lokið, þá að staðsetningu þar sem mörk hindranabils gilda um biðflug eða leiðarflug.

Brautarjaðar (Shoulder): Svæði við brún slitlags útbúið til að tengja slitlagið við aðliggjandi flöt.

Bylgjulögun jarðsporvölu (Geoid undulation): Fjarlægð jarðsporvölu yfir (pósitíf) eða undir (negatíf) stærðfræðilegu viðmiðunarsporvölunni. Með tilliti til þeirrar sporvölu sem skilgreind er samkvæmt alþjóðalandmælingakerfinu WGS-84 sýnir mismunurinn milli hæðar WGS-84 sporvölunnar og réttrar (orthometric) hæðar, bylgjulögun WGS-84 sporvölunnar.

Ferill (Track): Leið loftfars miðuð við yfirborð jarðar, stefnan er venjulega tilgreind í gráðum frá norðri (réttvísandi, misvísandi eða netstefnu).

Fitja (Feature): Óhlutstæð birting raunfyrirbrigða (real world phenomena) (ISO 19101).

Fitjueigind (Feature attribute): Eiginleiki eða einkenni fitju (ISO 19101).

Flugbraut (Runway): Afmarkað, rétthyrnt svæði á flugvelli, gert til flugtaks og lendingar loftfara.

Flugbrautarbiðstaður (Runway-holding position): Ákveðinn biðstaður ætlaður til að vernda flugbraut og hindranalaus svæði eða viðkvæm svæði (critical/sensitive areas) vegna staðsetningar búnaðar blindlendingarkerfis (ILS) eða örbylgjulendingarkerfis (MLS), þar sem loftför og ökutæki í akstri skulu stöðva og bíða, nema flugturn heimili annað. Í talfjarskiptum er orðtakið „[AKTU AÐ] BIÐSTAГ („[TAXI TO] HOLDING POINT“) notað til að tilgreina flugbrautarbiðstað.

Flugbrautarskyggni (Runway visual range, RVR): Sú fjarlægð þar sem flugmaður loftfars á miðlínu flugbrautar getur séð yfirborðsmerkingar á flugbraut eða ljósin sem afmarka hana eða sýna miðlínu hennar.

Flugbrautaröryggissvæði (Runway strip): Afmarkað svæði sem umlykur flugbraut og öryggisbraut, ef hún er fyrir hendi, ætlað til:

a) að minnka hættu á skemmdum á loftfari sem rennur út yfir flugbraut; og
b) að vernda loftför sem fljúga yfir það við flugtak eða lendingu.

Flugfærsluleið (Air transit route): Skilgreind leið á yfirborðinu ætluð fyrir flugfærslu þyrlna.

Flughæð (Altitude): Lóðrétt fjarlægð lárétts, lags, punkts eða hlutar, sem litið er á sem punkt, mæld frá meðalsjávarmáli (MSL).

Flugkort (Aeronautical chart): Landakort sem sniðið er að þörfum flugleiðsögu og sýnir mannvirki og mishæðir á jörðu.

Fluglag (Flight level): Flötur með jöfnum loftþrýstingi, sem miðaður er við ákveðið loftþrýstimið, 1013,2 hektópasköl (hPa), og aðgreindur frá öðrum slíkum flötum með tilteknum loftþrýstingsmun.

Flugumferðarþjónusta (Air traffic services; ATS): Almennt hugtak sem táknar ýmist flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafarþjónustu eða flugstjórnarþjónustu, (flugstjórnarsvæðisþjónustu, aðflugsstjórnarþjónustu eða flugturnsþjónustu).

Flugupplýsingasvæði (Flight information region): Loftrými af skilgreindri stærð þar sem veitt er flugupplýsingaþjónusta og viðbúnaðarþjónusta.

Flugvallarhæð (Aerodrome elevation): Hæð hæsta punkts á lendingarsvæði.

Flugvallarlágmörk (Aerodrome operating minima): Nothæfismörk flugvallar við:

a) flugtak, gefin upp sem flugbrautarskyggni og/eða skyggni og, ef nauðsynlegt er, skýjafar,
b) lendingu, þegar um er að ræða nákvæmnisaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/-hæð (DA/H) eftir því sem við á fyrir starfrækslu samkvæmt viðkomandi flokki,
c) lendingu, þegar um er að ræða aðflug og lendingu með leiðsögu í lóðréttum fleti, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/-hæð (DA/H), og
d) lendingu, þegar um er að ræða grunnaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og lágmarkslækkunarflughæð/-hæð (MDA/H) og, ef nauðsynlegt er, skýjafar.

