1. gr.
Markmið.
Markmið með reglugerð þessari er að auka öryggi í flugi með því að kveða á um sameiginlegar tæknikröfur, til fyrirtækja og starfsfólks og kveða á um sameiginlegar verklagsreglur og málsmeðferð til að tryggja áframhaldandi lofthæfi loftfara, þ.m.t. íhluta í þau.
2. gr.
Gildissvið.
1. Reglugerð þessi tekur til loftfara, þ.m.t. íhluta í þau, sem:
|
a) |
eru skráð á Íslandi, |
|
b) |
eru skráð í þriðja landi en Ísland ber ábyrgð á eftirliti með rekstri flugrekandans sem notar þau. |
2. Fyrsta málsgrein gildir ekki ef lögbundið eftirlit með loftfari hefur verið falið þriðja landi og flugrekandi innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og Fríverslunarsamtaka Evrópu notar ekki loftfarið og ekki um loftför sem um getur í II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 216/2008 frá 20. febrúar 2008 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA).
3. Ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 1321/2014 er lúta að flutningaflugi taka til flugrekenda með útgefið flugrekandaskírteini í samræmi við ákvæði laga um loftferðir og reglugerðar um flutningaflug eins og hún er á hverjum tíma.
3. gr.
Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að 5 árum í samræmi við viðurlagaákvæði XIII. kafla laga nr. 60/1998 um loftferðir.
4. gr.
Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1, um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1321/2014 frá 26. nóvember 2014 um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 111/2015 frá 30. apríl 2015. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55 frá 17. september 2015, bls. 153.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1088 frá 3. júlí 2015 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1321/2014 að því er varðar tilslakanir á verklagsreglum um viðhald loftfara í almannaflugi, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 227/2015 frá 25. september 2015. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63 frá 15. október 2015, bls. 1799.
5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. 28. gr., 85. gr. a, 73. gr., og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 206/2007 um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði, auk reglugerða um breytingu á þeirri gerð.
Innanríkisráðuneytinu, 16. október 2015.
F. h. r.
Sigurbergur Björnsson.
Gunnar Örn Indriðason.
|