Inngangur. Í því skyni að efla traust á stjórnsýslunni staðfestir forsætisráðherra meðfylgjandi siðareglur ráðherra í kjölfar samráðs á ráðherrafundi, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands. Siðareglurnar veita leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti en jafnframt gefa þær almenningi færi á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og útgefnar reglur. Hver og einn ráðherra gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Ráðherra getur í vafatilvikum leitað ráðgjafar hjá samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna, sbr. a- og d-lið 3. mgr. 17. gr. laga nr. 73/1969 og b-lið 8. gr. reglnanna. Ennfremur má koma ábendingum á framfæri við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess meðal annars að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, sbr. 1. mgr 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafnframt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Reglur þessar gilda út starfstíma núverandi ríkisstjórnar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 73/1969. 1. gr. Störf ráðherra. Ráðherra sinnir starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika. Hann beitir því valdi er fylgir embættinu á grundvelli laga og stjórnarskrár af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hagsmuna. Ráðherra sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera og hvetur starfsfólk ráðuneytis síns til hins sama. Ráðherra notfærir sér ekki stöðu sína, eða upplýsingar sem hún veitir honum sérstakan aðgang að, til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðila sér nákomna. Ráðherra hefur í huga að skyldur hans eru fyrst og fremst við almenning.
2. gr. Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar. Ráðherra forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Ráðherra leggur sig fram um að tryggja að faglega sé staðið að skipun embættismanna. Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstum. Eyðublað á vegum skrifstofu Alþingis þjónar þessu hlutverki, sbr. reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings. Hafi ráðherra ekki fyllt það út sem þingmaður skal hann gera það þegar í kjölfar embættistöku. Forsætisráðherra getur í samráði við ríkisstjórn ákveðið að kalla með skipulögðum hætti eftir frekari upplýsingum um hagsmunatengsl ráðherra sem birtar yrðu almenningi. Ráðherra beitir sér fyrir því innan ráðuneytis og þeirra stofnana sem undir það heyra að tekið sé á hagsmunaárekstrum strax og þeir koma upp og hann fær vitneskju þar um. Þá skal hann beita sér fyrir því að starfsfólk sé sér meðvitað um mögulega hagsmunaárekstra og leiðir til að koma í veg fyrir þá.
3. gr. Fjármál og launagreiðslur. Ráðherrastarf (að jafnaði ásamt þingmennsku) telst fullt starf. Ráðherra gegnir ekki öðrum störfum á meðan. Sinni ráðherra öðrum tilfallandi verkefnum er honum óheimilt að þiggja greiðslur fyrir nema þær séu innan hóflegra marka og að fengnu samþykki samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna sem starfar á grundvelli 17. gr. laga nr. 73/1969. Ráðherra er ekki heimilt að hafa einkanot af gæðum starfsins nema að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa. Halda skal skrá um þær gjafir sem ráðherra þiggur í krafti embættis síns og skulu þær renna til viðkomandi ráðuneytis. Það á þó ekki við um minniháttar persónulegar gjafir. Ráðherra þiggur að jafnaði ekki boðsferðir af einkaaðilum nema opinberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar.
4. gr. Háttsemi og framganga. Ráðherra forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni. Ráðherra gætir þess að framganga hans gefi starfsmönnum ekki tilefni til að ætla að litið verði framhjá brotum á lögum eða siðareglum. Ráðherra gætir jafnræðis þegar kemur að því að greiða götu einstakra fyrirtækja á erlendum vettvangi. Ráðherra efnir ekki til móttöku fyrir hópa og samtök, sem hefur í för með sér útgjöld, nema slíkt samræmist starfsemi ráðuneytis. Ráðherra gætir þess að rýra ekki virðingu embættis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við manngildi og mannréttindi.
5. gr. Samskipti ráðherra við starfslið ráðuneytis. Ráðherra virðir hlutleysi og faglegt sjálfstæði embættismanna og annarra almennra starfsmanna. Ráðherra leitar faglegs mats starfsmanna ráðuneytis síns áður en ákvarðanir eru teknar um einstök mál eftir því sem tilefni er til. Ráðherra gerir skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi, svo sem í tengslum við kosningar, og verkefnum ráðuneytis síns hverju sinni. Hann felur starfsmönnum ráðuneyta, öðrum en aðstoðarmanni, ekki verkefni sem tengjast hinu fyrrnefnda.
6. gr. Upplýsingagjöf og samskipti við almenning. Ráðherra skal upplýsa almenning og fjölmiðla með reglulegum og skipulegum hætti um störf ráðuneytis síns. Leiðrétta ber eins fljótt og auðið er rangar upplýsingar eða misskilning sem upp kann að koma varðandi störf ráðherra. Ráðherra leggur sig fram um að gera upplýsingar aðgengilegar eftir því sem lög leyfa og sér til þess að starfsmenn ráðuneytis vinni í sama anda. Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu. Ráðherra leitast við að eiga greið og opin samskipti við frjáls félagasamtök, fagfélög og hagsmunahópa, með almannahagsmuni að leiðarljósi.
7. gr. Ábyrgð. Ráðherra skal sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp. Ráðherra bregst við ábendingum starfsmanna um siðferðilega ámælisvert eða ólögmætt athæfi í ráðuneyti hans eða á starfssviði ráðuneytisins. Hann gætir þess að starfsmenn sem benda á slíkt gjaldi ekki fyrir það.
8. gr. Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Forsætisráðherra skipar samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna á grundvelli 17. gr. laga nr. 73/1969. Meðal helstu verkefna nefndarinnar er að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu. Þá skal nefndin stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu. Ráðherra getur borið vafamál er varða túlkun reglnanna undir samhæfingarnefndina.
Forsætisráðuneytinu, 22. mars 2011. Jóhanna Sigurðardóttir. |