Flugvöllur (Aerodrome): Tiltekið svæði á láði eða legi, að meðtöldum byggingum og búnaði sem að nokkru eða öllu leyti er ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar loftfara á jörðu niðri.

Flugþjónustuleið (ATS route): Tiltekin leið sem flugumferð er beint eftir, svo sem nauðsynlegt þykir þegar flugumferðarþjónusta er veitt.

Fráflug (Missed approach procedure): Verklag sem fylgja skal ef ekki er unnt að ljúka aðflugi.

Fráflugsstaður (Missed approach point (MAPt)): Sá staður í blindaðflugsverklagi þar sem tilskilið fráflugsverklag skal í síðasta lagi hafið, til að tryggja lágmarks aðskilnað frá hindrun.

Frumaðflugshluti (Initial approach segment): Sá hluti verklags í blindaðflugi sem er milli frumaðflugs- og milliaðflugsmiðs eða, þar sem við á, lokaaðflugsmiðs eða -staðar.

Gagnagæði (Data quality): Þeir eiginleikar sem gögn þurfa að hafa til þess að koma að tilætluðum notum, einkum nákvæmni, upplausn og heilleiki.

Gagnamengi (Data set): Greinanlegt samansafn gagna í samræmi við ISO 19101.

Gagnamengisröð (Data set series): Mengi gagnasafna með sömu afurðalýsingu (ISO 19115).

Gregorískt tímatal (Gregorian calendar): Tímatal sem er almennt notað; fyrst kynnt til sögunnar árið 1582 til að skilgreina ár sem er nær árstíðaárinu en Júlíanska tímatalið. Samkvæmt Gregoríska tímatalinu hafa venjuleg ár 365 daga og hlaupár 366 daga sem skipt er í 12 mánuði.

Gróðurhæð (Canopy): Hæð yfirborðs jarðar að viðbættri hæð gróðurs.

Haftasvæði (Restricted area): Loftrými af skilgreindri stærð í lofthelgi ríkis þar sem flug loftfara er háð tilteknum höftum.

Hallageisli (Glide path): Leiðbeinandi aðflugshalli í lokaaðflugi.

Heitur reitur (Hot spot): Staðsetning á athafnasvæði flugvallar sem auðkennd hefur verið sem sérstaklega áhættusöm hvað varðar árekstrarhættu eða hættu á brautarátroðningi og krefst því aukinnar árvekni flugmanna og ökumanna.

Hindrun (Obstacle): Allir fastir og hreyfanlegir hlutir (hvort sem þeir eru til bráðabirgða eða frambúðar), eða hlutar þeirra, sem:

a) eru staðsettir á svæði sem ætlað er til hreyfinga loftfara á jörðu niðri, eða
b) ná hærra en skilgreindur flötur sem á að vera hindrunarlaus til verndar loftförum á flugi, eða
c) eru utan þessara skilgreindu flata og hafa verið ákvarðaðir sem hættulegir flugi.

Hindranalaust svæði (Obstacle free zone, OFZ): Loftrýmið yfir innri aðflugsfleti, innri skáflötum, og fráhvarfshindranafleti og þeim hluta öryggissvæðisins sem takmarkast af þessum flötum, og þar sem ekki eru neinar fastar hindranir nema þær séu með lítinn massa, auðbrjótanlegar og þörf á þeim vegna flugleiðsögu.

Hindrunarlaust klifursvæði (Clearway): Skilgreint rétthyrnt svæði á láði eða legi undir stjórn viðeigandi yfirvalda, valið eða undirbúið sem svæði þar sem hluti af frumklifri flugvélar í tiltekna hæð getur farið fram.

Hlað (Apron): Skilgreint svæði á flugvelli ætlað fyrir loftför við hleðslu eða afhleðslu farþega, pósts eða farms, áfyllingu eldsneytis, stöðu eða viðhald.

