1. gr. Ráðherra skipar þrjá lækna í stöðunefnd til þriggja ára sem metur faglega hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra lækninga og annarra stjórnenda lækninga á heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur. Læknafélag Íslands tilnefnir einn fulltrúa í stöðunefndina, Háskóli Íslands annan, en landlæknir tilnefnir þriðja nefndarmanninn sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Sömu aðilar tilnefna varamenn. 2. gr. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Varamaður tekur sæti í nefndinni í forföllum aðalmanns og þegar aðalmaður er vanhæfur til umsagnar um umsækjendur. Í forföllum varamanns eða ef hann er einnig vanhæfur skal sá aðili sem tilnefndi hann, tilnefna mann í hans stað. 3. gr. Umsókn um þau störf sem nefndin fjallar um skulu fylgja staðfestar upplýsingar um menntun, lækninga- og/eða sérfræðileyfi, námsstöður og læknisstörf sem umsækjandi hefur gegnt og, eftir því sem við á, upplýsingar um vísinda- og ritstörf, sérprent eða ljósrit af greinum sem umsækjandi hefur skrifað auk upplýsinga um reynslu af kennslu og stjórnunarstörfum. Umsækjandi skal einnig leggja fram staðfestar upplýsingar um önnur atriði er máli kunna að skipta við ráðningu í starfið og hafa verið gerð að skilyrði í auglýsingu eða koma fram í starfslýsingu sé hún fyrir hendi. Umsækjanda er heimilt að láta fylgja umsókn sinni meðmæli eða önnur gögn sem votta hvernig hann hefur staðið sig í starfi. Mat stöðunefndar um hæfni umsækjanda byggir á umsóknargögnum, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. Umsóknum um störf þau sem nefndin fjallar um skal skilað á sérstöku eyðublaði sem unnt er að nálgast hjá embætti landlæknis. 4. gr. Nefndin skal ganga úr skugga um að umsækjandi hafi aflað sér tilskilinna lækninga- og/eða sérfræðileyfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Nefndin hefur meðal annars eftirtalin atriði til hliðsjónar við mat á hæfni umsækjanda til að gegna auglýstri stöðu: Námsferil, þ. á m. framhaldsnám/sérfræðinám að loknu læknaprófi, viðhaldsnám og endurmenntun. Starfsferil. Vísinda- og rannsóknastörf, þ. á m. fræðileg ritstörf, svo sem ritun vísindagreina og sérstakar viðurkenningar á sviði vísinda og fræða. Kennslustörf, einkum á háskólastigi. Stjórnunarstörf. Veigamikil félags- og nefndastörf. Sérstakar viðurkenningar og meðmæli sem stöðunefnd metur mikilvæg.
5. gr. Stöðunefndin skal í hvívetna gæta jafnræðis milli umsækjenda og leggja málefnalegt mat til grundvallar umsögn um hæfni þeirra. Nefndin skal leitast við að tryggja að hæfnismat sé byggt á fullnægjandi umsóknargögnum. Nefndinni er heimilt að afla frekari gagna telji hún það nauðsynlegt svo unnt verði að leggja mat á hæfni umsækjanda, ef umsóknargögn eru ófullnægjandi eða skortur á gögnum veldur vafa eða hefur áhrif á mat á hæfni umsækjanda um starf. Komi fram í gögnum, sem nefndin hefur aflað, upplýsingar sem hún telur vera umsækjanda í óhag og kynnu því að hafa áhrif á mat á hæfni hans, skal nefndin kynna umsækjanda efni þeirra, hver veitti þær og veita honum tækifæri til að tjá sig um þær áður en nefndin gefur umsögn sína um hæfni hans. Nefndin getur óskað eftir því að umsækjandi leggi fram gögn um það hvort hann hafi hlotið áminningu eða starfsleyfi hafi verið takmarkað. Nefndinni er skylt að veita umsækjanda aðgang að gögnum um hann sem nefndin hefur aflað, berist beiðni þar að lútandi frá umsækjanda, áður en umsögn nefndarinnar liggur fyrir. 6. gr. Nefndin skal skila skriflegri umsögn um umsækjendur til þess aðila sem stöðuna veitir innan sex vikna frá því að umsóknarfresti lauk enda hafi nefndinni borist fullnægjandi umsóknargögn. Í henni skal vera samantekt um hvern umsækjanda og rökstutt álit á því hvort umsækjandi sé hæfur eða ekki til að gegna þeirri stöðu sem sótt er um og helstu sjónarmið sem ráðandi voru við matið. Nefndinni er heimilt að raða umsækjendum í hæfnisröð. 7. gr. Nefndarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði er varða umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða rædd eru á fundum nefndarinnar. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi í nefndinni. 8. gr. Nefndin getur sett sér frekari verklagsreglur sem skulu vera aðgengilegar umsækjendum. 9. gr. Starfsreglur þessar eru settar með stoð í 4. mgr. 35. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Frá sama tíma fellur brott auglýsing um staðfestingu starfsreglna nefndar sem starfar samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, nr. 207/2004. Velferðarráðuneytinu, 31. maí 2013. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Vilborg Ingólfsdóttir. |