1. gr. Þjónusta. Verði sýslumaður við framkominni ósk um þjónustu utan hefðbundins vinnutíma eða starfsstöðvar og ekki er kveðið á um í lögum að sýslumanni sé skylt að sinna slíkum verkum á þeim tíma eða stað, skal greitt sérstakt gjald fyrir slíka þjónustu samkvæmt gjaldskrá þessari. Gjald samkvæmt gjaldskrá þessari kemur til viðbótar því gjaldi sem greiða skal fyrir umbeðna þjónustu sýslumanns samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. 2. gr. Hefðbundinn vinnutími. Hefðbundinn vinnutími sýslumanns telst milli kl. 8.00 og 16.00 hvern virkan dag. 3. gr. Tímagjald. Gjald fyrir hverja byrjaða klukkustund fyrir þjónustu eða vinnuframlag sýslumanns eða löglærðs fulltrúa hans utan hefðbundins vinnutíma og starfsstöðvar er kr. 10.000. Ferðatími telst til vinnutíma samkvæmt 1. mgr. 4. gr. Aksturskostnaður og dagpeningar. Gjald fyrir akstur sýslumanns og eftir atvikum dagpeningar til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar skal miðast við gildandi ákvörðun ferðakostnaðarnefndar hverju sinni. 5. gr. Upplýsingar um kostnað og afmörkun hans. Sýslumaður skal veita þeim sem óskar þjónustu hans upplýsingar um heildarkostnað við hana áður en þjónusta er veitt. Ef þjónusta sýslumanns nýtist fleiri en einum á sama eða svipuðum tíma skal leitast við að skipta kostnaði við hana milli þeirra. Ef þjónusta sýslumanns er veitt að liðnum meira en tveimur tímum eftir að hefðbundnum vinnutíma lýkur, þar með talið um helgar og á almennum frídögum, skal gjald nema að lágmarki sem svarar fjórum klukkustundum. Ef sýslumaður telur þörf á að annar starfsmaður embættis hans, einn eða fleiri, sé honum til aðstoðar skal greitt sérstakt tímagjald samkvæmt ákvörðun sýslumanns er miðist við útlagðan kostnað embættis hans auk kostnaðar skv. 4. gr. Heimilt er sýslumanni að krefja um greiðslu kostnaðar áður en þjónusta er veitt. 6. gr. Gildistaka. Gjaldskrá þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, öðlast þegar gildi. Innanríkisráðuneytinu, 16. júní 2014. Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ragnhildur Hjaltadóttir. |