1. gr.
Á eftir 2. mgr. 2. gr. reglnanna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
Í umboði rektors og háskólaráðs annast sameiginleg stjórnsýsla háskólans reikningshald háskólans, þar með talið fyrirkomulag bókhalds, eftirlit með rekstri og uppgjöri samstarfssamninga og rannsóknastyrkja sem fela í sér meðferð fjármuna og fjárhagsskuldbindingar fyrir háskólann. Háskólaráð setur, eftir atvikum, sérstakar verklagsreglur um meðferð einstakra viðfangsefna.
2. gr.
6. gr. reglnanna breytist og orðast svo:
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.
Tilnefning háskólaráðs fer fram að undangengnum kosningum.
Um auglýsingu, kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors gildir eftirfarandi:
1. Auglýsing.
Háskólaráð auglýsir embætti rektors laust til umsóknar. Skal auglýsing birt fyrir miðjan desember á því háskólaári sem skipunartímabili sitjandi rektors lýkur og skal umsóknarfrestur vera fjórar vikur.
2. Skilyrði um embættisgengi.
Embættisgengir eru þeir einir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Háskólaráð ákvarðar hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.
3. Skipunartímabil.
Skipunartímabil rektors er fimm ár, frá 1. júlí að telja til 30. júní að fimm árum liðnum, sbr. þó 11. tölulið þessarar greinar.
4. Kjörstjórn.
Þegar umsóknarfrestur um embætti rektors er liðinn skipar háskólaráð kjörstjórn. Kjörstjórn skal skipuð sex mönnum, tveimur úr hópi stúdenta og fjórum úr hópi starfsmanna háskólans, og skal einn þeirra síðartöldu skipaður formaður kjörstjórnar. Falli atkvæði jöfn í kjörstjórn sker atkvæði formanns úr.
Verkefni kjörstjórnar er að hafa fyrir hönd háskólaráðs umsjón með gerð kjörskrár, ákveða kjördag, annast framkvæmd kosninga, úrskurða í kærumálum vegna kosninga og annað er að kosningunni lýtur, svo sem nánar er kveðið á um í reglum þessum.
5. Atkvæðisréttur og vægi atkvæða.
Við rektorskjör eiga atkvæðisrétt allir þeir sem skipaðir eru eða ráðnir í starf við háskólann og stofnanir hans í samræmi við gildan ráðningarsamning. Starfshlutfallið 75% og hærra telst fullt starf í reglum þessum og veitir heilt atkvæði. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37-74% og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Nú gegnir starfsmaður starfshlutfallinu 50% og hærra samhliða starfi á stofnun sem háskólinn hefur gert samning við um samstarf á fræðasviði og telst hann þá gegna fullu starfi.
Atkvæðisrétt hafa einnig akademískir starfsmenn á samstarfsstofnunum Háskóla Íslands, sem starfa á grundvelli sérlaga. Í samstarfssamningi við háskólann skal vera ákvæði um aðild starfsmanna að kosningu rektors. Atkvæðisrétturinn nær eingöngu til starfsmanna sem ráðnir hafa verið eða skipaðir í viðkomandi starf á grundvelli hæfnisdóms í samræmi við hliðstæðar reglur og gilda við Háskóla Íslands og fara þeir með hálft atkvæði. Framangreindar stofnanir skulu eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag láta kjörstjórn í té lista yfir þá starfsmenn sem uppfylla framangreind skilyrði.
Þá eiga atkvæðisrétt allir stúdentar, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands við upphaf kjörfundar. Atkvæði starfsmanna skulu samtals vega 70% í kjörinu og atkvæði stúdenta skulu samtals vega 30%.
6. Kjörskrá.
Kjörstjórn gerir rafrænan kjörseðil og gengur frá kjörskrá. Skal kjörskrá birt með rafrænum hætti þremur vikum fyrir kjördag. Kærur skulu hafa borist kjörstjórn í síðasta lagi viku fyrir kjördag og skal úrskurður kjörstjórnar liggja fyrir eigi síðar en einum sólarhring fyrir kjördag.
Nú uppfyllir maður skilyrði til að vera á fleiri en einni kjörskrá og ákveður kjörstjórn þá á hvaða kjörskrá hann skuli vera. Uni hann því ekki skal hann þá, eigi síðar en fyrir lok kærufrests, viku fyrir kjördag, tilkynna kjörstjórn á hvaða kjörskrá hann hyggst vera.
Starfsmannasvið háskólans sér um að útbúa kjörskrá starfsmanna háskólans og stofnana hans. Til stofnana háskólans í grein þessari teljast þær stofnanir sem heyra undir háskólaráð, fræðasvið eða deildir háskólans samkvæmt reglum settum af háskólaráði.
Kennslusvið háskólans sér um að útbúa kjörskrá stúdenta.
