Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1222/2008

Nr. 1222/2008 29. desember 2008
AUGLÝSING
frá ríkisskattstjóra um skil á upplýsingum á árinu 2009, vegna framtalsgerðar o.fl., samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Ríkisskattstjóri hefur ákveðið að eftirtöldum upplýsingum og gögnum vegna ársins 2008 skuli skilað eigi síðar en 10. febrúar 2009. Upplýsingum þessum skal, ef unnt er, skilað á tölvutæku formi. Lýsingu á rafrænum skilum má finna á slóðinni www.rsk.is/fagadilar/hughus.

Sé upplýsingunum ekki skilað á tölvutæku formi skal þeim skilað til skattstjóra þess umdæmis, þar sem skilaskyldur aðili á lögheimili 31. desember 2008, eigi síðar en 30. janúar 2009, á tilgreindum eyðublöðum sem einnig má finna á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is.

  1. Launamiðar og verktakamiðar (RSK 2.01). Skilaskyldir eru allir þeir sem innt hafa af hendi launagreiðslur, hlunnindi, lífeyri, bætur, styrki, happdrættis- og talna­vinninga (skattskylda sem óskattskylda), greiðslur til verktaka fyrir þjónustu (efni eða vinnu) eða aðrar greiðslur sem framtalsskyldar eru og/eða skattskyldar skv. 7. gr. laga nr. 90/2003.
  2. Bifreiðahlunnindamiðar (RSK 2.035). Skilaskyldir eru allir þeir sem í rekstri sínum eða annarri starfsemi hafa haft kostnað af kaupum, leigu eða rekstri fólksbifreiðar og ekki fylla út RSK 4.03 vegna hennar.
  3. Hlutafjármiðar (RSK 2.045). Skilaskyld eru öll hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnu­hlutafélög og sparisjóðir. Sé upplýsingunum ekki skilað á rafrænu formi skal jafnframt skila samtalningsblaði (RSK 2.04).
  4. Launaframtal (RSK 1.05). Skilaskyldir eru einstaklingar með eigin atvinnurekstur, sem telja fram á pappír, og óskattskyld félög sem ekki skila rafrænu skattframtali RSK 1.06 og sem greiddu laun á árinu 2008.
  5. Viðskipti með hlutabréf. Skilaskyldir eru bankar, verðbréfafyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti og aðra umsýslu með hlutabréf. Sundurliða skal upplýsingar um hver viðskipti á kennitölu viðskiptaaðila.
  6. Bankainnstæður. Skilaskyldar eru allar fjármálastofnanir og aðrir aðilar sem taka við fjármunum til ávöxtunar. Tilgreina skal, sundurliðað á kennitölu viðskiptaaðila, upplýsingar um alla bankareikninga, staðgreiðsluskyldar vaxtatekjur og afdregna staðgreiðslu af þeim, og stöðu reikninganna í árslok.
  7. Lán til einstaklinga (fasteignaveðlán, bílalán og önnur lán). Skilaskyldar eru allar fjármálastofnanir (bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjármögnunar­leigur o.s.frv.) sem hafa lánað fé til einstaklinga.
  8. Stofnsjóðsmiðar (RSK 2.065). Skilaskyld eru öll samvinnufélög, þ.m.t. kaupfélög. Sé upplýsingunum ekki skilað á rafrænu formi skal jafnframt skila sam­talnings­blaði (RSK 2.06).
  9. Takmörkuð skattskylda – greiðsluyfirlit (RSK 2.025). Skilaskyldir eru þeir sem innt hafa af hendi hvers konar greiðslur til erlendra aðila og annarra, sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi, og skattskyldar eru skv. 3. tölul. (þjónusta eða starfsemi innt af hendi hér á landi) og 6. tölul. (leiga og greiðslur fyrir afnot eða hagnýtingu einkaleyfa og hvers konar annarra leyfa, réttinda, sérþekkingar, o.fl.) 3. gr. laga nr. 90/2003.
  10. Greiðslumiðar – leiga eða afnot (RSK 2.02). Skilaskyldir eru þeir sem innt hafa af hendi hvers konar greiðslur fyrir leigu eða afnot af lausafé, fasteignum og fasteignaréttindum, sbr. 1. og 2. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, svo og fyrir greiðslur fyrir sérhver önnur afnot af réttindum, s.s. aflaheimildum, einkaleyfum eða sérþekkingu, enda sé ekki gerð grein fyrir þessum greiðslum á öðrum skilagreinum sem taldar eru upp hér að framan.
  11. Hlutabréfakaup skv. kaupréttarsamningi (RSK 2.085). Skilaskyld eru öll hlutafélög sem gert hafa kaupréttarsamninga við starfsmenn sína samkvæmt staðfestri kaupréttaráætlun, sbr. 10. gr. laga nr. 90/2003.

Auglýsing þessi, sem sett er samkvæmt 92. og 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðlast þegar gildi.

Reykjavík, 29. desember 2008.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

B deild - Útgáfud.: 2. janúar 2009