Hliðraður þröskuldur (Displaced threshold): Þröskuldur sem er ekki staðsettur við útmörk flugbrautar.

Hæð (Height): Lóðrétt fjarlægð lárétts lags, punkts eða hlutar, sem litið er á sem punkt, mæld frá tiltekinni viðmiðun.

Hæðarlitbrigði (Hypsometric tints): Stigbreytilegir skuggar eða litir notaðir til að sýna breytileika í landhæð.

Hæfnibundin leiðsaga (Performance-based navigation (PBN)): Svæðisleiðsaga sem byggir á kröfum um hæfni fyrir loftför á flugþjónustuleið (ATS route), í blindaðflugi eða í tilteknu loftrými. Kröfur um hæfni eru tilgreindar sem leiðsöguforskriftir (RNAV-forskrift, RNP-forskrift) með vísan í nákvæmni, heilleika, samfellu, tiltækanleika og virkni sem nauðsynleg er fyrir ætlað flug í samhengi við það loftrými sem um ræðir.

Hættusvæði (Danger area): Tiltekið loftrými þar sem starfsemi sem hættuleg er flugumferð, getur átt sér stað á tilteknum tíma.

ICAO (International civil aviation organisation): Alþjóðaflugmálastofnunin sem komið var á fót með Chicago-samningnum frá 1944.

Jafnhæðarlína (Contour line): Lína á korti sem tengir hnit af sömu landhæð.

Jafnskekkjulína (Isogonal): Lína á flugkorti, dregin gegnum punkta með sömu misvísun.

Jarðsporvala (Geoid): Jafnmættisflötur í þyngdarsviði jarðar sem fellur saman við ótruflað meðalsjávarmál (MSL) og samfellda framlengingu þess gegnum meginlöndin. Jarðsporvalan hefur óreglulega lögun vegna staðbundinna truflana á þyngdarsviði (vindar, sjávarföll, selta, straumar o.s.frv.) og stefna þyngdarkraftsins er lóðrétt á sporvöluna í öllum punktum.

Komuleiðir (Arrival routes): Flugleið í blindaðflugsferli (instrument approach procedure) sem skilgreinir leið loftfars milli leiðarhluta flugs (en-route phase of flight) að frumaðflugsmiði (initial approach fix).

Krókbeygja (Procedure turn): Flugbrögð þar sem beygt er út af fyrirfram áætluðu ferli og snúið í gagnstæða átt til að loftfar geti farið inn á og haldið áfram flugi eftir gagnstæðum ferli frá upphafsferli.

Kögunarkerfi flugumferðarþjónustu (ATS surveillance system): Samheiti sem notað er um ADS-B, PSR, SSR eða hvaða annað sambærilegt jarðkerfi sem leyfir auðkenningu loftfara. Sambærilegt jarðkerfi er kerfi sem sýnt hefur verið fram á, með samanburðarmati eða annarri aðferðarfræði, að sé jafngott eða betra en einpúlsa (monopulse) svarratsjá að því er varðar öryggisstig og afköst.

Lag (Level): Almennt hugtak sem á ýmist við hæð, flughæð eða fluglag loftfars á flugi.

Landhæð (Elevation): Lóðrétt fjarlægð punkts á yfirborði jarðar, mæld frá meðal­sjávarmáli.

Landfræðileg vegalengd (Geodesic distance): Skemmsta vegalengd milli tveggja punkta á stærðfræðilega skilgreindu sporvöluyfirborði.

Landslag (Terrain): Náttúrulegt yfirborð jarðar svo sem fjöll, hæðir, hryggir, dalir, vatnasvæði og jöklar, fyrir utan hindranir. Í daglegu máli merkir ,,landslag“, samfellt yfirborð jarðar án gróðurs.

Lágmarksflughæð í geira (Minimum sector altitude): Lægsta nothæfa flughæð sem veitir að lágmarki 1.000 feta (300 m) aðskilnað ofan við alla hluti staðsetta í svæði sem afmarkast af hring með 25 sjómílna (46 km) radíus frá leiðsögusendi.

Lágmarksflughæð svæðis (Area minimum altitude; AMA). Lægsta nothæfa flughæð við blindflugsskilyrði sem veitir lágmarks lausn frá hindrun (minimum obstacle clearance) innan ákveðins svæðis, að öllu jöfnu myndað með samhliða lengdarbaugum.

