Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 807/2016

Nr. 807/2016 9. september 2016

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Á eftir 4. mgr. 57. gr. reglnanna bætist við ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. málsliðar 2. mgr., sbr. einnig 3. mgr. 56. gr., skal eftirfarandi gilda háskólaárin 2016-2017 og 2017-2018: Verkfræði- og náttúruvísindasviði er heimilt í tilraunaskyni, að höfðu samráði við prófstjóra, að gefa nemendum við deildir verkfræði- og náttúruvísindasviðs kost á að þreyta sjúkrapróf og endurtökupróf vegna haustmisseris á tveimur virkum dögum í byrjun janúar, samhliða sjúkraprófum annarra fræðasviða eftir því sem unnt er, auk laugardaga í annarri og þriðju viku janúar. Þessi möguleiki nemenda er valkvæður háskólaárið 2016-2017, en gildir fyrir alla nemendur deilda fræðasviðsins háskólaárið 2017-2018.

2. gr.

75. gr. reglnanna breytist og orðast svo:

Tilgangur Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands er að efla rannsóknir í Háskóla Íslands. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands skiptist í verkefnasjóð og doktorssjóð.

Háskólaráð ákveður árlega fjárveitingu til sjóðsins.

Stjórn Rannsóknasjóðs er skipuð formönnum fimm sjálfstæðra fagráða, einu fyrir hvert fræðasvið. Formaður er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Rektor skipar fagráðin, sem í sitja fjórir til fimm sérfræðingar og þar af skal einn vera í meginstarfi utan háskólans. Hlutverk fag­ráða er að annast faglegt mat og forgangsröðun umsókna í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands, doktors­sjóð Rannsóknasjóðs og Háskólasjóð Eimskipafélagsins. Formenn fagráða halda reglulega samráðs­fundi meðan á mati umsókna stendur. Faglegt mat skal byggja á viðmiðum sem vísinda­nefnd háskólaráðs setur. Verkefnisstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði háskólans starfar með stjórn sjóðsins og fagráðum.

Stjórn Rannsóknasjóðs annast úthlutun úr sjóðnum á grundvelli tillagna fagráða.

Kennarar og sérfræðingar við Háskóla Íslands og stofnanir hans, sem hafa rannsóknir að aðalstarfi og hafa verið ráðnir á grundvelli hæfnisdóms, geta sótt um stuðning sjóðsins. Að auki geta nýdoktorar, er uppfylla skilyrði sjóðsins, sótt um sérstaka nýdoktorastyrki sem stjórn sjóðsins er heimilt að auglýsa. Stjórn sjóðsins er einnig heimilt að auglýsa ferðastyrki fyrir doktorsnema.

Við mat á verkefnum skal fyrst og fremst fara eftir vísindagildi þeirra og rannsóknavirkni umsækj­enda. Við úthlutun skal séð til þess að sérfræðingar á viðkomandi sviði gefi faglega umsögn um allar nýjar umsóknir styrkhæfra umsækjenda.

Vísindanefnd háskólaráðs setur stjórn Rannsóknasjóðs og fagráðum viðmið um úthlutun og ákveður skiptingu fjár á milli verkefnasjóðs og doktorssjóðs, sbr. 1. mgr.

Í kjölfar hverrar úthlutunar skal stjórn Rannsóknasjóðs gefa háskólaráði og vísindanefnd háskóla­ráðs skýrslu um úthlutun úr sjóðnum.

3. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 9. september 2016.

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 26. september 2016