I. KAFLI Almenn atriði. 1. gr. Tilgangur. Nemendur við Háskóla Íslands, sem eru fatlaðir eða með sértæka námserfiðleika, sem á einhvern hátt geta verið hindrun í háskólanámi, eiga rétt á að njóta sértækra úrræða lögum samkvæmt og eftir því sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Tilgangur reglnanna er að tryggja fötluðum nemendum og nemendum með sértæka námserfiðleika innan háskólans jafnrétti á við aðra og gera þeim kleift að stunda nám án nokkurrar mismununar, þannig að þeir hafi sambærileg tækifæri og aðrir til þess að nýta hæfileika sína til náms. Aðstoðin felur á engan hátt í sér að dregið sé úr eðlilegum námskröfum eða þeim hagað með öðrum hætti gagnvart þessum hópi nemenda en almennt gildir. 2. gr. Skilgreiningar. Til fatlaðs fólks teljast þeir sem eru með líkamlegar, andlegar eða vitsmunalegar skerðingar eða sem hafa skerta skynjun til frambúðar sem kann, þegar víxlverkun verður milli þessara þátta og tálma af ýmsu tagi, að koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku þeirra í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Með sértækum námserfiðleikum í skilningi þessara reglna er vísað til sértækra námsörðugleika og hamlana sem hljótast af slysum, langvinnum veikindum eða öðrum orsökum. Með sértækum úrræðum er í reglum þessum átt við aðstoð sem ætlað er að koma til móts við þarfir og jafna aðstöðu nemenda til náms og tryggja að við námsmat sé tekið sanngjarnt og eðlilegt tillit til fötlunar eða sérþarfa nemenda. Sértæk úrræði ná ekki til námskrafna. 3. gr. Gildissvið. Reglur þessar taka til þeirra sem óskað hafa eftir skrásetningu til náms við Háskóla Íslands. Það er skilyrði fyrir veitingu sértækra úrræða að hlutaðeigandi nemandi hafi verið skráður til náms skv. 1. mgr. 48. gr. reglna HÍ. Það er hins vegar ekki skilyrði fyrir málsmeðferð skv. V. kafla reglna þessara að hlutaðeigandi hafi fengið slíka skráningu. II. KAFLI Inntaka nemenda. 4. gr. Umsóknir um skrásetningu. Allar umsóknir um skrásetningu til náms við Háskóla Íslands eru metnar á grundvelli fyrri menntunar og inntökuskilyrða í þá námsleið sem valin er, sbr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og ákvæði reglna Háskóla Íslands. Ákvarðanataka um veitingu sértækra úrræða skv. III. kafla fer fram óháð umfjöllun um inntöku nemenda. Nemendur eiga rétt á skýrum upplýsingum um aðgengi að byggingum og stuðningsúrræðum. Ber háskólanum skylda til þess að upplýsa fatlaða nemendur og nemendur með sértæka námsörðugleika um réttindi þeirra og úrræði á öllum stigum námsins og eiga frumkvæði að almennri kynningu um þessi atriði innan háskólasamfélagsins og á vef háskólans. III. KAFLI Veiting sértækra úrræða. 5. gr. Þjónusta við fatlaða nemendur og nemendur með sértæka námsörðugleika. Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands hefur umsjón með þjónustu við fatlaða nemendur og nemendur með sértæka námsörðugleika. Þjónusta við fatlaða nemendur skal veitt í náinni samvinnu við þá sjálfa og skal leitast við að tryggja að þjónustan sé löguð að þörfum hvers og eins. Við veitingu sértækra úrræða skal Náms- og starfsráðgjöf, eftir atvikum með samþykki viðkomandi nemanda, hafa samstarf við kennara hans, deildarforseta, formenn námsbrauta, prófstjóra og aðra þá sem koma að því að veita nemandanum aðstoð. 6. gr. Staðfest greining á fötlun eða sérþörfum. Nemandi sem óskar eftir sértækum úrræðum skal snúa sér til Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands. Úrræði eru aðeins veitt á grundvelli faglegs mats náms- og starfsráðgjafa sem styðst við sérfræðiálit um fötlun/hömlun viðkomandi nemanda, aðstæður og reynslu nemandans í námi. Heimilt er að fara fram á að nemandi sem verður fyrir áfalli á námstíma sem dregur verulega úr námsgetu hans leggi fram vottorð frá viðeigandi sérfræðingi þar sem hæfni til háskólanáms er metin og áframhaldandi úrræði metin samkvæmt því. Sama gildir um nemanda sem nær ekki tilskyldum árangri