Lágmarksflughæð yfir hindrun (Minimum obstacle clearance altitude; MOCA): Lágmarksflughæð afmarkaðs hluta flugleiðar sem tryggir þann aðskilnað frá hindrunum sem gerð er krafa um.

Flughæð sem veitir lausn frá hindrun / hæð sem veitir lausn frá hindrun (Obstacle clearance altitude (OCA) or obstacle clearance height (OCH)): Minnsta flughæð eða minnsta hæð yfir landhæð þröskuldar eða flugvallar, eftir því sem við á, sem ákveðin er til þess að settum kröfum um aðskilnað frá hindrunum sé fullnægt. Flughæð sem veitir lausn frá hindrun er miðuð við sjávarmál og hæð sem veitir lausn frá hindrun miðast við landhæð þröskuldar eða, vegna grunnaðflugs, landhæð flugvallar eða landhæð þröskuldar ef sú er meira en 2 m lægri en landhæð flugvallar. Hæð sem veitir lausn frá hindrun fyrir hringaðflug er miðuð við landhæð flugvallar. Ef rita skal bæði gildi má til hagræðis rita „flughæð/hæð sem veitir lausn frá hindrun“ og skammstafa OCA/H.

Lágmarksleiðarflughæð (Minimum en-route altitude (MEA)): Flughæð á hluta flugleiðar sem tryggir fullnægjandi móttöku frá viðeigandi leiðsögubúnaði og fjarskipti vegna flugumferðarþjónustu, fylgir formgerð loftrýmis og tryggir aðskilnað frá hindrunum sem gerð er krafa um.

Leiðarmið (Significant point): Ákveðin landfræðileg staðsetning notuð til að marka flugþjónustuleið eða feril loftfars eða í öðrum tilgangi tengdum flugumferðarþjónustu og flugleiðsögu. Til eru þrír flokkar leiðarmiða: jarðfastur leiðsögubúnaður (ground-based navigation aid), skurðpunktur (intersection) og varða (waypoint). Hvað varðar þessa orðskýringu þá er skurðpunktur leiðarmiðs tjáð sem radíal, stefna og/eða fjarlægð frá jarðföstum leiðsögubúnaði.

Leiðsöguforskrift (Navigation specification): Kröfur er snúa að loftfari og flugliðum sem gerðar eru vegna hæfisbundinnar leiðsögu innan ákveðins loftrýmis. Til eru tvær gerðir leiðsöguforskrifta:

RNP-forskrift (Required navigation performance (RNP) Specification): Forskrift fyrir leiðsögu sem byggð er á svæðisleiðsögu og felur í sér kröfu um vöktun á frammistöðu og viðvörun, gefið til kynna með forskeytinu RNP, t.d. RNP 4, RNP APCH.
RNAV-forskrift (Area navigation (RNAV) specification): Forskrift fyrir leiðsögu sem byggð er á svæðisleiðsögu og felur ekki í sér kröfu um vöktun á frammistöðu og viðvörun, gefið til kynna með forskeytinu RNAV, t.d. RNAV 5, RNAV 1.

Lendingarsvæði (Landing area): Sá hluti athafnasvæðis flugvallar sem ætlaður er fyrir lendingar eða flugtök loftfara.

Lendingarvísir (Landing direction indicator): Tæki til að sýna þá stefnu sem tilgreind er á hverjum tíma fyrir lendingu og flugtak.

Loftakbraut (Air taxiway): Skilgreindur ferill á yfirborðinu ætlaður til loftaksturs þyrlna.

Loftbraut (Airway): Flugstjórnarsvæði eða hluti þess í formi loftganga.

Loftfarastæði (Aircraft stand): Tiltekið svæði á hlaði ætlað til að leggja loftfari.

Lokaaðflug (Final approach): Sá hluti blindaðflugs sem hefst við tilskilið lokamið í blindaðflugi eða þar sem slíkt staðarhnit eða staður er ekki skilgreindur,

a) við lok síðustu blindaðflugsbeygju (last procedure turn), fleygbeygju (base turn) eða við innbeygju í skeiðvallarferli (racetrack procedure) ef tiltekið, eða
b) þegar loftfar er komið á lokaferil aðflugs;
og lýkur þegar loftfar flýgur yfir stað í námunda við flugvöll þaðan sem

1. hægt er að lenda, eða
2. fráflug skal hafið.

