Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 321/2009

Nr. 321/2009 25. febrúar 2009
REGLUR
um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum.

1­. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til eftirlits með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum sem fólgið er í innra mati háskóla og reglubundnu ytra mati menntamálaráðuneytis.

2. gr.

Markmið.

Markmið eftirlits með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum er:

  1. að bæta markvisst kennslu og rannsóknir,
  2. að stuðla að aukinni ábyrgð skóla á eigin starfi,
  3. að tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu menntamálaráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt, samkvæmt reglum nr. 1067/2006, um viðurkenningu háskóla á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006, um opinbera háskóla,
  4. að tryggja að viðmið um æðri menntun og prófgráður séu uppfyllt og
  5. að tryggja samkeppnishæfni háskóla á alþjóðavettvangi.

3. gr.

Um innra og ytra mat.

Innra mat háskóla felur annars vegar í sér fyrirfram ákveðið skipulag, verkferla eða aðgerðir, sem háskólar innleiða í þeim tilgangi að meta gæði eigin kennslu og rannsókna og hins vegar grundvöll fyrir stefnumörkun og gerð verklagsreglna og umbótaáætlana.

Með ytra mati er átt við eftirlit menntamálaráðuneytis eða aðila á þess vegum með gæðum kennslu og rannsókna háskóla. Ytra mat fer einkum fram með þrennum hætti:

  1. með viðurkenningu fræðasviða að undangenginni alþjóðlegri úttekt,
  2. með reglubundinni söfnun sömu lykilupplýsinga um starfsemi skólanna og
  3. með úttektum á skólum, námsbrautum eða einstökum þáttum í starfsemi skól­anna.

4. gr.

Viðmið um innra og ytra mat.

Menntamálaráðuneyti gefur út viðmið fyrir innra og ytra mat ásamt leiðbeiningum um útfærslu þeirra. Viðmið ráðuneytisins skulum m.a. ná til eftirfarandi þátta:

  1. hlutverks og markmiða,
  2. stjórnskipunar og skipulags,
  3. fyrirkomulags kennslu og rannsókna,
  4. hæfisskilyrða starfsmanna,
  5. reglna um inntökuskilyrði og um réttindi og skyldur nemenda,
  6. aðstöðu kennara og nemenda og þjónustu við þá,
  7. innra gæðakerfis,
  8. lýsingar á inntaki náms,
  9. fjárhags.

Menntamálaráðuneyti endurskoðar reglulega viðmið um innra og ytra mat og gefur út ný viðmið og leiðbeiningar eftir því sem tilefni er til.

5. gr.

Innra mat.

Háskólar skulu innleiða formlega stefnu um gæði kennslu og rannsókna, móta vinnuferla sem hvetja til stöðugra umbóta og stuðla að aukinni vitund um mikilvægi gæða í öllu starfi.

Háskólar bera ábyrgð á innra mati sem birtist í formlegu gæðakerfi þeirra á sviði kennslu og rannsókna. Innra mat skal vera kerfisbundið og fela í sér skilgreinda öflun lykil­upplýsinga um starfsemi háskólanna Tryggja skal virka þátttöku nemenda og starfs­manna í innra mati.

6. gr.

Birting upplýsinga um innra mat.

Háskólar skulu birta opinberlega og með reglubundnum hætti upplýsingar um hvernig staðið er að innra mati, þ.m.t. að birta áætlun um öflun lykilupplýsinga og annarra gagna, greiningu þeirra og úrvinnslu. Niðurstöður innra mats skulu birtar opinberlega ásamt lýsingu á því hvernig matið er nýtt til úrbóta og umbóta í skólastarfi.

7. gr.

Ytra mat.

Ytra mat á gæðum kennslu og rannsókna háskóla fer fram samkvæmt áætlun mennta­mála­ráðherra til þriggja ára. Matið getur náð til háskóla í heild, einstakra vísinda- og fræðasviða, deilda, námsbrauta eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi háskóla. Jafnframt má ákveða að sérstakt ytra mat fari fram á háskóla eða einstökum einingum hans ef ástæða þykir til.

Um söfnun reglubundinna lykilupplýsinga um starfsemi háskóla skal fjallað í samningum mennta­mála­ráðuneytis við einstaka skóla sbr. 21. grein laga um háskóla nr. 63/2006. Menntamálaráðherra gefur út almenn viðmið um öflun, úrvinnslu og birtingu lykil­upplýsinga um starfsemi háskóla.

Áður en ytra mat hefst skulu gefnar út leiðbeiningar um framkvæmd þess. Háskólar sem gangast undir ytra mat skulu veita upplýsingar (sjálfsmatsskýrslu) um þau atriði sem úttektin snýr að hverju sinni.

8. gr.

Framkvæmd ytra mats.

Menntamálaráðherra getur falið óháðum aðila eða úttektarhópi framkvæmd ytra mats. Sá sem annast matið:

  1. má ekki vera starfsmaður þess háskóla sem matið tekur til eða vera í slíkum tengslum við skólann að þau teljist ósamrýmanleg matsstarfinu,
  2. skal ráða yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að annast matið.

Þeir sem sinna ytra mati samkvæmt reglum þessum og viðmiðum fyrir slíkt mat skulu að öðru leyti uppfylla skilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga.

Við framkvæmd ytra mats skal tryggja aðkomu nemenda að matinu og að því komi einn íslenskur sérfræðingur og að minnsta kosti einn erlendur sérfræðingur.

9. gr.

Niðurstöður ytra mats.

Menntamálaráðuneyti greinir opinberlega frá niðurstöðum ytra mats og birtir þær á heimasíðu sinni. Niðurstöður ytra mats skulu settar fram á skýran og aðgengilegan máta, þar sem m.a. skal greint frá tilmælum og ábendingum um úrbætur.

Háskóli skal, áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að matsskýrsla var birt, gera opin­ber­lega grein fyrir niðurstöðum ytra mats og birta á heimasíðu sinni hvernig brugðist hafi verið við þeim.

10. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Leiði ytra mat í ljós að skilyrði viðurkenningar fræðasviðs eru ekki uppfyllt getur menntamálaráðherra, að undangenginni málsmeðferð skv. 5. gr. reglna nr. 1067/2006 afturkallað viðurkenningu háskóla á einstökum fræðasviðum eða fyrir háskóla í heild, eða sett fram tilmæli um úrbætur eða veitt tiltekinn frest til að hrinda þeim í framkvæmd.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 666/2003 um gæða­eftirlit með háskólakennslu.

Menntamálaráðuneytinu, 25. febrúar 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Halldór Árnason.

B deild - Útgáfud.: 26. mars 2009