Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 955/2009

Nr. 955/2009 20. nóvember 2009

AUGLÝSING
um starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar.

„STARFSREGLUR
um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar.

1. gr.

Með hugtakinu kynferðisbrot í reglum þessum er átt við þá háttsemi sem lýst er refsi­verðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga.

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem ein­kennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm og ekki á jafn­ræðis­grundvelli.

2. gr.

Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barna­verndar­nefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

3. gr.

Kirkjuráð útnefnir fagráð um meðferð kynferðisbrotamála. Fagráð er skipað þremur ein­staklingum og þremur til vara, er hafa sérþekkingu á kynferðisbrotum. Einn ráðs­manna skal vera lögfræðingur, annar skal vera guðfræðingur og sá þriðji skal vera læknir, sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur, eða hafa sambærilega menntun. Varamenn hvers ráðsmanns skulu uppfylla sömu skilyrði. Ráðsmenn skipa einn úr sínum hópi til þess að vera formaður fagráðsins.

4. gr.

Hlutverk fagráðs er eftirfarandi:

 

a)

að fylgja eftir að mál sem varða kynferðisbrot og upp koma innan kirkjunnar, fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt landslögum og starfsreglum þessum,

 

b)

að vera biskupi og kirkjuyfirvöldum til ráðgjafar varðandi mál er tengjast kyn­ferðis­brotum,

 

c)

að tilnefna talsmenn, sbr. 5. gr. og veita þeim faglegan stuðning og ráðgjöf,

 

d)

að fjalla um einstök mál sem vísað er til þess af úrskurðarnefnd eða áfrýjunar­nefnd og veita henni ráðgjöf um meðferð þeirra,

 

e)

að meta árangur starfsreglna og koma með tillögur til úrbóta ef með þarf,

 

f)

að hafa umsjón með fræðslu um kynferðisbrot innan kirkjunnar í samvinnu við fræðslu­deild kirkjunnar,

 

g)

að sinna forvörnum á sviði kynferðisbrota.

5. gr.

Biskup útnefnir til fjögurra ára í senn, á grundvelli tillagna fagráðs, sbr. 3. gr., tals­mann/tals­menn þeirra sem telja sig þolendur kynferðisbrota innan kirkjunnar.

Kirkjuráð ákveður fjölda talsmanna og þjónustusvæði hvers þeirra. Talsmaður starfar í umboði og ábyrgð fagráðs sem virkjar hann og fær honum verkefni.

Hlutverk talsmanns er að vera þeim sem telur sig þolanda kynferðisbrots til ráðgjafar og stuðnings.

6. gr.

Talsmaður, að jafnaði kona, skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

 

-

hafa reynslu af því að vinna með þolendum kynferðisbrota,

 

-

hafa háskólamenntun sem getur nýst við verkefnið, s.s. djáknanám, félagsráðgjöf, guðfræði, hjúkrunarfræði, læknisfræði, lögfræði eða sálfræði,

 

-

hafa hlotið þjálfun á vegum kirkjunnar.

Æskilegt er að talsmaður gegni ekki öðrum störfum innan kirkjunnar.

Heimilt er biskupi að víkja frá ofangreindum skilyrðum ef ógerlegt reynist að uppfylla þau.

7. gr.

Nú telur einstaklingur að hann hafi orðið fyrir kynferðisbroti, sbr. 1. gr. og skal hann þá fá aðstoð og fyrirgreiðslu hjá talsmanni. Talsmaður aðstoðar hann við að meta aðstæður og ákveða frekari aðgerðir. Talsmaður aðstoðar hann við að kæra til lögreglu og/eða leggja mál fyrir úrskurðarnefnd, sbr. 12. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóð­kirkjunnar nr. 78/1997, ef hann óskar. Talsmaður aðstoðar hann við að finna aðra nauð­syn­lega hjálp og aðstoð. Talsmaður skal jafnframt upplýsa hann um þær starfs­reglur þjóðkirkjunnar sem við geta átt. Óheimilt er að afgreiða í söfnuði eða sóknar­nefnd mál er varðar ætlað kynferðisbrot.

8. gr.

Mæli lög ekki á annan veg er talsmanni, fagráðsmönnum og öðrum starfsmönnum þjóð­kirkjunnar skylt að gæta þagmælsku um einstök mál sem kunna að verða rekin á grund­velli starfsreglna þessara.

Um aðgang að upplýsingum um einstök mál skal farið að gildandi lögum á hverjum tíma.

9. gr.

Kirkjuleg yfirvöld skulu sjá til þess að sálgæsla verði veitt meintum geranda, fjölskyldu hans og þeim, sem í kirkjulegu starfi hafa verið í mikilvægu samstarfi við hann. Æskilegt er að sálgæsla þessi sé veitt af presti í heimahéraði, innan sóknar eða prófastsdæmis.

10. gr.

Kostnaður við starfrækslu fagráðs og talsmanna, svo og annar kostnaður sem hlýst af starfsreglum þessum, skal greiddur úr kirkjumálasjóði samkvæmt nánari ákvörðun kirkjuráðs. Kirkjuráð ákveður við gerð fjárhagsáætlunar fyrir kirkjumálasjóð hverju sinni, framlög til fræðslustarfs og forvarna.

11. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru á grundvelli 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfs­hætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi 1. janúar 2010. Jafnframt falla brott starfs­reglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar nr. 739/1998.

Gjört í Reykjavík, 20. nóvember 2009.

Pétur Kr. Hafstein,

Dagný Halla Tómasdóttir

forseti kirkjuþings

þingskrifari“

Starfsreglur þessar eru hér með kunngerðar almenningi.

Reykjavík, 20. nóvember 2009.

F.h. kirkjuráðs,

Karl Sigurbjörnsson, forseti kirkjuráðs.

B deild - Útgáfud.: 30. nóvember 2009