Lokaaðflugs- og flugtakssvæði (Final approach and take-off area (FATO)): Tilgreint svæði þar sem aðflugi er lokið til að voka eða lenda og þaðan sem flugtak er hafið. Þar sem nota á þetta svæði fyrir þyrlur með afkastagetu samkvæmt 1. flokki innifelur tilgreinda svæðið tiltæka stöðvunarvegalengd.

Lokaaðflugshluti (Final approach segment): Sá hluti verklags í blindaðflugi þar sem uppstilling (alignment) og lækkun fyrir lendingu á sér stað.

Lokamið í blindaðflugi (Final approach fix or point): Leiðarmið eða leiðarvirki í blindaðflugi þar sem lokaaðflug hefst.

Lotubundin viðaukaprófun (Cyclic redundancy check (CRC)): Stærðfræðilegt algrím sem beitt er við stafræn gögn og veitir nokkra tryggingu gegn tapi eða breytingu gagna.

Lóðhæð (Orthometric height): Hæð staðsetningar yfirjarðsporvölu, yfirleitt sýnd sem hæð yfir meðalsjávaryfirborði (m.y.s.).

Lýsigögn (Metadata): Gögn um gögn (ISO 19115).

Mannvirki (Culture): Allir manngerðir hlutir á yfirborði jarðar svo sem borgir, brautar­teinar og skurðir.

Meginreglur mannþáttafræði (Human factors principles): Meginreglur sem gilda um hönnun, vottun, þjálfun, rekstur og viðhald kerfa og miða að öruggri tengingu milli mannsins og annarra kerfisþátta með því að taka viðeigandi tillit til mannlegrar getu.

Merking (Marking): Merkingar, ein eða fleiri, á yfirborði athafnasvæðis til leiðbeiningar flugvallarumferð.

Milliaðflugshluti (Intermediate approach segment): Sá hluti blindaðflugsverklags sem er milli ýmist milliflugsmiðs og lokaaðflugsmiðs eða staðar, eða milli loka bakfærðs- (reversal), biðflugs- (racetrack) eða leiðarreikningsferilsverklags (dead reckoning track) og lokaaðflugshnits eða staðar, eins og við á.

Millibiðstaður (Intermediate holding position): Merkt stæði ætlað til stjórnunar umferðar þar sem akandi loftför og ökutæki skulu stöðva og bíða frekari heimildar til að halda áfram, þegar flugturn mælir svo fyrir um.

Misvísun (Magnetic variation): Hornið milli réttvísandi norðurs (hánorðurs) og segul­norðurs.

Nákvæmnisaðflug (Precision approach procedure): Stöðluð aðferð við blindaðflug þar sem stuðst er við miðlínu- og hallageisla frá blindlendingarkerfi (ILS) eða blind­lendingar­ratsjá (PAR).

Náttúrulegt yfirborð jarðar (Bare Earth): Yfirborð jarðar þ.m.t. vötn, jöklar og snjór, að undanskildum gróðri og mannvirkjum.

Notkun (Application): Meðhöndlun og vinnsla gagna í samræmi við kröfur notenda (ISO 19104).

Punktljós (Point light): Ljósmerki sem birtist án þess að greina megi lengd þess.

Rafrænn flugkortaskjár (Electronic aeronautical chart display): Rafrænn búnaður sem gerir flugliðum kleyft að skipuleggja flugleiðir, vakta flogna flugleið og leiðsögu, á hentugan og fljótlegan máta, með því að birta umbeðnar upplýsingar.

Ratsjárstefning (Vectoring): Veiting leiðsöguþjónustu til loftfara með því að gefa upp ákveðna nefstefnu (heading), byggða á kögunarkerfi flugumferðarþjónustu.

Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu (Air navigation service provider): Hver sá opinberi aðili, stofnun eða fyrirtæki, sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir flugumferð og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar að hluta eða öllu leyti.

Rekstrarflughæð (Procedure altitude): Tilgreind flughæð/hæð í eða yfir lágmarks flughæð/hæð, sem gefin er út og gerir loftförum kleyft að framkvæma stöðuga lækkun samkvæmt tilgreindum lækkunarhraða/horni í miðhluta/lokahluta aðflugs.