vegna alvarlegrar framvindu sjúkdóms sem hann kann að glíma við. 7. gr. Mat á þörf og úrræðum. Háskóli Íslands veitir nemendum samkvæmt reglum þessum, sértæk úrræði í samræmi við mat náms- og starfsráðgjafa á þörf fyrir slík úrræði. Standi val á milli ólíkra úrræða sem veita nemanda sambærilegan stuðning getur háskólinn valið hvaða úrræði nemandanum er boðið. Sérúrræði sem háskólinn veitir á grundvelli reglna þessara eru nemandanum að kostnaðarlausu. Nemendur greiða skrásetningargjald samkvæmt reglum sem um það gilda. Nemendur sem þess þurfa geta nýtt sér margvíslegan sérhæfðan tölvubúnað í aðgengissetri í tölvuveri Náms- og starfsráðgjafar háskólans. Háskólinn styrkir ekki nemendur til kaupa á tækjum, tölvum, hugbúnaði eða öðrum búnaði. Þá greiðir háskólinn ekki fyrir sérhæfða þjónustu sem þarf að leita eftir utan skólans né þau vottorð eða greiningar sem skólinn kann að óska eftir frá nemendum. 8. gr. Samkomulag um sérúrræði og námsáætlun. Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands gerir, fyrir hönd háskólans, skriflegt samkomulag við nemanda þar sem fram kemur hvaða úrræði skólinn ábyrgist að veita meðan á námi stendur. Í samkomulaginu komi fram mat á áhrifum fötlunar vegna fyrirhugaðs náms. Náms- og starfsráðgjöf endurskoðar jafnframt samkomulag sem þegar hefur verið gert, óski nemandi eftir því eða tilefni er til endurskoðunar af öðrum ástæðum, svo sem ef ekki hefur náðst sá árangur sem stefnt var að með samkomulaginu. 9. gr. Tímamörk. Samkomulag um sértæk úrræði skal að öllu jöfnu liggja fyrir áður en námið hefst og ekki síðar en 1. nóvember vegna haustmisseris og 1. apríl vegna vormisseris. Æskilegt er að fatlaðir nemendur leiti til Náms- og starfsráðgjafar áður en nám þeirra hefst þannig að unnt sé að taka tillit til þarfa þeirra við skipulag námskeiða og fyrirlestra, t.d. varðandi staðsetningu. Almennt skulu samningar um sértæk úrræði gilda fyrir allan námstímann nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei lengur en sem nemur hámarkslengd náms skv. reglum viðkomandi deildar. Ráðgjafi og nemandi geta ávallt óskað eftir endurskoðun samnings þyki tilefni til. 10. gr. Hlutur deilda í samkomulagi. Almennt þarf ekki að leita samþykkis viðkomandi deildar, námsbrautar eða kennara vegna úrræða sem veitt eru samkvæmt reglum þessum. Samráð skal þó haft við deild eða námsbraut vegna úrræða í samkeppnisprófum, breyttra prófforma, hljóðupptöku á fyrirlestrum eða annarra þeirra aðstæðna sem krefjast þess að deildir, námsbrautir eða kennarar komi með beinum hætti að framkvæmd úrræða. Sé þörf á öðrum aðferðum við prófun og námsmat en almennt eru viðhafðar, verður, eftir því sem við á, ákveðið viðeigandi prófform í samráði við nemandann, viðkomandi kennara, prófstjóra og náms- og starfsráðgjafa til að gera nemandanum kleift að sýna fram á að hann hafi uppfyllt skilyrði til áframhaldandi náms. Jafnframt skulu ábyrgðaraðilar innan háskólans, svo sem starfsmenn skrifstofa deilda og fræðasviða, kennarar og aðrir starfsmenn, tryggja að skipulag einstakra námskeiða, þ.m.t. staðsetning og sértækar lausnir, og tiltekin úrræði sem varða próf, svo sem stækkað letur, stækkuð prófblöð, lituð prófblöð o.þ.h., skapi fötluðum nemendum og nemendum með sértæka námsörðugleika bestu möguleg tækifæri til fullrar þátttöku í náminu. Framkvæmd sértækra úrræða í prófum sem ekki eru haldin á vegum prófstjórnar Háskóla Íslands eru í umsjón viðkomandi kennara. Náms- og starfsráðgjöf háskólans veitir kennurum, deildum og fræðasviðum ráðgjöf við framkvæmdina. 11. gr. Meðferð upplýsinga. Náms- og starfsráðgjöf háskólans varðveitir trúnaðargögn um fatlaða nemendur og nemendur með sértæka námsörðugleika við háskólann. Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og reglur háskólans. Náms- og starfsráðgjöf háskólans sér um að miðla nauðsynlegum upplýsingum til starfsfólks sem þarf að koma að framkvæmd úrræða. Trúnaðarupplýsingar eru einungis veittar í þeim tilvikum þar sem mat og framkvæmd úrræða krefjast þess og þá aðeins að fyrir liggi skriflegt leyfi viðkomandi nemanda. IV. KAFLI Ráð um málefni fatlaðs fólks. 