1. gr.
Gildissvið og markmið.
Reglugerð þessi gildir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga skv. 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Markmiðið er að laða að erlenda sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og með því að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að fá til sín slíka aðila svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi.
2. gr.
Erlendur sérfræðingur og skilyrði frádráttar.
Erlendum sérfræðingum, sem ráðnir eru til starfa hér á landi frá og með 1. janúar 2017 og eru skattskyldir á grundvelli 1. eða 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt að draga 25% tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna frá tekjum fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf enda séu skilyrði 2. og 3. mgr. uppfyllt.
Starfsmaður telst vera erlendur sérfræðingur, óháð ríkisborgararétti, í skilningi reglugerðar þessarar, sbr. einnig 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
- hann hefur ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári sem hann hóf störf hérlendis; og
- hann býr yfir þekkingu eða reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða einungis í litlum mæli.
Ákvæði 1. og 2. mgr., gilda einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:
- er ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sá aðili greiðir honum laun sem sérfræðingi; og
- er ráðinn til að sinna verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
- hann starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna; eða
- hann sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.
3. gr.
Form og skilyrði umsóknar.
Umsókn um frádrátt samkvæmt 2. gr. skal berast til sérstakrar nefndar, sbr. 5. og 6. gr., er metur hvort viðkomandi starfsmaður fellur undir ákvæði reglugerðarinnar. Umsókn skal berast nefndinni eigi síðar en þremur mánuðum frá þeirri dagsetningu sem starfsmaður hóf störf hérlendis ella skal henni hafnað.
Umsóknin skal vera skrifleg og ítarlega rökstudd með eftirfarandi fylgigögnum sem sýna fram á að starfsmaður uppfylli skilyrði reglugerðarinnar:
- fullu nafni og heimilisfangi/aðsetri viðkomandi starfsmanns ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands á því að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. séu uppfyllt;
- staðfestingu á ráðningarsamningi ásamt upplýsingum um laun og hvers konar hlunnindi; og
- gögnum er sýna fram á sérþekkingu eða reynslu, s.s. upplýsingar um menntun, starfsreynslu (ferilskrá) eða annað sem sýnir fram á sérþekkingu og/eða sérhæfingu; og
- greinargerð um að umrædd sérþekking eða reynsla sé ekki fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
- öðrum gögnum sem umsækjandi telur skipta máli.
4. gr.
Annmarkar á umsókn.
Ef rökstuðningur og/eða fylgigögn umsóknar eru ófullnægjandi að mati nefndarinnar skal, eftir því sem nefndin telur ástæðu til, gefa umsækjanda kost á að bæta úr annmörkum. Að jafnaði skal ekki veittur lengri frestur en tvær vikur í því skyni. Verði ekki bætt úr annmörkum að mati nefndarinnar skal vísa umsókninni frá.
5. gr.
Nefndarskipan.
Fjármála- og efnahagsráðherra skipar nefnd til að fara yfir umsóknir, sbr. 3. gr., og meta hvort skilyrði 2. gr. séu uppfyllt.
Nefndin skal samanstanda af þremur nefndarmönnum, ásamt þremur nefndarmönnum til vara.
Fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra tilnefna hvor um sig sinn nefndarmann en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar.
Varamenn nefndarinnar skulu skipaðir með sama hætti og nefndarmenn.
6. gr.
Starfshættir nefndarinnar.
Nefndin skal að jafnaði taka ákvörðun um umsókn innan þriggja vikna frá þeirri dagsetningu er umsóknin barst.
Nefndin skal halda skrá yfir þær umsóknir sem hún móttekur og sömuleiðis hvaða umsóknir hún samþykkir.
Meirihluti nefndarmanna nægir til þess að umsögn verði samþykkt. Sé umsókn, sbr. 2. gr., samþykkt sendir nefndin ríkisskattstjóra staðfestingu þess efnis.
Ákvörðun nefndarinnar er endanleg á stjórnsýslustigi.
7. gr.
Þagnarskylda.
Nefndarmönnum, sbr. 4. og 5. gr., ber að gæta þagmælsku og fyllsta trúnaðar um hverjar þær upplýsingar og sérhver þau gögn er nefndinni berast. Þagmælska og trúnaður helst þótt látið sé af setu í nefndinni.
8. gr.
Staðgreiðsla.
Frá og með næsta almanaksmánuði frá samþykkt umsóknar skal greiða staðgreiðslu í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, af 75% þeirra launatekna sem starfsmaður nýtur sem erlendur sérfræðingur. Hafi vinnuveitandi haldið eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launatekjum frá því starfsmaður hóf störf hérlendis sem erlendur sérfræðingur og þar til umsókn er samþykkt skal ríkisskattstjóri leiðrétta áður ákvarðaða staðgreiðslu. Launatengd gjöld ásamt barnabótum og vaxtabótum skulu taka mið af heildarlaunum hins erlenda sérfræðings.
9. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, öðlast gildi 1. janúar 2017.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 14. desember 2016.
F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
|