Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 260/2012

Nr. 260/2012 28. febrúar 2012
REGLUGERÐ
um úðabrúsa.

I. KAFLI

Gildissvið, orðskýring og merkingar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um úðabrúsa sem ætlaðir eru til notkunar á vinnustöðum og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breyt­ingum, gilda um og úðabrúsa sem ætlaðir eru til einkanota sé ekki fjallað um þá í öðrum lögum eða reglugerðum.

Reglugerð þessi gildir ekki um úðabrúsa sem hafa hámarksrúmtak innan við 50 ml. Enn fremur gildir reglugerðin ekki um úðabrúsa se

m hafa hámarksrúmtak umfram það sem er tilgreint í liðum 3.1, 4.1.1, 4.2.1, 5.1 og 5.2 í viðauka reglugerðar þessarar.

Sérreglur þær er gilda að hluta eða að öllu leyti um hættur sem fylgja úðabrúsum er reglugerð þessi gildir um, ganga framar ákvæðum reglugerðarinnar.

2. gr.

Orðskýring.

Úðabrúsi: merkir í reglugerð þessari einnota hylki úr málmi, gleri eða plasti sem inni­heldur lofttegund sem er samþjöppuð, fljótandi eða uppleyst undir þrýstingi, með eða án vökva, krems eða dufts og með losunarbúnaði sem gerir kleift að losa inni­haldið sem fastar eða fljótandi agnir í úðaformi, sem froðu, krem, duft eða vökva.

3. gr.

Merkingar.

Merkingar skulu vera áletraðar á úðabrúsa þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram með skýrum, læsilegum og óafmáanlegum stöfum:

  1. Nafn og heimilisfang eða vörumerki þess sem ber ábyrgð á markaðssetningu úðabrúsans.
  2. Táknið „3“ (spegilmynd af gríska stafnum epsilon) til staðfestingar því að kröfurnar í reglugerð þessari séu uppfylltar.
  3. Stafamerkingar sem gefa upplýsingar um áfyllingu.
  4. Upplýsingar skv. lið 2.2 og 2.3 í viðauka reglugerðar þessarar.
  5. Nettóinnihald samkvæmt þyngd og rúmmáli.

Ef merkingum skv. 1. mgr. verður ekki við komið á úðabrúsa sem hafa hámarks­rúmtak 150 ml eða minna skal merkimiði vera festur á brúsann með sömu upplýs­ingum og koma fram í a – e liðum 1. mgr.

Innihaldi úðabrúsi eldfim efni samkvæmt lið 1.8 í viðauka reglugerðar þessarar án þess þó að teljast „eldfimur“ eða „afar eldfimur“ samkvæmt viðmiðununum í lið 1.9 í viðaukanum skal magn eldfimra efna í úðabrúsanum vera tilgreint í merkingum á brúsanum skv. 1. eða 2. mgr. með eftirfarandi texta, sem skal vera læsilegur og óafmáanlegur: „X% massa innihaldsins eru eldfim efni“.

Merkingar skv. 1. og 2. mgr. skulu vera á íslensku þegar úðabrúsi er ætlaður til sölu hér á landi. Sérreglur um merkingar á úðabrúsum sem innihalda tiltekin efni skulu ganga framar ákvæði þessu.

II. KAFLI

Markaðssetning.

4. gr.

Almennt.

Heimilt er að setja á markað hér á landi án takmarkana eða hindrana úðabrúsa sem eru í samræmi við kröfurnar í reglugerð þessari sem og viðauka við hana, sbr. þó 2. mgr. 7. gr.

5. gr.

Úðabrúsar einkenndir með merkinu „3“.

Sá sem ber ábyrgð á markaðssetningu úðabrúsa skal setja merkið „3“ (spegilmynd af gríska stafnum epsilon) á brúsana til sönnunar því að þeir séu í samræmi við kröfurnar í reglugerð þessari sem og viðauka við hana.

Óheimilt er að einkenna úðabrúsa með merki, merkingum og áletrunum sem eru til þess fallin að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu, útlit eða lögun merkisins „3“.

6. gr.

Bann við markaðssetningu.

Óheimilt er að setja á markað úðabrúsa með merki, merkingum eða áletrunum sem eru til þess fallin að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar merkið „3“ (spegilmynd af gríska stafnum epsilon), sbr. 2. mgr. 5. gr.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

7. gr.

Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Velferðarráðherra getur þó samþykkt að aðrir aðilar fari með slíkt eftirlit að hluta eða öllu leyti, sbr. 6. mgr. 82. gr. laganna.

Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi eða heilsu manna, og eftir því sem við á húsdýra, sem og eignum, stafi hætta af úðabrúsa sem reglugerð þessi gildir um, ber merkið „3“ og notaður er eins og til er ætlast eða við aðstæður sem skyn­sam­legt er að ætla að sjá megi fyrir, er Vinnueftirlitinu heimilt að banna markaðs­setn­ingu og notkun úðabrúsans um tíma eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku.

Þurfi Vinnueftirlit ríkisins að grípa til aðgerða skv. 2. mgr. skal það tilkynna velferða­ráðuneyti um þær án tafar. Með tilkynningunni skal fylgja rökstuðningur.

Velferðarráðuneyti skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA um þær aðgerðir sem Vinnu­eftirlit ríkisins þarf að grípa til skv. 2. mgr.

8. gr.

Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglu­gerðar þessarar til velferðarráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

9. gr.

Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr., 34., 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins til innleiðingar á tilskipun 75/324/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi úðabrúsa, sem vísað er til í 1. tölul. VIII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 13/1994, og tilskipun 2008/47/EB um breytingu á tilskipun 75/324/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi úðabrúsa í því skyni að laga hana að tækniframförum sem vísað er til í 1. tölul. VIII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 48/2011.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 98/1996, um úða­brúsa.

Velferðarráðuneytinu, 28. febrúar 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 15. mars 2012