Sjónaðflugsverklag (Visual approach procedure): Röð fyrirfram ákveðinna flugbragða sem hefjast við kennileiti í sjónmáli (frumaðflugsmiði eða öðrum stað sem við á), og beitt er frá upphafi skilgreindrar aðkomuleiðar til þess staðar sem ljúka má lendingu frá og eftir það, ef hætt er við lendingu, að fylgja megi viðeigandi fráflugsverklagi.

Skilgreind gagnaafurð (Data product specification): Lýsing í smáatriðum á gagnasafni eða röð gagnasafna ásamt viðbótarupplýsingum sem munu gera öðrum aðila kleift að búa til, útvega og nota gagnasafnið eða röð gagnasafna (ISO 19131).

Skiptihæð (Transition altitude): Í og undir skiptihæð skal lóðrétt staðsetning loftfars miðuð við flughæð. Í skiptihæð er hæðarmælisstillingu breytt og flughæð miðuð við málþrýsting fyrir ofan skiptihæð.

Snertisvæði (Touchdown zone): Sá hluti flugbrautar, eftir þröskuld, þar sem fyrirhugað er að flugvél í lendingu snerti flugbrautina fyrst.

Snerti- og flugtakssvæði (Touchdown and lift-off area (TLOF)). Svæði sem hefur burðargetu til að geta verið snerti- eða flugtakssvæði þyrlu.

Svæðisleiðsaga (Area navigation, RNAV): Leiðsaga sem leyfir starfrækslu loftfars eftir hvaða flugslóð (flight path) sem er innan drægis leiðsögubúnaðar (hvort sem er jarð- eða gervihnattabúnaðar) eða innan getumarka sérbúnaðar loftfars.

Skiptistaður (Change-over point): Sá staður flugþjónustuleiðar, sem mörkuð er af fjölstefnuvitum, þar sem loftfari er ætlað að skipta frá merkjasendingum fjölstefnuvitans fyrir aftan það til þess næsta fram undan.

Sporvöluhæð (landmælingahæð) (Ellipsoid height (geodetic height)): Hæð miðuð við viðmiðunarsporbaugsflöt, mæld eftir ytri þverlínu flatarins gegnum þann punkt sem um er að ræða.

Stafrænt landhæðalíkan (Digital elevation model (DEM)): Framsetning á landslagsyfirborði með hæðarupplýsingum í punktum skilgreindrar gagnagrindar sem tekur mið af sameiginlegu viðmiðunarkerfi.

Stöðumið (Reporting point): Ákveðin landfræðileg staðsetning sem flugmaður miðar við er hann tilkynnir staðsetningu loftfars. Til eru þrír flokkar stöðumiða: jarðfastur leiðsögubúnaður (ground-based navigation aid), skurðpunktur (intersection) og varða (waypoint). Hvað varðar þessa orðskýringu þá er skurðpunktur leiðarmiðs tjáð sem radíal, stefna og/eða fjarlægð frá jarðföstum leiðsögubúnaði. Stöðumið getur verið skyldustöðumið (compulsary) eða frjálst stöðumið (on request).

Tímatal (Calendar): Afmarkað tímaviðmiðunarkerfi sem gefur grunninn fyrir skil­greiningu á einum sólarhring (ISO 19108).

Umferðarsvæði (Manoeuvring area): Sá hluti flugvallar, sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, þó ekki hlöð.

Upphleypt sýn (Relief): Mismunur í hæðum á yfirborði jarðar sýnt á flugkortum með jafnhæðarlínum, hæðarlitbrigðum, skyggingu eða punkthæðum.

Upplausn (Resolution): Fjöldi eininga eða talna sem mælt eða reiknað gildi er birt með og notað.

Varða (Waypoint): Tilgreind landfræðileg staðsetning notuð til að auðkenna svæðis­leiðsöguflugleið (area navigation route) eða flugslóð loftfars í svæðisleiðsögu. Vörður eru ýmist:

Hjáflugsvarða (Fly-by-waypoint): Varða sem krefst þess að beygt sé áður en komið er að vörðunni til að tryggja viðeigandi snertiflöt við næsta hluta flugleiðar eða verklags; eða
Yfirflugsvarða (Flyover waypoint): Varða sem markar upphaf beygju sem gerð er í því skyni að hefja næsta hluta leiðar eða verklags.