12. gr. Skipun. Rektor skipar fimm manna ráð um málefni fatlaðs fólks til þriggja ára í senn. Jafnréttisfulltrúi háskólans er formaður ráðsins og stýrir störfum þess. Í ráðinu sitja enn fremur einn fulltrúi tilnefndur af framkvæmda- og tæknisviði háskólans, einn fulltrúi tilnefndur af Náms- og starfsráðgjöf háskólans og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Félagi háskólakennara og Félagi prófessora úr hópi fastráðinna kennara háskólans og skal sá hafa sérþekkingu á sviði fötlunarfræða. Að auki situr í ráðinu einn fulltrúi tilnefndur af stúdentaráði Háskóla Íslands og skal miðað við að hann komi úr hópi þeirra nemenda sem falla undir 1. mgr. 1. gr. reglna þessara. Í ráðinu skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þessu skyni skulu tilnefningaraðilar tilnefna tvo aðila, karl og konu, til setu í ráðinu. Ráðið leitar álits hjá aðilum innan háskólans eftir því sem tilefni þykir til. Þá er ráðinu heimilt að afla ráðgjafar frá aðilum utan háskólans. Hvert fræðasvið tilnefnir starfsmann af fræðasviðinu sem skal vera tengiliður þess við ráðið. Jafnframt tilnefnir starfsmannasvið Háskóla Íslands einn tengilið og hagsmunafélög nemenda einn hvert. 13. gr. Hlutverk. Hlutverk ráðs um málefni fatlaðs fólks er: - að hafa yfirumsjón með málefnum fatlaðs fólks í Háskóla Íslands og nemenda með sértæka námsörðugleika, í umboði rektors og háskólaráðs;
- að gangast fyrir reglubundinni endurskoðun á stefnu háskólans í málefnum fatlaðra;
- að undirbúa og fylgja eftir áætlunum um framkvæmd á stefnu háskólans í málefnum fatlaðra;
- að stuðla að samstarfi hinna ýmsu aðila sem að málaflokknum koma innan Háskóla Íslands, þar á meðal Náms- og starfsráðgjafar, jafnréttisnefndar, framkvæmda- og tæknisviðs, kennslusviðs, deilda og fræðasviða;
- að veita umsagnir, sbr. 14. gr., álit, sbr. 15. gr., og ráðgjöf þegar aðilar innan skólans leita eftir því;
- að veita ráðgjöf við hönnun nýbygginga á vegum Háskóla Íslands og gera tillögur um úrbætur sé þess þörf. Einnig að fylgja eftir að aðgengi á háskólasvæðinu sé í samræmi við stefnu um málefni fatlaðra;
- að afla tölulegra upplýsinga og birta skýrslu um málaflokkinn á þriggja ára fresti;
- að hafa frumkvæði að fræðslu og umræðum um málefni fatlaðs fólks innan háskólasamfélagsins;
- að fylgjast með nýmælum og því hvernig málefnum fatlaðs fólks er háttað við háskóla og aðrar sambærilegar stofnanir heima og erlendis, og stuðla að því að málefni fatlaðs fólks séu sjálfsagður þáttur í starfi háskólans.
V. KAFLI Málskot og álit. 14. gr. Málskot. Sætti nemandi sig ekki við úrræði sem Náms- og starfsráðgjöf háskólans hefur boðið samkvæmt reglum þessum er honum heimilt að skjóta máli sínu til sviðsstjóra kennslusviðs sem leitar umsagnar ráðs um málefni fatlaðs fólks, sbr. IV. kafla, áður en hann tekur ákvörðun í málinu. Um málskot vegna ákvarðana deilda gilda ákvæði 50. gr. reglna Háskóla Íslands. Telji nemandi á sér brotið við framkvæmd úrræðis samkvæmt reglum þessum eða að honum hafi verið mismunað vegna fötlunar sinnar við ákvarðanatöku innan deilda eða fræðasviða skal leita umsagnar ráðs um málefni fatlaðs fólks áður en tekin er ákvörðun í málinu. Leiðbeina skal um kæruleiðir þegar ákvörðun er kynnt nemanda. 15. gr. Álit ráðs um málefni fatlaðs fólks. Rektor, háskólaráð, nemendur og aðilar innan deilda og sameiginlegrar stjórnsýslu geta óskað eftir áliti ráðs um málefni fatlaðs fólks í einstökum efnum. 16. gr. Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 497/2002 um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands. Endurskoða skal ákvæði reglna þessara þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur verið fullgiltur hér á landi. Háskóla Íslands, 18. maí 2010. Kristín Ingólfsdóttir. Þórður Kristinsson. |