HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru: I. KAFLI Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum. 1. gr.
31. gr. laganna fellur brott.
2. gr.
33. gr. laganna fellur brott.
3. gr.
Í stað 1.–3. mgr. 65. gr. A laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi: Ráðherra skal að fengnum tillögum nefndar skv. 87. gr. úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. tollalaga þegar framboð á viðkomandi vöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði eða sýnt þykir að það verði ekki nægjanlegt á næstu þremur mánuðum. Framboð telst ekki nægjanlegt, sbr. 1. mgr., ef viðkomandi vara er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum. Innflutningstímabil tollkvóta skv. 1. mgr. getur verið allt að eitt ár í senn en skal þó ekki vera styttra en einn mánuður. Tollkvóti í viðauka IVB sem við úthlutun ber lægri toll en kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. tollalaga kemur til frádráttar tollkvóta í viðauka IIIB. Skerðir þá kvótinn ekki úthlutunarheimildir samkvæmt þessari grein.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna: a. Orðið „Matvælastofnun“ í 2. mgr. fellur brott. b. Í stað orðanna „frá 100–5.000 kr., eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð“ í 2. mgr. kemur: sem mega nema 20.000–100.000 kr. fyrir hvern dag. c. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Ráðherra skal taka ákvörðun um álagningu dagsekta skv. 2. mgr. að fenginni tillögu þess aðila sem heimilt er að safna upplýsingum samkvæmt lögum þessum. Dagsektir, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu, renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra án undangengins dóms eða sáttar.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 87. gr. laganna: a. Inngangsmálsliður 2. mgr. orðast svo: Nefndin skal gera tillögur til ráðherra um eftirgreind atriði. b. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Öllum þeim sem búa yfir upplýsingum sem að framan greinir ber skylda til að veita nefndinni upplýsingar sé þess óskað. c. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Áður en nefndin gerir tillögur skv. 2. mgr. skal hún senda Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samtökum verslunar og þjónustu og Neytendasamtökunum drög að tillögunum. Tillögudrögunum skal fylgja stuttur rökstuðningur. Nefndinni er heimilt að gera tillögurnar fjórum dögum síðar hafi henni ekki borist yfirlýsingar studdar gögnum þar sem leitt er í ljós að tillögur nefndarinnar séu byggðar á röngum eða misvísandi upplýsingum.
II. KAFLI Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. 6. gr.
Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Af fóðurvörum og hráefnum í þær í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I til framleiðslu landbúnaðarafurða.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna: a. Á eftir orðinu „vöruliðar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: miðað við SDR/kg. b. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal tollur á vörur í vöruliðum 0702– 0709 í 7. kafla tollskrár, að undanskildum vörum sem eru taldar upp í viðauka V, vera 10%. c. Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi: Í viðaukum IVA og B eru tilgreindir tollkvótar sem ráðherra er fer með málefni landbúnaðar úthlutar skv. 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Tollur á þær vörur sem eru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B skal lagður á sem magntollur og vera mismunur ríkjandi heildsöluverðs samkvæmt upplýsingum fengnum frá a.m.k. tveimur leiðandi ótengdum dreifingaraðilum og innflutningsverðs samkvæmt meðaltali tollverðs síðastliðinna sex mánaða. Hafi vara ekki verið flutt til landsins á síðustu sex mánuðum er heimilt að miða innflutningsverð við viðskiptaverð vörunnar í útflutningslandi að viðbættum flutnings- og vátryggingarkostnaði. Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skulu við innflutning á vörum í viðauka V, á grundvelli tollkvóta samkvæmt viðaukum IVA og B, gilda þeir tolltaxtar sem þar eru tilgreindir. Úthlutun skal takmarkast af heildartollkvótum í tonnum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B.
8. gr.
Við lögin bætist nýr viðauki, viðauki V, svohljóðandi:
| Vara | Verðtollar | Magntollar | | Tollskrárnr. | | % | kr./kg | | 0208.9003 | Rjúpur, frystar | 0 | 0 | | 0208.9007 | Beinlaust hreindýrakjöt, fryst | 0 | 878 | | | Hreindýrakjöt með beini, fryst: | | | | 0208.9008 | Skrokkar og hálfir skrokkar | 0 | 0 | | 0208.9009 | Annað | 0 | 878 | | | Frjóegg til útungunar: | | | | 0407.1100 | Af hænsnum af tegundinni Gallus domesticus | 0 | 0 | | 0407.1900 | Önnur | 0 | 0 | | 0408.1901 | Gerilsneyddar eggjarauður með 7% saltinnihaldi í ≥ 5 kg umbúðum | 0 | 39 | | 0408.9901 | Soðin egg í ≥ 10 kg umbúðum | 0 | 91 | | 0603.1202 | Innflutningur á öðrum tíma (nellikur) | 0 | 48 | kr./stk. | 0603.1905 | Innflutningur á öðrum tíma (lokaskegg, flamingóblóm, fuglamjólk og paradísarfuglablóm) | 0 | 48 | kr./stk. | 0701.9001 | Bökunarkartöflur, 65 mm eða stærri | 0 | 0 | | 0701.9009 | Annars (kartöflur) | 0 | 0 | | 0703.9001 | Blaðlaukur | 0 | 0 | | 0704.1000 | Blómkál og hnappað spergilkál | 0 | 0 | | 0704.9001 | Hvítkál | 0 | 0 | | 0704.9002 | Rauðkál | 0 | 0 | | 0704.9003 | Kínakál | 0 | 0 | | 0704.9004 | Spergilkál (Brassica oleracea var. Ita.) | 0 | 0 | | 0706.1000 | Gulrætur og næpur | 0 | 0 | | 0706.9001 | Gulrófur | 0 | 0 | | 0706.9002 | Rauðrófur | 0 | 0 | | 0709.4000 | Selja, önnur en seljurót | 0 | 0 | | 0709.5100 | Sveppir af ættinni Agaricus | 0 | 80 | |
9. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Eftirstöðvar fóðursjóðs skv. 31. og 33. gr. laga nr. 99/1993 við gildistöku laga þessara skulu renna í ríkissjóð.
Gjört í Reykjavík, 28. desember 2012. Jóhanna Sigurðardóttir. | Ásta R. Jóhannesdóttir. (L. S.) | Markús Sigurbjörnsson. |
Steingrímur J. Sigfússon. |