Viðauki 4 (ICAO Annex 4 Aeronautical Charts): Þegar vísað er í viðauka 4 í reglugerð þessari þá er átt við viðauka 4 stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO (Chicago-samninginn).

Viðmið (Datum): Skilgreiningasafn eða -söfn stærða sem geta þjónað sem viðmið eða grundvöllur fyrir útreikninga á öðrum stærðum (ISO 19104).

Viðmið í landmælingu (Geodetic datum): Minnsta sett af breytum sem þarf til að skilgreina stað og staðsetningu viðmiðunarkerfis í hnattrænu samhengi.

Viðmiðunarpunktur flugvallar (Aerodrome reference point): Tilgreind landfræðileg staðsetning flugvallar.

Þröskuldur (Threshold): Upphaf þess hluta flugbrautar sem er nothæfur til lendingar.

Þyrlustæði (Helicopter stand): Loftfarastæði fyrir þyrlur og, þar sem akstri lýkur eða þyrlur snerta jörðu eða lyfta fyrir loftakstur.

Þyrluvöllur (Heliport): Flugvöllur eða afmarkað svæði á mannvirki eingöngu eða að hluta til ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar þyrlu á jörðu niðri.

Öryggisbraut (Stopway, SWY): Skilgreint rétthyrnt svæði við enda tiltæks flugtaksbruns útbúið þannig að þar er hægt að stöðva loftfar ef hætt er við flugtak.

4. gr.

Aðrar reglur um flugkort.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðauka 4 við Chicago-samninginn og annars leiðbeinandi efnis útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO.

Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerðinni er lýst eða er þeim til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur í þessari reglugerð, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar Íslands. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem Flugmálastjórn metur viðunandi.

Helsta leiðbeiningarefni sem vísað er til:

  1. Handbók um flugkort (ICAO Aeronautical Chart Manual, Doc 8697);
  2. Handbók um mannþáttafræðiþjálfun (ICAO Human Factors Training Manual, Doc 9683);
  3. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – ICAO-skammstafanir og kóðar (ICAO Abbreviations and Codes, Doc 8400);
  4. Staðarauðkenni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO Location Indicators, Doc 7910);
  5. Handbók um WGS-84 alþjóðalandmælingakerfið (ICAO World Geodetic System - 1984 (WGS-84) Manual, Doc 9674);
  6. Staðlar fyrir upplýsingaþjónustu flugmála (RTCA Document DO-201A og EUROCAE ED-77);
  7. Handbók um skipulag flugumferðarþjónustu (ICAO Air Traffic Services Planning Manual, Doc 9426);
  8. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – starfræksla loftfara, bindi I og bindi II, (ICAO PANS-OPS, Doc 8168, vol. I og vol. II);
  9. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu – rekstrarstjórnun flugumferðar (ICAO PANS-ATM, Doc 4444);
  10. Handbók um hæfisbundna leiðsögu (ICAO Performance-based Navigation (PBN) Manual, Doc 9613, Volume II);
  11. Handbók um flugvallarþjónustu (ICAO Airport Services Manual, Doc 9137).

II. KAFLI

Hönnun, gerð og útgáfa flugkorta.

5. gr.

Hönnun flugferla og hindranamælingar.

Hönnun flugferla sem birta skal á flugkortum skal vera í samræmi við ákvæði í verklagsreglum flugleiðsöguþjónustu – starfræksla loftfara, bindi I og bindi II, (ICAO PANS-OPS, Doc 8168, vol. I og vol. II). Þeir einir geta unnið að hönnun flugferla, sem birta skal á flugkortum, sem hlotið hafa viðurkennda þjálfun sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands.

Hindranamælingar skulu unnar í samræmi við staðla og leiðbeiningar Alþjóða­flugmálastofnunarinnar.

6. gr.

Framleiðsla flugkorta.

Flugkort skulu unnin í samræmi við lög um loftferðir og reglugerð þessa, auk viðauka 4 við Chicago-samninginn og Handbók um flugkort (ICAO Doc 8697).

7. gr.

Útgáfa flugkorta.

