1. gr. Gildissvið. Gjaldskrá þessi gildir fyrir ljósrit eða afrit af gögnum sem afhent eru vegna beiðni á grundvelli upplýsingalaga. 2. gr. Ljósrit eða afrit af skjölum. Fyrir ljósrit eða afrit af skjölum er heimilt að krefjast kr. 20 fyrir hverja blaðsíðu í stærðinni A4 eða A5, sem er ljósrituð, allt að 100 síðum, en kr. 15 fyrir ljósrit af hverri blaðsíðu umfram það. Fyrir ljósrit eða afrit skjala í stærðinni A3 er heimilt að krefjast kr. 30 fyrir hverja blaðsíðu og kr. 40 í stærðinni A2. 3. gr. Endurritun skjala. Þegar skjal er endurritað samkvæmt beiðni er heimilt að krefjast kr. 300 fyrir hverja blaðsíðu. 4. gr. Afrit af öðrum gögnum. Fyrir afrit af öðrum gögnum en skjölum, s.s. myndum, teikningum, örfilmum, myndböndum og hljóðupptökum, má heimta þann kostnað sem af afrituninni leiðir. 5. gr. Aðkeypt þjónusta. Þegar fjölföldunaraðstaða er ekki fyrir hendi eða umfang verks er slíkt, er heimilt að fela öðrum að annast ljósritun, afritun eða endurritun skjala eða annarra gagna. Fyrir aðkeypta þjónustu skal greitt samkvæmt reikningi þess er hana annast. 6. gr. Gildistaka. Gjaldskrá þessi er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 12. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 838/2004. Forsætisráðuneytinu, 23. mars 2009. F. h. r. Ragnhildur Arnljótsdóttir. Páll Þórhallsson. |