Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 602/2008

Nr. 602/2008 6. júní 2008
REGLUGERÐ
um kröfur er varða verklagsreglur og flugáætlanir innan samevrópska loftrýmisins.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um kröfur er varða verklagsreglur um flugáætlanir á undirbúningsstigi flugs til þess að tryggja samræmi milli flugáætlana, endurtækra flugáætlana og tengdra uppfærsluskilaboða milli flugrekenda, flugmanna og flugumferðarþjónustudeilda í gegnum samþætta kerfið fyrir úrvinnslu upphaflegra flugáætlana, annaðhvort á tímabilinu fram að því að fyrsta flugheimild er veitt fyrir flug, sem leggur af stað innan loftrýmisins, sem þessi reglugerð tekur til, eða á tímabilinu áður en önnur flug koma inn í þetta loftrými.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um öll flug sem fyrirhugað er að starfrækja eða eru starfrækt í tengslum við almenna flugumferð í samræmi við blindflugsreglur innan loftrýmis Alþjóðaflugmálastofnunarinnar innan Evrópusvæðis (ICAO EUR) og Afríku- og Indlandshafssvæðis (ICAO AFI) þar sem aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eru ábyrg fyrir því að veita flugumferðarþjónustu.

Reglugerð þessi gildir um eftirfarandi aðila sem tengjast afhendingu, lagfæringu, viðtöku og dreifingu flugáætlana:

a) flugrekendur og fulltrúa þeirra,

b) flugmenn og fulltrúa þeirra,

c) flugumferðarþjónustudeildir sem veita almenningsflugi þjónustu í samræmi við blindflugsreglur.

3. gr.

Orðskýringar.

Vísað er til frekari orða og orðskýringa en hér greinir í reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Loftrýmisreglugerðin (Airspace Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal IV með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Rammareglugerðin (Framework Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði, sjá fylgiskjal II með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Rekstrarsamhæfisreglugerðin (Interoperability Regulation): Reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar. Sjá fylgiskjal V með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Þjónustureglugerðin (Service Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal III með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

4. gr.

Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1033/2006 frá 4. júlí 2006 um kröfur er varða verklagsreglur og flugáætlanir á undirbúningsstigi flugs innan samevrópska loftrýmisins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 134/2006 frá 27. október 2006. Reglugerðin er birt sem fylgiskjal með reglugerð þessari.

5. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem er sett með heimild í 57. gr. a, 5. mgr. 75. og 76. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 6. júní 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 25. júní 2008