7. Kosning.
Rektorskjör skal fara fram eigi síðar en sjö vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Miða skal við að kjördagur sé sem næst 5. mars og skal hann auglýstur tryggilega innan háskólans. Kosning er rafræn og skal kjörfundur standa í þrjá sólarhringa frá kl. 9 árdegis fyrsta daginn til kl. 9 árdegis fjórða daginn. Um rafræna kosningu fer eftir verklagsreglum sem háskólaráð staðfestir. Talning atkvæða hefst þegar að kjörfundi loknum.
Sá umsækjandi telst hafa hlotið tilnefningu í embætti rektors sem hlýtur meirihluta gildra atkvæða í almennri kosningu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju viku eftir að úrslit fyrri umferðar liggja fyrir, um þá tvo sem flest atkvæði fengu. Séu tveir eða fleiri jafnir í öðru sæti ræður hlutkesti. Þegar kosið er um þá tvo sem flest atkvæði fengu ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
Berist einungis umsókn frá einum umsækjanda sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi telst hann sjálfkjörinn og telst hafa hlotið tilnefningu til embættis rektors.
Rektor má endurkjósa.
8. Tilnefning.
Á fyrsta fundi háskólaráðs að loknum kosningum tilnefnir ráðið til mennta- og menningarmálaráðherra þann umsækjanda sem fengið hefur meirihluta gildra atkvæða.
9. Skipun.
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar háskólarektor samkvæmt tilnefningu háskólaráðs.
10. Embættistaka.
Rektor tekur við embætti 1. júlí, sbr. þó 11. tölulið þessarar greinar.
11. Frávik.
Nú fellur rektor frá eða lætur af embætti, áður en skipunartími hans er liðinn, og skal þá kjósa nýjan rektor svo fljótt sem því verður við komið. Við þær aðstæður ákveður háskólaráð hvaða prófessor háskólans skuli tilnefndur til að vera settur til að gegna rektorsstörfum tímabundið. Hið sama á við ef rektor forfallast vegna veikinda eða fær leyfi frá störfum. Fari rektorskjör í slíkum tilvikum fram áður en skipunartími sitjandi rektors er liðinn, er hinn nýkjörni rektor kosinn til fimm ára. Það sem eftir er tímabils frá 1. júlí til 30. júní þegar hann tekur við embætti skal teljast eitt ár.
3. gr.
2. málsl. 4. mgr. 40. gr. reglnanna orðast svo: Fyrir hvorn nefndarmann um sig í hverri fastri dómnefnd skulu skipaðir tveir varamenn með sama hætti.
4. gr.
Í stað orðanna „Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 4. mgr. 11. gr. reglnanna kemur: Mála- og menningardeild.
5. gr.
Í stað orðanna „deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 1. mgr. XII. kafla reglnanna kemur: mála- og menningardeild. Jafnframt orðast fyrirsögn á undan 109. gr. svo: Mála- og menningardeild.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. reglnanna:
- Í stað orðanna „deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 1., 3. og 11. mgr. kemur: mála- og menningardeild.
- 1. málsl. 8. mgr. orðast svo: Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. reglnanna:
- Í stað orðanna „deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 1., 4., 6. og 7. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: mála- og menningardeild.
- 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Kennslu til meistaraprófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi.
8. gr.
Skammstöfunin „M.Paed.“ í lok 1. málsl. 16. mgr. 111. gr. reglnanna fellur brott.
9. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr. reglnanna:
- Í stað orðanna „deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 2. málsl. b-liðar 1. mgr. kemur: mála- og menningardeild.
- 1. málsl. 8. mgr. orðast svo: Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs.
10. gr.
1. málsl. 2. mgr. 114. gr. reglnanna orðast svo: Kennslu til meistaraprófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi.
11. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 115. gr. reglnanna:
- Í stað orðanna „deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda“ í 2. málsl. b-liðar 1. mgr. kemur: mála- og menningardeild.
- 4. málsl. 7. mgr. fellur brott.
- Í núverandi 5. málsl. 7. mgr. falla brott orðin „þ.m.t. lokaverkefni“.
- 1. og 2. málsl. 8. mgr. orðast svo: Að loknu BA-prófi getur stúdent sótt um að hefja nám til meistaraprófs í þeirri grein sem var aðalgrein hans til BA-prófs. Áskilið er að hann hafi lokið BA-prófi með fyrstu einkunn og sæki hann um nám í fornleifafræði, heimspeki eða sagnfræði þarf hann að hafa lokið a.m.k. 10 eininga lokaverkefni.
12. gr.
1. málsl. 2. mgr. 116. gr. reglnanna orðast svo: Kennslu til meistaraprófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu BA-prófi.
13. gr.
Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar í samræmi við lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.
Háskóla Íslands, 9. desember 2016.
Jón Atli Benediktsson.
Þórður Kristinsson.
|