Framleiðsla og útgáfa flugkorta er hluti af upplýsingaþjónustu flugmála og skal þannig uppfylla kröfur þar að lútandi sbr. reglugerð um upplýsingaþjónustu flugmála og reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu.

Flugkort skulu gefin út af Flugmálastjórn Íslands. Flugmálastjórn Íslands er heimilt að fela handhafa starfsleyfis til upplýsingaþjónustu flugmála, skv. reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, gerð og útgáfu flugkorta.

Flugkort skulu útgefin og birt í Flugmálahandbók (AIP) sem gefin er út á vegum Flugmálastjórnar Íslands. Jafnframt skulu þau aðgengileg á heimasíðum Flugmála­stjórnar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu og rekstraraðilum flugvalla.

8. gr.

Skylda til útgáfu flugkorta.

Aðeins skal gefa út flugkort fyrir flugvelli sem starfa á grundvelli starfsleyfis Flugmála­stjórnar Íslands skv. reglugerð um flugvelli.

Skylt er að gefa út eftirfarandi flugkort (sjá nánar ákvæði um einstaka tegundir flugkorta í 2. kafla viðauka við reglugerð þessa):

  1. Flugvallahindranakort af tegund A (Aerodrome obstacle chart-ICAO type A).
  2. Flugvallahindranakort af tegund B (Aerodrome obstacle chart-ICAO type B).
  3. Rafræn landslags- og hindranakort fyrir flugvelli (Aerodrome terrain and obstacle chart-ICAO electronic). Skylt verður að gefa út rafræn landslags- og hindranakort fyrir flugvelli frá 12. nóvember 2015.
  4. Landslagskort fyrir nákvæmnisaðflug (Precision approach terrain chart).
  5. Leiðarkort (En-route chart).
  6. Svæðiskort (Area chart).
  7. Staðlað blindbrottflugskort (SID).
  8. Staðlað kort fyrir aðkomuleiðir í blindflugi (STAR).
  9. Blindaðflugskort (Instrument approach chart).
  10. Sjónaðflugskort (Visual approach chart).
  11. Flug-/þyrluvallarkort (Aerodrome chart).
  12. Kort fyrir aksturshreyfingar á flugvöllum (Aerodrome ground movement chart).
  13. Kort fyrir loftfarastæði/sjónræna stæðisleiðsögu (Aircraft parking docking chart).
  14. Sjónflugskort (VFR Aeronautical chart).

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að gefa út önnur kort en þau sem talin eru upp í 2. mgr. svo sem kort yfir flugbrautarleiðiljós (lead-in lights chart) og kort með sjónflugsleiðum.

III. KAFLI

Lokaákvæði.

9. gr.

Gæðakerfi.

Gerð og útgáfa flugkorta sem hluti af upplýsingaþjónustu flugmála skal lúta kröfum um gæðakerfi sbr. reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu.

10. gr.

Kostnaður við hönnun, gerð og útgáfu flugkorta.

Flugmálastjórn Íslands eða þeim aðila sem falin hefur verið hönnun, gerð og útgáfa flugkorta er heimilt að taka gjald vegna kostnaðar við hönnun, gerð og útgáfu flugkorta.

11. gr.

Eftirlit.

Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með því að hönnun, gerð og útgáfa flugkorta sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar þessarar.

12. gr.

Afturköllun.

Flugmálastjórn Íslands getur afturkallað eða takmarkað starfsleyfi upplýsingaþjónustu flugmála sem veitt er rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu skv. ákvæðum loftferðalaga og reglugerðar um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, ef skilyrði fyrir starfsleyfinu eru ekki lengur uppfyllt, þ.m.t. ef gæði flugkorta teljast ekki fullnægjandi eða birtingu er ábóta­vant og ekki eru gerðar úrbætur innan þess frests sem ákveðinn er af Flugmála­stjórn Íslands.

13. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

14. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

15. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi viðauki 4 um flugkort (Aeronautical Charts) við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) (Chicago-samningurinn).

16. gr.

Viðauki

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar:

Viðauki við reglugerð þessa byggir að miklu leyti á köflum 2 til 20 í viðauka 4 við Chicago-samninginn.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 56. gr., 6. mgr. 57. gr. a og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 24. september 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 14. október 2010