Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1152/2006

Nr. 1152/2006 8. desember 2006
REGLUR
um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.

1. gr.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema úrskurðar í málum, þar sem námsmenn í ríkisháskólum og öðrum háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðherra skv. 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006, telja brotið á rétti sínum varðandi:

  1. framkvæmd prófa og námsmats, þ.m.t. fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna,
  2. mat á námsframvindu, þ.m.t. rétt til endurtökuprófs,
  3. afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla,
  4. brottvikningu nemanda úr skóla og beitingu annarra agaviðurlaga.

Áfrýjunarnefnd endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dóm­nefnda eða prófdómara.

Um málskot til áfrýjunarnefndar gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga. Máli háskóla­nema verður þannig ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemandans. Þó er nemanda heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni.

2. gr.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema getur með úrskurðum sínum staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir háskóla í þeim málum, þar sem nemendur telja á rétt sinn hallað, sbr. 1. gr. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður þeim ekki skotið til ráðherra.

Úrskurðir nefndarinnar skulu vera skriflegir og þar skal getið helstu gagna sem liggja til grundvallar niðurstöðu. Niðurstöðu skal fylgja stuttur rökstuðningur. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema sem í eiga sæti þrír menn skipaðir til tveggja ára í senn; einn tilnefndur af samstarfsnefnd háskóla­stigsins, einn tilnefndur sameiginlega af samtökum háskólanema og einn skipaður án til­nefningar og er hann formaður nefndarinnar. Skulu þeir allir uppfylla starfsgengis­skilyrði héraðsdómara. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.

4. gr.

Beiðni um úrskurð nefndarinnar skal vera skrifleg og í henni skal skilmerkilega greina hvert kæruefni er, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni. Nefndin skal fjalla um kæruefnið eins fljótt og verða má, en skal þó að jafnaði kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að kæran barst henni í hendur.

Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Afgreiðslutími skal þó aldrei vera lengri en þrír mánuðir.

5. gr.

Þegar kæra hefur verið lögð fram skal gefa viðkomandi háskólastofnun frest til þess að tjá sig skriflega um kæruna og önnur gögn, sem námsmaður kann að hafa lagt fram. Frestur þessi skal að jafnaði ekki vera lengri en 2 vikur en þó má veita lengri frest þegar sérstaklega stendur á. Í lok frestsins skal halda fund í nefndinni með málsaðilum þar sem önnur viðbótargögn sem málsaðilar kjósa að leggja fram eru afhent.

Þegar öll gögn sem aðilar kjósa að leggja fram hafa verið afhent nefndinni skal hún taka ákvörðun um hvort málsaðilar fjalli um málið munnlega eða skriflega. Að jafnaði skal framlagningu gagna lokið á þessu tímamarki. Hvort sem ákveðið er að fjalla um málið munnlega eða skriflega skal ákveðinn stuttur frestur til þess. Viðkomandi háskóli skal tjá sig fyrst um málið en námsmaður að því búnu.

6. gr.

Nefndinni er heimilt að afla upplýsinga og gagna og óska eftir umsögnum aðila og jafnframt að kveðja sér til fulltingis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála. Nefndin getur einnig óskað eftir því að tilteknir menn komi til viðtals við hana til þess að tjá sig um málefni, sem tengjast rannsóknarefninu, en gefa skal nemanda og fulltrúa háskólastofnunar sem í hlut á kost á að vera viðstaddir á slíkum fundum. Slíka skýrslu má bóka eða hljóðrita eftir því sem henta þykir og skal gefa þeim sem skýrslu gefur grein fyrir því hvernig upplýsingar, sem hann gefur, eru skráðar.

Nefndin skal halda málaskrá og gerðabók. Nefndin skal árlega senda menntamála­ráðherra stutta skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

7. gr.

Nefndin hefur heimild til þess, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að ráða starfsmann til nefndarinnar. Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

8. gr.

Nefndarmönnum ber að gæta þagmælsku um það sem þeir komast að í starfi sínu eða í tengslum við það.

9. gr.

Um málsmeðferð hjá nefndinni fer að öðru leyti skv. stjórnsýslulögum.

10. gr.

Reglur þessar eru settar skv. heimild í 5. mgr. 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema skv. 5. gr. laga nr. 136/1997 um háskóla, með síðari breytingum.

Menntamálaráðuneytinu, 8. desember 2006.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 5. janúar 2007